Document Actions

Eva Franchell

Lettar borga kreppuna fyrir Svía

Skjálftamiðja sænsku bankakreppunnar var í Lettlandi. Hvergi annars staðar hafa afleiðingar kreppunnar í Svíþjóð verið jafn alvarlegar og í þessu grannríki í austri. Því hefur það litla þýðingu að tala um „sænsku bankakreppuna“. Í þessari grein verður því fjallað um tvö grannríki, annað fór létt í gegnum kreppuna, hitt rambar enn á barmi efnahagshruns.

14/04 2010

Við byrjum í Lettlandi, landi sem lýsti yfir sjálfstæði eftir hrun kommúnismans 1991. Lettar höfðu verið algerlega háðir Sovétríkjunum og höfðu nær engar forsendur fyrir því að byggja upp nútíma samfélag.

Það hefði allt eins getað orðið hlutskipti Lettlands og annarra ríkja við Eystrasalt að staðna og hafna meðal fátækustu ríkja Evrópu með efnahagskerfi borið uppi af þeim launum sem farandverkamenn sendu heim.

En sú varð ekki raunin.

Lettar sneru sér að Vesturlöndum og þáðu öll hollráð sem buðust, ekki síst frá Svíum. Skattar voru jafnaðir út, tollar afnumdir og jafnvægi komið á ríkisútgjöldin. Og gjaldmiðill landsins var tengdur þýska markinu.

Gósenland markaðshagkerfisins

Lettland varð að skólabókardæmi um hversu vel þeim ríkjum gæti vegnað sem innleiddu markaðshagkerfi að vestrænni fyrirmynd. Og þjóðin var að sjálfsögðu leiðitöm. Neyslan jókst, fólk keypti hús, bíla og munaðarvörur, þjóðin gat ekki fengið nóg eftir öll árin á bak við járntjaldið. Sænsku bankarnir tóku einnig þátt í neyslukapphlaupinu. Tveir bankar, Swedbank og SEB, voru fljótir að opna útibú í þessu gósenlandi þar sem ekkert virtist ómögulegt. Þeir veittu lán og réðu fyrr en varði yfir sextíu af hundraði allrar bankastarfsemi í landinu.

Og fjárhagsstaða heimila í samanburði við önnur Evrópuríki breyttist hratt, fór úr 41 prósenti af meðaltali í ESB-ríkjunum á árinu 2000 í 62 prósent á árinu 2008. Fólk verslaði sem aldrei fyrr og lettneskir ráðamenn virtust alveg jafn neysluglaðir.

Neyslubólan bólgnaði svo hratt að það fór að krauma undir. Á árinu 2007 hækkaði launavísitalan um 20-30 prósent á meðan útlán bankanna til einstaklinga voru á bilinu 50-70 prósent.

Þjóðin átti peninga og verslaði sem aldrei fyrr, en eyddi til muna meira en hún framleiddi.

Viðskiptahallinn nam nú fjórðungi af þjóðarframleiðslu. Megnið af innfluttum vörum var til einkaneyslu, lítill áhugi var á því að flytja út vörur og því var peningaflæði inn í landið lítið. Ef fólk vantaði peninga mátti alltaf fá þá lánaða hjá sænsku bönkunum sem voru í harðri samkeppni um þessa ótryggu lántakendur. Í ríkissjónvarpinu í Lettlandi voru sýndar auglýsingar þar sem fjölskyldan var að bora eftir olíu heima í stofu. Skilaboðin voru þau að íbúðin væri hrein gullnáma því það var hægt að kaupa hana á lánum. Hjólin snerust hratt í efnahagslífinu, en þegar alþjóða fjármálakreppan skall á lokuðust allar dyr.

Allir Lettar finna fyrir niðurskurði

Fjárfestar hurfu úr landi. Lettland þótti nú erfitt land og Eystrasaltssvæðið allt of áhættusamt til fjárfestinga. Peningar streymdu úr landi og bráðavandi skapaðist vegna gjaldeyrisskorts. Peningar streymdu úr landi og bráðavandi skapaðist vegna gjaldeyrisskorts. Hallinn á ríkissjóði jókst hratt og þegar sænsku bankarnir komust í þrot voru þeir búnir að lána út jafnvirði 432 milljarða sænskra króna í Eystrasaltsríkjunum.

Sænski seðlabankinn hafði frá árinu 2005 varað við ofhitnun í efnahagskerfi Eystrasaltsríkjanna. 2006 gerði seðlabankinn fyrsta áhættumatið sem sýndi að kreppa í Eystrasaltsríkjunum myndi veikja bæði Swedbank og SEB. Ekki væri hægt að halda því fram að forráðamenn sænsku bankanna hafi tekið mark á hættumerkjunum. Um það vitna öll hálfbyggðu húsin í Ríga. Þeir sem vilja kynna sér bankahrunið í Lettlandi ættu að skoða vefsvæðið www.lizings.lv. Swedbank rekur þetta vefsvæði og býður þar til sölu allar lúxuskerrurnar sem teknar hafa verið upp í ógreidd lán, Lamborghini, Mercedes, Bentley, BMW, Porsche, Lexus og aðra dýra bíla. Skráðir eigendur þessara bíla náðu sumir hverjir ekki einu sinni að keyra þá áður en þeir voru auglýstir til sölu.

Fólk neyðist til að selja bílana sína, en afleiðingar lánabólunnar eru miklu alvarlegri en svo. Svíar hafa m.a. heitið Lettum neyðarláni að jafnvirði 7,5 milljarða sænskra króna í gegnum efnahagsaðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þeir hafa einnig gert samkomulag við Letta sem felur í sér lán að andvirði 500 milljóna evra (5,2 milljarða sænskra króna) gegn því að fá lettneskan gjaldmiðil á móti. Alls hefur sænska ríkið reitt fram 23 milljarða króna til ýmissa lána í Eystrasaltsríkjunum. Swedbank, SEB og Nordea bankinn hafa samanlagt reitt fram 15 milljarða sænskra króna. Þetta þýðir með öðrum orðum að sænskir skattgreiðendur taka mestu áhættuna.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn taldi í fyrstu að eina lausnin fyrir Letta væri að fella gengið og taka upp evru, en Evrópusambandið hafnaði þeirri lausn. Forsenda aðildar að gjaldeyrissamstarfinu er að fjármál landsins séu í lagi. Sænska stjórnin hefur á bak við tjöldin einnig beitt sér gegn því að lettnesk stjórnvöld felli gengið því slíkt myndi einungis þýða tap fyrir Svía. Í staðinn neyðast Lettar til að grípa til sársaukafullra sparnaðaraðgerða. Skorið hefur verið niður um helming til velferðarþjónustu og skólum og sjúkrahúsum hefur verið lokað. Ellilífeyrisgreiðslur og barnabætur hafa verið lækkaðar til mikilla muna, svo og launin. Atvinnuleysi eykst og margir hafa misst heimili sín. Niðurskurðurinn kemur niður á öllum íbúum, ekki bara þeim sem keyptu sér húsnæði og BMW á lánum.

Heima í Svíþjóð hefur verið farið mildum höndum um þá sem stýrðu sænsku bönkunum og sýndu slíkt gáleysi. Þegar evrulöndin gerðu aðgerðaráætlun vegna kreppunnar greip sænska stjórnin líka til aðgerða með lánatryggingum til bankanna og tilboði um neyðaraðstoð. Enda þótt bankarnir hefðu sofið á verðinum í Eystrasaltsríkjunum vildu stjórnvöld afstýra því að þeir færu á hausinn.

Engar bónusgreiðslur – eða?

Anders Borg fjármálaráðherra setti fram eina skýra kröfu til þeirra banka sem leituðu eftir stuðningi ríkisins – þeir urðu að leggja niður allar bónusgreiðslur. Það vakti athygli fjölmiðla um alla Evrópu hversu mikla áherslu sænski fjármálaráðherrann lagði á þetta. SEB-bankinn bannaði tafarlaust bónusgreiðslur en reyndi í staðinn að hækka föst laun bankastjórans, Anniku Falkengren, um tvær milljónir króna á ári. Það vakti hörð viðbrögð og til að afstýra því að bankanum yrði úthýst úr hjálparáætlun stjórnvalda varð bankastjórinn að afsala sér launahækkuninni og láta sér gömlu launin duga, eða sjö milljónir sænskra króna á ári.

Hinn bankinn, Swedbank, helsti keppinauturinn í góðærinu í Ríga, heldur hins vegar fast í sínar bónusgreiðslur, en einungis í dótturfélaginu Swedbank Markets. Í stórum dráttum má halda því fram að sænsku bankarnir hafi sloppið vel út úr Eystrasaltsævintýrinu. Menn voru fljótir að hysja upp um sig buxurnar því þegar sænska fjármálaeftirlitið kynnti í haust nýjar reglur um bónusgreiðslur mótmæltu bankamenn hástöfum. Börje Eklund, forstjóri Wallenberg – fjárfestingafélagsins sem á SEB-bankann, fór mikinn í andófinu. Hnífsstunga í bakið sagði hann og taldi hættu hafa skapast á því að bankarnir flyttu starfsemi sína úr landi.

Ummæli hans eru harla undarleg í ljósi þess sem gerst hafði. Bankarnir fluttu jú einmitt starfsemi sína þangað sem þeim hentaði, t.d. til Lettlands.

Swedbank og SEB-bankinn starfa enn í Lettlandi þó ekki sé haft hátt um það. Og yfirmenn þeirra kipptu sér lítið upp við það þegar lettneska ríkisstjórnin féll á dögunum.

Viðbrögð markaðarins voru á sama veg. Allir vita að bankarnir bíða átekta og huga að nýjum landvinningum þegar betur árar og Lettar geta klárað húsin sín. Fyrst verða Lettar bara að fara í gegnum þær hremmingar sem Svíar sluppu við. Svíum tókst nefnilega að afstýra gengisfellingu lettneska gjaldmiðilsins með öllu sem því hefði fylgt; enn meiri niðurskurði í velferðarkerfinu og auknu atvinnuleysi.

Hver er sjálfum sér næstur

Kreppan hefur fyrst og fremst komið niður á bílaiðnaði í Svíþjóð. Atvinnuleysi meðal ungs fólks er mikið, mælist það næsthæsta í allri Evrópu. Kreppunnar gætir líka í opinberum rekstri með niðurskurði í velferðarþjónustu, menntakerfi og heilbrigðisþjónustu. Með breyttum reglum um sjúkratryggingu og atvinnuleysisbætur varð að hækka félagsbætur í Svíþjóð.

Hægristjórnin í Svíþjóð hefði aldrei staðið af sér gengisfellingu lettneska gjaldmiðilsins. Það er því ekkert skrýtið að Anders Borg fjármálaráðherra hafi barist hart gegn henni. Eins dauði er annars brauð eins og orðtækið segir. Þegar Lettar lýstu yfir sjálfstæði stóðu sænsku bankarnir í röðum eftir því að fá að taka þátt í efnahagsundrinu. Þá hugsuðu forráðamenn sænsku bankanna ekkert um að hinum nýfrjálsu Lettar hafði aldrei áður staðið til boða jafn miklar lánveitingar. Kannski skorti þá umfram aðrar þjóðir einmitt sjálfsbjargarviðleitni kapítalismans.

Á meðan efnahagur Svía fer batnandi eru Lettar að ganga í gegnum miskunnarlausa niðurskurðartíma. Kreppan hefur nefnilega sýnt svo ekki verður um villst að þótt báðar þessar þjóðir séu í Evrópusambandinu er hver og einn sjálfum sér næstur þegar á móti blæs.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Ilze says:
20/04 2010 17:02

...that the biggest problem here was an inability for both sides to understand each other and (even more important) an inability to admit this inability. Swedish banks said (advertised) that they have long experience in banking sector and Latvians believed that Swedes know what they are doing. But although Swedes had experience in banking, they had no knowledge and understanding about Latvian market and because of that did everything wrong there. Unfortunately nobody realized that until it was too late.

Commenting has been disabled.

Leit í Analys Norden