Document Actions

Norðurlandaráð, Norska sendinefndin

Vilja norrænan umboðsmann stjórnsýsluhindrana

Norrænn umboðsmaður stjórnsýsluhindrana er ein af fimm tillögum sem norska Stórþingið sendir ríkisstjórninni eftir umræður um stjórnsýsluhindranir þriðjudaginn 24. apríl. Umboðsmanninum er ætlað að aðstoða norræna borgara sem lenda í vandræðum þegar þeir flytjast yfir landamæri landanna.

24.04.2012
Ljósmyndari
Lennart Perlenhem/norden.org

„Mikilvægt er að stjórnvöld á Norðurlöndum finni lausn á þeim vandamálum sem borgarar standa frammi fyrir þegar stjórnvöld í löndunum ná ekki samkomulagi. Það er ekki verkefni hins einstaka borgara að finna lausn á þessu. Norrænn umboðsmaður gæti verið lausnin“, segir Rigmor Andersen Eide (KrF), formaður sendinefndar Stórþingsins í Norðurlandaráði.

Umboðsmaðurinn á að vera aðili sem norrænir borgarar geta snúið sér til þegar þeir lenda í vandamálum vegna ólíkra framkvæmdahefða í norrænu ríkjunum.

Stórþingið leggur til að ríkisstjórnin íhugi einfalda tollafgreiðslu vinnuvéla sem notaðar eru við stutt og tímabundin verkefni í Noregi.

„Dæmi eru um að fólk veðsetji húsið sitt aftur og aftur til þess að greiða virðisaukaskatt, í hvert skipti sem það þarf að flytja vinnuvélar til Noregs. Ég tel að nýjar reglur ætti að fela í sér undanþágu frá tollafgreiðslu á vélum við innflutning, en jafnframt ætti að skrá þær við landamæri til þess að uppfylla eftirlitsþörf hins opinbera“, segir Rigmor Andersen Eide, en hún er ein af þeim sem leggur fram tillöguna.

Ein hindrun á vinnumarkaði, sem margir fulltrúar á Stórþinginu minntust á við umræðurnar á þriðjudag, er viðurkenning á starfsmenntun frá öðrum norrænum ríkjum. T.d.er erfitt fyrir bifvélavirkja með sænska menntun að fá menntun sína viðurkennda í Noregi, á meðan aðili með þýska menntun fær hana viðurkennda án vandamála.

Til þess að tryggja að starfmenntað fólk á Norðurlöndum fái rétt til að vinna við iðn sína í norrænu ríkjunum, leggur Stórþingið til að ríkisstjórnin finni norræna lausn.

Þegar um er að ræða enduhæfingu einstaklinga sem lenda í vinnuslysi eða langvinnum veikindum er einnig mikilvægt að finna norræna lausn, að mati Rigmor Andersen Eide.

„Í dag geta einstaklingar sem búa í einu norrænu ríki en starfa í öðru, þurft að ferðast til starfslandsins til þess að njóta endurhæfingar. Ég tel að endurhæfing eigi að eiga sér stað sem næst heimilinu, svo þessir einstaklingar sleppi við löng og erfið ferðalög“, segir Rigmor Andersen Eide. Þessi tillaga var einnig send til ríkisstjórnarinnar.

Fimmta og síðasta tillagan fjallar um það að ríkisstjórnin skuli meta nýjar lagatillögur með tilliti til þess hvort þær skapi nýjar stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum. Knut Storberget átti frumkvæði að þessu árið 2008.

„Ég tel að það sé tími til kominn að minna öll ráðuneyti á bréfið frá Storberget“, sagði Rigmor Andersen Eide við umræðurnar í Stórþinginu á þriðjudag.

Umræður umstjórnsýsluhindranir í Stórþinginu eru hluti af pólitísku átaki til að sporna við hindunum gegn frjálsri för milli Norðurlanda. Norrænu þingin halda á þessu ári í fyrsta sinn þemaumræður um stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum.