Document Actions

Thomas Larsen

Orrustan um Afganistan

Eitt mál stendur upp úr varðandi utanríkis- og öryggismálastefnu Dana: Hversu lengi ætla Danir að halda áfram að styðja hernaðarþátttöku Danmerkur í Afganistan? Hingað til hafa kjósendur stutt þátttökuna og pólitísk samstaða hefur ríkt um málið. En það hriktir í samstöðunni.

17/12 2009

Þegar Danir lesa dagblöðin, hlusta á útvarp eða horfa á sjónvarpsfréttir er oft erfitt og óþægilegt að fylgjast með framvindunni í Afganistan.

Það er skýrt reglulega frá nýjum bardögum við talibana í stríðshrjáðu landinu og með reglulegu millibili berast skýrslur um danska hermenn sem hafa særst í bardögum eða orðið fyrir banvænum vegarkantssprengjum.

Meira en 30 danskir hermenn hafa látið lífið. Eitt dagblaðið gefur upp tölu fallinna hermanna í dálknum „fallnir“, önnur dagblöð lýsa því hvernig sumir hermannanna snúa heim – örkumlaðir á líkama og sál.

Það er í stuttu máli runnið upp fyrir landsmönnum að Danmörk á þátt í stríði og svipað og í mörgum öðrum löndum, sem hafa hersveitir í Afganistan, færist sú umræða sífellt í aukana hvort framvindan þar sé í rétta átt og hvort hægt verði að koma á stöðugleika í landinu og koma í veg fyrir að það verði aftur æfingamiðstöð íslamskra hryðjuverkamanna. Að síðustu eru uppi afar skiptar skoðanir um það hve lengi við eigum að halda okkur í landinu.

Ekkert annað utanríkis- og öryggisstefnumál er eins fyrirferðarmikið og rætt jafnýtarlega og hernaðarþátttakan í Afganistan.

Óróleiki kominn í samstöðuna

Eftir nýlega ákvörðun Baracks Obama að efla hernaðarþrýsting á talibana hefur dregið svolítið úr umræðunni um lokadagsetningu og brottkvaðningu danska herliðsins en hún blundar rétt undir yfirborðinu.

Í nóvemberlok ætluðu dönsku flokkarnir, sem standa að baki þátttöku Dana í Afganistan, að hittast til að ræða framhaldið. Og þá kom greinilega í ljós fyrir alvöru að farnir eru að koma brestir í pólitíska samstöðu flokkanna. Stuttu fyrir upphaf fundarins lýstu sósíaldemókratar því yfir að ríkisstjórn Afganistans bæri að taka yfir ábyrgð á stjórn hins stórhættulega Helmandshéraði þar sem dönsku hermennirnir sinna herþjónustu. Flokkurinn lýsti yfir að Afgönum bæri að taka á sig ábyrgðina innan tveggja ára. Og að síðustu sögðu þeir að yfirtakan ætti að verða fyrsta skrefið í lokabrottflutningi dansks herliðs frá Afganistan. Hinn stjórnarandstöðuflokkurinn, Róttæki vinstriflokkurinn, var að flestu leyti sammála og sömuleiðis Sósíalíski þjóðarflokkurinn sem frá upphafi hefur verið andsnúinn hernaðarþátttöku Dana í Afganistan.

Stuðningsflokkur ríkisstjórnarinnar, Danski þjóðarflokkurinn, talaði þvert á móti um enn ákveðnari hernaðarþátttöku, þannig að skýr skipting var milli liðanna.

Eftir miklar hitaumræður tókst að stilla til friðar en eftir stendur að vafalítið verður æ erfiðara fyrir flokkana að koma sér saman um sameiginlega stefnu.

Svipað verður því uppi á teningnum í umræðunni í Danmörku og í öðrum löndum: Jafnvel í kjarnalöndum eins og Bandaríkjunum og Stóra-Bretlandi getur slegið í brýnu. Enn er mönnum í fersku minni 11. september 2001 þegar World Trade Center í New York var jafnað við jörðu og hratt af stað aðgerðinni að hrekja Al Kaída brott frá Afganistan. En jafnvel Bandaríkjamenn eru að verða búnir að fá sig fullsadda: Þeir sjá ekki fram á að það takist og þeir eru vonsviknir yfir því hvað aðgerðin er dýru verði keypt. Gjaldið – bæði þegar um er að ræða krónur aura og mannslíf – fer hækkandi og farið að keyra úr hófi.

Erfitt að standa við stuðning

Síst þarf að undra að sú umræða sé hafin í Danmörku, frekar að hún hafi ekki farið fyrr af stað. Ríkisstjórnin hefur beitt sér mest í málinu og ótrúlega lengi hefur tekist að sannfæra Dani um að danskir hermenn eigi vera áfram og berjast þó að röksemdir af hálfu stjórnarinnar hafi iðulega verið mótsagnakenndar: Stundum er mest áhersla lögð á nauðsyn þess að koma á lýðræði. Stundum er undirstrikað að það veiti Vesturlöndum aukið öryggi takist að yfirbuga talibana og Al Kaída, þannig verði komið í veg fyrir að hatursfullir hryðjuverkamenn safnist saman á ný í Afganistan.

Margir Danir hafa að líkindum einnig brugðist við lýsingunum á grófri kúgun, ekki síst kúgun kvenna, sem átti sér stað í Afganistan fyrir innrásina.

Það má nefna sem sérdanskt fyrirbæri að Søren Gade varnarmálaráðherra hafi getað haldið einstæðri stöðu meðal þjóðarinnar. Þó að hann hafi staðið í fremstu röð við að réttlæta þátttöku Dana og hafi verið við jarðarfarir fallinna danskra hermanna hefur hann náð til dönsku þjóðarinnar.

Að lokum hefur ríkisstjórninni tekist að fá mikinn meirihluta til að styðja aðgerðina – andstætt þeim djúpa pólitíska ágreiningi sem var um veru danskra hersveita í Írak fyrir fáum árum.

Ríkisstjórnin býst þó við að erfiðara muni reynast í framtíðinni að fá kjósendur til að styðja málið áfram og að pólitísk samstaða verði um það.

Er breyting í vændum?

Það eru engar ýkjur að halda því fram að önnur úrlausnarefni í utanríkis- og öryggismálum séu talsvert neðar á baugi á dagskrá stjórnmálanna.

Stjórnmálaskýrendur utanríkis- og öryggismála fylgjast þó grannt með öðrum málum því að síðan Anders Fogh Rasmussen var tilnefndur aðalritari NATÓ í ársbyrjun 2009 er kominn vísir að því að horft sé til annarra átta.

Stjórnartímabil Foghs var skýrt og ákveðið – og umdeilt – vegna fylgispektar hans við George W. Bush sem er svo illa þokkaður í Evrópu.

Það voru þó engin nýmæli að Danmörk legði mikla áherslu á samband við Bandaríkin og trausta tengingu yfir Atlantshafið. Sama var að segja um forvera Foghs, sósíaldemókratann Poul Nyrup Rasmussen. En gagnrýnendum þótti Fogh ganga of langt því að samkvæmt skoðun þeirra fórnaði hann evrópsku sjónarhorni og tók sér gagnrýnislaust stöðu við hlið George W. Bush í tilraun forsetans að ná fram breytingum, fyrst og fremst í Írak, með hernaðaríhlutun.

Því er það að athugendur bíða spenntir eftir að sjá hvernig nýr forsætisráðherra Danmerkur – Lars Løkke Rasmussen – muni meta jafnvægið milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins.

Einnig mun verða fylgst grannt með samskiptum nýja forsætisráðherrans við Rússa sem undanfarin ár hafa látið að sér kveða á alþjóðavettvangi. Það á við í sambandi við Eystrasaltssvæðið og norðurheimskautssvæðið.

Einn þeirra Dana sem er kunnugastur utanríkis- og öryggismálastefnu Danmerkur er Uffe Ellemann-Jensen sem var forsætisráðherra í meira en áratug, 1982-1993.

Hann leggur einmitt áherslu á að krefjandi verkefni séu í vændum á norðurheimskautssvæðinu sem á eftir að verða þýðingarmikið. Í nýrri árbók Norrænu ráðherranefndarinnar Einn fyrir alla, allir fyrir einn – nýtt norrænt varnarmálasamstarfsverkefni bendir hann á að komið geti til árekstra þegar möguleikar opnast vegna bráðnunar íss á t.d. olíuvinnslu á svæðum sem áður voru óaðgengileg.

„Komið hefur fram yfirlýsing um að ríkin umhverfis norðurheimskautið eigi að notfæra sér alþjóðalög og rétt. Því samsinntu Rússar og það er gott og blessað. En ekki verður fram hjá því horft að skiptar skoðanir eru um hvernig allt hafréttarkerfi SÞ skuli nýtt. Það getur orðið dramatískt ef tómarúm myndast í stefnu í öryggismálum. Mjög dramatískt,“ segir Uffe Ellemann-Jensen. Hann hvetur í því samhengi til náinnar norrænnar samvinnu ásamt nánum samræðum við aðila NATÓ, svo sem Kanada og Bandaríkin.

Í sömu árbók horfir Ellemann fram á við til væntanlegrar heimsmyndar árið 2049 þegar NATÓ verður aldargamalt og utanríkisráðherrann fyrrverandi sér fyrir sér breyttan heim. Þyngdarpunkturinn verði kominn til Asíu en Vesturlönd – einkum Evrópa – muni hafa dregist tiltölulega aftur úr og hafa minni áhrif á gang heimsmála.

„Ég veit ekki hvort við getum breytt stefnunni. En Evrópubúar hafa hagsmuna að gæta við að reyna það. Svarið er að útvíkka evrópska samvinnu. Þar geta Norðurlönd lagt hönd á plóg. Við getum náð mestum áhrifum með því að styrkja norræna samvinnu. Ég legg áherslu á að það verður að gerast innan stærri ramma. Við eigum að koma fram saman í evrópsku samstarfi og í NATÓ,“ segir Uffe Ellemann-Jensen.

Málið er að þegar lætin í kringum Afganistan fjara út og þegar þessar glóandi deilur falla í skuggann, bíða stærri og meira áríðandi grundvallarverkefni í utanríkis- og öryggismálum þar sem Norðurlönd – ef til vill – munu ná að standa þéttar saman til að takast á við sum vandamálin.

Eins og stendur skyggja talibanar og Al-Kaída á þann veruleika.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden