Document Actions

Thomas Larsen

Ungt fólk má ekki standa á hliðarlínunni

Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra hyggst koma í veg fyrir að ungt fólk í Danmörku lendi úti á jaðri þjóðfélagsins með því að gera nákvæma athugun á danska grunnskólanum og breyta reglum um örorkulífeyri. Markmiðið er að ungt fólk öðlist nauðsynlega þekkingu í skólanum til að afla sér frekari menntunar og atvinnu. Jafnframt verði minna um að ungmenni endi sem örorkulífeyrisþegar.

07/10 2010

Þriðjudaginn 5. október hófst nýtt þingtímabil á Þjóðþinginu.

Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra gerði grein fyrir helstu verkefnum sem ríkisstjórn hans ætlar að beita sér fyrir í opnunarræðu sinni fyrir þingheimi sem lítur út fyrir að verða einhver erfiðasti í mörg ár.

Allir búast við að á meðan á þessu þingi stendur verði efnt til kosninga.
Þingið í Christiansborg er því nú þegar í miðri stöðugri kosningabaráttu þar sem mætast stálin stinn. Annars vegar stendur ríkisstjórn Vinstriflokksins og Íhaldsflokksins ásamt Danska þjóðarflokknum og Frjálslynda bandalaginu. Hins vegar bíður Sósíaldemókrataflokkurinn, Sósíalski þjóðarflokkurinn, Róttæki Vinstriflokkurinn og Einingarlistinn eftir því að komast til valda.

Flokksleiðtogar og stjórnmálaskýrendur eiga fæstir von á að það takist að skapa breiða samstöðu í þessu pólitíska andrúmslofti.

Ýmsir sem standa framarlega í atvinnulífinu – þar á meðal Lars Rebien Sørensen frá lyfjafyrirtækinu Novo Nordisk – hafa opinberlega lýst vantrú sinni á þessar stöðnuðu fylkingar og bent á nauðsyn samvinnu á tímum kreppu í dönsku efnahagslífi.

En af henni verður ekki. Ekki einu sinni þó að bæði Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra og áskorandinn Helle Thorning-Schmidt leiðtogi Sósíaldemókrataflokksins séu í fjölmörgum atriðum sammála í greiningu sinni á þeim brýnu verkefnum sem Danir eiga fyrir höndum að kljást við.

Eitt þessara verkefna er að koma í veg fyrir að ungt fólk verði atvinnulaust og á nýju þingi mun þetta málefni verða ofarlega á baugi.

Atvinnuleysi meðal ungs fólks hefur aukist

Þarna er sýnilega vandi á ferðum.

Ný athugun á atvinnuleysi ungs fólks á Norðurlöndum, sem ráðgjafafyrirtækið Rambøll Management hefur gert, sýnir að atvinnuleysi meðal ungs fólks hefur aukist í kjölfarið á alvarlegri efnahagskreppu í heiminum á undanförnum árum.

Skýrslan sýnir einnig að Danir verða að takast á við fleiri alvarleg mál sem fyrst og fremst snúast um að fá ungt menntað fólk sem fyrst í störf – til þess að það verði ekki atvinnulaust til langframa – ásamt því að fá fleira ungt ómenntað fólk til að afla sér menntunar.

Að síðustu þarf í auknum mæli að koma í veg fyrir að svo margir hverfi úr námi.

Eitt vandamálið í sambandi við svo mikið brottfall nemenda úr námi tengist því beint að ungmennum gengur iðulega illa að komast að sem lærlingar og í starfsþjálfun. Vegna kreppunnar hafa fyrirtæki dregið saman seglin og meðal annars skorið niður lærlingsstörf og starfsþjálfun sem þegar var of lítið framboð af.

Efling grunnskólans

Í aðalatriðum sýnir skýrslan að Danir reyna að fylgja einfaldri hugmyndafræði um að betri menntun muni fækka atvinnulausum ungmennum og þar með fækka ungu fólki á opinberu framfæri.

En eins og allir vita er það hægara ort en gjört.

Á nýju þingi hefur Lars Løkke Rasmussen gert það eitt af sínum helstu stefnumálum að vinna að því að efla gæði grunnskólans í Danmörku.

Það er síður en svo að það sé í fyrsta sinn sem þetta gerist. Strax í upphafi ferils ríkisstjórnarinnar árið 2001 var ljóst að nýja borgaralega stjórnin myndi stefna markvisst að því að efla fagmennsku í grunnskólanum.

Fjöldi alþjóðlegra rannsókna, þar sem færni nemenda var borin saman milli landa, sýndi að danskir nemendur stóðu sig furðu illa.

Þetta voru engin gleðitíðindi, einkum með tilliti til að Danir voru yfirleitt sannfærðir um að Danmörk hefði einkaleyfi á „besta grunnskóla í heimi“.

Alþjóðlega námsmatið – svokallaðar PISA-kannanir – færði ótvírætt og miskunnarlaust sönnur á að sú var ekki raunin.

Síðan hafa meðal annars verið teknar upp nemendaáætlanir og stöðluð próf til að hægt sé að mæla faglega kunnáttu nemenda og kröfur hafa verið auknar bæði í dönsku og stærðfræði. Það hefur skilað sér í því að fagmennskan hefur eflst en ekki nóg.

Farið í saumana á skólanum

Frá því um áramót hefur forsætisráðherra því verið arkitektinn að svokallaðri 360 gráða athugun á grunnskólanum.

Síðan þá hefur sérstakur hópur farið vítt og breitt um grunnskólana og safnað hugmyndum til að styrkja kennsluna, auk þess sem unnið hefur verið markvisst að því að styrkja þá nemendur sem hætta í grunnskóla án þess að að hafa öðlast undirstöðuþekkingu í grunngreinum.

Án nauðsynlegrar hæfni og þekkingar er framhaldsskólanám nánast ógerlegt og það hefur, auk skorts á starfsþjálfunarstöðum, oftar en ekki orðið til þess að of fáir hefji og ljúki námi í framhaldsskóla.

Í stærri bæjum, einkum í Kaupmannahöfn, hafa piltar úr fjölskyldum innflytjenda einkum átt erfitt uppdráttar. Allt of oft hætta þeir í skóla áður en þeir hafa náð nauðsynlegri færni.

Forsætisráðherra vonast til að nýjar umbætur á grunnskólanum breyti þessari mynd.

Færri ungmenni fari á örorkulífeyri

Til viðbótar hefur forsætisráðherra boðað breytingu örorkulífeyriskerfinu en það rímar við eitt atriðið sem kemur fram í nýju skýrslunni sem Rambøll hefur unnið fyrir Norrænu ráðherranefndina.

Skýrslan nefnir sérstaklega að þegar horft sé til skorts á vinnuafli í framtíðinni eigi Danir við sérstakan vanda að etja vegna þess hve margt ungt fólk er á örorkulífeyri.

Á síðari árum hefur líka orðið ískyggileg fjölgun örorkulífeyrisþega meðal ungs fólks, meðal annars vegna þess að ungu fólki með geðræn vandamál sem kemur inn í örorkulífeyriskerfið hefur fjölgað.

Enn er á huldu hvernig endurbæturnar á örorkulífeyriskerfinu muni verða. En stefnan er ljós. Annars vegar á að tryggja að færra ungt fólk komist yfirleitt inn í kerfið. Hins vegar á að búa til nýjar leiðir út úr kerfinu.

Nú hefur farið vaxandi að viðurkennt sé að sum ungmenni endi með því að festast í kerfinu. Þegar sumpart er um að ræða geðrænan sjúkleika hjá ungu fólki getur sjúkdómurinn gert það óhæft til að nema eða starfa um tíma. En mörgum batnar sjúkdómurinn sem betur fer – eða þeir læra að hafa stjórn á honum.

Umbæturnar eiga að tryggja að ungmenni festist ekki varanlega í kerfinu. Þau verði að eiga kost á að komast út úr kerfinu eða til dæmis að að fá nýjan bráðabirgðastyrk sem veiti ró og stöðugleika meðan þau eru sjúk.

Þetta geti einnig átt við um ungar konur sem þjást af átröskun sem gerir þeim ókleift að sinna vinnu tímabundið. En seinna muni sumar geta farið í nám og fengið vinnu.

Hörkuuppgjör

Áður en þing kom saman bauð forsætisráðherra stjórnarandstöðunni að taka þátt í vinnunni. Formaður Sósíaldemókrataflokksins lét sömuleiðis í ljós ósk um víðtækt samstarf. En úr því verður tæpast!

Fyrst svo tiltölulega skammt er til næstu kosninga – kosningarnar eiga að fara fram ekki síðar en haustið 2011 – munu bláa og rauða blokkin stöðugt halda áfram kosningabaráttu sinni.

Helle Thorning-Schmidt boðaði einnig í ræðu á þingi Sósíaldemókrataflokksins í lok september að sósíaldemókratar vilji mynda bandalag með ungu fólki um að tryggja þeim meiri og betri menntun.

Í sömu andrá gagnrýndi hún ríkisstjórnina fyrir að hafa brugðist algerlega. Hún fullyrti að aðeins í tveimur 34 Vesturlanda hafi færra ungt fólk – ekki fleiri – lokið námi á síðasta áratug.

„Annað þessara landa er Danmörk,“ sagði formaður Sósíaldemókrataflokksins, og bætti við: „Sjáið fyrir ykkur 100 ungmenni. Af þessum 100 eiga 95 að menntast. Það viljum við miða við. Það vil ég miða við.“

Sósíaldemókratar vilja ásamt Sósíalska þjóðarflokknum hrinda í framkvæmd umbótum í grunnskólanum og meðal annars koma á tveggja kennara fyrirkomulagi í yngstu bekkjunum.

Flokkarnir tveir vilja einnig tryggja fleirum kost á menntun, tryggja að nemendur eigi kost á starfsþjálfun og fjárfesta í háskólunum.

Góður vilji er augljóslega fyrir hendi. Vandinn er aðeins sá að danskt efnahagslíf er svo illa statt að fé til fjárfestinga verður torfundið. Og að auki er valdabaráttan svo skuggaleg að líkurnar á samstöðu dvína.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden