Document Actions

Markku Heikkilä

Nyrsta kjarnorkuver á Norðurlöndum

Simo er friðsælt, fámennt bæjarfélag við Austurbotn, um það bil 100 kílómetra norðan Uleå. Pyhäjoki er annar syfjulegur lítill bær sem er í svipaðri fjarlægð fá Uleå nema bara í suðurátt. Í báðum bæjum bíða íbúarnir sumarsins með eftirvæntingu, en sumir eru þó slegnir ótta. Annar hvor bærinn– Simo eller Pyhäjoki – verður meginvettvangur fyrir stefnu Finna í orkumálum, sem að mestu byggir á kjarnorku. Innan skamms verður tekin ákvörðun um í hvoru sveitarfélaginu nyrsta kjarnorkuver á Norðurlöndunum verður byggt.

11/02 2011

Simo er friðsælt, fámennt bæjarfélag við Austurbotn, um það bil 100 kílómetra norðan Uleå. Pyhäjoki er annar syfjulegur lítill bær sem er í svipaðri fjarlægð fá Uleå nema bara í suðurátt. Í báðum bæjum bíða íbúarnir sumarsins með eftirvæntingu, en sumir eru þó slegnir ótta. Annar hvor bærinn– Simo eller Pyhäjoki – verður meginvettvangur fyrir stefnu Finna í orkumálum, sem að mestu byggir á kjarnorku. Innan skamms verður tekin ákvörðun um í hvoru sveitarfélaginu nyrsta kjarnorkuver á Norðurlöndunum verður byggt.

Finnar samþykktu við upphaf sumars 2010 tvær mikilvægar áætlanir varðandi orkumál. Sú fyrri fékk heitið „sprekapakkinn“ (kvistpaketet). Samkvæmt henni á að auka umtalsvert hlut innlendra endurnýjanlegra orkulinda, einkum eldivið í orkuframleiðslu í Finnlandi. Í kjölfarið fylgdi viðbótarákvörðun, víðtæk rammaákvörðun, áætlun um frekari kjarnorku.

Fyrir báðum ákvörðunum voru færð svipuð rök: loftslagsmálin og það að vera sjálfir sér nægir hvað varðar orku og atvinnu. Hvoru tveggja eru lausnir sem snúast um sérstöðu Finna, ólíkt  því sem gerist og gengur á öðrum Norðurlöndum.

Lausnarorðið er einmitt sjálfsþurftarbúskapur. Óháð markaðnum fyrir raforku á Norðurlöndunum og fríverslun, hafa Finnar leitað lausna til þess að halda orkuframleiðslunni að mestu leiti innan eigin landamæra. Varað hefur verið við því að Finnar verði háðir orku frá Rússlandi. Gas hefur verið flutt inn frá Rússlandi en í takmörkuðu magni, og ein helsta ástæða fyrir byggingu flestra kjarnorkuvera í Finnlandi hefur verið sú að þar með verði Finnar ekki jafn háðir orku frá rússneskum kjarnorkuverum. Finnar kaupa hluta raforku sinnar frá grönnum sínum úr austri.

Þrír umsækjendur, tvö leyfi

Reiknað hefur verið með að byggja þyrfti nýtt kjarnorkuver. Þrjár umsóknir um leyfi hafa borist, og ríkisstjórnin og þjóðþingið hafa ákveðið að veita leyfi fyrir tveimur. Um þetta voru engin stórpólitísk átök. Græningjunum höfðu frá upphafi leyfi til að greiða atkvæði gegn kjarnorkunni en halda samt áfram ríkisstjórnarsamstarfinu.

Annað hinna tveggja nýju kjarnorkuvera mun, þegar réttur tími  rennur upp, verða byggt á vesturströndinni í Olkiluoto, þar sem þegar eru fyrir tveir virkir kjarnakljúfar. Það þriðja hefur verið lengi í byggingu en með talsverðum örðugleikum. Bygging kjarnorkuversins sem pantað var frá franska fyrirtækinu Areva, hefur dregist um mörg ár, með tilheyrandi aukakostnaði sem nemur fjárhæðum sem enginn getur gert sér í hugarlund.

Vinnan við byggingu þriðja kjarnakljúfsins í Olkiluotos hófst 2005. Nú gera opinberar áætlanir ráð fyrir að raforkuframleiðsla þar hefjist árið 2012. Þetta nýja kjarnorkuver sem er það fyrsta sinnar tegundar pantað af Vestur-Evrópuþjóð um langt árabil, hefur fengið á sig vafasamt orðspor vegna seinkana. Mun fleiri ljón hafa verið á veginum en búist var við. Síðast í byrjun febrúar komu fram nýjar upplýsingar um frekari seinkanir: Afgerandi galli á mælingu á suðu á samskeytum, skeikaði næstum því heilum millimetra.

Þessi vandræði hafa þó ekki dregið úr trú Finna á kjarnorku. Fram að þessu hafa verið fjögur kjarnorkuver í landinu: Tvö Oikoluoto og tvö í  Lovisa. Þau síðarnefndu ættuð frá Sovétríkjunum en Finnar hafa endurnýjað þau algerlega.

Nú hefur alveg nýr aðili komið fram á sjónarsviðið sem blandar sér í leikinn á milli hinna hefðbundnu kjarnorkuvera, fyrirtækið Fennovoima. Að baki því standa finnsk orkufyrirtæki og risar í finnskum málmiðnaði á borð við Outokumpu og Rautaruukki. En fleira kemur til, þriðji hluti fyrirtækisins er í eigu þýski fyrirtækjasamsteypunnar E.ON. Við hlið finnsku aðilanna skýtur alþjóðleg fjárfestingaraðili upp kollinum.

Önnur nýjung felst í því að fyrirtækið fór að leita að nýrri staðsetningu fyrir kjarnorkuverið og leitin barst til Norður-Finnlands. Þetta á sér tvær skýringar. Í fyrsta lagi eru aðalstöðvar finnska málmiðnaðarins við Austurbotn. Stálverksmiðja Outokumpus  er stærsti raforkukaupandi á Norðurlöndunum og Rautaruukki er einnig risaverksmiðja í Brahestad við Austurbotn.

Þar að auki hefur fyrirtækið einnig haft rétt fyrir sér þegar stjórnendur reiknuðu með áhrifum byggðastefnu og það hefur fært þeim meðbyr. Kjarnorkuver hefur í för með sér fjölmörg ný störf og fjárfestingar í norðri, sem einnig er svæðið þar sem flokkur forsætisráðherrans, Miðjuflokkurinn, einkum sækir fylgi sitt til.

Eitt vandamál er þó óleyst. Fennovoima hefur ekki getað gert grein fyrir hvernig varðveita á kjarnorkuúrganginn. Í Olkiluoto eru menn í þann mund að útbúa hellakerfi til endanlegrar varðveislu úrgangsins, en kjarnorkufyrirtækin, sem fyrir eru á markaðnum, hafa upplýst að þar sé ekki pláss fyrir úrgang frá öðrum fyrirtækjum. Ekki er útilokað að byggður verði annar staður fyrir kjarnorkuúrgang í Finnlandi. Enn hefur engin ákvörðun verið tekin um það.

Skógur uppspretta orku

Þegar tekin var ákvörðun um framleiðslu kjarnorku þurfti að samþætta marga hagsmuni: þörfina fyrir orku í þungaiðnaði, aðgerðir til að bregðast við loftslagsbreytingum og vanda Finna við að auka umtalsvert eigin framleiðslu af frumorku. Vatnsaflið er takmarkað og möguleikarnir til að hagnýta það hafa nær verið nýttir til fulls. Það sem eftir er af nýtanlegri orku er bundið við gerð uppistöðulóna í Norður-Finnlandi og um þau hefur verið deilt, áratugum saman, vegna umhverfisáhrifa.

Finnar hafa sett sér það markmið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 80 prósent fram til ársins 2050. Í raun miðar núverandi stefnumörkun að því að ná markmiðunum sem ESB hefur sett um hlutdeild endurnýjanlegrar orku. Kjarnorka hefur ekki áhrif þessa viðleitni. Það hefur notkun á mó heldur ekki, en hann er einkum notaður til hitunar og rafmagnsframleiðslu, en sem orkulind er hann skilgreindur sem steinkol. Í raun er að eins um tvo valkosti að ræða; vindorku og lífræna orku, framar öllu skóg. Þar að auki má telja lífeldsneyti á ökutæki og hitadælur með í útreikningana.

ESB hefur ákveðið að  að 38 prósent orku Finna skuli vera frá endurnýjanlegum orkulindum árið 2020. Útreikningar ríkisstjórnarinnar sýna að þörf er fyrir nýja orku sem samsvarar 38 terrawatttímum, í viðbót við þá 87 terrawatttíma af endurnýjanlegri orku sem framleiddir voru árið 2005.

Í áætlunum er gert ráð fyrir að helmingur þessarar nýju orku sé viður. Vindorkuna á að auka í 6 terrawatttíma, en hún er því sem næst engin í núverandi orkubúskap Finnlands. Áætlanir um nýjar vindmillur eru á strandsvæðum og til fjalla, þær  eru nú fyrst og fremst til á pappírunum. Vandinn hefur verið lítil arðsemi.

Með því að auka notkun viðar í orkubúskapnum vill ríkisstjórnin jafnframt stuðla að fleiri atvinnutækifærum úti á landsbyggðinni, þar sem þörfin fyrir ný störf er viðvarandi.   Ríkisstjórnin hafði rétt fyrir sér þegar hún komst að því að heppilegt væri að blanda saman „sprekapakkanum” og kjarnorku bæði efnislega og yfir tíma. En þetta kostar fé: það er þörf fyrir styrki sem meðal annars eru veittir gegnum gjaldskrár. Samkvæmt útreikningum verður um það bil 320 milljónum evra veitt árlega til styrkja við orkuframleiðslu frá árinu 2020.

Samkomulagið kann að bresta

Þessar áætlanir hafa fram að þessu ekki verið tilefni til stórpólitískrar umræðu. En það kann nú að breytast í aðdraganda kosninganna í apríl. Verð á rafmagni í Finnlandi hefur hækkað umtalsvert, bæði vegna orkuskatta og markaðsaðstæðna raforku á hinum Norðurlöndunum. Þegar nýja kjarnorkuverið verður tilbúið er talið að framboð verði það mikið að það nægi einnig til útflutnings. En það er ekki komið að því. Neytendur hafa fundið fyrir því þegar orkuverðið hækkar í öðrum löndum.

Ekki hefur verið beint deilt um grundvallar atriði í loftslagsstefnu Finna. Lýðsskrumsflokkurinn Sann Finnarnir, sem hefur fengið mikinn byr, setur nú einnig umræður um þetta mál á dagskrá. Flokkurinn krefst þess m.a. að „Finnland tilkynni ESB og Sameinuðu þjóðunum að Finnland taki sér hlé frá loftslagsmálum“.

Haft hefur verið eftir Timo Soini, formanni flokks Sannra Finna, að orku- og loftslagsstefnan ógni samkeppnisstöðu iðnaðarins í Finnlandi og störfum í þessum greinum. Það er talið nærri víst að flokkur Sannra Finna verði sigurvegari kosninganna, og sæti í ríkisstjórn eru í augsýn. Flokkurinn hefur sýnt undrunarverða getu til að stýra stjórnmálaumræðunni í Finnlandi. Hver skoðunarkönnunin á fætur annarri sýnir að stuðningur við flokkinn er að verða jafn mikill og við stóru flokkana. Loftslags- og orkustefnan gæti því breyst við nýjar pólitískar aðstæður.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden