Document Actions

Aslak Bonde

Öryggið uppmálað eins og bankinn

Eftir að hafa verið nær dauða en lífi í nokkrar vikur haustið 2008 hefur gengið ótrúlega vel hjá norskum bönkum undanfarið. Tap á útlánum er aðeins örlítið meira en við eigum að venjast í venjulegu árferði, hagnaður er mikill og tilraun stjórnvalda til að setja reglur um bónusa og markaðssetningu hafa ekki verið mjög íþyngjandi. En tekjumöguleikar næstu ára eru hugsanlega minni en áður – atvinnulífið veigrar sér við að taka lán og á húsnæðismarkaði er mikil óvissa um framtíðarhorfur.

14/04 2010

DnB NOR, sem er tvímælalaust stærsti banki Noregs með 35% markaðshlutdeild, var sektaður um 250 milljónir íslenskra króna í vetur. Lögreglan telur að bankinn hafi misnotað innherjaupplýsingar haustið 2008 og grætt tæpar 300 milljónir íslenskra króna á því. DnB NOR féllst á sektina auk þess að skila hagnaðinum en sendi um leið út fréttatilkynningu um að bankinn teldi sig ekki sekan. Hann vildi ekki heldur stuðla að því að breyta kerfunum sem lögreglan taldi vera grundvöll þess að hægt var að fremja glæpinn.

Fréttatilkynningin vakti mikla athygli. Það er ekki óvanalegt að fyrirtæki og fólk taki möglunarlaust á sig sektir af hagsýnis- og fjárhagsástæðum þó að það telji sig ekki hafa unnið til saka. Sárafáir telja hins vegar þörf á að senda út fréttatilkynningu til að tilgreina nákvæmlega sakleysi sitt á sama tíma og þeir standa fast á því að enga vankanta sé að finna í kerfum sínum.

Það var sérstaklega djarft í þessu tilfelli af því að ríkið á 34% hlutabréfa í DnB NOR og af því að það er orðið vel þekkt að náið samband var á milli starfsmannastjóra forsætisráðherra og bankastjóra DnB NOR nokkra örlagaríka daga þegar yfirvöld settu saman fyrsta björgunarpakka bankanna. Það gæti litið út fyrir að bankastjórinn hafi haustið 2008 ráðið sjálfur þeim skilyrðum sem hann vildi – sú tilfinning efldist til muna þegar litið var til þeirrar staðreyndar að hann er persónulegur vinur forsætisráðherra og að kona hans hefur verið ríkisráðsritari í Stoltenberg-ríkisstjórninni í mörg ár.

Eftir vikulanga fjölmiðlaumfjöllun og dálitla umræðu í Stórþinginu gleymdist þessi atburður í opinberri umræðu. Það sem sett var fram sem skortur á auðmýkt stærsta banka Noregs skiptir kannski ekki svo miklu máli.  Þannig hefur það alltaf verið.

Það ætti að vera öðruvísi

Hver hefði trúað þessu fyrir bara ári síðan? Þá var ekki þverfótað fyrir staðhæfingum um að bankarnir yrðu að taka gagngerum breytingum. Búið var að bjarga bankageiranum frá stóráfalli með fyrsta bankabjörgunarpakkanum í október 2008 og þeir fengu aukna aðstoð frá hinu opinbera í febrúar 2009.  Því var tekið sem gefnu að kerfið, sem falist hefur í að menn fái kaupauka og aðra efnahagslega bónusa, yrði breytt róttækt. Menn reiknuðu með að dregið yrði úr framleiðsluþáttum og auðvitað að tapið myndi aukast.  Þar af leiðandi myndi álit á bankanum almennt minnka.

Nú er það orðið vinsælt að nýju að vera bankamaður.  (Það skal tekið fram að hátt hlutfall starfsmanna banka eru konur, en allflestir yfirmenn sem njóta bónusa og fjölmiðlaumfjöllunar eru menn.) Bónusarnir eru ekki eins háir og þeir voru fyrir nokkrum árum en þeir eru fastir í sessi. Það sama á við um hagnað bankanna – og áætlað tap vegna útlána er vel viðráðanlegt. Stærstu útlánatöpin eru hjá bönkum sem fjármagnað hafa verkefni í Eystrasaltsríkjunum. Margir bankar sóttu sér nú á vormánuðum nýtt fé svo að nú er eiginfjárstaðan styrkari en hún var fyrir bankakreppuna.

Stjórnmálamennirnir sem í fyrra lofuðu að þeir myndu standa fyrir gerbreytingum á hvatakerfi bankageirans eru nú meira og minna hljóðir. Allir eru sammála um að gera verður ýmsar smáumbætur svo að það geti ekki borgað sig fyrir bankastarfsmenn að standa í viðskiptum sem veikt geta styrkleika bankans, en annars snýst umræðan um það hvort menn séu með eða á móti bónusum, nákvæmlega eins og áður en kreppan skall á.

Dekkri framtíðarhorfur

Það eina sem raunverulega hefur breyst eru framtíðarhorfurnar. Fram á vetur 2008 hafði uppgangurinn varað svo lengi að það var erfitt að ímynda sér að verulegur hnignunartími myndi renna upp.  Nú er mikil óvissa um efnahagsþróunina og hennar verður einnig vart í bankageiranum. Atvinnulífið stendur ekki í röð til að láta fjármagna ný verkefni – en það veldur því bankarnir verða líka áhyggjufullir – þó ekki svo mjög um eiginn styrkleika heldur um vaxtar- og hagnaðarmöguleika í framtíðinni.

Þegar fyrirtækin halda að sér höndum binda margir vonir við húsnæðiskaupendur. En er það skynsamlegt?  Um það deila lærðir menn. Sumir telja að ný bóla sé að myndast á húsnæðismarkaðinum en aðrir telja að íbúðaverð ætti að hækka af þeirri einföldu ástæðu að eftirspurnin eftir íbúðum stígur jafnt og þétt – en framboðið eykst ekki að sama skapi í þeim landshlutum þar sem aðflutningur fólks er mikill.

Eftirlitsstofnanir standa fremstar í flokki þeirra sem vara við verðhækkunum á íbúðarhúsnæði. Þær vísa til þess að lán margra húseigenda eru svo há, þegar borið er saman við laun þeirra, að það getur leitt til verulegra vandræða ef vextir hækka og fara að nálgast tíu prósent. Þeir eru ekki nærri því svo háir um þessar mundir. Síðasta tilkynning seðlabankans boðar að vextir muni hækka hægar en þeir hafi áður búist við vegna þess að heimshagkerfið stendur tiltölulega illa og vegna þess að það eru takmörk fyrir því hversu háir norskir vextir geta verið án þess að gengi krónunnar verði verulega sterkt.

Á sama tíma benda Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið á að flestir húseigendur í Noregi eru með lán með breytilegum vöxtum. Þess vegna er húsnæðismarkaðurinn ákaflega viðkvæmur fyrir vaxtabreytingum. Vaxtahækkun upp á örfá prósent – í bland við væntingar um ennþá hærri vexti – geta komið af stað gagnvirkni þar sem væntanlegir húsnæðiskaupendur fresta áformum sínum í sameiningu og bíða átekta eftir því að húsnæðisverð lækki.

Fasteignasalar halda því fram að það muni ekki gerast og taka margir hagspekingar undir það.  Röksemdafærsla þeirra er að húsnæðiskaupendur séu skynsamari en áður. Húsnæðisbólur og afleiðingar vaxtahækkunar hafi verið svo mikið í sviðsljósinu að fólk skilji nú að það eigi ekki að taka hærri lán en það geti greitt afborganir af. Þar að auki fjölgi fólki töluvert í Noregi. Sérstaklega fjölgi fólki í Osló og nágrenni hennar. Þar hafi ekki verið byggt mikið á undanförnum árum – framboð komi því til með að vera talsvert minna en eftirspurnin í langan tíma.

Bankarnir halda sínu striki, heimurinn breytist

Um þetta snýst umræðan og aðeins eitt er víst og það er að óvissan er mikil. Og hún eykst í raun – ekki sérstaklega varðandi húsnæðismarkaðinn heldur almennt varðandi efnahagslegar horfur. Eftir að menn hafa talað lengi um það hversu vel hefur gengið í fjármálakreppunni hafa stöðugt fleiri beint athyglinni að öllum nýju vandamálunum sem komið hafa upp í heimshagkerfinu og í stórum og valdamiklum löndum um heim allan.

Óvissan og alvarleikinn komu augljóslega fram þegar utanríkisráðherra í greinargerð sinni til Stórþingsins í lok mars talaði einvörðungu um heimshagkerfið. Greining hans var að stóru vandamálin og ójafnvægið sem komið hafa upp í kjölfar efnahagskreppunnar geti leitt til breytinga sem muni hafa þýðingu fyrir norska utanríkispólitík.

Eitt af áhyggjuefnunum hans var að Bandaríkin og ESB-löndin beini í auknum mæli allri orku sinni að eigin málefnum – þau muni mæta svo miklum efnahagslegum erfiðleikum að þau þurfi að beina öllum kröftum sínum til að takast á við þá. Þau muni ekki hafa getu til að sinna öðrum mikilvægum málaflokkum – eins og til dæmis að koma á alþjóðlegu samkomulagi til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda.

Jonas Gahr Støre utanríkisráðherra óttast líka að efnahagsvandræðin geti leitt til aukinnar verndarstefnu landa auk félagslegs og stjórnmálalegs óróa í mörgum löndum. Hann vísaði til fjórða áratugs síðustu aldar en lagði áherslu á að kreppur leiddu ekki endilega til styrjalda.  Þær geti líka leitt til nauðsynlegrar og endurnærandi nýskipunar.

Meðal þeirrar nýskipunar sem þegar sjást merki er þróun G20-ríkjahópsins. Hún er afleiðing margra ára þróunar þar sem lönd eins og Kína, Indland og Brasilía hafa eflst gífurlega. Kjarninn í máli utanríkisráðherrans var aftur á móti að ójafnvægið milli landa sem taka peninga að láni og þeirra sem lána út peninga hefur aukist gífurlega eftir að fjármálakreppan brast á og að það hafi mikla þýðingu fyrir valdajafnvægið í heiminum. Það hafi ekki einungis í för með sér að þau lönd sem flytja mikið út og lána út mikla fjármuni hafi eflst heldur jafnframt að lönd séu í auknum mæli orðin háðari hvert öðru.

Í þessari stóru heildarmynd hefur það litla þýðingu að norski bankageirinn hefur komist nokkurn veginn ósnortinn í gegnum fjármálakreppuna.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden