Document Actions

Aslak Bonde

Noregur er breyttur

„Ef einn maður getur valdið slíkum hörmungum, hugsið ykkur hve mikinn kærleik við getum skapað saman“. Þessi orð ungs flokksmanns í Verkamannaflokknum flugu um heiminn fyrstu dagana eftir fjöldamorðin og hryðjuverkið hinn 22. júlí og þau gáfu viðbrögðum í Noregi tóninn. Hlýjan og samheldnin líktust því sem elstu menn muna frá friðarvorinu 1945. En það haustar fljótt í Noregi – kosningabarátta framundan, sjálfsskoðun og mörg erfið mál að fást við.

16/08 2011

Bílsprengja fyrir utan stjórnarskrifstofurnar gat átt sér stað, en fjöldamorð í pólitískum æskulýðsbúðum? Því var ekki með nokkru móti hægt að trúa. Sem þátttakendur í Nató urðum við að vera viðbúin árás frá Al-Kaída, en þaulskipulagt hroðaverk venjulegs ungs manns sem hafði alist upp í besta hverfi í vesturhluta Osló, það var ofvaxið skilningi allra. Lítum á morguninn 23. júlí. Þá birtust á öllum netsíðum myndir illvirkismanninum ljósum yfirlitum og lögreglan tilkynnti að hann hefði ef til vill tekið 80 ungmenni af lífi áður en hann var handtekinn.

Nokkrir þeirra sem kvöldið áður höfðu sett norska fánann í stað forsíðumyndar sinnar á Facebook fylltust mikilli ónotatilfinningu. Þeir höfðu gert ráð fyrir að illvirkismaðurinn væri öfgasinnaður múslimi og vildu lýsa yfir tryggð sinni við norska þjóð.

Eftir því sem dagar liðu kom reyndar í ljós að það var ekki svo fráleitt að nota norska fánann sem sameiningartákn. Múslimir í Noregi gerðu það einnig. Í ljós kom að fjöldamorðinginn og hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik leysti úr læðingi meiri samstöðu en áður voru dæmi um, óháða þjóðernislegum og trúarlegum uppruna. Þetta birtist með táknrænustum hætti í einni fyrstu jarðarförinni þar sem kúrdískir foreldrar báðu prest og íslamskan trúarleiðtoga að sjá um athöfnina saman. Myndin af fólki af öllum trúarbrögðum sem var við útförina fór um allan heim – ásamt frásögn af því að ráðherrar fylgdu hverju fórnarlambi til grafar. Noregur er ekki stærri en svo að það var eðlilegt.

Verkamannaflokkurinn var skotmarkið

Talan sem var gefin upp eftir fyrstu nóttina reyndist aðeins of há. Allt í allt biðu 69 manns bana á Útey en átta manns fórust í sprengjuárásinni á stjórnarbyggingarnar. Til viðbótar særðust 90 manns – sumir sködduðust varanlega. Ráðherrarnir þekktu persónulega marga hinna særðu og líflátnu – bæði á stjórnarskrifstofunum og á Útey sem er námskeiða- og ráðstefnustaður ungmennasamtaka Verkamannaflokksins, AUF.

Að morðinginn skyldi velja Útey til verknaðarins sýndi hve vel hann var inni í norskum stjórnmálum. Hann vildi ná sér niðri á Verkamannaflokknum og hann vissi að Útey er uppeldisstöð fyrir leiðtoga sósíaldemókrata. Auk þess gengur stjórnmálaáhugi iðulega í arf. Ævinlega eru börn þekktra sósíaldemókrata í sumarbúðum AUF. Svo var einnig í ár: þingmenn, forystumenn fylkja og aðstoðarmenn ráðherra voru meðal aðstandenda.

Hvaðan kom hatrið á Verkamannaflokknum? Þetta var ein fyrsta spurningin sem vaknaði fyrstu dagana eftir að fyrsta áfallið gekk yfir. Þetta var líka spurning sem vísaði á alerfiðasta umræðuefnið. Getur hugsast að pólitískir andstæðingar Verkamannaflokksins hafi í raun og veru átt þátt í að styrkja hugmyndir morðingjans um norskt samfélag og pólitík? Anders Behring Breivik var félagi í Framfaraflokknum í allmörg ár og hann tók fyrir þó nokkrum árum þátt í umræðum á netsíðum ungliða í flokknum.

Ábyrgð Framfaraflokksins

Maðurinn, sem fyrir lá að verða hryðjuverkamaður, sagði sig úr Framfaraflokknum er tímar liðu fram og það er almenn skoðun í Noregi að enginn flokkur geti axlað ábyrgð á öllum gerðum flokksmanna sinna. Samt sem áður er hugsanlegt að Anders Behring Breivik hafi rifjað upp trú sína á eigin hugmyndir við að heyra Siv Jensen formann Framfaraflokksins tala um laumu-íslamsvæðingu og við að lesa kjallaragreinar þingmanna í fremstu röð sem hafa hvatt til baráttu fyrir norskri menningu.

Aðeins fáum dögum eftir morðin lét þekktur norskur sjónvarpsmaður í ljós þessa skoðun í grein í spænska dagblaðinu El Pais. Þegar Norðmenn komust að því að hann hefði gefið í skyn að Siv Jensen væri meðsek varð hann samstundis að biðjast afsökunar. Það var almenn skoðun að stjórnmálamenn yrðu alltaf að fá að vera harðorðir án þess að þurfa að bera ábyrgð á því þó að einhver rangtúlkaði orðin og notaði þau sem ástæðu fyrir ofbeldisaðgerðum.

En það eru líka takmörk fyrir því hve afdráttarlaus orð má nota. Siv Jensen hefur sagt að henni finnist ekkert rangt við að tala um laumu-íslamsvæðingu í norsku samfélagi, en einn þingmanna hennar á stórþinginu hefur opinberlega harmað orð sem hann notaði í kjallaragrein þar sem hann hvatti til baráttu fyrir norskri menningu.

Enn erfiðara er að draga mörkin þegar ekki er lengur um að ræða ritstýrðar pólitískar umræður heldur óritstýrðar umræður á netinu. Þar blómstra hatursfullar athugasemdir fullar af kynþáttafordómum – oft og tíðum fylgja þeim fullyrðingar um að norskt þjóðfélag með sínu pólitískt rétta hugarfari leyfi ekki fólki að segja sannleikann um innflytjendur og hnignun norskrar menningar.

Skoðanabræður morðingjans

Anders Behring Breivik birti umfangsmikinn texta á netinu rétt áður en hann framdi sín voðaverk og þar kemur fram að hann hafi sótt mikinn innblástur frá hægriþjóðernissinnuðum bloggurum. Hugmyndir um að múslimir og forystumenn á Vesturlöndum hafi gert með sér leynilegan sáttmála um að láta múslimi yfirtaka Evrópu er viðhaldið af fólki víða um heim sem er með umræðu- og spjallsamband á netinu. Sem hryðjuverkamaður var Breivik einmana úlfur en sem þátttakandi í samfélagsumræðu var hann hluti af alþjóðlegu samfélagi.

Nokkrir netritstjórar hafa í vikunum sem liðnar eru frá atburðunum 22. júlí ákveðið að leyfa ekki lengur nafnlaus innlegg í athugasemdadálkum sínum – að öðru leyti hefur ekki svo mikið breyst á netinu. Hugmyndir skortir. Engum dettur í hug að hægt sé eða rétt að koma á ritskoðun. Margir hafa nefnt að „skynsamt“ – lesist hófsamt – fólk þurfi að verða virkara á netinu. Þegar það lesi öfgafull ummæli verði það að svara af fullri virðingu í stað þess að vísa höfundinum á bug sem fífli. Sums staðar hefur það verið gert en þá hefur athugasemdastrengurinn rofnað og öfgamennirnir flutt sig annað.

Hlutverk yfirvalda

Öryggisþjónusta lögreglunnar (PST) er meðal þeirra sem fylgjast kerfisbundið með alls kyns netumræðum, en aldrei komu þeir auga á morðingjann. Yfirmaður PST sagði aðeins viku eftir ódáðaverkið að ekkert eftirlitssamfélag í heiminum hefði getað uppgötvað og komið í veg fyrir slíka árás. Margir hafa sett spurningarmerki við þá staðhæfingu. Anders Behring Breivik var félagi í skammbyssuklúbbi, hann keypti vopn með löglegum hætti, hann keypti allt sem hann þurfti í bílsprengjuna á heiðarlegan hátt og hann hélt fast fram öfgafullum sjónarmiðum á netinu.

Hversu vakandi samfélagið á að vera verður áreiðanlega eitt helsta umræðuefnið á næstu mánuðum. Sömuleiðis er umræðan um öryggi stjórnmálamanna þegar hafin. Mörg ár eru síðan þeir sem láta sig öryggismál í Ósló varða höfðu orð á því að loka ætti nokkrum götum svo að ekki yrði lengur hægt að aka bíl alla leið að skrifstofu forsætisráðherra, en ekkert hefur gerst. Í Noregi ríkir sú hugsjón að samfélagið eigi að vera opið. Stjórnmálamenn eigi ekki að fela sig innan múra og hindrana.

Þegar þetta er skrifað er verið að stofna sérstaka 22. júlí-nefnd sem á að skipuleggja viðamiklar umræður um allar þessar spurningar. Hún á líka að rannsaka hvort samfélagið hafi brugðist rétt við á þessu föstudagssíðdegi þegar hryðjuverkin voru framin.

Mikilvæg spurning verður eflaust hvort lögreglan hefði getað komist fljótar til Úteyjar. Þetta er fremur stór eyja og morðinginn gat valsað um í klukkutíma og 20 mínútur áður en lögreglunni tókst að stöðva hann. Vitni segja að hann hafi drepið allan tímann. Hefði lögreglan komið hálftíma fyrr hefði mörgu lífi verið forðað.

Yfirstjórn lögreglunnar svaraði slíkum spurningum fyrst í stað með því að þeir hefðu ekki getað gert neitt öðru vísi. Eftir því sem vikur líða hefur tónninn þó orðið auðmjúkari. Ef til vill hefði víst átt að nota þyrlu frekar en að aka í bíl, ef til vill hefði átt að þiggja bát að láni frá ferðalöngum á tjaldsvæði í stað þess að bíða eftir eigin lögreglubát?

Kosningabaráttan

Spurningarnar eru ekki bara margar, þær skipta einnig einkar miklu máli fyrir þá sem eftir lifa sem vilja vita hvort allt hafi verið gert til að hindra þessar hörmungar. Fyrstu vikurnar stóð ríkisstjórnin fast á því að ekki væri hægt að svarar slíkum spurningum fyrr en rannsóknum og nefndarstörfum væri lokið. En það verður ekki fyrr en á næsta ári og þjóðin hefur ekki þolinmæði til að bíða svo lengi.

Það kemur ef til vill í ljós strax í kosningabaráttunni sem hægt og rólega er farin af stað í Noregi. Enginn flokkur vill að sjálfsögðu nýta sér atburðina í pólitísku skyni en í opinni stjórnmálaumræðu verður stöðugt gefið í skyn að þessi eða hinn hefði getað gert betur – eða gefið í skyn að þeir notfæri sér hryðjuverkin pólitískt.

Það er tvennt sem hefur bein áhrif á hinar vanabundnu stjórnmálaumræður. Annað er að Jens Stoltenberg forsætisráherra og formaður Verkamannaflokksins var óvenju duglegur að takast á áfallið eftir hryðjuverkið. Þrátt fyrir að hann þekkti sjálfur marga hinna föllnu og fjölskyldur þeirra kom hann fram sem rólegur og tryggur leiðtogi allrar þjóðarinnar – hann fléttaði saman sorg og athafnasemi á þann hátt að hreif svo að segja alla Norðmenn.

Fyrstu pólitísku skoðanakannanir benda til að margir kjósendur telji nú rétt að kjósa Verkamannaflokkinn af því að Stoltenberg kom fram sem svo góður leiðtogi. En eflaust vilja sumir einnig kjósa Verkamannaflokkinn sem vott um samúð. Flokkurinn er í sárum. Þegar aðrir þjóðfélagsþegnar sneru aftur til daglegs lífs héldu þeir sem gegna háum sem lágum trúnaðarstöðum í flokknum áfram að fara í jarðarfarir. Í öllum fylkjum hafa helstu ungliðar flokksins annaðhvort látist eða þeir eru svo djúpt snortnir að það væri ofar mannlegum mætti að leggja út í hversdagslega kosningabaráttu.

Þannig er staðan og hvorki Verkamannaflokkurinn né hinir flokkarnir geta gert neitt við henni. Ef til vill verður mikið breytt þegar að sjálfum kosningunum kemur hinn 12. september, en núna – um miðjan ágúst – virðist það nánast óhugsandi. Til þess voru hörmungarnar of miklar.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden