Document Actions

Eva Franchell

Eitt af hverjum tíu börnum í Svíþjóð býr við fátækt

Við Stureplan í Stokkhólmi kostar handtaska enn 10.000 sænskar krónur. Þarna í miðri höfuðborginni finna menn lítið fyrir áhrifum alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Verslunareigendur gera ráð fyrir metsölu fyrir jólin. Inn á veitingahúsin við Stureplan streymir fallega fólkið eins og ekkert hafi í skorist og fær sér sushi eða salat. Þetta eru markaðsfræðingarnir og auglýsingafólkið sem dregur upp þá mynd í sænskum fjölmiðlum að kreppunni sé lokið. En margir Svíar vita betur. Í þeirra lífi er kreppan rétt að byrja.

26/11 2009

Þrjár svipmyndir frá Svíþjóð rétt fyrir jólin 2009:

*Í Rósagarðinum, úthverfi í Málmey, alast börn upp í eymd og fátækt. Kakkalakkar plaga íbúa og myglusveppir breiðast út í yfirfullum íbúðunum. Í þessu hverfi búa allt að tíu manns í þriggja herbergja íbúð.

*Í hverfinu Nyfors í Eskilstuna leitar ungt fólk að vinnu, en engin störf eru í boði. Atvinnuleysi er rúmlega sjö af hundraði og fullorðinslífið byrjar með heimsókn til félagsþjónustunnar.

*Við Stureplan í Stokkhólmi kostar handtaska enn 10.000 sænskar krónur.

Þarna í miðri höfuðborginni finna menn lítið fyrir áhrifum alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Verslunareigendur gera ráð fyrir metsölu fyrir jólin. Inn á veitingahúsin við Stureplan streymir fallega fólkið eins og ekkert hafi í skorist og fær sér sushi eða salat. Þetta eru markaðsfræðingarnir og auglýsingafólkið sem dregur upp þá mynd í sænskum fjölmiðlum að kreppunni sé lokið. En margir Svíar vita betur. Í þeirra lífi er kreppan rétt að byrja.

Í smábæjum

Kreppan ríkir í úthverfum stórborganna og í smábæjum eins og Eskilstuna, Södertälje, Fagersta og Skinnskatteberg. Þetta eru sveitarfélög þar sem lítil iðnfyrirtæki hafa neyðst til að loka eða draga saman seglin af því að stóriðjan hefur ekki lengur þörf fyrir vörurnar sem þau framleiða. Þegar illa árar hjá Volvo og Saab kemur það niður á undirverktökum um allt land. Ef eitt fyrirtæki er lagt niður lamast atvinnulíf í heilu byggðalagi. Í bænum Skinnskatteberg einum saman hefur bótaþegum fjölgað um 70 af hundraði. Þegar kreppan geysaði sendi ríkisstjórnin sveitarfélögunum fjármagn til að stuðla að atvinnusköpun. En meira en helmingur sveitarfélaga í landinu segir ríkisstyrkinn einungis nægja til að greiða fólki félagsbætur.

Samsteypustjórn hægriflokkana komst til valda á árinu 2006. Helsta stefnumálið þá var að draga úr jaðarmyndun á vinnumarkaði. Atvinnusköpun var lykilorð, þjóðin átti að snúa af þeirri braut að þiggja bætur og fara að vinna fyrir laununum sínum. Reglum um atvinnuleysissjóði var breytt, álögur hækkaðar og bótagreiðslur lækkaðar. Hálf milljón Svía sagði sig úr atvinnuleysissjóðunum. Sumir sjóðir töpuðu nær þriðjungi félaga sinna og nú neyðast þeir lægstlaunuðu til að mæta kreppunni án nokkurra atvinnuleysistrygginga. Þeir verða að sækja um félagsbætur, eða framfærslustyrk eins og það heitir nú til dags. Þeir og unga fólkið sem enn hefur ekki áunnið sér rétt til atvinnuleysisbóta. Samanlagt er þetta stór hópur, atvinnuleysi eykst nú hraðar í Svíþjóð en í nokkru öðru aðildarríki ESB. Fyrstu sex mánuði ársins jókst atvinnuleysi um nær 28 af hundraði.

Í einungis sex öðrum ESB-ríkjum fjölgaði atvinnulausum meira. Draumurinn um nýtt starf og jólainnkaup nær ekki lengra en til Stureplan. Mörg sænsk börn vita að þau fá engar jólagjafir þetta árið.

Uppreisn í Rósagarðinum

Tíunda hvert barn í Svíþjóð býr við fátækt. Fátækasta fólkið í landinu býr í Rósagarðinum, úthverfi í Málmey, þar sem meira en sextíu af hundraði barna elst upp í fátækt. Hverfið er í raun ekki svo langt frá miðborginni í Málmey, það byggðist upp fyrir rúmum fjórum áratugum og þar búa um 20.000 innflytjendur.

Enginn staður í Svíþjóð er eins illræmdur og fyrirlitinn og Rósagarðurinn. Í sumar sem leið kom til óeirða í hverfinu þegar unglingar köstuðu grjóti að lögreglu og slökkviliðsmönnum. Eldur logaði í bílum og gámum á nóttunni.

Óeirðirnar áttu upptök sín í þeim hluta hverfisins sem gengur undir nafninu Herragarðurinn. Þar eru kakkalakka-húsin og yfirfullu íbúðirnar og þar eru níu af hverjum tíu vinnufærum mönnum atvinnulausir. Fjölskyldurnar eru stórar og börn alast upp í svo litlum íbúðum að þau hafa einfaldlega ekki pláss til að eiga líf heima hjá sér. Hvar eiga þau að læra þegar aðrir hafa þegar lagt undir sig eldhúsborðið?

Í grunnskólanum í Rósagarðinum útskrifast sjö af hverjum tíu nemendum án tilskilinna einkunna til að komast í framhaldsskóla. Þetta æskufólk er sent beint út í atvinnuleysi og verður því fullkomlega utangarðs á vinnumarkaði. Margir drengir sem alast þarna upp leiðast út í afbrot strax að loknum grunnskólanum. En það er líka sterk andspyrna við eymdinni. Fótboltinn nýtur mikillar hylli og Zlatan Ibrahimovich er helsta átrúnaðargoðið. Hann býr um þessar mundir í hinum enda borgarinnar, í fína hverfinu við Limhamnsveg. Og það er ekki slæmt. Zlatan er ímynd draumsins um að allt er mögulegt, að hægt er að vinna sig upp úr eymdinni og eignast fimm hundruð fermetra einbýlishús sem kostar þrjátíu milljónir sænskar krónur. Samt er Zlatan líka táknmynd þess að bilið á milli ríkra og fátækra hefur aukist. Með góðum vilja má segja að ríkisstjórn Reinfeldt hafi verið óheppinn þegar hún lagði svo mikla áherslu á að skapa störf rétt áður en kreppan skall á. Lækkun atvinnuleysisbóta var bara byrjunin. Næsta skrefið voru breytingarnar sem gerðar voru á sjúkratryggingakerfinu. Þær leiddu til þess að margir langtímaveikir Svíar máttu að nýju leita út á vinnumarkaðinn. Strax á næsta ári munu rúmlega fimmtíu þúsund Svíar missa sjúkradagpeningana og verða því að finna sér aðra framfærslu. Markmið stjórnarinnar með þessum breytingum var að koma fleira fólki í vinnu, en nú eru störfin horfin og á endanum verður fátækt og félagsbætur eini valkosturinn. Atvinnuleysingjarnir og sjúklingarnir eru því hinir nýfátæku í velferðarríkinu Svíþjóð. Margir hafa brugðist öndverðir við nýjum reglum um bótagreiðslur, en ríkisstjórn Reinfeldts stendur fast við atvinnusköpunarstefnuna, enda þótt stöðugt verði erfiðara að verja hana.

Þjóðarharmleikur

Fólk af erlendum uppruna og einstæðu mæðurnar fá fyrsta skellinn. Og einnig iðnaðarmenn og æskufólk sem ekki hefur náð fótfestu á vinnumarkaði. Aðstæður unga fólksins er þjóðarharmleikur. Atvinnuleysi er nær þrjátíu af hundraði meðal ungs fólks í Svíþjóð. Á næstu árum munu að auki stórir árgangar ljúka grunnskóla og þá skiptir engu hvort þú býrð í Eskilstuna eða Rósagarðinum. Það eru engin störf að hafa. Hvergi í Evrópusambandinu er fleira æskufólk án vinnu og í Svíþjóð. Afleiðingarnar eru að það getur ekki farið að heiman, það getur ekki stofnað fjölskyldu. Margir búa áfram heima hjá foreldrum sínum í þröngum íbúðum þar til atvinnuleysið nær að lokum tökum á því. Í Herragarðinum ná glæpagengin til sín ungu atvinnulausu mönnunum og síðan rís glæpaalda í fátæku úthverfunum. Þar búa bæði afbrotamennirnir og fórnalömb glæpanna.

Í Svíþjóð vex bilið milli ríkra borgarhverfa og fátækra úthverfa. Á kreppunni verða úthverfin hættuleg á meðan óttin býr um sig í hverfum millistéttarfólks.

Til eru Svíar sem reisa girðingar til að verjast óhamingju annarra. Vellinga á Skáni er gott dæmi um það, en í nóvember neituðu bæjarbúar að hleypa hópi munaðarlausra flóttadrengja frá Málmey inn í bæinn. Í sömu viku mældist fylgi sænsku demókratana sem hatast við útlendinga sex prósent. Andstæðurnar aukast og grunnstoðir hinar öruggu og einsleitu Svíþjóðar riða til falls. Eftir tíu mánuði verður kosið til þings. Efnahagskreppan varð til þess að kosningabaráttan hófst fyrr en ella, milli hægriflokkanna sem eru við stjórnvölinn og nýju rauðgrænu stjórnarandstöðunnar. Þessar fylkingar gefa tvær ólíkar skýringar á þeirri neyð sem nú blasir við. Ríkisstjórnin skellir skuldinni alfarið á kreppuna og heldur ótrauð áfram að lækka skatta launafólks, sem hefur reitt til reiði stóran hóp kjósenda sem hefur misst vinnunna eða óttast að missa hana. Lægri launaskattar hafa líka komið illa við kauninn á vaxandi hópi eftirlaunaþega, sem túlkar það sem refsingu að greiða hærri skatta en þeir sem eru í vinnu. Stjórnin hefur brugðist við með því að ganga hart fram gegn bönkunum, með þeim rökum að þeir og háu bónusgreiðslurnar hafi valdið kreppunni. Og það má vel vera. En að ríghalda í atvinnusköpunarstefnu þegar engin vinnu er að fá má hæglega túlka sem ósvífni.

Bjóða dáleiðslu

Ríkisstjórnin hefur varið háum fjárhæðum til þess að að gera fólk, þrátt fyrir allt, hæfara til að taka að sér ný störf. Þetta er gert með aðstoð svokallaðra vinnuráðgjafa. 952 fyrirtæki sem veita atvinnulausum handleiðslu hafa sprottið upp og bjóða allt frá dáleiðslu til hestaþjálfunar.Verkefnið hefur verið haft að háði og spotti og atvinnusköpunarstefnu stjórnarinnar líkt við hver önnur töfrabrögð. Jafnaðarmenn, Umhverfisflokkur og Vinstriflokkurinn, sem mynda rauðgrænu stjórnarandstöðuna, hafa því kjöraðstæður til að sækja fram og ættu eiginlega að koma betur út úr skoðanakönnunum. Þessir flokkar kenna stjórninni um ófarirnar og vilja hækka skatta á alla til að geta t.d. stutt betur við bakið á sveitarfélögunum. Auknar skatttekjur eiga að renna til félagsþjónunstu, menntakerfis og heilbrigðisþjónustu og til að skapa fleiri störf hjá því opinbera. Stjórnarandstaðan talar í sífellu um fleiri störf og þegar Jafnaðarmenn héldu flokksþing á dögunum var það undir yfirskriftinni Atvinnuþing.

Líklega er leiðtogavandi helsta skýringin á því að svo mjótt er enn á munum milli fylkinganna tveggja í sænskum stjórnmálum. Kjósendur hafa meiri trú á Fredrik Reinfeldt forsætisráðherra, en Mona Sahlin leiðtogi stjórnarandstöðunnar á erfiðara uppdráttar vegna gamalla hneykslismála og af því að hún er kona. Sænsku demókratarnir, sem hatast við útlendinga, sækja hins vegar í sig veðrið og gætu komist í lykilstöðu í kosningunum. Og spurt er hvaða afstöðu gömlu flokkarnir hafa til innflytjenda- og félagsmála. Kosningarnar á næsta ári munu snúast um ótta, ótta fólks við að missa vinnuna eða átök þessa fólks við þá sem þegar eru búnir að missa vinnuna.

Búið er að kveikja á jólaskreytingunum við Stureplan í Stokkhólmi. Þar eru engin kreppumerki. Þeir sem eru í vinnu hafa þvert á móti fengið meira á milli handanna og geta þakkað það skattalækkunum stjórnarinnar. „Það á að borga sig að vinna”.

En þeir sem standa upp frá borðum á dýru veitingastöðunum Riche og Sturehof og halda fótgangandi út á járnbrautarstöð verða líka að ganga fram hjá manninum sem stendur þar og betlar.

Hinir allra snauðustu, hinir heimilislausu eru u.þ.b. 18.000. Margir þeirra hafa sömu sögu að segja, fyrst misstu þeir vinnuna, síðan skildi konan við þá, þeir misstu húsnæðið og þar með alla von um framtíð. Nú verða þeir að treysta á ölmusu og fatahjálp hjálparstofnana. Þeir standa í biðröð fyrir utan kirkjuna ásamt einstæðum mæðrum sem hvorki hafa ráð á því að leita til læknis eða kaupa bleyjupakka.

Hjálparstofnanir hafa beðið fólk um að gefa skó og vetrarföt. Vetur er genginn í garð í Svíþjóð og fólki er farið að kólna.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden