Document Actions

Thomas Larsen

Danir stefna að grænum vexti

Norðurlandabúar hafa árum saman gengið út frá að vöxtur og sjálfbærni væru andstæður. Tvær nýjar afgerandi skýrslur í Danmörku gera ráð fyrir að Danir verði algerlega óháðir jarðefnaeldsneyti og að stefnt verði að grænum vexti.

07/04 2011

Föstudaginn 25. mars sátu 2,4 milljónir Dana límdir við skjáinn til að fylgjast með úrslitunum í hæfileikaþættinum X-Factor. Í miðjum þættinum fékk fréttastofa sjónvarpsins þó „leyfi“ til að senda út fréttir kl. 21:00 og birtist þá tröllaukið gámaskip frá fyrirtækjasamsteypunni A.P. Møller – Mærsk skyndilega á skjánum.

Emma Mærsk heitir skipið og eins og önnur skip í flota þessa heimsþekkta danska skipafélags á það að læra að sigla á umhverfisvænni hátt en hingað til. Í fréttatilkynningu frá höfuðstöðvum skipaútgerðarinnar á Esplanaden í Kaupmannahöfn sagði einn æðsti stjórnandi félagsins, Eivind Kolding, frá því að bónusgreiðslur til hans yrðu framvegis háðar því að hann geti skorið umtalsvert niður koltvísýringslosun.

Bæði hann og aðrir starfsmenn skipaútgerðarinnar lögðu áherslu á að þeir gerðu ráð fyrir að geta sparað á því að fara þessa leið og að þeir stefndu auk þess að því að laða til sín fleiri viðskiptavinum sem í auknum mæli vilja kaupa þjónustu af fyrirtækjum sem vinna að því á virkan hátt að auka sjálfbærni.

Næst var klippt yfir á fulltrúa stórra umhverfissamtaka sem fagnaði tilkynningunni frá A.P. Møller – Mærsk.

Söguleg umskipti

Fögnuður umhverfissinna er skiljanleg. Fyrir aðeins fáum árum hefðu fæstir getað ímyndað sér að hið fræga bláa skipafélag ætti eftir að blómstra sem grænt fyrirtæki, en umskiptin hjá A.P. Møller – Mærsk-samsteypunnar eru langt frá því að vera tilviljun. Skipafélagið hefur gagngert kosið að gangast inn á nýju umhverfis- og loftslagsdagskipunina sem mikill hluti fyrirtækja heimsins fer eftir í dag.

Nils Smedegaard Andersen, sem er æðsti yfirmaður A.P. Møller – Mærsk, notaði mestallan tíma sinn á ársfundi Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) í svissneska fjallabænum Davos í janúarlok í að tala um sjálfbærni. Hið sama gerðu fjölmargir stjórnendur stærstu fyrirtækja heims og iðnaðar og saman sögðu þeir frá því að tímamótaumskipti ættu sér stað.

Án þess að hreykja sér um of er hægt að fullyrða að margir brautryðjendanna eru frá Norðurlöndum þar sem hugmyndin um sjálfbærni sló fyrst í gegn og hefur fest dýpstar rætur, jafnt hjá fyrirtækjum og stjórnmálamönnum.

Á öllum Norðurlöndum vinna þingmenn markvisst að því að setja fram markmið um hvernig baráttan gegn loftslagsbreytingunum, aðgerðir fyrir betra umhverfi og mótun trausts viðskiptaumhverfis geti samræmst sem best. Takist það geta Norðurlönd bæði staðið við og styrkt samkeppnishæfa kosti í nýja græna efnahagslífinu í framtíðinni.

Ný orkustefna

Í Danmörku er þróunin undirstrikuð af því að ríkisstjórn borgaralegra og frjálslyndra undir forystu Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra hefur á undanförnum mánuðum kynnt tvær stórar og mikilvægar áætlanir sem snúast að mestu um sjálfbærni og grænt efnahagslíf.

Fyrr í vor birti ríkisstjórnin skjalið – Orkustefnu 2050 – en í því er meðal annars það markmið að Danmörk verði ekki háð jarðefnaeldsneyti og að orkuaðföngum verði skipt yfir í græna orku.

Í stefnnuni er lýst ýmsum aðferðum til að gera Danmörku að sjálfbæru þjóðfélagi með traust orkuaðföng. Aðeins fram til ársins 2020 á notkun jarðefnaeldsneytis í orkugeiranum að minnka um 33% miðað við árið 2009 og endurnýjanleg orka á að koma í staðinn fyrir jarðefnaeldsneytið. Við þetta bætist að heildarorkunotkunin árið 2020 á að hafa minnkað um 6% miðað við árið 2006 vegna áherslu á betri orkunýtingu.

Um leið og Lykke Friis loftslags- og orkuráðherra leggur áherslu á stefnu stjórnarinnar bendir hún einnig á að ríkisstjórnin hafi þrýst á m.a. Evrópusambandið að gera meiri kröfur um að dregið verði úr koltvísýringslosun bíla, skipa og flugvéla. Og hún sér fram á að rafbílar muni leika aðalhlutverk um leið og rafhlöðutæknin hefur verið bætt en gerir það jafnframt ljóst að nokkur tími muni líða áður en rafbílar hafi lagað sig að orkukerfinu á arðbæran hátt.

Aðlögun tekur tíma

Lykke Friis segir mörg sterk rök hníga að því að árið 2050 verði Danmörk laus við notkun jarðefnaeldsneytis:
Aðlögunin gagnast auðvitað loftslaginu. Við aðlögunina verður Danmörk minna háð þeim löndum sem hafa yfir að ráða olíu og gasi og þannig öðlast Danmörk meira viðskiptafrelsi og verður síður háð vafasömum og óstöðugum harðstjórnum.

Að síðustu mun aðlögunin virka sem vörn gegn gífurlegum verðhækkunum á jarðefnaorku sem búast má við eftir því sem vaxandi fólksfjöldi jarðar sækist eftir meiri orku.
Lykke Friis vísar í því sambandi til talna frá Connie Hedegaard, fulltrúa Dana í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem hefur upplýst að orkureikningur Evrópusambandslanda vegna innfluttrar olíu eingöngu hafi árið 2010 hækkað um 400 milljarða danskra króna.

Í stefnunni er ekki að finna fullkomna áætlun til að vinna eftir til 2050 og það hefur kallað fram gagnrýni frá stjórnarandstöðunni Stjórnmálamenn í stjórnarandstöðu telja að ríkisstjórnin hefði átt að vísa nákvæmar á leiðir að því takmarki að verða ekki lengur háður jarðefnaeldsneyti. Gagnrýnendur átelja ríkisstjórnina einnig fyrir að hafa ekki sett fram nógu metnaðarfullt markmið um aukinn orkusparnað.

Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur Lykke Friis fært fram þau rök að gera verði ráð fyrir að menn finni betri ráð á leið að markmiðinu og þess vegna sé út í bláinn að setja fram nákvæma áætlun til ársins 2050.

Ráðherrann leggur áherslu á að orkusparnaðurinn verði að koma á þeim hraða að bæði húseigendur og fyrirtæki hafi ráðrúm til að aðlaga sig. Og hún nefnir að best sé að draga úr kostnaði með því að velja nýjar orkusparnaðarlausnir þegar hvort sem er þarf að skipta um búnað eða endurnýja byggingar. Sé hraðinn aukinn sé hætta á að búnaður sem virkar vel verði rifinn og það myndi gera aðlögunina óþarflega dýra.

Að lokum stendur hún fast á því að allt frumkvæði verði fjármagnað, að tekið verði tillit til samkeppnishæfni fyrirtækjanna og að aðlögunin megi ekki vera of íþyngjandi fyrir ríkissjóð.

Átökin milli ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu geta þó ekki dregið dul á að svo til allir þingmenn eru sammála um að stefna beri markvisst að því að Danmörk verði minna háð jarðefnaeldsneyti og verði sjálfbær í framtíðinni.

Grænn vöxtur í Vaxtarráði

Nýtt útspil frá ríkisstjórninni sýnir að sjálfbærni er löngu hætt að vera eingöngu á dagskrá síðhærðra hippa og umhverfisruglukolla. Útspilið sýnir að einstök lönd eru nú þegar komin með sjálfbærni á vaxtarstefnu sína.

Nýverið gaf Vaxtarráð ríkisstjórnarinnar út skýrslu þar sem fram koma hugmyndir um nýja vaxtarstefnu fyrir Danmörku. Þeir sem sitja í Vaxtarráðinu – allt frá æðstu yfirmönnum í stærstu fyrirtækjum landsins – mæla með því að stjórnmálamenn fari eftir tíu aðalráðleggingum.

Atriðin tíu eru um „arðbæran grænan vöxt“ og meðal áþreifanlegra tillagna er að nýta skuli betur forskot Danmerkur á orkusviði, og að enn frekar verði stuðlað að því að tryggja afkastameiri orkunotkun.

Í skýrslunni eru endurtekin nokkur atriði frá Orkustefnu 2050 um að með því að hætta að nota jarðefnaeldsneyti og nota í þess stað endurnýjanlega orku verði unnið gegn hnattrænum loftslagsbreytingum og öryggi um aðföng aukist.

Auk þess er því slegið föstu að virkari orkunýting dragi úr hlut orkukostnaðar af þjóðarframleiðslu og muni treysta danskan efnahag gagnvart hækkun og sveiflum orkuverðs.

Áþreifanlega ráðleggingar

Meðal áþreifanlegra ráða frá Vaxtarráðinu er meðal annars þetta:

Íhugað verði að leggja skatt á orku. Það getur meðal annars átt þátt í að stuðla að minnkandi notkun jarðefnaeldsneytis, tryggja meira þjóðhagslega virkni, heilbrigð opinber fjármál, styrkja samkeppnishæfni og átt þátt í að auka endurnýjanlega orku og tryggja áframhaldandi hvata til að auka orkuafköstin.

  • Aukning á orkuafköstum. Staðið verði fyrir aðgerðum til að minnka kostnað við aukningu á orkuafköstum, þar á meðal með því að breyta byggingarstöðlum.
  • Endurnýjanleg orka verður að vera samkeppnishæf við jarðefnaeldsneyti. Því sé hægt að ná með því að neytendur greiði áfram framlag til framleiðslu endurnýjanlegrar orku.
  • Unnar verði langtímaútboðsáætlanir fyrir endurnýjanlega orku til að laða að mikilvæga framleiðendur/fjárfesta, og útboðsaðferðirnar þarf að bæta til að þeir sjái sér hag í því að auka endurnýjanlega orku.
  • Flutningsgetu milli Danmerkur og nágrannalandanna verði að bæta. Danir verði að vinna að því að danski rafmagnsmarkaðurinn verði hluti af samþættum innri orkumarkaði í ESB. Það verður einkar erfitt verkefni að kljást við að fá orku framtíðarinnar byggða á endurnýjanlegri orku, þar sem framleiðslan sveiflast – það gildir einkum um vindorku – og þörf verður fyrir að byggja upp sjálfstýrð rafkerfi og að efla flutningsgetuna, bæði í Danmörku og í ESB.
  • Aukinn áhersla verði lögð á í rannsókna- og þróunarvinnur á orkusviðinu

Í nýjum skýrslum gefur á að líta skýra mynd af tímamótaumskiptum sem einnig hafa leitt til þess að tröllaukin og mengandi gámaskip á heimshöfunum taka nýja stefnu. Ef til vill eru menn ekki sammála um hraðann. En græna stefnan er föst.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden