Document Actions

Thomas Larsen

Þrengsli í Íshafinu

Með þátttöku Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna varð leiðtogafundur Norðurskautsráðsins í maí vitnisburður um að refskákin um Norðurskautið er orðið að alþjóðlegu pólitísku stórmáli. Danmörk er aðili að Norðurskautsráðinu - í gegnum ríkissambandið við Grænland - og býr sig undir baráttuna um olíu og gas sem leynist langt í norðri.

09/06 2011

Það var athyglisvert að fylgjast með fundinum í Norðurskautsráðinu í Nuuk í maí.

Skyndilega fjölmenntu utanríkisráðherrar stóru landanna - Bandaríkjanna, Kanada og Rússlands - í fámenna grænlenska bæinn og sýndu með veru sinni þar fram á að það er um mikla hagsmuni að ræða á Norðurskautinu.

Það var ekki hægt að útvega eitt einasta hótelherbergi þegar stjórnmálamenn og embættismenn streymdu til Nuuk en þeim fylgdi óvenju stór skari fjölmiðlafólks. Það varð að taka í notkun skip til að útvega pláss fyrir sendinefnd Bandaríkjanna sem fylgdi Hillary Clinton utanríkisráðherra og Ken Salazar innanríkisráðherra.

Allir fóru þeir í pílagrímsferð á leiðtogafundinn í Norðurskautsráðinu til að búa sig undir framtíð þar sem loftlagsbreytingarnar bræða ísinn í slíkum mæli að nýjar siglingaleiðir geta opnast um sumarmánuðina og olíufyrirtækin geta leitað að olíu og gasi.

Horfurnar á að marga mánuði ársins verði hægt að sigla norð-vestur siglingaleiðina norðan Kanada og norð-austur siglingaleiðina norðan við Rússland opna fyrir nýjar framtíðarhorfur fyrir siglingar en hugsanlegt er að þannig verðihægt að koma á beinum áætlunarferðum milli mikilvægra heimsmarkaða.

En refskákin um Norðurskautið snýst þó fyrst og fremst um möguleikann á því að vinna olíu og gas. Talið er að allt að 25% af olíuforða heimsins sem enn er ekki búið að uppgötva sé að finna norðan heimskautabaugs svo það er um að ræða gífurlega viðskiptalega hagsmuni.

Dönsk stefna í mótun

Vegna ríkissambandsins við Grænland er Danmörk með í Norðurskautsráðinu og á komandi árum mun Danmörk í náinni samvinnu við Grænland reyna að skipa sér eins góðan sess og hægt er til að fá hlutdeild í því sem Norðurskautið mun gefa af sér.

Embættismenn í utanríkisráðuneytinu hafa lengi unnið að því að orða framtíðarstefna ríkissambandsins í málefnum Norðurskautsins.

Blaðið sagði frá því að með stefnunni kæmi Danmörk á fullum krafti í baráttuna um eignarétt á Norðurpólnum:

„Reiknað er með að konungsríkið geri kröfu til landgrunnsins á fimm svæðum í kringum Færeyjar og Grænland, þar á meðal á sjálfan Norðurpólinn.“ Þannig hljóðaði ein af meginframsetningunum í uppkasti að stefnu landsins sem lekið hefur verið og blaðið Information skýrði frá.

Mikil leynd hefur hvílt yfir þessari vinnu en um miðjan maí var uppkasti lekið til blaðanna og gert opinbert í Information.
Opinber umræða í Danmörku fékk Lene Espersen utanríkisráðherra til að bregðast við og hún upplýsti í yfirlýsingu að heilstæð stefna myndi vera tilbúin um miðjan júní. Hún lagði áherslu á að það væri engin frétt að Danmörk gerði kröfu um yfirráð á Norðurpólnum.

- Við fylgjum öllum sameiginlegum alþjóðlegum leikreglum og sendum auðvitað inn allar kröfum sem við teljum að við getum fært sönnur á að séu okkar. Það sama gera raunar önnur lönd á Norðurskautinu. Búist er við að Danmörk muni geta fært sönnur á kröfur um svæði sem meðal annars nær yfir hafsbotninn við Norðurpólinn. En Norðurpóllinn er ekki takmark í sjálfu sér segir ráðherrann.

Utanríkisráðherrann upplýsti jafnframt að kröfur Danmerkur og Grænlands á landgrunn utan 200 sjómílna verði lagðar fyrir alþjóðlegu landgrunnsnefndina í síðasta lagi árið 2014 í samræmi við hafréttarsamning SÞ.

- Að endingu munu kröfur á Norður-Íshafinu sem skarast verða leystar í samningum milli hlutaðeigandi aðila, sagði Lene Espersen.

Áhyggjufullir umhverfisverndarsinnar

Uppkasti að Norðurskautstefnu ríkisstjórnarinnar sem var lekið,

var lesið gaumgæfilega utan landamæra Danmerkur en innanlands urðu orðin ekki til að æsa upp stjórnarandstöðuþingmenn. Það er þvert á móti breið samstaða um að það sé eðlilegt að Danmörk haldi kröfum sínum á lofti. Því það muni allir aðrir alveg örugglega gera.

John Nordbo sem fæst við greiningu hjá alþjóðlegu umhverfisverndarsamtökunum WWF hitti þess vegna naglann á höfuðið þegar hann hélt því fram í blaðinu Information að „menn gera bara kröfu til eins stórs svæðis og mögulegt er.“ Með öðrum orðum þá taldi hann að danska ríkisstjórnin fylgdi gamaldags kaupmennsku og sígildri samningatækni sem fælist í því að gera miklar kröfur í byrjun til að hafa eitthvað til að versla með síðar meir.

Frá sjónarhóli umhverfisverndarsinna er þessi þróun hins vegar dapurleg og veldur áhyggjum. Í umhverfisverndarsamtökum óttast sérfræðingar að hætta sé á að einstöku dýralífi og viðkvæmum vistkerfum á Norðurskautinu verði fórnað á altari eltingarleiks við auðlindir svæðisins.

Mads Christensen framkvæmdastjóri Greenpeace tók áhyggjurnar saman með þessum orðum:

- Með þessari stefnu skráir ríkissambandið sig fyrir alvöru inn í kapphlaupið um að sölsa undir sig eins mikið af landi og mögulegt er. Framsýn Norðurskautstefna fælistí því að vinna að sameiginlegri lausn sem tryggir að Norðurskautið fái þá vernd sem bæði umhverfi svæðisins og loftslag heimsins þarf nauðsynlega á að halda.

Fólk fram yfir ísbirni

Einn dönsku blaðamannanna sem fylgst hefur hvað mest með refskákinni um Norðurskautið - sérstaklega með tilliti til stöðu Danmerkur - er þáttarstjórnandinn og rithöfundurinn Martin Breum hjá Útvarpi Danmerkur (DR).

Hann skrifaði bókina „Þegar ísinn hverfur - Danmörk sem stórveldi á Norðurskautinu, olían í Grænlandi og baráttan um Norðurpólinn.“ Í einni greiningunni slær hann því föstu að Danmörk hafi með fullum þunga hafið þátttöku sína í baráttunni um Norðurskautið með stefnu sinni um að flækja Norðurpólnum í ríkissambandið .

Martin Breum telur jafnframt að Danmörk muni hér eftir fylgja ákveðið þeirri stefnu eftir að úrvinnslu olíu og gass í Grænlandi eigi fyrst og fremst að framkvæma með hliðsjón af vilja Grænlendinga og að í stórum dráttum eigi grænlenska ríkisstjórnin sjálf að ákveða hvaða umhverfiskröfur eigi að gilda við olíu- og gasvinnslu.

Samkvæmt Martin Breum er það mikill sigur fyrir Grænlendinga sem hafa þrýst á að breytt sé um áherslur og að jafnframt sé tekið tillit til mannfólksins á Norðurskautssvæðinu og ekki einungis til „umhverfis, ísbjarna og loftlagsbreytinga“.

Vissulega mun danska stefnan leggja áherslu á að olíu- og gasvinnslan muni fara fram samkvæmt ströngustu öryggisráðstöfunum en Martin Breum telur að það verði lögð sífellt meiri áhersla á þörf Grænlands fyrir efnahagslegri þróun. Sem er í beinu samhengi við metnaðarfullar olíuáætlanir sem Grænlendingar eru komnir á fullt með að leggja drög að í samstarfi við alþjóðleg olíufyrirtæki.

Vísindamenn kallaðir til

Hvernig svæðunum á Norðurskautinu verður skipt þegar þar að kemur - og hversu stórt svæði fellur Danmörku og Grænlandi í vil - er að sjálfsögðu óljóst.

Liður í viðleitni Danmerkur til að gera yfirráðakröfuna eins öfluga og mögulegt er verður meðal annars að efnt verður til nýrra könnunarleiðangra til að renna stöðum undir vísindalegan grundvöll kröfunnar um Norðurpólinn.

Kanada, Danmörk, Noregur, Rússland og Bandaríkin sem öll eiga landamæri að Norðurpólnum eru sammála um að landamærin á Norðurskautinu verði útkljáð í samræmi við Hafréttarsamning SÞ. Það þýðir að hlutlausar, vísindalegar sannanir muni að miklu leyti skera úr um hver getur gert kröfu um Norðurpólinn og ekki tilkomumiklar aðgerðir þar sem einstök lönd planta fána á ísinn eða djúpt á sjávarbotni Íshafsins.

Danski könnunarleiðangurinn á að slá því föstu hvaða meginlandi neðansjávarfjallgarðurinn - Lomonosovhryggurinn - tilheyrir. Fjallgarðurinn liggur undir Norðurpólnum og er hugsanlega framlenging á Grænlandi og Kanada en jafnframt af Rússlandi og þess vegna er fylgst náið með vísindastarfinu í öllum löndunum. Danskir vísindamenn segja að fljótt á litið sé það kostur fyrir Danmörku að Grænland að hið síðarnefnda liggur næst Norðurpólnum.

Og það gerir herinn líka

Á meðan vísindamennirnir undirbúa nýja könnunarleiðangra er herinn fyrir löngu byrjaður á sinni skipulagningu því að öryggismála- og herstjórnarfræðingar hafa lengi séð í hvað stefndi þegar að framtíð Norðurskautsins kemur.

Í skýrslu frá Varnarmálanefndinni var kafli lagður undir umfjöllun um Norðuskautssvæðin og þar er því haldið fram að Norðurskautið muni fá sífellt meiri alþjóðlega athygli fram til ársins 2025. Því er jafnframt slegið á föstu að aukin umsvif á Norðurskautinu sem búist er við muni fela í sér að Danmörk þurfi í auknum mæli að taka að sér að framfylgja fullveldinu, vera til staðar á svæðinu og sjá um eftirlit.

Þegar Norðurskautsstefnan mun liggja fyrir í endanlegri mynd mun hún leggja áherslu á þörfina fyrir öflugri hernaðarlegri áherslu Danmerkur varðandi Norðurskautið. Dönsk herskip annast nú þegar öflugri gæslu á norðlægustu siglingaleiðunum.

Eins og áður var komið inn á þá hafa þátttakendur í Norðurskautsráðinu sannfært hvern annan um að ákvörðunina um landamærin sem brátt þarf að taka verði ákveðinn á siðmenntaðan hátt við fundarborð - samkvæmt alþjóðlegum reglum - en það getur enginn velkst í vafa um að refskákin um Norðurskautið er á leið inn í afgerandi áfanga þar sem notast er við pólitísk tól, vísindamenn og herinn.

Fundurinn í Nuuk var vísbending um það sem koma skal: Það verður brátt þröng á þingi í Íshafinu.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden