Document Actions

Markku Heikkilä

Atvinnuleysissprengja tifar

Stærsta einstaka útflutningsvara í sögu Finnlands kom í byrjun nóvember að brúnni yfir Stóra Beltið. Hið tröllvaxna Oasis of the Seas, heimsins stærsta skemmtiferðaskip, er 72 metrar á hæð en hæðin frá yfirborði vatnsins og upp í brúarloftið er aðeins 65 metrar. Í fréttatímum um víða veröld var varpað út myndum af því hvernig súperskipið lækkaði reykháfinn og rann undir brúna án þess að snerta hana.

26/11 2009

Stærsta einstaka útflutningsvara í sögu Finnlands kom í byrjun nóvember að brúnni yfir Stóra Beltið. Hið tröllvaxna Oasis of the Seas, heimsins stærsta skemmtiferðaskip, er 72 metrar á hæð en hæðin frá yfirborði vatnsins og upp í brúarloftið er aðeins 65 metrar. Í fréttatímum um víða veröld var varpað út myndum af því hvernig súperskipið lækkaði reykháfinn og rann undir brúna án þess að snerta hana.

Stolt finnska útflutningsiðnaðarins sigldi hraðbyri út á opið haf og kúrsinn var settur í átt að Karabíska hafinu. Í slippnum í Turku þar sem skipið er byggt, var 400 manns sagt upp tveimur vikum síðar. Að lokinni byggingu lúxusfleysins var ekki um fleiri pantanir að ræða.

Innst í Finnlandi er bærinn Varkaus og í honum búa rúmlega 20.000 manns. Lífæð bæjarins og íbúanna hefur, þau áttatíu ár sem bærinn hefur verið til, verið pappírs- og massaiðnaðurinn. Í orðsins fyllstu merkingu, vegna þess að verksmiðjurnar eru í staðsettar í bænum miðjum.

Verksmiðjurnar í Varkaus eru hluti af fyrirtækjasamsteypunni Stora Enso, í meirihlutaeigu finnska ríkisins og sænsku fjölskyldunnar Wallenberg. Í júní sl. tilkynnti fyrirtækið að verksmiðjunum í Varkaus yrði lokað nema kringumstæður á markaðnum breyttust verulega.

Atvinnulíf á svæðinu öllu á allt sitt undir timburiðnaðinum. Verði verksmiðjunum lokað hverfa þúsundir starfa, með öllum aukaverkunum sem því fylgir og atvinnuleysið í Varkaus verður á milli 30 og 40 prósent. Það væri finnskt met, vegna þess að aldrei nokkurn tíma, ekki einu sinni á tímum verstu kreppunnar í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar hefur annað eins gerst. Varkaus gæti orðið dýrasta minnismerkið um forna frægð finnska timburiðnaðarins. Fyrirtækin í iðnaðinum halda þrátt fyrir það áfram rekstri, á heimsmarkaði beina þau fjármagni sínu einna helst til Suður-Ameríku.

Iðnaðurinn á ennþá undir högg að sækja

Efnahagskreppan heldur áfram að valda skaða víðsvegar um Finnland. Frá útflutningsiðnaðinum hefur hún breiðst út í aðra geira, til þjónustugeirans og inn í opinberan rekstur.

Atvinnuleysið var enn undir átta prósentum í september en allir vænta þess að það fari yfir tíu prósent þegar líður á veturinn. Í verstu spám er meira að segja talið að það verði 14 prósent.

Áhrif alls þessa bitna enn ekki á framfærslu fólks. Atvinnuleysisbætur eru tekjutengdar í Finnlandi og tryggja næstum því óbreyttar tekjur í allt að 500 daga eftir að fólk missir vinnuna. Eftir það lækka bæturnar. Þeir sem misst hafa vinnuna sökum efnahagskreppunnar eru ennþá á tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Stærsta vandamálið vegna framfærslunnar er framundan ef atvinnuleysið verður viðvarandi.

Það sem er nýtt er að atvinnuleysi meðal karla hefur vaxið hratt. Áhrifa efnahagskreppunnar gætir einna helst í þeim greinum þar sem meirihluti starfsmanna eru karlar, eins og í útflutningsiðnaðinum en þaðan berast aðeins slæmar fréttir, dag eftir dag. Stór hluti af útflutningsiðnaði Finna felst í framleiðslu fjárfestingavöru, sem ekki er lengur nein eftirspurn eftir, vegna þess að iðnaðurinn í löndum kaupendanna fjárfestir ekki lengur.

Þar að auki hafa mörg fyrirtæki sent starfsfólk sitt í leyfi. Líkur eru taldar á, að þegar líða fer á veturinn, muni þetta starfsfólk fá skilaboð um að það sé orðið atvinnulaust. Í smíði er tímasprengja og útgjöld samfélagsins vegna hennar munu ekki koma í ljós fyrr en að nokkrum tíma liðnum.

Mismunurinn á tekjum eykst dag frá degi. Tölfræðin er frá því fyrir efnahagskreppan skall á, en þegar árið 2007 tilheyrðu 13,5 prósent Finna hópi lágtekjufólks. Stærsti hluti hópsins voru ellilífeyrisþegar, næst fjölmennasti hlutann fylltu námsmenn og atvinnulausir. Nú má búast við að hlutfall atvinnulausra í hópi lágtekjufólks vaxi umtalsvert. Á miðjum tíunda áratugnum tilheyrðu um það bil fjögur prósent allra finnskra barna fjölskyldum í hópi láglaunafólks, árið 2007 var hlutfallið orðið nær 14 prósent.

Í samanburði við önnur lönd í Evrópu er munurinn á launum lítill, en samt meiri en í Svíþjóð, Noregi og Danmörku. Samkvæmt útreikningum hefur gjáin á milli þeirra sem hafa lægstu launin og hinna breikkað hraðar en í nokkru öðru landi í OECD á sama tíma.

Biðraðirnar eftir brauðinu lengjast

Áhrif efnahagskreppunnar á finnskt samfélag eru hvorki jafn átakamikil né sýnileg og þau voru á tíunda áratugnum þegar allt snarstansaði. Til allrar hamingju eru vextirnir lágir, og skuldsetning viðráðanleg en þannig var ástandið ekki á tíunda áratugnum. En það er enn ekki hægt að koma auga á neina leið út úr kreppunni. Líklega munu ýmiskonar vandræði enn aukast um leið, í kjölfar aukins atvinnuleysis.

Samkvæmt síðasta samanburði fóru Finnar fram úr Dönum hvað varðar neyslu áfengis árið 2008. Ástæður breytinganna komu ekki fram í rannsókninni sem var gerð áður en efnahagskreppan skall á. Aukið atvinnuleysi mun að öllum líkindum ekki draga úr áfengisneyslunni og nú þegar eru sjúkdómar sem ofneysla áfengis valda algengari í Finnlandi en í öðrum norrænum ríkjum.

Biðraðirnar eftir brauðinu hafa um hríð tilheyrt hinum niðurdrepandi hluta finnska velferðarkerfisins. Kirkjurnar, samtök atvinnulausra, Hjálpræðisherinn og fleiri slíkar stofnanir hafa úthlutað ókeypis matargjöfum sem ýmsir hafa þurft að gera sér að góðu, líka í góðærinu. Nú hafa þessar biðraðir alls staðar lengst. Greinilegt er að böl fátæktarinnar lætur ekki á sér standa.

Fátæktin leggst þyngst á langtímaatvinnulausa og fjölda ellilífeyrisþega, einstæða og námsmenn. Atvinnuleysi meðal unga fólksins, mismunandi eftir svæðum, er nálægt 20 prósentum. Ekki er hægt að fá tekjutengdar atvinnuleysisbætur hafi maður aldrei haft neinar tekjur.

Flest ungt fólk er í námi, reynir að fá sér atvinnu og lifa venjulegu lífi. En það á ekki við um alla. Fram hefur komið að nærri lætur að 40.000 Finnar á aldrinum 16 til 24 ára hafa fallið bæði úr skóla og úr atvinnu. Þeir eru „horfnir“ einhversstaðar og enginn virðist vita hvert. Misnotkun fíkniefna og brostin trú á lífið og tilveruna er algeng meðal fólks í jaðarhópunum. Síðasta varnarnet samfélagsins fiskar svo sannarlega flesta upp, en við blasir að þeir þurfa að framfleyta sér á lágum framlögum frá félagslega kerfinu. Gjáin á milli jaðarhópanna og virkra borgara breikkar, vegna þess að kröfurnar um þekkingu og virkni í samfélaginu aukast í sífellu.

Lágtekjufólki fjölgar

Meira að segja ungt, menntað fólk sig getur horft öfundaraugum til kynslóðar foreldra sinna, sem fengu varanlega atvinnu. Nú til dags fær ungt fólk nánast eingöngu afleysingastörf, tímabundna samninga eða hlutastörf og óvissa framtíð.

Sem dæmi um þetta má nefna Oulu, nútímaborg í Norður-Finnlandi, með 130.000 íbúa, háskóla og tækniiðnað sem allir eru stoltir af. Borgin vex og atvinnuleysið að sama skapi. Um það bil 9.000 íbúar í Oulu eru atvinnulausir og nokkur þúsund þeirra eru ungir.

Þessi stóra borg með mörg menntatækifæri hefur lokkað til sín fjölda fólks frá öðrum hlutum Norður-Finnlands en nú er erfiðleikum bundið að finna vinnu þar. Menn leita örvæntingarfullir leiða til þess að lækka atvinnuleysi meðal unga fólksins, sem er hæst í landinu í Oulu, en það getur reynst erfitt að breyta raunveruleikanum með einu pennastriki. Fyrirtækin ráða ekki lengur til sín fólk og opinberi geirinn berst í bökkum við að draga úr kostnaði og reynir að fækka fólki fremur en að greiða fleirum laun. Þrátt fyrir þetta er götumyndin eins og venjulega: fátæktin í Finnlandi er afstæð, utanaðkomandi verða ekki varir við hana.

Í Helsinki er farið að bera talsvert á muninum á milli hverfa eftir ríkidæmi, félagslegum bakgrunni og þjóðerni íbúanna. Þetta fyrirbæri er ekki jafn greinilegt annarsstaðar í landinu

Atvinnuleysi meðal innflytjenda var tvöfalt hærra en meðal innfæddra Finna áður en efnahagskreppan skall á. Kringumstæður þeirra er einnig lakari vegna þess að hægt hefur verulega á atvinnulífinu. Um leið verður einnig erfiðara að aðlagast finnsku samfélagi. En þetta fyrirbæri er heldur ekki svo greinilegt í Finnlandi vegna þess að fjöldi innflytjenda í Finnlandi er miklu lægri en í annars staðar á Norðurlöndum.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden