Document Actions

Markku Heikkilä

Hrein tækni og ný þekking á náttúruauðlindum

Í Finnlandi líta menn nýjum augum á þær auðlindir sem alþjóðavæðingin getur ekki tekið frá þeim eftir að glýjan sem fylgdi hringiðunni um Nokia er runnin af þeim. Framvegis verða Finnar að tryggja velferðina í landinu gegnum hreina tækni - með lífrænu eldsneyti frá skógunum, þekkingu á vatni og málmum. Með því að samtvinna þessa þætti, er áformað leggja grunn að sjálfbæru efnahagskerfi og grænum hagvexti.

07/04 2011

Frá upphafi þessa árs hafa Finnar gert sér grein fyrir að nú hefur ákveðið tímabil í hagsögu landsins runnið sitt skeið. Gríðarlegur vöxtur Nokia fleytti landinu yfir efnahagslægðina í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar. Vöxtur fyrirtækisins og sú staðreynd að það varð stærsti framleiðandi farsíma olli einnig tækniþróun, einkum í upplýsingatækni sem varð máttarstólpi í efnahag Finna og framtíðarvon.

Áhrifa þessa eina fyrirtækis gætti í öllum hagvaxtartölum í Finnlandi, tölum um verga þjóðarframleiðslu, sem og tölfræði um rannsóknir og vöruþróun.

Nú á Nokia erfiðara uppdráttar. Fyrirtækið hefur hafið samstarf við Microsoft og tilkynnt um talsverða fækkun starfsfólks. Þetta á við um starfsemi fyrirtækisins um gervallt Finnland: Helsinki og nágrenni, Tampere, Salo, Oulu. Reyndar vantar eitt smáatriði. Enn hafa ekki borist upplýsingar um hve mörgum starfmönnum verður sagt upp.

Loforð hafa verið gefin um að það verði upplýst fyrir Valborgarmessu, þann 1. maí. Menn geta velt tímsetningunni fyrir sér. Hún er um það bil viku eftir að þingkosningarnar í Finnlandi.

Þannig er hægt að kjósa án þess að þurfa að taka afstöðu til skilaboðanna frá Nokia. Hins vegar skella uppsagnirnar í Nokia einmitt á í miðjum stjórnarmyndunarumræðum, sem menn vænta að verði óvenju erfiðar.

Þegar á heildina er litið er allt útlit fyrir að vorið hafi í för með sér ákveðin umskipti í Finnlandi. Í pólitíkinni virka gömlu spilareglurnar ekki lengur, þökk sé auknum vinsældum flokks Sannra Finna. Útlit er fyrir að hið sama gildi um efnahag þjóðarinnar. Hið fyrirheitna land upplýsingatækninnar mun að öllum líkindum þurfa að horfast í augu við að atvinnutækifærum fækkar í stað þess að fjölga, alla vega um tíma. Framleiðsla í geiranum var mestmegnis flutt úr landi fyrir mörgum árum.

Finnar leita sér að nýrri framtíðarstefnu

Hagtölur sýna ekki nein merki um að neitt óvenjulegt sé á seiði. Þegar öllu var á botninn hvolft fóru Finnar frekar auðveldlega í gegnum efnahagslægðina. Samkvæmt nýjustu tölum stefnir framleiðslan og hagvöxturinn aftur upp á við og það dregur úr atvinnuleysi.

Í Finnlandi leita menn logandi ljósi að lyklum að framtíðinni. Íbúarnir eldast, kostnaðurinn eykst og hagvexti verður að viðhalda til þess að samfélagsjafnan gangi upp. Sjónir æ fleiri beinast að þeim auðlindum sem ekki er hægt að flytja úr landinu. Um er að ræða skóga, vatnsföll og málma og markmiðið er að skapa eitthvað nýtt úr þessum auðlindum.

Fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2011 eru skínandi dæmi um þetta, en Mari Kivininiemi, forsætisráðherra lagði þau fram í ágúst. Í fjárlögunum var markmiðið „sjálfbært hagkerfi sem tekur tillit til umhverfisins“ og forsætisráðherrann viðhafði eftirfarandi að ummæli um þau:

„Stefna á grænt hagkerfi lóðsar Finnum yfir komandi áratugi í hreinna landi sem mengar minna. Þekking okkar og náttúruauðlindir munu lyfta okkur efst á lista alþjóðlegrar þróunar. Græn efnahagstefna opnar okkur tækifæri til að ná árangri á þeim mörkuðum.“ sagði hún skýrt.

Þetta er opinbera stefnan í hnotskurn. Ný umhverfistækni grundvölluð á finnskri þekkingu sem opnar nýja markaði og skapar vöxt í landinu - grænan vöxt.

Kjarnorka sem kosningamál

Fyrir kosningarnar í apríl hefur ekki verið mikið rætt um grænt hagkerfi. Flokkur Sannra Finna hafa rekið herferð á móti umhverfissköttum, vegna þess að þeir leiði til aukins kostnaðar í Finnlandi. Í aðdraganda kosninga hafa umræðurnar snúist um allt önnur málefni en sjálfbæra þróun hagkerfisins - að frátöldum umræðum sem hafa átt sér stað um kjarnorku.

Hamfarirnar í Japan ollu því að kjarnorkan varð einnig að kosningamáli og stjórnmálamennirnir gæta orða sinna. Enn er of snemmt að segja fyrir um hver áhrif áfallið í Japan mun að endingu hafa á stefnu Finna í orkumálum, þar sem kjarnorka hefur leikið veigamikið hlutverk.

Í Finnlandi er meira rætt um náttúruauðlindir en gert hefur verið um alllangan tíma, og í þetta skipti er það í tengslum við sjálfbært efnahagskerfi. Hinn þýðingarmikli fjárfestingasjóður fyrirtækja og nýsköpunar, Tekes (þróunarmiðstöð tækni og nýsköpunar) hefur einmitt sett þessi mál (náttúruauðlindir og sjálfbært efnahagskerfi) í brennidepil. Stefnt er að betri orku- og hráefnisnýtingu, endurnýjanlegum orkugjöfum, nýjum lausnum fyrir skóg og lífrænt eldsneyti, nýtingu málma og lausnum fyrir sjálfbæra nýtingu vatns.

Nú er leitað eftir nýjum fyrirtækjum á þessum sviðum. Sjálfbær þróun er talinn jákvæður samkeppnisþáttur. Það er ekki lengur litið á timbur með augum pappírs- og sellulósaiðnaðar, heldur sem hluta af ímynd og endurnýjanlega náttúruauðlind. Aukin áhersla hefur beinst að „Cleantech“ iðnaði, hreinni umhverfis- og orkutækni sem nýjum framtíðargeira.

Ríkið beinir um þessar mundir í auknum mæli áherslu og styrkjum í þá átt, í þeirri von, að atvinnulífið fylgi og að til verði ný fyrirtæki. Og árangurinn lætur ekki á sér standa. Þegar eru dæmi um mörg fyrirtæki sem hafa skapað sér tækifæri innan cleantech-iðnaðar. Þrátt fyrir að vegferðin sé aðeins um það bil að hefjast.

Þó í Finnlandi sé nóg af vatni, og það er mikill skortur á því í veröldinni í dag. Nýting vatns, vatnsvernd og þekking á vatni eru svið sem æskilegt þykir að gera sér mat úr. Þar með talið er tilraun til þess að gera hreint vatn að einum mikilvægasta hornsteini „vörumerkisins Finnland“.

Allt tengist þetta því markmiði sem Finnar hafa sett sér ásamt ESB um að auka til muna hlut endurnýjanlegra orkugjafa, einkum lífræns eldsneytis. Óskandi væri að færri ljón væru á veginum að umhverfismarkmiðunum. Innleiðingin á nýju E 10- bensíni með etanóli lukkaðist vægast sagt illa og leiddi fremur til aukinna efasemda en umhverfismeðvitundar meðal ökumanna.

Umræður um millibilshagkerfi

En Finnar ráða ekki öllu. Aukin áhersla er lögð á aðgengi að málmum, en finnsk námufyrirtæki voru nánast þurrkuð út af kortunum á tímabili þar sem allt útlit var fyrir að námuvinnsla ætti ekki framtíð fyrir sér í Finnlandi. Nú bregður hinsvegar svo við að eftirfarandi fréttatilkynningar berast frá atvinnu- og iðnaðarráðuneytinu: „Finnland hefur mikið aðdráttarafl sem land aukinnar námuvinnslu“.

Nánast öll virk námufyrirtæki í Finnlandi um þessar mundir eru erlend. Þetta hefur leitt til umræðu um hvort málið snúist um einhverskonar millibilshagkerfi - einkum ef hráefnið kemur einungis úr námum í Finnlandi en öll úrvinnsla fer fram annars staðar. Í Lapplandi, hefur til dæmis norska fyrirtækið Yara uppi áform um námavinnslu á fosfati til þess að flytja það yfir landamærin til Rússlands. Umræður um þetta hafa verið heitar á svæðinu.

Ríkisstjórnin hefur velt fyrir sér þörfinni á að stofna nýtt námafyrirtæki í ríkiseign. Hvað sem því líður hefur tekist að koma á laggirnar mikilsverðu námafyrirtæki: Stóru nikkelnámunni í Talvivaara i Kajanlandi. Þetta fyrirtæki býr sig undir að hagnýta nýja aukaafurð, nánar tiltekið úran.

„Sökum þess að notkun úrans eykst um víða veröld telur stjórn Talvivaaras að úran geti reynst varanleg tekjulind fyrir fyrirtækið“ stóð í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu í febrúar.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden