Vinnutungumál Norðurlandaráðs til umræðu

21.09.17 | Fréttir
De nordiska flaggorna
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
„Gerið finnsku og íslensku jafnrétthá skandinavísku málunum!“ Þessa kröfu lagði finnska landsdeildin fyrir þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 2016. Staða norrænu tungumálanna á vettvangi ráðsins hefur verið til umræðu æ síðan. Á forsætisnefndarfundi Norðurlandaráðs í Reykjavík þann 20. september var fjallað um málamiðlunartillögu sem landsdeildir Finnlands og Íslands höfðu unnið í sameiningu. Forsætisnefndin greiddi atkvæði um tillöguna, en hún var felld með 6 atkvæðum á móti 5.

Efni tillögunnar var að finnska og íslenska skyldu hljóta stöðu vinnutungumála í Norðurlandaráði líkt og skandinavísku málin. Málamiðlunin fólst í því að aðgerðum sem hefðu fjárhagslegar afleiðingar yrði ekki hrint í framkvæmd fyrr en síðar.

Endanleg ákvörðun í málinu verður tekin á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki mánaðamótin október/nóvember út frá tillögu forsætisnefndar.

Málið hefur verið í umsagnarferli hjá landsdeildunum og í þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandaráðs. Í framhaldinu var lögð fram tillaga sem átti að styrkja stöðu finnsku og íslensku, þó án þess að veita þeim stöðu opinberra vinnutungumála í ráðinu. Landsdeildum Finnlands og Íslands þótti sú tillaga ófullnægjandi.

Sterk viðbrögð

Afgreiðsla forsætisnefndar á tillögu landsdeildanna tveggja á miðvikudeginum vakti hörð viðbrögð, meðal annars í finnsku landsdeildinni. Varaformaður deildarinnar, Maarit Feldt-Ranta, brást einkum sterkt við því að forseti Norðurlandaráðs, Britt Lundberg frá Álandseyjum, hefði ekki greitt atkvæði með tillögu finnsku og íslensku deildanna heldur með annarri málamiðlunartillögu:

„Ég er verulega vonsvikin. Okkur hefði ekki grunað að Britt Lundberg myndi snúast gegn finnska þinginu eftir að við studdum hana til embættis forseta Norðurlandaráðs. Við hörmum viðbrögð hennar, sem eru hvorki til þess fallin að efla stöðu tungumála í ráðinu né í Finnlandi.“

Britt Lundberg: „Ég greiddi ekki atkvæði gegn neinu tungumáli“

Britt Lundberg harmar að niðurstaða forsætisnefndar hafi vakið svo sterk viðbrögð en leggur áherslu á að hún hafi ekki greitt atkvæði gegn finnskunni, heldur með tillögu sem myndi styrkja stöðu finnsku og íslensku í Norðurlandaráði. Britt Lundberg greiddi atkvæði með málamiðlunartillögu sem gengur út á að auka þýðingar á finnsku og íslensku, meðal annars fundargerðir. Auk þess eiga allir þingmenn í Norðurlandaráði að hafa rétt á að skila inn svonefndum þingmannatillögum á móðurmálinu.

Britt Lundberg segist vera raunsæ; hún hafi gert sér ljóst að tillaga finnsku og íslensku landsdeildanna myndi ekki hljóta nægilegan hljómgrunn á þingi Norðurlandaráðs þar sem málið verður lagt fyrir ráðið í heild.

„Hefði tillagan verið samþykkt í forsætisnefnd og farið áfram fyrir þingið hefði hún að öllum líkindum verið felld þar. Það hefði þýtt að tillagan sem ég greiddi atkvæði með, sem myndi bæta stöðu finnsku og íslensku til muna, hefði ekki verið til umfjöllunar á þinginu og þar með horfið með öllu – og þá væri hætt við að staðan myndi alls ekki batna. Nú er enn von til að hún geri það. Þannig greiddi ég ekki atkvæði gegn neinu tungumáli, heldur með finnsku og íslensku. Sem formaður ber ég ábyrgð á að styðja mál sem eiga möguleika á að hljóta hljómgrunn á þinginu.“

Ýmsum spurningum ósvarað

Britt Lundberg segist hafa mikinn skilning á því að um tilfinningamál sé að ræða og undirstrikar að hún hafi beitt sér fyrir því allt embættisárið að bæta stöðu finnskunnar og íslenskunnar.

Hún bætir þó við að enn sé ýmsum spurningum ósvarað varðandi afleiðingar þess að veita finnsku og íslensku sömu stöðu og skandinavísku málunum.

„Enn vitum við ekki hvað það hefði í för með sér í raun að fjölga vinnutungumálum Norðurlandaráðs. Þýddi það til dæmis að öllu starfsfólki á skrifstofu ráðsins yrði skylt að kunna finnsku og íslensku, auk skandinavísku málanna?“

Í dag þarf starfsfólk á skrifstofu Norðurlandaráðs að hafa munnlega og skriflega kunnáttu í einu skandinavísku málanna og sama á við á skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar. Vinnutungumál Norðurlandaráðs eru tilgreind í starfsreglum ráðsins.