Document Actions

Markku Heikkilä

Málefni Norðurskautsins eru eins og flest annað í bið eftir kosningarnar í Finnlandi

Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finna, fékk vakningu á fundi utanríkisráðherra Norðurskautsráðsins í Tromsö fyrir tveimur árum. Upp frá því varð kröftug útrás mót norðri þáttur í utanríkisstefnu Finna. En þegar utanríkisráðherrar annarra þjóða í Norðurskautsráðinu hittust í Nuuk í maí síðastliðnum hélt Stubb sig heima. Eftir þingkosningarnar í apríl hafa stjórnmál í Finnlandi, einnig málefni Norðurskautsins, nánast lamast.

09/06 2011

Þegar þetta er ritað hefur enn ein tilraun til stjórnarmyndunar runnið út í sandinn. Sami leikþátturinn hefur verið endurtekinn dag eftir dag í tvær vikur: Fulltrúar flokkanna sex sem taka þátt í stjórnarmyndunarviðræðum hafa farið fámálir upp tröppurnar og inn í Ständerhuset (hýsir stjórnarráð Finna) á morgnana og þeir hafa verið jafn fámálir þegar þeir koma þaðan út seint á kvöldin. Að ná samkomulagi um stjórnarsáttmála hefur reynst óvenjulega erfitt vegna þess að flokkarnir sem koma að viðræðunum eiga fátt sameinginlegt - nema að talið var líklegt að þetta væri eina mögulega samsetningin sem staðið gæti að baki fjölflokkastjórn án aðild sigurvega kosninganna, flokks Sannra Finna og Miðflokksins sem galt afhroð.

Í byrjun júní sigldu fyrstu viðræðurnar í strand. Stærsti flokkurinn, Einingaflokkurinn og vinstri flokkarnir, flokkur Jafnaðarmanna og Vinstribandalagið, gátu ekki komið sér saman um skattamálin og formaður Einingaflokksins, Jyrki Katainen sem heldur ríkisstjórninni saman vék Vinstrabandalaginu frá stjórnunarmyndunarviðræðunum. Eftir það var engum ljóst hvert framhaldið yrði.

Þegar Analys Norden verður gefið út, getur verið að viðræðurnar haldi áfram, en væntanlega með annarri stefnu. Ljóst þykir að myndun nýrrar ríkisstjórnar í Finnlandi mun ekki ljúka fyrr en nokkuð er liðið á júní. Með öðrum orðum þá kljást Finnar nú við óvenjulega kreppu í innanríkismálum og eftir því sem tíminn líður verða raddir um nýjar kosningar æ háværari. Eftir kosningarnar í apríl hefur framvindan í engu verið samkvæmt hefðbundinni forskrift.

Kosningasigur flokks Sannra Finna var mikill í sögulegu samhengi og flokkurinn ætti að áliti flestra að vera með í ríkisstjórn til þess að axla ábyrgð. En viðhorf flokks Sannra Finna til þess að veita löndunum, sem hafa orðið hvað harðast úti í kreppunni á evru-svæðinu, er svo neikvætt að ljóst var að ómögulegt væri að aðlaga það skoðunum hinna flokkanna á málinu. Formaður flokks Sannra Finna, Timo Soini gaf sjálfur skýr skilaboð um að hann myndi halda áfram í stjórnarandstöðu, öðrum til nokkurs léttis. Þar með varð hjá því komist að hafna blátt áfram þátttöku sigurvega kosninganna.

Nú í byrjun júní standa því öll tækifæri aftur opin og stjórnmálamennirnir hafa dregið sig í hlé í nokkra daga til þess að fá svigrúm til þess að hugsa málið. Þar sem ekki reynist kleift að gera grein fyrir kringumstæðum eins og þær eru í þessu tölublaði af Analys Norden mæli ég með því að fylgjast grannt með fréttum frá Finnlandi.

Mismikill áhugi á Norðurskautinu

Þrátt fyrir að enn liggi ekki fyrir vitneskja um skipan nýrrar ríkistjórnar í Finnlandi og ennþá minna sé vitað um markmið hennar, verður að teljast eðlilegt að áhugi Finna á Norðurskautssvæðinu aukist. Þetta málefni hefur ekki tengst flokkspólitík og því ætti að vera hægt að tryggja stjórnskipulega samfellu. Skipuð hefur verið nefnd, með fulltrúum ólíkra hagsmunaaðila undir forystu ráðherrans, sem mun halda áfram störfum óháð því hvernig ríkisstjórnin skipast.

Þrátt fyrir þetta eru fleiri þættir sem miklu máli skipta. Alexander Stubb, utanríkisráðherra hefur persónulegan áhuga á málefnum Norðurskautsins og hefur átt frumkvæði á því sviði sem hefur hraðað þróun mála bæði innan utanríkisráðuneytisins og annarra ráðuneyta. Hvort sem Stubb heldur stöðu sinni sem ráðherra eða ekki mun áhugi hans á Norðurskautinu sennilega haldast óbreyttur. Skipi einhver annar stöðu utanríkisráðherra verður athyglisvert að fylgjast með þróun málsins.

Fyrr á tímum unnu Finnar af mikilli elju að málefnum Norðurskautsins. Söguleg ræða Michail Gorbatjovs í Murmansk árið 1987 batt enda á kalda stríðið á Norðurskautssvæðinu. Finnar gripu tækifærði og hófust handa við að undirbúa samstarf um umhverfismál Norðurskautsins. Það leiddi til fyrsta sameiginlega fundar ráðherranna árið 1991 og hins svokallaða Rovaniemi-ferlis, sem aftur leiddi til stofnunar Norðurskautsráðsins.

Norðmenn áttu frumkvæðið að samstarfinu á Barentssvæðinu 1993, en Finnar unnu frá upphafi ötullega að útvíkkun samstarfsins til þess að Karelska lýðveldið í Rússlandi og Oulu í Finnlandi gætu einnig orðið aðilar að ráðinu. Þróun Norrænnar víddar Evrópusambandsins hófst 1997 að frumkvæði þáverandi forsætisráðherra Finna Paavo Lipponens og árið 2001 var lagður grunnur að samstarfi Háskóla Norðurskautsins og háskólanna í Rovaniemi (University of the Arctic).

Finnar draga ESB inn á Norðurskautssvæðið

Frá upphafi tuttugustu aldarinnar hefur ekkert annað gerst í stefnu finnskra stjórnvalda í málefnum Norðurskautsins og Barentssvæðisins en að skyldubundnum vanaverkum er sinnt. Segja má að eiginlega hafi alltaf verið dregið fyrir glugga norrænu víddarinnar.

Fyrir nokkrum árum skiptu Finnar um skoðun eða um svipað leiti og áhugi alþjóðasamfélagsins á Norðurskautssvæðinu færðist verulega í aukana. Hnattvæðingin, loftslagsbreytingarnar, nýjar samgönguleiðir auk þess sem samspilið á milli eftirspurnar eftir orku og hráefni hefur beint sjónum flestra í átt til norðursins. Meira að segja í Finnlandi veittu menn því athygli að alþjóðlegir hagsmunir voru í húfi og að Finnar gætu beitt áhrifum sínum í auknum mæli. Stefna Finna í málefnum Norðurskautsins var birt sumarið 2010.

Síðan Finnar töpuðu Petsamo til Sovétríkjanna í stríðinu hafa engin strandsvæði á Norðurskautinu tilheyrt Finnum.  Það hefur í för með sér að Finnar eiga hvorki þátt í umræðum um hafsvæði Norðurskautsins né stjórnun auðlinda þar. Hins vegar hafa Finnar engan áhuga á að halda uppi vörnum á svæðinu sem gerir þeim kleift að vera nokkurnveginn hlutlausir milligöngumenn.

Á þeim forsendum hafa Finnar reynt að efla Norðurskautsráðið sem allar þjóðir á svæðinu eiga aðild að. Finnar hafa lagt mikla áherslu á að fá framkvæmdastjórn ESB í ráðið sem fastan áheyrnaraðila en á fundinum í Nuuk tókst ekki að ná samkomulagi um það. Hið sama gildir um áhuga annarra aðila, eins og t.d. Kína, á því að hafa áheyrnaraðild að ráðinu. Það hefur reynst ótrúlega erfitt að höndla það á farsælan hátt.

Veru ESB gætir þegar á Norðurskautssvæðinu, í Lapplandi og Norðurbotni og framkvæmdastjórnin er meðal stofnaðila að Heimskautaráði Evrópuhluta Barentsvæðisins. Þrátt fyrir þetta hefur ESB ekki enn verið falið langþráð hlutverk áheyrnaraðildar. Kringumstæður hafa gjörbreyst, fyrir tíu árum síðan hefði ESB auðveldlega fengið aðild að Norðurskautráðinu og þá reyndu Finnar einnig að fá ESB með, en á þeim tíma var enginn áhugi á því fyrir hendi.

Meðal markmiða Finna er að stofna til upplýsingamiðstöðvar um Norðurskautið fyrir ESB í Rovaniemi í tengslum við Norðurskautsmiðstöðina við Háskólann í Lapplandi. Þetta er að frumkvæði samstarfsnets evrópskra rannsóknastofnana, en fram til þessa hefur framkvæmdastjórn ESB ekki tekið afstöðu til málsins og engar ákvarðanir tekið.

Stubb reyndi að koma á leiðtogafundi um málefni Norðurskautsins

Síðastliðið sumar gerði Alexander Stubb tilraun til þess að halda fyrsta fund leiðtoga landanna á Norðurskautssvæðinu í Rovaniemi. Verkefnið er enn í gangi en engar ákvarðanir hafa verið teknar um framhaldið. Þátttaka utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Rússlands á fundi Norðurskautráðsins í Nuuk veitti tækifæri til óformlegra viðræðna, en sökum aðstæðna í stjórnarmyndunarviðræðum gat Stubb ekki tekið þátt í þeim og fulltrúar Finna voru embættismenn úr utanríkisráðuneytinu.

Þótt Finnar eigi engin strandsvæði á Norðurskautinu er þekking og áhugi á siglingum fyrir hendi meðal þjóðarinnar. Þar að auki er þörf fyrir nýjar flutningaleiðir til og frá námunum sem til stendur að opna í norðri. Allt þetta gerir það að verkum að áhuga atvinnulífsins í Finnlandi verður án vafa við haldið. Þegar hafa verið lögð drög að nýjum járnbrautum á landakortinu, í áttina að Skipabotni og Kirkjunesi í Noregi og Kantalahti í Rússlandi. Meginmarkmiðið er að auðvelda aðgengi að Íshafinu. Þó eru alls engar líkur á því að þessar gríðarlegu samgönguáætlanir verði að veruleika.

Ríkisstjórnin sem lagði grundvöllinn að styrkri stefnu Finna í málefnum Norðurskautsins er að fara frá völdum. Það gefst þó engin trygging fyrir því að stefnunni verði framfylgt fyrr en ný ríkisstjórn fer að taka á sig einhverja mynd, með aðgerðum og pólitískri stefnu.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden