Document Actions

Markku Heikkilä

Finnar beina sjónum til norðurs

Augu manna í Helsinki beinast að Norðurskautinu og samtímis hefur brennidepill utanríkistefnunnar víkkað með greinilegu norrænu sjónarsviði.

29/11 2010

Umboð sitjandi ríkistjórnar í Finnlandi er að renna sitt skeið. Þingkosningar munu fara fram í apríl og aukins taugatitrings gætir í stjórnmálunum í Finnlandi. Allt útlit er fyrir að hefðbundið munstur raskist. Lýðskrumflokkur Sannra Finna hefur samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana aukið fylgi sitt allt að 15 prósentum. Á núverandi þingi nýtur flokkurinn aðeins stuðnings 4 prósenta kjósenda.

Aðgerðirnar til bjargar þeim þjóðum Evrópusambandsins sem hvað harðast hafa orðið úti í kreppunni, Grikklandi og Írlandi, hafa reynst Finnum dýrkeyptar og á sviði stjórnmálanna bitna þær hvað harðast á stjórnarflokkunum. Há framlög til útlanda teljast ekki sérlega efnileg kosningaloforð. Harkaleg gagnrýni á ESB er meginboðskapur flokks Sannra Finna.

Ný staða mun óhjákvæmilega setja mark sitt á kosningabaráttuna, en ennþá getur enginn getið sér til um hver áhrifin munu verða í reynd. Fram til þessa er allt útlit fyrir að kosningarnar muni alls ekki snúast um aðild að Nató eins og talið var víst. Það lítur út fyrir að fjarað hafi undan umræðum um aðild Finna að varnarbandalaginu. Í utanríkismálum virðast engin ný verkefni í sjónmáli vegna þess að enn berjast menn við að uppfylla þau markmið sem þegar hafa verið sett.

Rússar gefa taktinn

Hins vegar spyrja Finnar sig - ekki í gamni heldur alvöru - hvor þjóðin muni, þegar allt kemur til alls, verða fyrri til að fá aðild að Nató: Finnar eða Rússar? Ráðandi aðilar í utanríkismálum Finna hafa brosað út að eyrum af stakri ánægju að loknum leiðtogafundinum í Lissabon í nóvember: Bætt samskipti Rússa við Nató og ESB koma Finnum einnig til góða.

Þróunin helst í hendur við að Finnar hafa verið virkari en venju samkvæmt í sambandinu við Rússa. Hver heimsókn æðstu embættismanna hefur fylgt annarri og það lítur út fyrir að persónulegt samband leiðtoga þjóðanna sé á góðum nótum. Viðskiptin blómstra á ný, fjöldi veittra vegabréfaáritana nálgast milljón og bráðlega verður ný hraðlest á milli Helsinki og Pétursborgar tekin í notkun.

Finnar hafa samþykkt fjölda aðgerða til þess að bæta samskipti Evrópusambandsins og Rússa. Mikilvægustu raunverulegu markmiðin fjalla um fríverslun, með öðrum orðum að Rússar verði aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, WTO, og að ekki þurfi lengur að sækja um vegabréfaáritun til þess að ferðast á milli ríkja ESB og Rússlands. Það er einkum Alexander Stubb, utanríkisráðherra sem hefur vakið máls á því að aflétta kröfunni um vegabréfsáritun, en áður en af því verður þarf að leysa fjölda ágreiningsefna.

Hvað utanríkismálin varðar eru þó fjölda mörg mál sem virðast lifa eigin lífi og í aðdraganda kosninga kæra fáir sig um að grípa til róttækra aðgerða. Umræðurnar um að styrkja sanstarf norrænu ríkjanna í varnamálum hafa ekki hlotið neinn sérstakan byr. Enn fjarlægari virðast málefni SÞ þrátt fyrir að Finnar stefni beinlínis að því að verða aðilar að öryggisráðinu á tímabilinu 2013-14.

Umfjöllun Finna um ESB hefur, bæði meðal borgara og stjórnmálamanna, einkennst einna helst af umræðum um ábyrgð Finna og kostnað. Sviðsljósin beinast einkum að þessu vegna þess að Finninn Olli Rehn er framkvæmdastjóri efnahagsmála bandalagsins. Hiti umræðnanna skapast af þrýstingi í innanríkismálum í Finnlandi vegna kosninganna. Áhyggjur af því að ekki verði hægt að stemma stigu við kreppunni á evrusvæðinu hafa að sjálfsögðu líka áhrif.

Ný stefna í málefnum Norðurskautsins

Upp á síðkastið hefur utanríkisstefna Finna leitað nýrra afgerandi mála í norðri. Það hefur hrundið af stað miklum breytingum á skömmum tíma Stubb, utanríkisráðherra tilkynnti fyrir ári síðan, í september 2009, að Finnar myndu leggja drög að sérstakri stefnu í málefnum Norðurskautsins. Stefnan var fullmótuð í júlí 2010.

Markmiðið er að Finnar verði leiðandi afl innan ESB í málefnum Norðurskautsins. Um leið taka Finnar að sér að gegna hlutverki sem þeim hefur greinilega verið boðið. Sem dæmi um það má nefna að vara talsmaður Evrópuráðsins, hin breska Diana Wallis, sem sýnt hefur málefnum Norðurskautsins sérstakan áhuga, hefur hvatt Finna til þess að vera talsmenn fyrir málefni Norðurskautsins í ESB. Utanríkisráðuneytið hefur tileinkað sér hugmyndina af eldmóði.

Eitt meginmarkmiðið í nýju stefnunni er að efla hlutverk Norðurskautsráðsins, sem átta þjóðir eiga aðild að. Það er í rökréttu samhengi við markmið framkvæmdastjórnar ESB um að eiga fasta áheyrnarfulltrúa í ráðinu. Það hefur reynst erfitt að koma þessu í gegn, vegna þess að þjóðirnar sem nú þegar eiga fulltrúa í ráðinu eru alls ekki sammála þeirri tillögu.

Finnar hafa einnig lagt til að Norðurskautsráðið efni til leiðtogafundar til þess að styrkja sérstöðu ráðsins. Tilgangurinn er að bjóða leiðtogum Bandaríkjanna og Rússa auk leiðtoga Norðurskautþjóðanna. Upphafleg hugmynd Stubb utanríkisráðherra vara að boða til fundarins næsta sumar í Rovaniemi í Lapplandi, en tímasetningunni verður allavega nauðsynlegt að breyta því enn hefur engin ákvörðun verið tekin um málið. Danir gegna formennsku í Norðurskautsráðinu fram á vor og eftir það taka Svíar við næstu tvö árin, en leiðtogafundurinn er að frumkvæði Finna.

Tillagan um að opna upplýsingamiðstöð Evrópusambandsins um Norðurskautið í tengslum við Norðurskautsmiðstöð Háskólans í Lapplandi i Roveniemi hefur veitt áætluninni nýjan byr. Bæði Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB hafa fjallað hefur um erindið en engin ákvörðun hefur enn verið tekin innan sambandsins.

Samkvæmt þriðju tillögunni í stefnunni á að færa aðalræðismannaskrifstofu Finna til Múrmansk en nú heyrir sú skrifstofa undir aðalræðismannaskrifstofuna í Pétursborg. Tilgangurinn með þessu er að skýra stöðu Finna gagnvart nágrönnunum í Múrmansk, Norðmönnum, og um leið að auðvelda finnskum iðnaðarfyrirtækjum að nýta sér tækifærin sem fyrst og fremst eru á rússneska hluta Barentsvæðisins.

Hagsmunir heima fyrir skipta máli

Hnattrænt mikilvægi Norðurskautsins er hraðvaxandi. Strandþjóðirnar á svæðinu leika meginhlutverkin og Finnar eru ekki meðal þeirra. Af þeim sökum reyna Finnar að skipa sér afgerandi stöðu á svæðinu á annan hátt.

Meðal þess sem rætt er um í Finnlandi er hvernig hægt væri að bæta samgöngur til Íshafsins. Lögð hafa verið drög að nýjum járnbrautatengingum við Kolaskagann í átt að Kirkjunesi og Tromsö, en hætt er við að langur tími líði áður en þær hugmyndir verða að veruleika.

Málefni Norðurskautsins skjóta æ oftar upp kollinum í ræðum æðstu embættismanna Finna í utanríkismálum: Forsetinn, forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann. Tarja Halonen forseti Finna, stóð í lok nóvember fyrir sérstakri Norðurskautsráðstefnu og þar áttu sér stað opinberar umræður sem nutu mikillar athygli. Stubb utanríkisráðherra hefur lagt fram tillögu um samstarf Finna og Rússa um málefni Norðurskautsins.

Fyrir aðeins ári síðan hefði mátt leita með logandi ljósi að álíka áherslum. Samt sem áður liggja eldri aðgerðir að baki þessarar þróunar. Fyrir rúmlega tíu árum síðan áttu Finnar frumkvæði að því að móta stefnu um Norrænna vídd innan ESB og fyrir um það bil tuttugu árum síðan voru Finnar drifkrafturinn í að koma á samstarfinu sem síðar leiddi til þess að Norðurskautsráðinu var komið á.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden