Document Actions

Markku Heikkilä

Apríl 2011: Lýðskrum nær yfirhöndinni í kosningunum í Finnlandi

Þingkosningar verða í Finnlandi sunnudaginn 17. apríl. Þess er vænst er að niðurstöður liggi fyrir um miðnættið. Það er eiginlega það eina sem hægt er að staðhæfa um kosningarnar. Auknar vinsældir, lýðskrums flokks Sannra Finna, í takti við kreppuna í löndum Evrópu hafa svo sannarlega ruglað hefðbundið mynstur stjórnmála í landinu.

14/04 2011

Venjulega hafa breytingar á fylgi flokkanna aðeins numið örfáum prósentustigum. Nú sýna skoðanakannanir allt annað. Flokkur Sannra Finna hefur fram til þessa talist lítill flokkur sem notið hefur stuðnings nokkurra prósenta kjósenda (um það bil fjögurra í síðustu kosningum). Í aðdraganda þessara kosninga nálgast stuðningur við flokkinn 20 prósent.

Samhengið á milli skoðanakannana og raunveruleikans er vandleyst gáta, en augljóst þykir að Sannir Finnar muni á einn eða annan hátt fara með afgerandi sigur af hólmi. Þá dregur fyrst og fremst úr fylgi hinna hefðbundnu þriggja stóru flokkanna, Miðflokksins, Einingaflokksins og Jafnaðarmannaflokksins. Fyrir kosningarnar á sunnudaginn lítur út fyrir að það séu fjórir stjórnmálaflokkar í Finnlandi sem allir njóta stuðning um 20 prósenta kjósenda.

Á síðastliðnum fjórum árum hefur borgaraleg ríkisstjórn, tveggja stóru (Miðflokksins og Einingaflokksins) og tveggja minni flokkanna (Flokks græningja og Sænska þjóðarflokksins) verið við völd í Finnlandi. Í fyrrasumar var skipt um forsætisráðherra, Mari Kiviniemi tók við af Matti Vanhanen vegna átaka innan Miðflokksins.

Leiða má líkum að því að flokkur Sannra Finna muni eiga sæti í nýrri ríkisstjórn. En flokkurinn gæti einnig endað í stjórnarandstöðu. Undir eðlilegum kringumstæðum myndu tveir af aðalflokkunum þremur mynda kjarna ríkisstjórnarinnar. Þegar þetta er ritað er afar erfitt að segja fyrir um niðurstöður kosninganna. Í finnskum stjórnmálum eru engar óyfirstíganlegar hindranir á milli blokka, heldur hafa allir flokkar í grundvallaratriðum getað starfað í ríkisstjórn hver með öðrum.

Það sem skilur flokkana að hefur fyrst og fremst snúist um stefnu ESB og viðhorf á stuðningi við þjóðirnar sem hvað harðast hafa orðið úti í kreppunni. Fyrst Grikkir, þá Írar og nú rétt fyrir kosningar Portúgalar: Allar þjóðirnar hafa reynst Sönnum Finnum sem gjöf frá himnum.

Rætur í mótmælum sveitanna

Vert er að kanna hvaða ástæður liggja að baki aukinna vinsælda Sannra Finna.

Hreyfingin er síður en svo ný af nálinni. Rætur lýðskrums í Finnlandi ná aftur allt til sjötta áratugarins, þegar landsbyggðaflokkurinn í Finnlandi undir stjórn Veikko Vennamo varð til upp úr mótmælum við breytingum á skipulagi á landsbyggðinni. Á blómatíma flokksins, á árunum á milli 1960 og 1970, naut hann fylgis um það bil tíu prósenta kjósenda.

Eftir Vennamo komst flokkurinn í ríkisstjórn, en hreyfingin leystist fljótlega upp og hvarf næstum. Úr rústum Landsbyggðaflokksins reis flokkur Sannra Finna og leiðtogi flokksins Timo Soini viðurkennir að hann líti á Vennamo sem lærifaðir sinn. Samkvæmt bókum Soinis er lýðskrum tæki fólksins til þess að láta í ljósi vilja sinn án þess að gefa gaum að einvalaliði skriffinnskusérfræðinga.

Soini á að baki langan feril í stjórnmálum og hefur meira að segja boðið sig fram sem forseta. Í mörg ár var hann helst þekktur fyrir að vera frekar meinlaus grínisti, tjáði sig fjálglega með fjölbreyttum myndlíkingum allt öðruvísi en aðrir flokksleiðtogar.

Það var ekki fyrr en við síðustu kosningar til Evrópuþingsins að hreyfing komst á hefðbundna stöðu flokkanna. Soini sem er afar gagnrýninn á ESB dró að sér fylgi og náði sæti í Brussel. Síðan hefur hann gengist upp í hlutverki sínu við að storka „gömlu“ flokkunum og unnið sér sess sem sýnilegasti leiðtogi stjórnarandstöðunnar, þrátt fyrir að vinstri andstöðuflokkarnir séu fjölmennari á þinginu.

Pólitísk hneyksli gleymast seint

Boðskapur Soinis fellur í kramið hjá kjósendum sem eru svekktir og þreyttir á stjórnmálum.

Á undanförnum árum hefur hvert hneykslismálið rekið annað í stjórnmálalífinu í Finnlandi. Margir stjórnmálamenn, einkum úr röðum Miðflokks og Einingaflokks, hafa notið vafasams fjárstuðnings frá grunsamlegum aðilum úr viðskiptalífinu. Flókin kvennamál hafa haft nöturlega umfjöllun um bæði fyrrverandi forsætisráðherra, Matta Vanhanen (Miðflokknum) og fyrrverandi utanríkisráðherra Ilkka Kanerva (Samstöðuflokknum) í för með sér. Þekktir stjórnmálamenn hafa verið viðriðnir allskyns dómsmál.

Álit almennings á stjórnmálamönnum hefur beðið hnekki. Á sama tíma hafa stjórnmálamenn þurft að taka afdrifaríkar ákvarðanir um hlut Finna í aðstoð við þær þjóðir Evrópu sem orðið hafa hvað harðast út í kreppunni. Milljarðar hafa flogið fyrir í fréttunum og aðeins eitt er alveg ljóst í þessari illskiljanlegu þvælu: Peningarnir eru á leið frá Finnlandi. Útskýringarnar á nauðsyn styrkjanna hafa verið á flóknar og þeim hefur verið andmælt á einföldu máli.

Þekking á stjórnmálum er óvenju lítil og það hefur verið erfitt að koma auga á hvað skilur flokkana að. Samkvæmt nýrri könnun er aðeins 31 prósent Finna færir um að telja upp flokkana sem eiga sæti í ríkisstjórninni. Þriðjungur Finna heldur að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Jafnaðarmenn sitji í ríkisstjórn.

Næstum allir leiðtogar stjórnmálaflokka í Finnlandi eru nútímalegir og glæsilegir, menn og konur á fimmtugsaldri sem hafa stjórnmálahugtök á hraðbergi.

Eins manns sýning

Það sama á ekki við um Soini: Hann er annarrar gerðar, á einstaklega auðvelt með að þjappa saman og einfalda pólitísk skilaboð. Á sama tíma hefur flokkur Sannra Finna byggt flokksmaskínuna úr grasrótinni í landinu öllu. Flokkurinn hefur náð til fólks sem aðrir flokkar hafa tapað.

Árangurinn lætur ekki á sér standa. Soini er orðinn miðdepill, sem allar stjórnmálaumræður snúast um. En jafnframt hefur kosningabaráttan verið á höndum eins manns, vegna þess að flokkurinn hefur ekki öðrum nöfnum að flagga í landsmálapólitíkinni. Það eru auðvitað aðrir frambjóðendur á sviði sveitarstjórna, en slagurinn stendur og fellur með sýningu eins manns.

Frambjóðendur flokksins eru sundurleitur hópur og meðal þeirra er greinileg andstaða við innflytjendur. Staða sænskunnar og sænskukennslunnar í Finnlandi nýtur ekki mikils skilnings meðal stjórnenda flokksins. Heldur ekki þróunaraðstoð, loftslagsmál og svo mætti lengi telja. Megin baráttumálin lúta að afar íhaldssömum gildum og aukinni þjóðerniskennd. Í Finnlandi er orðið öfgahægri ekki notað. Framtíðar skipan flokksins ræðst þó á því hvaða frambjóðendur ná sæti á þinginu. Kosningar í Finnlandi eru hlutfallskosningar.

Stefnan í málefnum ESB reynd

Meginþemað í málflutningi Soinis er gagnrýni á ESB. „Þar sem ESB kemur við sögu ríkja vandræði“. Þetta viðhorf gæti nægt til þess að koma í veg fyrir að Soini hljóti sæti í ríkisstjórninni þrátt fyrir að hann vinni sigur í kosningunum.

En eftir að kreppan skall á í Portúgal hafa pólitískar umræður orðið mun flóknari. Leiðtogi Jafnaðarmanna Jutta Urpilainen hefur sett skilyrði fyrir því að Finnar leggi fram tryggingar. Að áliti forsætisráðherra Mari Kiviniemi og fjármálaráðherra Jyrki Katainen er algerlega óhugsandi að setja slík skilyrði fram innan ESB. Allt útlit er fyrir að meðal fyrstu verka nýs þings, sem að líkindum verður gagnrýnna á ESB, verði að taka afstöðu til stuðnings við Portúgala áður en tekist hefur að mynda nýja ríkisstjórn.

Andinn í kosningunum hefur verið óvenjulegur, á tímum bitur. Ekki skortir kosningamál: ESB, eftirlaun, skattar, Líbýa, kjarnorka, staða sænskukennslu, umönnun eldri borgara og svo framvegis. Enginn minnist lengur á aðild að Nató, það málefni er gersamlega horfið af dagskrá.

Það sem hefur úrslita áhrifin verður hvort kosningarnar muni snúast um mótmæli. Í fyrsta skipti um langa hríð hefur áhugi á stjórnmálum aukist. Dregið hefur úr þátttöku í kosningum í Finnlandi og hefur hún hrapað niður í 70 prósent. En í aðdraganda þessara kosninga hefur alls staðar verið rætt um pólitík.

Þetta gætu orðið afdrifaríkar kosningar í Finnlandi, þar sem niðurstaðan fer eftir því hvort áherslan er á innanríkis- eða utanríkismál. Meginspurningin snýst um hve sterkri fótfestu þjóðernissinnuð og íhaldssöm gildi lýðskrums hafa náð í Finnlandi og hvaða áhrif það kann hafa á stefnu þjóðarinnar í ESB málefnum sem og öðrum.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Anonymous says:
18/04 2011 12:09

Thank you Mr. Heikkilä for this analysis, it is spot on! As an immigrant and a new Finn, I find the results of this election hard to swallow. I fear for my country, it will be heading in the wrong direction if the True Finns become a partner in the next government.

Commenting has been disabled.

Leit í Analys Norden