Document Actions

Markku Heikkilä

Sprengjan sem ekki sprakk

Í vor áætlaði fjármálaráðuneytið í Finnlandi að atvinnuleysi ungs fólks myndi á árinu aukast og verða að minnsta kosti 24 prósent. Síðan hefur ekkert gerst. Þvert á allar væntingar höfðu tölur um atvinnuleysi í lok sumars lækkað, einnig um atvinnuleysi unga fólksins. Þrátt fyrir það er atvinnusköpun fyrir ungt fólk viðvarandi vandamál.

07/10 2010

Finnar eru oftar en ekki taldir hafa eðlislæga tilhneigingu til svartsýni. Þess vegna tendraði niðurstaða könnunarinnar sem tímaritið Newsweek birti í ágúst nýja von í brjóstum almennings. Hið virta tímarit kynnti niðurstöður sem sýndu fram á, með fjölda ólíkra raka, að hvergi væri betra að búa í heiminum en í Finnlandi.

Það tók talsverðan tíma að kyngja þessu og vaskir fjölmiðlar lögðu mikið á sig til þess að sýna fram á að vegna villu í útreikningum Newsweek ætti Finnland eiginlega að hafna í öðru sæti á eftir Sviss. Spjallþræðir á netinu voru rauðglóandi vegna fjölda greina um ómögulegt ástandið í Finnlandi.

Opinber umræða er á sömu nótum og fjallar aðallega um hve mikið bæði ríki og sveitarfélög verði að spara á öllum sviðum sökum erfiðrar stöðu í efnahagslífinu. Samt vitna allar vísbendingar úr hagkerfinu um betri tíð. Nú væntir finnski seðlabankinn þess að hagvöxtur verði tvö eða þrjú prósent næstu árin. Útgjöld vegna atvinnuleysisins munu verða mun lægri en óttast hafði verið. Um tíma var útlitið nefnilega verulega slæmt.

Rót atvinnuleysisvandans

Allt árið 2009 var rætt um að atvinnuleysi myndi aukast með ógnarhraða. Í ágúst í fyrra taldi Jyrki Katainen, fjármálaráðherra að atvinnuleysi í Finnlandi myndi ná fjórtán prósentum á næsta ári.

Raunverulegt atvinnuleysi hefur aldrei orðið svo mikið. Samkvæmt nýjustu tölum, sem birtar voru í september, mældist atvinnuleysið 7,3 prósent. Atvinnuleysi meðal ungs fólks hafði minnkað niður fyrir 15 prósent. Samkvæmt öllum spám hefði það átt að vera umtalsvert meira en 20 prósent vegna þess að um tíma gáfu allar tölur til kynna að vænta mætti mikillar niðursveiflu. En upplýsingarnar í skýrslu Seðlabanka Finnlands eru óyggjandi: „Ekki er talið að niðursveiflan hafi gert ungt fólk í auknum mæli að jaðarhópi á vinnumarkaði eins og óttast var“

Þegar allt kemur til alls, hafði kreppan alls ekki jafn alvarleg áhrif í Finnlandi og talið hafði verið, afleiðingar hennar hafa verið mun vægari heldur en raunin var í þeirri djúpu efnahagslægð sem reið yfir í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar, áhrifa hennar gætir enn. Stór hluti þeirra sem þá missti atvinnuna hefur þurft að horfast í augu við að fara aldrei aftur út á vinnumarkaðinn. Hagkerfið tók svo sannarlega við sér aftur, en yngri aldurshópar fengu störfin sem urðu til og fórnarlömb kreppunnar voru gersamlega sniðgengin.

Þetta er hluti skýringarinnar á félagslega finnska vítahringnum þar sem litið er á atvinnuleysi sem lífsstíl sem gengur í arf frá kynslóð til kynslóðar. Engar úrlausnir hafa dugað til þess að leysa "rót langtíma atvinnuleysis". Þeir sem misstu störf sín í upphafi tíunda áratugarins eru smám saman að komast á eftirlaun og eru um leið strikaðir út af atvinnuleysisskrá.

Menntun greiðir leið til starfa

Atvinnu- og iðnaðarráðuneytið birti í september niðurstöður rannsóknar, þar sem áhrif kreppunnar í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar er borin saman við áhrif núverandi kreppu. Niðurstöðurnar sýna umtalsverðar breytingar á vinnumarkaði, nær öll ný störf sem verða til eru í starfsgreinum sem gera kröfur um góða menntun.

Þetta gerir þeim sem enga menntun hafa erfiðara fyrir. Hið sama á einnig við um unga fólkið.

Þrátt fyrir það er erfitt að túlka tölurnar um atvinnuleysi meðal ungs fólks. Á yfirborðinu líta þær út fyrir að vera alltaf jafn háar. Tölur um atvinnuleysi hafa á tímum kreppunnar verið um og yfir 20 prósent og líta svo sannarlega ekki vel út.

En tölurnar ná einnig til ungs fólks sem skráir sig á atvinnuleysisskrá á milli tímabilum eins og til dæmis að loknu námi í framhaldsskóla, áður en nám í háskóla hefst. Skráning á atvinnuleysisskrá auðveldar einnig fólki að komast inn í styrkjakerfi samfélagsins. Í tengslum við þetta skapa margir sér ímynd sem er  allt öðruvísi en þeirra sem eru í leit að atvinnu.

Í skýrslu sem fjármálaráðuneytið lét gera síðastliðið vor, kemur fram að þrátt fyrir hátt hlutfall atvinnuleysis, séu í raun aðeins fimm prósent fólks í yngstu aldurshópunum án atvinnu. Það er ekki frábrugðið því sem gerist og gengur meðal annarra aldurshópa. Samkvæmt þessari reikningsaðferð er atvinnuleysi meðal ungs fólks ekki frábrugðið  atvinnuleysi almennt í landinu.

Töfralausnir eru ekki til

Núverandi ríkisstjórn Finnlands hefur eins og margar ríkisstjórnir á undan henni leitað með logandi ljósi að úrræðum til þess að ráða bót á atvinnuleysi ungs fólks. Undanfarin ár hafa ótal mismunandi aðferðir verið reyndar. Í þeim sem nú er beitt felast meðal annars ráðningarstyrkir, nemasamningar, verkstæði fyrir ungt fólk, tilraunir um útvíkkun á vinnustaðanámi og fjölgun nemaplássa í starfsmenntun.

Hægt væri að telja upp ótal margar aðferðir sem þegar hefur verið beitt við listann. Til þess að draga úr áhrifum kreppunnar hefur ríkisstjórnin, á þessu ári, aukið framlög til atvinnusköpunar fyrir ungt fólk sem og aðgerðir til að fyrirbyggja atvinnuleysi.

Hætt er við að listinn yfir fjölda aðgerða á þessu sviði yrði langur. Þetta sýnir að orsakirnar eru margar og að erfitt er að finna einfaldar og yfirgripsmiklar lausnir til að ráða bug á atvinnuleysi meðal ungs fólks. En lokaniðurstaðan getur virkað skriffinnskuleg fyrir ungt fólk og jafnframt torskilin.

Í Finnlandi eru það venjulega austur og norður hlutar landsins sem atvinnuleysið bitnar verst á, en ástandið er jafnan best á höfuðborgasvæðinu. Þannig er það einnig hjá unga fólkinu. Á landsvæðum þar sem stöðnun ríkir getur verið afar erfitt að fá nokkra vinnu. Á hinn bóginn felst lausnin ekki endilega í því að flytja á svæði þar sem vöxtur er. Mesta atvinnuleysi meðal ungs fólks hefur um hríð verði í Uleå, sem er miðja hagvaxtarsvæðis í Norður Finnlandi og þar sem hlutfall ungs fólks af íbúum er tiltölulega hátt. Þar hefur aðgerðum til þess að skapa atvinnutækifæri fyrir ungt fólk ítrekað verðið beitt um langt árabil, án þess að nokkur umtalsverður árangur hafi náðst.

Ef ekki bjóðast atvinnutækifæri kjósa unglingar að verja meiri tíma í nám þrátt fyrir að í Finnlandi hafi fólk upp á síðkastið fremur verið hvatt til þess að stytta námstímann og lengja um leið starfsævina. Þetta hefur komið sér vel fyrir þá sem hafa fengið nemapláss vegna þess að allar kannanir sýna að með aukinni menntun vaxa líkurnar á því að fá vinnu.

Einstaklega sérstakt vandamál verður til þegar unglingar hverfa að lokinni skólaskyldu - þeir leggja hvorki stund á nám né heldur eru þeir skráðir atvinnulausir. Lendi einhver í slíkum vítahring á aldursbilinu 15–19 ára verður það oftar en ekki til þess að viðkomandi hafni algerlega og langvarandi í jaðarhópum. Allar tölur benda til þess að þetta séu örlög nokkurra prósentuhluta aldurshópsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum í Finnlandi birtist atvinnuleysi meðal ungs fólks einnig í aukinni mistnotkun fíkniefna. Fái maður ekki sumarvinnu getur maður allt eins bara haldið áfram að drekka. Þetta er dæmi um afleiðingar sem atvinnuleysi ungs fólks hefur á samfélagið.

Í Finnlandi er undirbúningur þingkosninga sem eiga að fara fram í apríl 2011hafinn. Fram til þessa hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að atvinnuleysi meðal ungs fólks, eða atvinnuleysi almennt verði meðal þeirra mála sem hæst ber í aðdraganda kosninga. Sennilega vegna þess, að allir vita að rætur atvinnuleysisins eru svo langar að eiginlega allir stjórnmálaflokkarnir hafa, hver á fætur öðrum, reynt að ráða bót á vandanum án nokkurs árangurs.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden