Document Actions

Thomas Larsen

Bankar – aftur í eðlilegt horf

Eftir mikla óróatíð eru dönsku bankarnir að komast aftur í eðlilegt horf og losna við stórfelld inngrip hins opinbera eftir efnahagskreppuna. Eftir er þó að gera út um laun bankastjóranna.

14/04 2010

Miðað við uppgjörið milli Baracks Obama og bandarískra bankastjóra á ofurlaunum hefur umræðan um danska bankakerfið verið á lágu nótunum.

Samt sem áður hefur ekki verið neitt sældarbrauð að vera bankastjóri í Danmörku eftir að fjármálakreppan barst hingað frá Bandaríkjunum. Bankastjórarnir eru stöðugt gerðir að blóraböggli þegar finna á hver beri ábyrgð á kreppunni.

Það er augljóslega að miklu leyti um hræsni að ræða því að þegar efnahagskreppan tók að grafa undan fjármálum ríkisins og 60 milljarða danskra króna hagnaður breyttist í 100 milljarða danskra króna halla, er vitaskuld alls ekki hægt að kenna það eingöngu gerðum bankastjóranna.

Eins og greinendur í atvinnumálum hafa bent á hafa æði margir gert sig seka um æði margar skyssur:

* Ríkisstjórnin hafði ekki næga stjórn á efnahagnum fyrir fjármálakreppuna. Margar vísbendingar voru um ofhitnun hagkerfisins en ríkisstjórnin – og stjórnarandstaðan – þorðu ekki að stemma stigu við neyslugleði landans sem m.a. var haldið uppi af óraunhæfu íbúðaverði.

* Allmargir varðhundar á fjármálasviðinu – t.d. Seðlabankinn, fjármálaeftirlitið og efnahagsráðgjafar ríkisstjórnarinnar – vöruðu að vísu við að of miklum hraða í dönskum efnahagsmálum en þeir sáu ekki efnahagskreppuna fyrir.

* Fjölmiðlar voru almennt of ógagnrýnir.

Þegar efnahagskreppan var orðin staðreynd urðu allir þó fljótlega sammála um að skella skuldinni á bankana fyrir að hafa veitt Pétri og Páli ótryggð lán svo að þeir gætu keypt sér of dýr hús og spákaupmönnum sem þurftu varla að leggja fram viðskiptaáætlun áður en fleygt var í þá milljónum.

Á furðuskömmum tíma breyttist álitið á bankastjórum. Allt í einu var þeim nú ekki lengur lýst sem árangursríkum stjórnendum – heldur sem úrhrökum.

Þessi skyndilegi viðsnúningur var einkar augljós í Danske Bank, sem árum saman hefur verið litið á sem ímynd nákvæmni og árangursríkrar kaupsýslu. Eins og hendi væri veifað féll álitið á hinum dáða bankastjóra og hann fékk á sig það orð að vera siðspilltur fjármálastjóri sem hefði átt þátt í koma sínum eigin banka í ógöngur og skaða danskan efnahag.

Tafarlaus pólitísk stjórn á kreppunni

Kreppan efldist hér á svipaðan hátt og í öðrum löndum. Fyrsta skref ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu var að takast tafarlaust á við kreppuna og að tryggja undirstöðu bankanna.

Eitt fyrsta fórnarlamb kreppunnar var Hróarskeldubanki sem féll og um tíma óttuðust menn að stóru dönsku bönkunum væri líka hætta búin.

Eftir fall Lehmann Brothers í Bandaríkjunum áttu jafnvel heilbrigðar peningastofnanir í erfiðleikum með greiðslugetu og allt stefndi í að frosnir peningamarkaðarnir færu að ógna fjármálalegum stöðugleika. Þegar kreppan var í hámarki sagði Lene Espersen þáverandi efnahags- og atvinnumálaráðherra: „Við erum í miðri alþjóðlegri fjármálakreppu sem á sér engan líka.“

Ríkið greip því inn í og ábyrgðist gífurlegar upphæðir til að strengja öryggisnet undir viðskiptavini danskra peningastofnana, bæði meðal einstaklinga og á atvinnumarkaðnum.

Sérstakri skilanefnd var fengið það hlutverk að yfirtaka nauðstaddar peningastofnanir svo að lánardrottnar fengju skil á greiðslum á réttum tíma. Ábyrgðirnar áttu að gilda í tvö ár – þangað til 30. september 2010. Ráðstafanir voru gerðar til að bjarga eftirlaunasparnaði svo að lífeyrissjóðir og íbúðareigendur væru tryggðir. Komið var á nákvæmari endurskoðun á bankaeftirlitinu og jafnframt var reynt að tryggja meira gagnsæi á greiðslugetu bankanna og áhættumat.

Eðlilegt ástand

Stuttu fyrir páska sammæltust ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan – allir nema litli vinstrivængsflokkurinn Einingarlistinn – um bankapakka III sem í raun kemur í stað og réttir af bankapakka I.

Bankapakki III stöðvar inngrip í danska bankageirann og ljóst er að smám saman er eðlilegt ástand að komast á aftur. Bankapakki III bindur enda á stýringu á aðgerðum sem komið var á í byrjun kreppunnar og áttu að fá bankana til að standa á eigin fótum.

Megininntak bankapakka III er að frá 1. október 2010 verður innlánsfé í dönskum bönkum ekki lengur að fullu ríkistryggt heldur fær hver einstakur viðskiptavinur tryggingu fyrir 750.000 dönskum kr. í sínum banka í gegnum innlánstryggingasjóðinn sem bankarnir ábyrgjast sameiginlega.

Auk þess er í bankapakka III gert ráð fyrir að nauðstaddir bankar fái sem fyrst lausn sinna mála og að hægt verði – fram hjá hluthöfum og gjaldþrotum – að koma þeim í skilanefnd sem nefnist Efnahagslegur stöðugleiki telji fjármálaeftirlitið það nauðsynlegt.

Ríkið dregur sig í hlé

Brian Mikkelsen núverandi efnahags- og atvinnumálaráðherra staðfesti með ánægju að framvegis verði skattfé ekki notað til að borga fyrir bankahrun. Ráðherrann sagði eftirfarandi:

„Aðgerðirnar eiga að koma á ró um fjármál einstaklinga og innstæður og tryggja að fyrirtæki hafi áfram bankatengsl ef bankinn hrynur. Og innlánstryggingin mun hvorki kosta ríkið krónu né evru – greiðslur koma frá innlánstryggingasjóðnum sem bankarnir fjármagna.“

Stjórnarandstaðan var einnig sátt. Morten Bødskov talsmaður sósíaldemókrata sagði: „Nú eiga bankarnir sjálfir að taka til. Við teljum að þetta verði í síðasta sinn sem ríkið setur þrefalda þjóðarframleiðslu Danmerkur í hættu fyrir bankakerfið hér heima.“

Fjárhagsráð, sem er hagsmunasamtök bankanna, hrósaði bankapakka III sem skynsamlegri lausn sem gerir kleift að grípa inn í með „aðstoð á réttum tíma“ til handa peningastofnunum sem komast í vanda eða verða hreint og beint gjaldþrota.

Jørgen Horwitz frá fjárhagsráði segir: „Við vitum frá eftirliti Seðlabankans að peningastofnanirnar eru vel fjármagnaðar. Nýjar reglur um að peningastofnanir eigi að upplýsa um styrk sinn og árangur af eftirlitinu, munu leiða til meira gagnsæis. Fólk verður færara um að meta peningastofnanirnar.“

Jesper Rangvid sem er sjálfstæður sérfræðingur frá Copenhagen Business School komst að þeirri niðurstöðu að bankapakki III sýndi að verið væri að koma starfseminni í eðlilegt horf: „Þegar ríkið ábyrgist ekki lengur ótakmarkað er það merki um að hlutirnir eru að færast í eðlilegt horf.“

Eftir því sem sérfræðingurinn segir er heilbrigt að afnema ábyrgð sem nær yfir allt innlán í banka. Hann telur að það fái fólk til að hugsa sig um áður en það ráðstafar fé sínu: „Fólk á að gera ákveðið áhættumat áður en það ráðstafar fé sínu. Ef banki er dálítið ágengur og þarfnast fjár og býður þess vegna háa vexti til að fá viðskiptavini til að leggja inn fé er ástæða til að velta fyrir sér öryggi bankans.“

Athygli beint að launum yfirmanna

Ekki er inngripum í starfsemi bankanna þó alveg lokið.

Frá því að efnahagskreppan hófst hafa logað deilur um laun yfirmanna bankanna og á þeim vettvangi er ríkisstjórnin í minnihluta. Danski þjóðarflokkurinn, sem er fastur stuðningsflokkur ríkisstjórnarinnar, hefur tekið saman höndum með stjórnarandstöðunni og krefst þess m.a. að í mesta lagi 30% af launum bankastjóranna megi vera breytileg – til dæmis í formi bónusgreiðslna.

Danski þjóðarflokkurinn ásamt Sósíalska þjóðarflokknum og Sósíaldemókrataflokknum krefjast þess jafnframt að blátt bann sé við því að bankastjórar eigi kost á að fá hluta launa sinna greiddan með hlutabréfum í bankanum sem bankastjórarnir græða svo á ef gengi hlutabréfanna hækkar.

Það sem veldur því að athyglin hefur beinst að launamálum er m.a. að auðveldara er að skilja laun en skipan á starfsemi bankans. Við það bætist að danska ríkið bjargaði bankakerfinu frá falli með því að veita þeim tryggingar. Við þær aðstæður hafa skattgreiðendur að sjálfsögðu fengið gagnrýnni sýn á bankastjórana sem áttu þátt í að keyra banka sína fram á brún gjaldþrots. Margir eiga erfitt með að skilja að bankastjórar eigi að fá bónus þegar banki er rekinn með tapi. Á sama hátt eiga þeir bágt með að taka því að bankastjóri, sem hefur keyrt banka sinn í þrot og hefur verið sagt upp, eigi að fá nokkurra ára laun við starfslok. Aðrir furða sig á því að bankastjóri við meðalstóran dreifbýlisbanka eigi að fá meira en 5 milljónir danskra króna í laun.

Komið að þáttaskilum

Þrátt fyrir þessar umræður, sem yfirmönnum bankanna er meinilla við, er það versta að baki hjá bönkunum.

Þegar Danske Bank hélt aðalfund stuttu fyrir páska birtist Peter Straarup leiðtogi bankans eins og tákn fyrir endurkomu bankageirans.

Árið 2009 var Straarup hrint af reiðhjóli sínu fáum dögum fyrir aðalfundinn og sat með handlegginn í fatla meðan hluthafarnir létu gamminn geisa. Þá hafði gengið fallið niður í 33,5 danskar kr. og bankanum var – að líkindum – aðeins haldið á lífi af því að ríkið lét í té ríkisábyrgð. Þegar Straarup mætti á fundinn með hluthöfunum um daginn var gengið á hlutabréfum 136. Markaðsvirði bankans hafði hækkað um 300% frá lágmarkinu í mars 2009.

Hörmungaár var loksins á enda runnið. En það mun líða á löngu áður er ímynd greinarinnar hefur jafnað sig og bankastjórar verða aftur í aðalhlutverki.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden