Document Actions

Thomas Larsen

Á leið til umhverfisvænnar framtíðar

Danskir stjórnmálamenn úr öllum flokkum eru sammála um að gagngert skuli stefnt að því að hætta allri notkun á mengandi kolum, gasi og olíu í landinu. En umbreytingin yfir í umhverfisvæna orku verður gríðarlega erfitt verkefni að kljást við.

11/02 2011

Lars Løkke forsætisráðherra hefur margsinnis kunngert þennan stórkostlega boðskap. Einn góðan veðurdag eiga Danir að verða algerlega óháðir kolum, gasi og olíu.

Og þetta fagra markmið sameinar aldrei þessu vant þingmennina í Christiansborg, þvert á flokka, en aðalspurningin er auðvitað: Hve hratt á það að komast í verk? Og hvernig á að fara að því?

Haustið 2010 komu nokkur svör. Þá lögðu tíu hlutlausir sérfræðingar úr Loftslagsnefndinni – sem ríkisstjórnin setti á fót árið 2008 – fram tillögu sína um algjör umskipti frá olíu, gasi og kolum yfir í hreinræktaða umhverfisvæna orku.

Í kjölfarið var Lykke Friis loftslags- og orkumálaráðherra full fyrirheita:

„Það lítur út fyrir að við höfum nú fengið verkfærakassa með ýmsum verkfærum sem við höfum not fyrir“, sagði ráðherrann sem sagðist mundu koma mörgum tillögum nefndarinnar til skila inn í orkustefnu ríkisstjórnarinnar.

„Ekki skemmtiganga í lystigarðinum“

Markmiðið að sleppa því að nota mengandi jarðefnaeldsneyti gefur vitaskuld góð fyrirheit. En umskiptin verða erfið. Eða eins og Lykke Friis sagði eftir að hún hafði kynnt skýrslu Loftslagsnefndarinnar: „Þetta verður engin skemmtiganga í lystigarðinum.“

Að stjórnmálamenn úr svo að segja öllum flokkum skuli samt vera fúsir að fylgja málinu eftir og flýta umskiptunum eins og kostur er, er í stuttu máli vegna þess að í rauninni er ekki annarra kosta völ.

Í áætluninni sem kemur ofan frá hefur orkustefnan í sífellt fleiri vestrænum löndum, þ.á.m. í Danmörku, fengið nýja og mikilvæga öryggispólitíska vídd. Alþjóðlegir sérfræðingar benda á með réttu að vopnakapphlaup fyrri tíma sé í þann mund að víkja fyrir orkukapphlaupi.

Greinendur öryggismála í varnarmálaráðuneytum og hugmyndabönkum um öll Vesturlönd beina sjónum sínum í auknum mæli að þeirri staðreynd að olíuframleiðsla í heiminum muni minnka og á Vesturlöndum vex óttinn við að menn verði svo háðir síðustu dýru dropunum að farið verði að fórna athafnafrelsinu í of miklum mæli gagnvart olíuframleiðslulöndunum, t.d. Miðausturlöndum.

Vegna þessa hefur það komið æ skýrar fram á Vesturlöndum að menn vilja komast hjá að eiga í olíuviðskiptum við þau lönd og svæði sem þeir vilja ekki vera of háðir.

Fleira fólk – minni olía

Því er þeim mun meiri ástæða fyrir Vesturlönd að bregðast við að fólkinu fjölgar í framtíðinni en minna verður verðu af olíu.

Frá því í upphafi síðustu aldar hefur fólki fjölgað í heiminum úr 1,5 milljarði upp í 6 milljarða og fyrir miðja þessa öld mun fólksfjöldinn að öllum líkindum vera orðinn 9 milljarðar.

Hundruð milljóna manna munu alast upp við þær kröfur að vilja búa vel, aka bíl og ferðast eins og við Vesturlandabúar höfum átt kost á áratugum saman. Orkuþörfin mun því aukast leifturhratt og á áhrifamikinn hátt. Það mun aftur leiða til að verðið hækkar og verður óstöðugt og það getur valdið þrýstingi á efnahag vestrænna landa.

Danmörk hefur – eins og Noregur – árum saman verið vel sett með olíu og gas í jörðu.

Danir eiga þó ekki yfir að ráða nærri því eins miklum forða og Norðmenn sem hafa sýnt þá fyrirhyggju að stofna gríðarstóran olíusjóð. Danir mun þvert á móti þurfa að takast á við þá staðreynd að olíu- og gasframleiðslan í Norðursjó hefur náð hámarki, en það þýðir að Danir munu þurfa að flytja meira inn en þeir flytja út af jarðefnaeldsneyti.

Nauðsynleg umskipti

Danskir þingmenn standa því frammi fyrir meginspurningunni: Á Danmörk að fjárfesta í þróun nýrrar umhverfisvænnar orku og fjölga vinnustöðum í Danmörku? Eða eigum við í stað þess að senda féð til einhverra olíu- og gasframleiðslulanda þar sem við eigum jafnvel ekki neinna gagnkvæmra hagsmuna að gæta?

Svarið er auðvitað augljóst og þess vegna er breið pólitísk eining um nauðsyn þess að þjóðin verði ekki lengur háð öðrum um kol, gas og olíu. Bensínið skuli því burt úr bílunum, gasið úr húsunum, kolin úr varmaveitunum – allt til þess að fá í staðinn hreint umhverfisvænt rafmagn sem verði framleitt af vindmyllum og lífmassa.

Eigi það að takast krefst það m.a. þess að áfram verði bætt við hinum risastóru hafvindmyllugörðum fjölgað ásamt því að treysta á lífmassa til að sjá um orkuframleiðsluna þegar vindmyllurnar eru kyrrar.

Því næst eigi Danir – sem nú þegar heyra til þeirra þjóða í heiminum sem fá hvað mest úr þeirri orku sem þeir nota – að eyða minni orku. Eða eins og Lykke Friis orðar það: „Þegar til kastanna kemur er ódýrasta orkan auðvitað sú orka sem við notum ekki!“   Og þann kjarna málsins styðja allir flokkar.

Neyslan verður að minnka

Rétt eins og annars staðar á Norðurlöndum er löngu búið að innleiða í Danmörku orkusparandi glugga, einangrun í þaki, hitastilla og sparperur.

En að áliti Loftslagsnefndarinnar er hægt að gera miklu meira. Nefndarmenn telja að orkuneysluna sé hægt að minnka um 25% miðað við neysluna nú – og það muni bæta efnahag þjóðarinnar svo um muni.

Loftslagsnefndin talar fyrir því að þróað verið sjálfvirkt orkukerfi, því að með því að nota orkuna á skynsamari hátt, sparist bæði orka og peningar. Í framtíðinni eigi sjálfvirkir rafmagnsmælar að aðstoða dönsk heimili við að nota orkuna þegar hún er ódýrust og sama regla eigi að gagnsýra umhverfisvænt orkukerfi framtíðarinnar sem geti skilað jafn stöðugri orku og kolakynt orkuver.

Og hér er ekki aðeins um að ræða innanlandskerfi því að kerfið á að vera tengt öðrum löndum svo að hægt sé að koma á fót evrópskum – og norrænum – orkuleiðum sem geta flutt rafmagn þvert á landamæri.

Má ekki skaða vöxt

Gert er ráð fyrir því að í þessum umfangsmiklu umskiptum yfir í umhverfisvæna orkuöflun taki fyrirtækin þátt í að laga sig að varanlegri orku, og hver neytandi verði sömuleiðis hvattur til að velja umhverfisvænt.

En umskiptin eiga að fara fram án þess að skaða vöxt, atvinnu og samkeppnishæfni. Og einmitt sú jafnvægislist er sérlega brýn á sama tíma og Danir – og danskt atvinnulíf – berjast við afleiðingar efnahagskreppunnar.

Stjórnmálamenn eru almennt sammála um að Danir skuli vera meðal þeirra þjóða heims sem verða fararbroddi við að koma á umskiptum í orkumálum sem valda kaflaskiptum í sögunni, því að þeir vita að nú þegar er hafið kapphlaup í heiminum um að verða fyrstur og bestur í að „brjóta græna kóðann“.

Þau lönd sem eru framsæknust og fremst í því að taka upp nýbreytni munu komast hjá því að borga hækkandi verð fyrir jarðefnaeldsneyti og geta auk þess fengið forskot í samkeppninni í nýju umhverfisvænu efnahagsmálunum. Danskir þingmenn vilja einmitt að Danir fari með sigur af hólmi í þessu máli.

Það mun kosta sitt

Fyrirfram lofa lausnir í orkumálum góðu fyrir talsverðan hluta vöruútflutnings Dana, og danskir stjórnmálamenn gera sér vonir um að dönsk fyrirtæki geti haslað sér enn frekari völl gangi umskiptin yfir í nýjar umhverfisvænar orkulausnir fljótt fyrir sig.

Ekki er því að neita að aðlögunin mun kosta sitt.

Stjórnmálamönnum finnst áhugavert og lofa góðu að Loftslagsnefndin – sem með réttu hefði átt að heita loftslags- og orkunefndin – bendir á að ekki lítur út fyrir að mikill aukakostnaður fylgi umhverfisvænu aðlöguninni og nefndin bendir einnig á að í framtíðinni muni hún gefa vel af sér.

En vandinn er að fjármagna verkefnið nú þegar dönsku efnahagslífi hefur hrakað mjög í kjölfar efnahagskreppunnar.

Einnig hvað þetta mál snertir hefur efnahagskreppan reynst dýrkeypt.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden