Document Actions

Aslak Bonde

Stórveldi þegar að mannúðarmálum kemur?

Noregur tekur þátt í friðarumleitunum um allan heim, veitir rausnanlegan stuðning við lýðræðis- og mannréttindaverkefni og lætur meira fé af hendi rakna til þróunaraðstoðar miðað við höfðatölu en nokkurt annað land. Sagt er að við séum mannúðarstórveldi. Eða væri kannski réttara að segja að hið opinbera hafi tekið yfir starf sem mörg norsku kristniboðsfélögin sinntu á síðustu öld? Notaðir eru olíupeningar til að flytja út manngæsku eins og góðir Norðmenn skilgreina hana.

17/12 2009

Noregur tekur þátt í friðarumleitunum um allan heim, veitir rausnanlegan stuðning við lýðræðis- og mannréttindaverkefni og lætur meira fé af hendi rakna til þróunaraðstoðar miðað við höfðatölu en nokkurt annað land. Sagt er að við séum mannúðarstórveldi. Eða væri kannski réttara að segja að hið opinbera hafi tekið yfir starf sem mörg norsku kristniboðsfélögin sinntu á síðustu öld? Notaðir eru olíupeningar til að flytja út manngæsku eins og góðir Norðmenn skilgreina hana.

Ákvörðun norsku Nóbelsnefndarinnar um að veita Barack Obama friðarverðlaun ársins leiddi ekki einungis til fjörugrar umræðu um það hvort Obama verðskuldaði verðlaunin – heldur ýfði hún að nýju upp umræðuna sem kemur alltaf upp með jöfnu millibili: Umræðuna um norsku sjálfsmyndina. Hversu friðelsk erum við eiginlega hér í landi? Og hagsmuni hverra höfum við að leiðarljósi þegar stefnan er mörkuð um að landið sé virkur þátttakandi á sem flestum sviðum?

Grundvöllur umræðunnar er að Noregur notar stóran hluta tekna sinna í að láta til sín taka í öðrum löndum. Aðstoðin sem landið lætur af hendi rakna hljóðar upp á 1,09 % af þjóðarframleiðslunni. Sum Norðurlanda leggja hlutfallslega jafnmikið fram en vegna olíuteknanna þá er fjárupphæðin sem Noregur veitir mjög há miðað við höfðatölu – hærri en nokkurt annað land veitir.

Að auki tekur Noregur þátt í fimm friðarumleitunum – í Sómalíu, Kólumbíu, Haítí, Filippseyjum og Nepal. Það fara fram þrennar svokallaðar mannréttindaviðræður – við Kína, Indónesíu og Víetnam. Noregur hefur leikið og leikur enn mikilvægt hlutverk í tengslum við vinnuna við að koma á alþjóðlegum sáttmála varðandi jarðsprengjur og banni við notkun handvopna og klasahergagna.

Hið mannúðlega einkenni í alþjóðlegu framlagi Noregs kemur berlega í ljós í rökstuðningi ríkisstjórnarinnar varðandi hernaðarþátttökuna í Afganistan. Þegar ríkisstjórnin ákvað að vera áfram til staðar í Afganistan þá var lögð á það áhersla að við tækjum þátt í svokölluðu ISAF-verkefni (alþjóðlegu öryggissveitarinnar) sem stuðla á að uppbyggingu þjóðar en um leið að við tækjum ekki þátt í leit Bandaríkjamanna að hryðjuverkamönnum sem skipulögð var undir heitinu „Operation Enduring Freedom”.

Síðan þetta var hafa þessar tvær ólíku aðgerðir í Afganistan sameinast í eina. Markmiðið er orðið sameiginlegt og það verður sífellt erfiðara fyrir vestræna stjórnmálamenn að halda því fram á trúverðugan hátt að það muni takast að byggja upp þjóðríki sem muni geta tryggt afgönsku þjóðinni grundvallarréttindi.

Þróunin í Afganistan er líka lýsandi dæmi um almennari tilhneigingu. Hin mikla bjartsýni á framvindu mála sem varð ráðandi áratuginn eftir fall Berlínarmúrsins leiddi jafnframt til aukinnar trúar á að Vesturlönd gætu aðstoðað aðra hluta heimsins við að skapa betri skilyrði fyrir kúgaða minnihlutahópa og fátæka. Það var þá sem talið náði hámarki um að Noregur væri stórveldi þegar að mannúðarmálum kæmi.

Þeir sem höfðu áhuga á utanríkismálum höfðu þá um langa hríð tekið þátt í fræðilegum rökræðum um samhengið á milli hagsmunapólitíkur og stjórnmálabaráttu um gildi. Því var haldið fram að Noregur notaði of mikinn tíma til að miðla friði og senda ullarteppi og mat til nauðstaddra. Það var ekki tími til að gæta nægilega vel að mikilvægustu hagsmunum okkar sem í grófum dráttum urðu að engu í stjórnarerindrekasamskiptunum við Bandaríkin, ESB og Rússland. Þau yfirvöld utanríkismála sem ábyrgð báru svöruðu gagnrýninni með því að vísa til þess að virk þátttaka sem felst í friðarumleitunum, þróunaraðstoð, neyðaraðstoð, frumkvæði til að efla mannrétti og þjóðaruppbygginu, hafi veitt Noregi aðgang að stórveldunum. Til dæmis hafi Bandaríkin, ESB og Rússland veitt okkur meiri athygli af því að við lékum stórt hlutverk í friðarumleitunum bæði í Súdan og á Sri Lanka.

Flestir féllust á röksemdafærsluna. Á Stórþinginu eru menn almennt á eitt sáttir um að stefnan um virka þátttöku landsins sé hagsmunapólitík sem hafi skilað árangri. Þar með gat umræðan um hvaða gildi stefnumótun virkrar þátttöku landsins ætti að innihalda. Að hversu miklu leyti skilar virk þátttaka Noregs úti í heimi árangri? Umræða um þessi mál hefur aukist smám saman síðasta áratug.

Þróunaraðstoðin hefur ávallt verið umdeild en nýlundan síðasta áratug er að gagnrýnin á hana hefur komið úr sífellt fleiri áttum. Í byrjun voru það aðallega þeir sem voru gagnrýnir á að senda peninga úr landi sem voru mest áberandi meðal þeirra sem gagnrýndu þróunaraðstoðina. Á síðustu árum hafa þeir sem hlynntir eru þróunaraðstoð líka bent á þá óumflýjanlegu staðreynd að gífurlega mikill hluti þess fjár sem runnið hefur í þróunaraðstoð hefur horfið í skriffinnskubákn og spillingu.

Í kjölfar gagnrýnarinnar hafa kröfurnar undanfarinn áratug aukist um að stjórnkerfi þeirra landa sem fá styrki séu gagnsætt og gott. Á sama tíma hafa yfirvöld sem veita þróunaraðstoð lagt áherslu á að ákvarðanirnar séu fyrirsjáanlegar. Við getum ekki bara dregið okkur út úr verkefnum þó flett sé ofan af mistökum og spillingu. Það getur valdið saklausu fólki tjóni.

Málið flækist enn frekar ef maður fer að velta fyrir sér öðrum sjónarhornum en einungis því hvort peningarnir nái fram til réttra aðila eins og til dæmis hvort norska aðstoðin hafi í för með sér varanlegar umbætur. Titillinn á síðustu ársskýrslu norsku þróunarstofnunarinnar NORAD var: „Hringir í vatni eða dropar í hafi“. Þar settu yfirvöld þróunarmála sjálf fram vangaveltur um það hvernig mismunandi verkefni geta haft ólík langvarandi áhrif. Góður ásetningur er engan veginn fullnægjandi.

Hið áhugaverða við þessa umræðu er að þeir sem eru fylgjandi þróunaraðstoð eru hræddir um að hún verði misnotuð af andstæðingum þróunaraðstoðar. Framfaraflokkurinn, sem er stærstur stjórnarandstöðuflokka og nýtur rúmlega 20% fylgis í skoðanakönnunum, vill að umfang þróunaraðstoðar Noregs verði minnkað allverulega frá því sem nú er, og fulltrúar flokksins nota oft dæmi úr umræðunni um öll þau verkefni sem ekki hafa skilað árangri. Rök Framfaraflokksins eru að margir leiðtogar þróunarlanda segi sjálfir að þeir vilji frekar „viðskipti“ en „aðstoð“. Framfaraflokkurinn vill draga úr viðskiptahindrunum og draga samtímis úr þróunaraðstoðarframlaginu.

Framfaraflokkurinn hefur jafnframt efasemdir um norskar friðarumleitanir og á því sviði hafa líka bæst við rök á undanförnum árum. Á Sri Lanka enduðu norskar umleitanir í að yfirvöld og tamíltígrar „féllust á“ blóðugt uppgjör fyrr á árinu. Nú lítur alveg eins út fyrir að norskar friðarumleitanir hafi bara stuðlað að því að lengja deilurnar sem hvort sem er yrðu „leystar“ með grimmilegu hervaldi.

Í Mið-Austurlöndum talar enginn lengur um Oslóar-samninginn. Að því marki sem vísað er til þessa áberandi samkomulags milli PLO og Ísraels frá árinu 1993 þá er frekar um gagnrýni en hrós að ræða. Kannski höfðu friðarumleitanir Noregs í för með sér að fulltrúar Palestínumanna gáfu fullmikið eftir gagnvart Ísrael sem aftur hafi leitt til þess að þeir fjarlægðust eigin þjóð og vörðuðu þannig veginn fyrir Hamas.

Stærsti veikleiki norsku friðarumleitananna er vitanlega að Noregur hefur ekki þau völd sem þarf til að styðja við bakið á kröfunum. Við eigum alltaf einhvern pening en aldrei neitt meira en það. Niðurstaðan er að norsku fulltrúarnir halda því alltaf fram að þeir séu skipuleggjendur friðarviðræðna og að þeir geti aldrei haft neina sýn á það hvað geti talist „rétt“ lausn á deilum. Góðu áformin eru að fá bundinn enda á átök en grimm niðurstaðan getur verið sú að það náist friðarsamningur sem er svo ójafn að hann annað hvort heldur ekki eða er hreint út sagt óverðugur fyrir annan aðilann.

Taki maður svo með í reikninginn að svokölluð mannréttindaumræða gagnvart landi eins og Kína sé miklum takmörkunum háð þá er ekki skrýtið að rökræðurnar fari að snúast um hversu mannúðarlegur Noregur sé eiginlega.

Rökræður kalla fram ólík sjónarhorn og norsk yfirvöld halda því statt og stöðugt fram að Noregur skipti í raun máli. Í eigin ársskýrslum um „mannúðarstefnuna“ eru ýmis verk tekin saman sem án vafa eru góð og gild. Noregur er ekki síst alltaf tilbúinn að aðstoða og leggja fram mat, tjöld og lyf þegar náttúruhamfarir ríða einhvers staðar yfir. Stjórnun aðstoðarinnar er líka sérstök – þar sem mikið af henni fer í gegnum frjáls hjálparsamtök eins og Rauða krossinn, Hjálparstofnun kirkjunnar og fleiri.

Í Afganistan heldur Noregur líka fast í meginreglur sem ramma inn sérkenni mannúðarframlagsins. Ólíkt mörgum bandamönnum okkar greinum við í vinnu okkar strangt á milli hernaðarlegs og borgaralegs framlags okkar. Allir eiga að vita að hjálparstarfsmenn eru í landinu í mannúðarskyni. En her getur haft svo mörg andlit.

Það er hins vegar ekki svo auðvelt að halda þessari aðgreiningu við í Afganistan. Sífellt fleira bendir til að íbúar svæðisins geri ekki greinarmun á hernaðarlegum og borgaralegum starfsmönnum eða á Norðmanni og Banaríkjamanni. Þegar Bandaríkjamenn auk ýmissa annarra þjóða blandar saman borgaralegu og hernaðarlegu framlagi sínu þá skapar það vandamál í norskum stjórnmálum. Góður tilgangur okkar fer fram hjá mönnum.

Það er ekki auðvelt að vera góður í vondum heimi.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden