Yfirlýsing um aukið samstarf um aðgerðir til að bæta lýðheilsu

27.04.16 | Fréttir
Nordiske ministre for helse- og sosialpolitikk samlet til møte i Helsingfors 27.april 2016
Norrænu félags- og heilbrigðismálaráðherrarnir eru á einu máli um að efla samstarfið að lýðheilsumálum. Þeir leggja nú fram yfirlýsingu á grundvelli þeirra tillagna sem fram koma í skýrslu ráðherranefndarinnar „Framtíðarsamstarf Norðurlanda í heilbrigðismálum“. Markmiðið er heilsujöfnuður fyrir alla.

Norrænu félags- og heilbrigðismálaráðherrarnir viðurkenna að heilsuójöfnuður er umtalsverður á Norðurlöndum, þrátt fyrir að lýðheilsa þar sé afar góð í alþjóðlegum samanburði, og vilja nú vinna saman að því að draga úr slíkum ójöfnuði.

Einnig telja ráðherrarnir mikilvægt að við meðferð málefna sem varða heilsu og vellíðan sé tekið mið af jafnréttissjónarmiðum til að tryggja heilsu kvenna og karla, stúlkna og drengja á jöfnum forsendum.

Markmið samstarfsins er að draga úr heilsuójöfnuði.

    Reynslumiðlun og sameiginleg þróunarverkefni

    Í yfirlýsingunni segir að koma eigi á fót norrænum samstarfsvettvangi á sviði lýðheilsu, og að Norrænu velferðarmiðstöðinni (NVC) verði falin umsýsla vettvangsins.

    Ráðherrarnir eru ennfremur á einu máli um að beita sér fyrir því á vettvangi norræns samstarfs að setja reynslumiðlun og sameiginleg þróunarverkefni um góðar fyrirbyggjandi og heilsueflandi aðgerðir í forgang. Í samstarfinu verður sjónum einkum beint að ójöfnuði í heilsufarsmálum, forvörnum gegn skaðlegri neyslu á áfengi, fíkniefnum og tóbaki og geðheilsu.

    Skýrslan „Framtíðarsamstarf Norðurlanda í heilbrigðismálum“

    Skýrslan „Framtíðarsamstarf Norðurlanda í heilbrigðismálum“ var skrifuð árið 2014 af fyrrum heilbrigðisráðherra Svíþjóðar, Bo Könberg, en Norræna ráðherranefndin um félags- og heilbrigðismál fól honum verkefnið. Í skýrslunni eru settar fram tillögur um aukið samstarf um aðgerðir til að bæta lýðheilsu, sem stendur nú til að framkvæma.