Document Actions

Ólafur Stephensen

Hugsa um heimatorfuna, framkvæma á heimsvísu

Er Ísland fyrirmyndarríki, sem með sinni hreinu orku getur stuðlað að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu? Eða eru Íslendingar í hópi verstu skúrkanna, sem brenna mestu jarðefnaeldsneyti og menga mest? Hvort tveggja getur verið rétt og það gerir umræðuna bæði þversagnakennda og áhugaverða.

21/02 2007

Er Ísland fyrirmyndarríki, sem með sinni hreinu orku getur stuðlað að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu? Eða eru Íslendingar í hópi verstu skúrkanna, sem brenna mestu jarðefnaeldsneyti og menga mest? Hvort tveggja getur verið rétt og það gerir umræðuna bæði þversagnakennda og áhugaverða.

Eitt af því, sem gerir að verkum að Ísland er í hópi samkeppnishæfustu ríkja heims, er lágt orkuverð. Fjárfestingar erlendra álfyrirtækja á Íslandi eru ein af undirstöðum íslenzka efnahagsundursins. Ekkert ríki framleiðir nú meira hráál á íbúa en Ísland. Þrjú stór álver eru risin á Íslandi, stefnt er að því að stækka tvö þeirra og áhugi er á að byggja tvö í viðbót.

Kyoto og samkeppnisforskot Íslands

Ísland er eitt þeirra ríkja, sem hafa staðfest Kyoto-bókunina við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna, en tvennt gerir þó að verkum að á Íslandi er talsvert svigrúm til að byggja nýja stóriðju.

Í fyrsta lagi var Íslandi heimilað í Kyoto-bókuninni að auka útblástur gróðurhúsalofttegunda á samningstímabilinu um 10%, en flest önnur iðnríki skuldbundu sig til að skera losun sína niður. Með þessu voru Íslendingar verðlaunaðir fyrir þann árangur sem þeir höfðu náð í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa fyrir árið 1990, viðmiðunarár Kyoto-bókunarinnar. Vatnsorka og jarðhiti sjá íslenzkum heimilum fyrir langstærstum hluta orku þeirra.

Í öðru lagi var samið um „íslenzka ákvæðið“ svokallaða. Það heimilar undanþágu frá takmörkunum á losun gróðurhúsalofttegunda ef um er að ræða stóriðjuverkefni í litlum hagkerfum, að því gefnu að endurnýjanleg orka sé notuð til að knýja verksmiðjurnar. Hins vegar er „þak“ á undanþágunni upp á 1,6 milljónir tonna af koltvísýringi.

Þetta tvennt þýðir að í raun má Ísland auka losun gróðurhúsalofttegunda um nærri 60% frá árinu 1990 og fram til 2012. Þetta veitir Íslandi samkeppnisforskot á önnur iðnríki, sem bundin eru af takmörkunum Kyoto-bókunarinnar og gerir landið að meira aðlaðandi kosti fyrir alþjóðleg stóriðjufyrirtæki.

Stóriðja á Íslandi hluti af lausninni

Stefna ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum er umdeild vegna annars konar umhverfisáhrifa, sem fylgja virkjununum sem þarf að reisa vegna nýrra stóriðjuverkefna. (Sjá Analys Norden í september 2006). En stjórnarandstaðan og náttúruverndarsamtök hafa jafnframt gagnrýnt harðlega uppbyggingu stóriðju vegna þess hvað hún hefur í för með sér mikla aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda. Andstæðingar stóriðjunnar halda því fram að það sé ábyrgðarleysi af Íslands hálfu að nýta allar þær heimildir, sem Ísland hefur til að blása meiri koltvísýringi og öðrum skaðlegum lofttegundum út í andrúmsloftið.

Þetta er misskilningur, segja fylgismenn stóriðjuuppbyggingar. Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra hélt því fram keik í umræðum um loftslagsmál á Alþingi fyrr í febrúarmánuði að stóriðja á Íslandi væri ekki hluti af því vandamáli, sem er hlýnun hnattarins vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Hún er þvert á móti hluti af lausninni, sagði umhverfisráðherrann. Með því að álframleiðsla færist til Íslands er álið framleitt með hreinni og endurnýjanlegri raforku, í stað þess að brenna kolum í einhverju öðru landi. Þótt álframleiðslan sjálf auki losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, dregur hún úr útblæstri á heimsvísu, sem nemur margfaldri aukningunni á Íslandi.

Svo mörg stóriðjuverkefni gætu þó verið í uppsiglingu á Íslandi að Kyoto-kvótinn gæti sprungið, þótt ríflegur sé. Umhverfisráðherrann hyggst því leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um að fari losun gróðurhúsalofttegunda fram úr heimildum, verði stóriðjan annaðhvort að fjármagna skógræktar- og landgræðsluverkefni til að binda koltvísýring eða kaupa sér viðbótarkvóta frá viðurkenndum erlendum aðilum.

Andrúmsloftið og lífsstíll Íslendinga

Jafnvel þótt menn kaupi þessa röksemdafærslu; að Ísland geti lagt sitt af mörkum í baráttunni gegn gróðurhúsaáhrifunum með því að taka nokkur alþjóðleg álfyrirtæki upp á sína arma; er ekki hægt að segja að Íslendingar séu neitt óskaplega meðvitaðir á öðrum sviðum um ábyrgð sína á heilsufari hnattarins. Þrátt fyrir alla endurnýjanlegu orkuna brenna fáar þjóðir jafnmiklu jarðefnaeldsneyti á mann og Íslendingar, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á lofthjúpinn. Þetta skýrist af stórum fiski- og farskipaflota, flugvélaflota og einkabílaflota.

Lífsstíll Íslendinga er ekki mjög loftslagsvænn. Í Reykjavík, þar sem reyndar er mjög oft vont veður, dettur aðeins 5% íbúanna í hug að leggja á sig göngutúrinn út á strætóstoppistöð. Hinir keyra börnin í skólann á háfjallajeppum. Ef meðalíslendingurinn væri spurður hvort hann axlaði sína ábyrgð á loftslagsmálunum, til dæmis með því að nota almenningssamgöngur, myndi hann líklega bara spyrja bláeygur: Fengum við ekki kvóta í Kyoto?

Vandinn viðurkenndur

Þeir tímar eru liðnir að íslenzkir ráðamenn geri jafnvel lítið úr þeim vísindalegu vísbendingum, sem eru um hlýnun hnattarins. Alvöruþungi var í ummælum ráðherra ríkisstjórnarinnar um nýjustu skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, sem færir fram enn nýjar sannanir fyrir því að hlýnun loftslags sé af manna völdum.

Íslendingar hafa hins vegar alltaf haft meiri áhuga á því hvernig þeir geti grætt á hnattrænum vandamálum, t.d. heimsstyrjöldum og kalda stríðinu, en hvað þeir geti lagt af mörkum til að leysa þau. Það er miklu meiri áhugi á því á Íslandi hvaða viðskiptatækifæri myndu fylgja opnun Norðvestur-siglingaleiðarinnar vegna minnkandi hafíss en hvað það þýddi fyrir fólkið í Bangladesh að yfirborð sjávar hækkaði.

Þó ýtir það við sumum þegar vísindamenn spá því að hlýnun hnattarins gæti haft áhrif á Golfstrauminn, þannig að í stað þess að sólbaðsdögum á Íslandi fjölgaði, yrði þvert á móti kaldara. En nýjustu vísindarannsóknir sýna að litlar líkur séu á því og þá anda menn léttar.

Háborg efnishyggjunnar

Viðskiptalífið hefur mikinn áhuga á því hvernig hægt sé að flytja út þekkingu Íslendinga á endurnýjanlegum orkugjöfum og stuðla þannig að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Einn af stærstu bönkunum á Íslandi, Glitnir, hyggst sérhæfa sig í fjármögnun slíkra verkefna og tekur nú þátt í uppbyggingu stærstu hitaveitu í heimi í borginni Xian Yang í Kína. Talið er að gríðarlegir möguleikar geti legið í slíkum verkefnum í Kína og víðar í þróunarlöndunum.

Í áramótaávarpi sínu fyrir fáeinum vikum fjallaði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, mikið um þá vá, sem stafaði af hlýnun hnattarins. Hann lagði hins vegar mun meiri áherzlu á þau tækifæri til útflutnings á þekkingu, sem þessi þróun hefði í för með sér, en að Íslendingar þyrftu að breyta lífsmáta sínum. Og það endurspeglar íslenzka þjóðarsál alveg prýðilega. Ef Ísland verður alþjóðleg miðstöð baráttunnar gegn gróðurhúsaáhrifunum getum við keypt okkur fleiri jeppa.

Ætli Íslendingar séu ekki búnir að snúa á haus hinu fræga kjörorði alþjóðlegrar umhverfisverndarhreyfingar; hugsa á heimsvísu og framkvæma heima fyrir?

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Tengiliður

Michael Funch
Netfang:

Leit í Analys Norden