Document Actions

Thomas Larsen

Samvinna styrkir stöðu Norðurlanda í heiminum

Lengi vel hafa þetta fyrst og fremst verið innantóm orð í skálaræðum. En ný tillaga að umræðum um utanríkis- og öryggismálastefnu Danmerkur sýnir fram á að aukið norrænt samstarf er ein leiðin til að komast til áhrifa á alþjóðavettvangi.

06/12 2010

Með nýrri umræðutillögu ýtir Lene Espersen úr vör mikilvægri umræðu um utanríkis- og öryggismálastefnu Danmerkur áratuginn sem framundan er. Tillagan hefur fengið titilinn „Stefna fram til ársins 2020: Dönsk utanríkisstefna á nýrri siglingu“, og í fyrstu línunum eru dregin upp verkefnin sem takast þarf á við.

Fólksfjöldi í heiminum er nú um sjö milljarðar en á næsta áratug mun fólki fjölga upp í tæpa átta milljarða – það auðveldar ekki beinlínis litlu landi með aðeins 5,5 milljón íbúa að láta til sín taka í heiminum.

Engu að síður er það tilgangurinn með tillögunni og á það er bent með nokkru sjálfsöryggi varðandi utanríkismál að Danir láti nú þegar til sín taka í Afganistan, í baráttu við sjóræningja við strendur Sómalíu, í þeim þróunarlöndum þar sem Danir hafa hjálpað þúsundum frá fátækt og með því að starfa í alþjóðlegum samtökum eins og Evrópusambandinu, Sameinuðu þjóðunum, Alþjóðaviðskiptastofnuninni og Atlantshafsbandalaginu.

Kjarni málsins er þó að framvegis verður erfiðara að berjast fyrir dönskum hagsmunum í heimi sem er mótaður af átakamiklum valdatilfærslum. Eða eins og það er orðað:

„Þátttakendum fjölgar. Keppnin um alþjóðleg áhrif harðnar – einnig innan ESB eftir því sem aðildarþjóðum fjölgar. Vandamálin verða sífellt flóknari og ófyrirsjáanlegri. Við erum á leið inn í áratug þar sem Danmörk verður æ minni fiskur í sífellt stærra hafi.“

Sex brýn verkefni að kljást við

Samkvæmt tillögunni er um að ræða sex alþjóðleg grunnverkefni sem danskri utanríkis- og öryggismálastefnu er ætlað að takast á við:

  1. Róttækasta breytingin er valddreifingin Hún skapar kraft og nýja möguleika en ógnar jafnframt stöðu Evrópu. Einkum ef ESB tekst ekki fljótlega að tala einni röddu sem aðilar sambandsins og keppinautar taka mark á.
  2. Heimurinn verður ófyrirsjáanlegri vegna nýrra aðila sem njóta góðs af alþjóðlegri valddreifingu. Hvað Dani varðar þá kallar valddreifing á umbætur og ákveðnari alþjóðlegar leikreglur en lítið land eins og Danmörk kemst ekki hjá að virða lögmæti þeirra. Þetta á við m.a. Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðaviðskiptastofnunina.
  3. Ný vaxandi efnahagssvæði – einkum og sér í lagi svokölluð BRIK-lönd, þ.e. Brasilía, Rússland, Indland og Kína – munu þenjast út með methraða, og það krefst traustara samstarfs við aðildarríki ESB og gegnum tvíhliða sambönd.
  4. Nýjar ógnir gera það nauðsynlegt að við getum verið sveigjanleg og geti staðið í aðgerðum fjarri eigin landamærum. Danir búa yfir reynslu vegna áralangrar þátttöku sinnar á alþjóðasviði og verða að axla sérstaka ábyrgð á því að breiða út sérstakt sambland borgaralegra og hernaðarlegra lausna sem eru nauðsynlegar á átakasvæðum.
  5. Evrópu almennt en einkum Danmörku er hætt við lágum hagvexti. Það er þörf á styrkingu efnahagslífsins og nýjum vaxtar- og atvinnuumbótum bæði í Danmörku og ESB.
  6. Það þarf að standa vörð um vestræn gildi. Ekki styðja allir lýðræði og mannréttindi.

ESB er málið

Í samræmi við þær leikreglur sem nú gilda í utanríkis- og öryggismálastefnu Danmerkur beinist nýja tillagan að því að ESB verði einnig aðalmálið framvegis.

„Í heimi breytinga og engrar ákveðinnar stefnu er ESB mikilvægara fyrir Danmörku en nokkru sinni og er nú mikilvægasta stefnumörkunin við framkvæmd danskrar utanríkisstefnu.“

Af sömu ástæðu skiptir sköpum að ESB sýni nauðsynlegan myndugleika framvegis.
„Sú mynd má ekki festast í sessi að Evrópa sé dekrað og veruleikafirrt meginland, heft af gömlum hefðum, kraftleysi, fólksfækkun og standandi vörð um hefðbundin forréttindi,“ segir í skjalinu.

Forsendurnar fyrir því að breyta þessari mynd er að ESB fari nú að koma fram sem einn aðili að alþjóðasamfélaginu og tali einni röddu. Þetta á við í fjölþjóðlegum stofnunum, fyrst og fremst Sameinuðu þjóðunum þar sem þörf er á sterkri evrópskri rödd þegar um er að ræða hvernig takast skuli á við loftslagsbreytingar, baráttu gegn fátækt og baráttu fyrir allsherjarréttindum.

Auk þess verður ESB að tryggja sér áhrif í nýjum alþjóðlegum valdamiðstöðvum og -klúbbum, svo sem G20, sem er hópur 20 fjármálaráðherra og seðlabankastjóra, en í þeim hópi var mikill hluti alþjóðlegrar samvinnu um efnahagskreppuna samræmdur.

Innan ESB verður Danmörk að búa sig undir framtíð með meira en 30 aðildarlöndum í ESB árið 2020 þar sem ákvarðanir verða æ oftar teknar óformlega. Samkvæmt tillögunni á dönsk hagsmunagæsla því að vera sívirk, tvíhliða og í hverju máli fyrir sig.

Meðal þess sem kemur fram í tillögunni er þessi fullyrðing: „Við verðum að leita og nýta sameiginlega hagsmuni sem munu koma upp þvers og kruss í evrópsku samstarfi sem verður stöðugt fjölbreyttara. Það krefst þekkingar á stöðu hvers ESB-lands fyrir sig og skilningi á gæslu allra hagsmuna ESB.“

En því aðeins tekst þetta að Danmörku takist að eiga áfram bandalag við hefðbundin bandamenn, m.a. í samstarfi Norðurlanda sem árið 2020 gætu hugsanlega verið búin að „ná saman“ í ESB, eins og stendur í plagginu. Auk þess verður Danmörk að sjálfsögðu að eiga áfram bandalag með ESB-ríkjum í Mið-Evrópu og ríkjum á Eystrasaltssvæðinu, en það ásamt öðru mun krefjast aukins samstarfs milli Norðurlanda og Eystrasaltslanda.

Aukið norrænt samstarf

Aðalmálið er að norrænt samstarf verði ekki aðalatriðið í utanríkis- og öryggismálastefnu Danmerkur. Það er eftirtektarvert að í plagginu sér Lene Espersen fyrir sér norrænt samstarf sem raunverulegt og nothæft tæki fyrir Danmörku við að gæta hagsmuna utanríkis- og öryggismálastefnu sinnar framvegis.

Þar með er hægt að rekja þráðinn í fjölda greininga og skýrslna sem á síðari árum hafa verið gefnar út um möguleika á að auka alþjóðlegan slagkraft Norðurlanda með nánara samstarfi innbyrðis.

Søren Gade, fyrrverandi varnarmálaráðherra Dana, var einn þeirra sem skrifaði í sumar nýja skýrslu sem benti á kostina við aukið samstarf milli Norðurlanda og Eystrasaltslanda. Hann færði rök fyrir því að Norðurlönd og Eystrasaltslöndin gætu fengið meiri áhrif og áhrifamátt með því að standa saman svæðisbundið.

Skýrslan kom út í tengslum við fund utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltslanda og á þeim fundi var almenn samstaða um að aukin samvinna væri nauðsynleg til að standa vörð um hagsmuni svæðisins.

- Við sjáum fyrir okkur að nýtt heimsskipulag verði til þar sem nýir aðilar sem búa á sama svæði hagnist mikið á því að standa saman, sagði Lene Espersen og hinir norrænu utanríkisráðherrarnir tóku í sama streng. 

Margir leggja til að það sé vel til fundið að Norðurlönd og Eystrasaltslöndin styrki samstarfið frekar árið 2011 þegar Eystrasaltslönd fagna 20 ára sjálfstæðisafmæli.

Danski utanríkisráðherrann sér einnig góð tækifæri í að efla samstarf Norðurlanda varðandi Norðurskautssvæðið. Danir hafa nýlega gert samkomulag við Grænlendinga og Færeyinga um að vinna að sameiginlegri áætlun um framfylgd yfirráðaréttar á Norðurskautssvæðinu, björgunaraðgerðir á hafi, skipaumferð og forvarnir gegn olíuslysum.

Mat Lene Espersen er að þessa áætlun eigi að efla með auknu alþjóðlegu samstarfi, m.a. með hinum norrænu löndunum. Hún bendir jafnframt á að einmitt samstarfið um öryggi á Norðurskautssvæðinu sé einn meginþátturinn í skýrslu Thorvalds Stoltenberg frá árinu 2009. 

Skýrslan, sem er orðin lykilskjal í norrænu samstarfi, mælir með efldu norrænu samstarfi í utanríkis- og öryggismálum.

Frá skálaræðum til framkvæmda

Með öðrum orðum er nú hægt að koma auga á hreyfingu í umræðunni frá skálaræðum í átt að áþreifanlegum framkvæmdum sem geta breitt úr sér á ýmsum sviðum.

Í árbók Norrænu Ráðherranefndarinnar „Einn fyrir alla og allir fyrir einn – nýtt norrænt varnarsamstarf?“ beindi Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra, athyglinni að brýnum verkefnum varðandi Norðurskautssvæðið og benti á að þetta svæði yrði mikilvægt í framtíðinni.

Með öflugu starfi í styrktu Norðurskautsráði mun Danmörk ekki aðeins geta eflt samstarfið við hin norrænu löndin heldur mun einnig geta unnið náið með sterkum Atlantshafsbandalagsríkjum sem eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta eins og Bandaríkjunum og Kanada, jafnframt því sem hægt verður að rækja tengslin við Rússland.

Frá hinum virta fyrrverandi ráðherra í utanríkismálum kemur almenn hvatning til Norðurlanda að taka höndum saman, en alltaf innan ramma evrópskrar samvinnu og NATO.

Hin nýja tillaga Lene Espersen um utanríkis- og öryggismálastefnu Dana í framtíðinni inniheldur sama hugsanagang og fetar í sömu spor.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden