Virtir hagfræðingar endurmeta norræna líkanið

22.05.14 | Fréttir
Norræna líkanið stendur enn fyrir sínu þegar takast þarf á við efnahagsleg og félagsleg úrlausnarefni sem fylgja alþjóðlegri samkeppni, tæknilegum umbyltingum og hækkandi meðalaldri íbúanna. Þetta kemur fram í áliti virtra hagfræðinga í nýrri skýrslu frá Norrænu ráðherranefndinni.

Umfangsmiklar skuldbindingar varðandi velferð og smæð landanna gera að verkum að Norðurlöndin eru að ýmsu leyti viðkvæmari en mörg önnur þróuð ríki. Á hinn bóginn hafa Norðurlönd ýmsa styrkleika og með því að gera raunhæfar umbætur er hægt að skapa forsendur fyrir sjálfbærri velferð til framtíðar. Þetta kemur fram í skýrslunni The Nordic model – challenged but capable of reform sem hefur verið tekin saman í tengslum við áætlunina Sjálfbær norræn velferð.

Í skýrslunni er farið vítt yfir góðan árangur Norðurlanda í efnahagsmálum og þá þætti sem hafa áhrif á efnahag landanna. Norðurlönd eru ekki eins einstök eða lík eins og margir halda. Í mörgum öðrum löndum eru nú samsvarandi eða betri lífsskilyrði og í mörgum þeirra eru opinber útgjöld og skattbyrði eins há eins á Norðurlöndum. Það er þó eftirtektarvert hversu vel Norðurlöndum hefur tekist að tryggja í senn góð lífsskilyrði, lítinn tekjumun og lágt hlutfall fátækra.  

Samkvæmt niðurstöðum greiningarinnar hefur Norðurlöndum tekist að sameina skilvirkni og jöfnuð með því að beita sérstæðum lausnum og aðferðum. Meðal þessara aðferða og lausna er að þau eru opin fyrir alþjóðlegum straumum og efnahagslegum kerfisbreytingum, þau tvinna saman öryggi og sveigjanleika á vinnumarkaði (flexicurity), fjárfesta mikið í mannauði og hið opinbera heldur uppi umfangsmiklu öryggisnetverki í tengslum við atvinnumál. Á Norðurlöndum er opinbera kerfið jafnframt tiltölulega skilvirkt, meðal annars hvað skattkerfið varðar. Almenningur á Norðurlöndum sættir sig í ríkum mæli við kerfisbreytingar og í skýrslunni er það rakið til þess hversu mikið traust er ríkjandi í samfélögunum.

Þrátt fyrir að Norðurlönd hafi á á mörgum sviðum góðan pólitískan grundvöll að byggja á væri engu að síður hægt að gera betur í ýmsum málum. Þörfin á endurbótum er mismunandi mikil eftir löndum. Að áliti höfunda skýrslunnar ætti að nota þessi tækifæri með virkari hætti nú en nokkru sinni áður.

„Leggja þarf enn meiri áherslu á að auka færni. Það þarf áfram að vera leiðarljós okkar að tryggja öllum jöfn tækifæri hvað varðar menntun og símenntun. Norræna líkanið byggir að miklu leyti á háu atvinnustigi. Þess vegna þarf að grípa til róttækra aðgerða til að vega upp á móti því brottfalli vinnuafls sem hækkandi meðalaldur íbúanna hefur í för með sér, einkum hvað varðar lífeyriskerfið,“ segir Vesa Vihriälä, einn höfunda skýrslunnar og framkvæmdastjóri Rannsóknarstofnunar atvinnulífsins (ETLA) í Finnlandi.

Hagfræðingarnir telja að þróa þurfi flexicurity-líkanið enn frekar og auka sveigjanleika á vinnumarkaði þó að það hafi í för með sér nokkru meiri tekjumun og auknar tekjusveiflur. Endurskoða þarf skattkerfið til að auka framboð á vinnuafli, hreyfanleika vinnuafls og vilja til að taka áhættu. Þörf er á skýrari forgangsröðun, betri nýtingu markaðskrafta og stafrænni tækni til að halda opinberum útgjöldum í skefjum.

Úrlausnarefni í einstökum löndum

  • Þörfin á aðlögun að nýjum aðstæðum er mest knýjandi í Finnlandi þar sem orðið hafa kerfisáföll. Jafnframt eru framtíðarhorfurnar varðandi framboð á vinnuafli verri í Finnlandi en í hinum norrænu ríkjunum.
  • Ísland glímir við miklar opinberar skuldir eftir efnahagshrunið.
  • Í Danmörku verður að tryggja þjóðhagslegan stöðugleika og gera kostnaðaruppbyggingu heilbrigðiskerfisins skilvirkari.
  • Í Svíþjóð eru gæði menntunar í grunnskólum áfram veikur punktur.
  • Í Noregi þarf að fara að búa sig undir að góð lífsskilyrði byggist á nýsköpun fremur en náttúruauðlindum.

Skýrsluna má nálgast á vef Norrænu ráðherranefndarinnar: The Nordic model - challenged but capable of reform