Document Actions

Markku Heikkilä

Erfitt að uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna um þróunaraðstoð

Urho Kekkonen forseti Finnlands var viðstaddur þegar ríku iðnvæddu þjóðirnar, lofuðu á þingi Sameinuðu þjóðanna árið 1970, að auka framlög sín til þróunaraðstoðar í 0,7 prósent af vergri landframleiðslu. Kekkonen hét því einnig að Finnar myndu leggja sig fram við að ná þessu markmiði.

17/12 2009

Urho Kekkonen forseti Finnlands var viðstaddur þegar ríku iðnvæddu þjóðirnar, lofuðu á þingi Sameinuðu þjóðanna árið 1970, að auka framlög sín til þróunaraðstoðar í 0,7 prósent af vergri landframleiðslu. Kekkonen hét því einnig að Finnar myndu leggja sig fram við að ná þessu markmiði.

Á næsta ári eru 40 síðan þessu var heitið og frjáls félagsamtök í Finnlandi minna gjarnan á það. Sem stendur eru framlög Finna til þróunaraðstoðar 0,51 prósent af vergri landsframleiðslu, sem er samkvæmt lágmarki, sem eldri aðildarríki Evrópusambandsins verða að hafa náð árið 2010. Stefnt er að því að Finnar nái markmiðum Sameinuðu þjóðanna árið 2015.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slík tímamörk hafa verið sett. Þegar fyrsta ríkisstjórn núverandi forsætisráðherra, Matti Vanhanens, komst til valda árið 2003 stóð í stjórnarsáttmálanum að takmarkinu um 0,7 prósent framlög ætti að ná árið 2010.

Finnar hafa í áranna rás, á mismunandi vettvangi, lofað að stefna að 0,7 prósenta framlagi. Það er vandræðalegt að ná ekki takmarkinu, einkum þegar Finnar bera sig saman við hin Norðurlöndin. Verkefni og tímasetningar hafa verið uppfærð, og einu sinni árið 1991, náðu Finnar takmarkinu og meira að segja gott betur.

Það gerðist í síðustu efnahagskreppu. Umtalsverður samdráttur varð á vergri landsframleiðslu og áður en hægt var að draga úr framlögum til þróunaraðstoðar fór hlutfall þeirra fram úr takmarki Sameinuðu þjóðanna. Á árunum þar á eftir voru framlög til þróunaraðstoðar skorin svo ört niður að það hlýtur að teljast til heimsmets. Árið 1994 var hlutfallið aðeins 0,3 prósent af vergri landsframleiðslu. Fjárhagsvandi landsins skyggði á alþjóðleg loforð og framlög til samstarfs við þróunaraðstoð voru nánast þurrkuð út.

Það hefur tekið langan tíma að komast upp úr þeirri lægð og nú er aftur skollin á efnahagskreppa. Þegar frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2010 var lagt fram í sumar óttuðust margir að framlög til þróunaraðstoðar yrðu felld niður. Í þetta sinn vógu gefin loforð þó svo þungt að framlögin voru nærri því jafnhá og áður. Starfseminni verður haldið áfram samkvæmt áætlun.

Umræður um þróunaraðstoð Finna hafa fyrst og fremst snúist um hvert hlutfall þeirra er. Í hverju aðstoðin felst hefur hvorki vakið áhuga almennings né stjórnmálamanna. Stofnanirnar sem sinna þessu verkefni hafa heldur ekki staðið fyrir neinum fjöldahreyfingum, sem annars er afar sjaldgæft að frjáls félagsamtök í Finnlandi geri. Samtímis eru teikn á lofti sem benda til vitundarvakningar. Fyrir tíu árum var aðeins hægt að finna vörur merktar sanngirnismerkinu í örfáum sérverslunum, nú eru vörur með slíkum merkjum alls staðar í boði.

Hugmyndafræðin að baki finnsku þróunaraðstoðinni hefur verið breytingum undirorpin í gegnum tíðina. Í upphafi var í raun verið að efla útflutning Finna sjálfra. Þar á eftir fylgdu ótal verkefni sem voru gangrýnd harkalega, t.d. misheppnuð tilraun til að koma á laggirnar traktorsverksmiðju í Tansaníu.

Nú er hugað betur að því í hverju þróunaraðstoðin felst. Aðalmarkmiðið er að draga úr fátækt og stuðla að sjálfbærri þróun. Áhersla er lögð á loftslag og umhverfi, að koma í veg fyrir hættuástand og veita friðaráætlunum stuðning. Þar að auki eru nokkur mikilvæg þemu sem unnið er samkvæmt eins og að bæta stöðu kvenna og stúlkna, stuðla að jafnrétti, barna, fatlaðra, frumbyggja og minnihlutaþjóðflokka auk baráttunnar við eyðni. Listinn yfir þau lönd sem Finnar hafa gagnkvæmt þróunarsamstarf við hefur styst og á honum eru nú aðeins átta lönd. Þau eru Eþíópía, Kenía, Mósambík, Sambía, Tansanía, Víetnam og Níkaragva.

Áhrifamáttur Martti Ahtisaaris

Á undanförnum árum hefur frammistaða Finna í alþjóðamálum, sem hvað mesta athygli hefur vakið, ekki verið á höndum opinberra aðila, heldur aðgerða að frumkvæðis eins manns, Martti Ahtisaari. Aðgerðir hans (í Namibíu, Kosovo, Norður-Írlandi, Indónesíu, Írak o.s.frv.) munu skipa sérstakan sess í sögu Finnlands á alþjóðavettvangi.

Ahtisaari átti farsælan feril sem diplómat í Afríku og tók síðan til við ýmis verkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna. Í heimalandi sínu hefur hann löngum verið talinn einstakur og það átti sinn þátt í að hann var kjörinn forseti árið 1994, þegar Finnar voru orðnir þreyttir á stjórnmálaflokkum og voru frekar í leit að nýju andliti í stað þess að kjósa enn einn nauðbeygðan pólitíkusinn. En með því að vera utan flokka skorti hann sterkt stuðningsafl í Finnlandi. Vinsældir hans dvínuðu og Jafnaðarmenn studdu nýtt forsetaefni sitt Törju Halonen.

Tími Ahtisaari á stóli forseta nýttist honum samt sem stökkbretti á alþjóðlegri framabraut, sérstaklega þegar ferill hans reis sem hæst og hann varð sáttasemjari í Kosovo. Hann setti á fót stofnunina Crisis Management Initiative, CMI, sem er með aðalskrifstofur sínar í Helsinki. Stofnunin er sá aðili, sem fyrir utan opinberar stofnanir, vinnur ötullegast að því að efla hæfni alþjóðasamfélagsins til að bregðast við hættuástandi og leysa deilur. CMI vinnur bæði að sérstökum friðarmiðlunarverkefnum og öðrum verkefnum sem ekki eru jafn sýnileg eins og að þróa nýtingu á upplýsinga- og samskiptatækni í friðargæslu.

Eftir að Ahtisaari hlaut Friðarverðlaun Nóbels á síðasta ári nýtur hann enn meiri mannvirðingar meðal Finna. Óhætt er að fullyrða að skilningur Finna á hnattrænni ábyrgð væri ekki jafn útbreiddur og hann er nema fyrir tilhlutan Ahtisaari. Jafnvel þrátt fyrir að CMI hafi aldrei sóst eftir mikilli opinberri umfjöllum í Finnlandi.

Rík hefð fyrir friðargæslu

Fyrir mörgum áratugum spratt sú goðsögn fram í Finnlandi að landið væri „stórveldi á svið friðargæslu“. Það hófst með virkri þátttöku í friðargæsluaðgerðum Sameinuðu þjóðanna á Kýpur, Súez, og annars staðar. Hefðinni hefur verðið viðhaldið: Finnar eru nú með liðsafla t.d. i Kosovo, Tsjad og Afganistan. Flesta hermenn, eða um það bil 400, hafa Finnar átt í Kosovo.

Slíkt veitir varnarliðinu eftirsótta reynslu á sviði alþjóðamála. Meginverkefni hersins felst samt sem áður í hefðbundnum varnaraðgerðum. Það eru sjálfboðaliðar sem halda út í heim, ekki atvinnumenn á sviði friðargæslu.

Það veldur Finnum nokkrum erfiðleikum að deilurnar verða sífellt flóknari og af og til skapast kringumstæður þar sem þörf er á hernaðaraðgerðum. Finnar eru ekki aðilar að Atlantshafsbandalaginu, en eiga gott samstarf við bandalagið. Samstarf Norðurlanda þykir hér sjálfsagt, einkum samstarf við Svía og Norðmenn. Skilyrðin eru alls staðar þau að starfa í umboði Sameinuðu þjóðanna og taka alls ekki þátt í sóknarðagerðum. Hægt er að beita ofbeldi í sjálfsvörn og þess hefur gerst þörf í Afganistan en ekki annars staðar.

Finnar leggja með öðrum orðum aðaláherslu á að veita borgaralega aðstoð í hættuástandi og leggja sitt af mörkum við að koma fótunum aftur undir samfélagið. Verkefnin eru lýsandi dæmi um markmið Finna um þróunaraðstoð, viðbrögð við hættuástandi og þeirri vinnu sem stofnun Ahtisaaris ynnir af hendi með það að leiðarljósi að endurreisa sundurtætt samfélög.

Nú, í desember fór Atlantshafsbandalagið þess á leit við Finna að þeir sendu fleiri hermenn til Afganistan. Þar eru þegar um það bil 120 finnskir hermenn en þeim mun að öllum líkindum ekki fjölga mikið. Stjórnmálamennirnir eru sammála um að veran í Afganistan sé mikilvæg en þeir hika við að ákveða að efla liðsstyrkinn þar. Þar að auki lítur út fyrir að ekki séu svo margir sem eru reiðubúnir til þess að fara þangað sjálfviljugir.

Starfsemin á grannsvæðunum

Umtalsverður hluti af aðgerðum Finna á alþjóðlegum vettvangi fer fram á grannsvæðunum. Eftir fall Sovétríkjanna var markmiðið að rétta Eystrasaltsríkjunum hjálparhönd við að komast á réttan kjöl og greiða úr félagslegum vandamálum og umhverfisvandamálum í Norðvestur-Rússlandi, nálægt landamærum Finnlands. Ekki er lengur þörf fyrir aðstoð í Eystrasaltsríkjunum og starfsemin í Rússlandi hefur meira að segja breyst. Í stað þróunaraðstoðar er lögð áhersla á fjölþjóðlegt samstarf sem Rússar hafa einnig verið aðilar að.

Með aðstoð frá Norræna fjárfestingabankanum hefur nú skapast fjárhagslegur grundvöllur fyrir samstarf í umhverfismálum innan Norrænu víddarinnar innan ESB. Stefnt er að því að koma á sambærilegu samstarfi á sviði samgöngu- og flutningamála einnig innan norrænu víddarinnar. Markmiðið er að ráða bót á umhverfisvandamálum á svæðinu og uppfæra samgönguæðarnar.

Norræna víddin varð á sínum tíma til að frumkvæði Finna. Það eru einnig helst finnskir aðilar sem hafa reynt að halda aðgerðunum gangandi með því að veita þeim nýtt innihald. Samstarfið um umhverfismál hefur gengið vel, þökk sé fjárhagslegum stuðningi, gott dæmi um slíkt er bygging hreinsunarstöðvarinnar við Pétursborg.

Samtímis vaxa áhyggjurnar af ástandi Eystrasaltsins. Í desember juku Finnar fjárárframlög sín umtalsvert til aðgerða sem tengjast Eystrasaltsáætluninni.

Á þessu sviði er Norræni umhverfisfjárfestingasjóðurinn, NEFCO, einnig starfandi og fram til þessa hafa kraftar hans einkum beinst að Norðvestur-Rússlandi, Eystrasaltsríkjunum, Úkraínu og Hvíta-Rússlandi. Nú vinnur NEFCO í samstarfi við Norræna þróunarsjóðinn (NDF) að fjármögnun aðgerða í loftslagsmálum í fátækustu þróunarlöndunum.

Þessar þrjár stofnanir, allar með aðalstöðvar sínar í Helsinki, vinna á afar sérhæfðum sviðum. Þær hafa ekki haft teljandi áhrif á samfélagsumræður í Finnlandi en það eru heldur ekki margir utanaðkomandi sem vita um tilvist þeirra.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden