Document Actions

Jákup Magnussen

Óvænt Kyotosamþykkt veldur höfuðverk

Í upphafi árþúsundsins var ekki eining innan ríkissambands Danmerkur (Danmörku, Færeyjum og Grænlandi) um Kyotosamninginn. Danmörk samþykkti Kyotosamninginn árið 2002 en Færeyjar hafa haft fyrirvara um samninginn. Það kom á óvart þegar meirihlutinn að baki færeysku landsstjórninni samþykkti Kyotosamninginn nú í lok september. Ákvörðunin gerir miklar kröfur til landsins. Það er svo sem ekki mikið mál varðandi það sem snýr að sjálfu landinu, en það sem snýr að siglingum er erfiðara viðureignar. Mikill hluti mengunarinnar á nefnilega rætur sínar að rekja til fiskiskipaflotans en fiskveiðar eru eina stóra tekjulind Færeyja. Þess vegna vilja frjálslyndir stjórnmálamenn og fulltrúar atvinnulífsins að landið fái undanþágur eða hagstæð sérákvæði. Á móti færa menn þau rök að við ættum að hafa verið með frá byrjun og að nú sé orðið of seint að hafa áhrif. Betra sé að byrja strax að uppfylla skilyrði samningsins í stað þess að bíða viðurlaganna; sektanna.

25/10 2007

Í upphafi árþúsundsins var ekki eining innan ríkissambands Danmerkur (Danmörku, Færeyjum og Grænlandi) um Kyotosamninginn. Danmörk samþykkti Kyotosamninginn árið 2002 en Færeyjar hafa haft fyrirvara um samninginn.  Það kom á óvart þegar meirihlutinn að baki færeysku landsstjórninni samþykkti Kyotosamninginn nú í lok september.  Ákvörðunin gerir miklar kröfur til landsins.  Það er svo sem ekki mikið mál varðandi það sem snýr að sjálfu landinu, en það sem snýr að siglingum er erfiðara viðureignar.  Mikill hluti mengunarinnar á nefnilega rætur sínar að rekja til fiskiskipaflotans en fiskveiðar eru eina stóra tekjulind Færeyja.  Þess vegna vilja frjálslyndir stjórnmálamenn og fulltrúar atvinnulífsins að landið fái undanþágur eða hagstæð sérákvæði. Á móti færa menn þau rök að við ættum að hafa verið með frá byrjun og að nú sé orðið of seint að hafa áhrif. Betra sé að byrja strax að uppfylla skilyrði samningsins í stað þess að bíða viðurlaganna; sektanna.

Sérfræðingar og eldhugar hafa lengi hvatt stjórnmálamenn til að skrifa undir Kyotosamninginn. Og til þess að nota þá peninga sem til þarf, því að umhverfið – og framtíð okkar – líður fyrir aðgerðaleysið. En sannleikurinn er sá að Færeyjar er svo litlar að sá koltvísýringur sem landið sleppir út í andrúmsloftið skiptir engu máli þegar litið er heimsins alls.  En landið vill vera hluti alþjóðasamfélagsins.  Ákvörðunin hefur mikið táknrænt gildi.

Pólitískur aðdragandi

Í ríkisstjórnarsáttmálanum frá 2004 er kveðið á um að landsstjórnin, eða með öðrum orðum færeyska ríkisstjórnin, mun vinna markvisst að því að draga úr loftmengun.  En lögmaðurinn, færeyski forsætisráðherrann, viðurkenndi fyrr á árinu að ekki lægi fyrir nákvæm áætlun. Þess vegna kom það nokkuð á óvart þegar lögmaðurinn lagði fram lagafrumvarp hinn 17. september um að framkvæma ákvæði Kyotosamningsins á Færeyjum.  Og það þrátt fyrir að hann hafi áður sagt að Kyotosamningurinn yrði samþykktur á þessu kjörtímabili. Hann var samþykktur á Lögþinginu hinn 28. september.

Hluti stjórnarandstöðunnar heldur því fram að frumkvæðið sé bara kosningabrella þar sem þingkosningar beri að halda í síðasta lagi í janúar 2008. Það var komið að lokatækifærinu í þessari umferð. Sameinuðu þjóðirnar höfðu látið Danmörku vita að upplýsa yrði um afstöðu Færeyja til Kyotosamningsins í síðasta lagi hinn 24. október 2008.  Færeyjar eiga ekki sjálfstæða aðild að SÞ.

Hvað nú?

Hvort sem um er að ræða kosningabrellu eður ei, þá er eining um að eitthvað þurfi að gerast núna.  Fulltrúar atvinnulífsins hafa alltaf haft efasemdir.  Íhaldsflokkurinn Þjóðarflokkurinn hefur líka alltaf viljað að Færeyjar fengju sérákvæði í samninginn. Þetta er stór biti að kyngja: Árið 2002 hafði koltvísýringsmagnið sem Færeyjar sleppa út í andrúmsloftið vaxið um 11% frá því árið 1990. Það var jafnframt gerð mæling árið 2004 en þar fyrir utan er tölfræðin fátækleg. Danmörk og SÞ hafa upplýst Færeyjar um að landið skuldbindi sig til að minnka losun koltvísýrings um 19-20% á næstu fjórum árum.

Frá því að síðasta grein um umhverfismál í Færeyjum birtist í Analys Norden í september árið 2006, hefur landsstjórnin ákveðið að verja um það bil 45 milljónum íslenskra króna til viðbótar til umhverfismála. Stjórnsýslan í umhverfismálum hefur upplýst að þessi upphæð nægi til að uppfæra umhverfis- og reglugerðarþætti í samræmi við Kyotosamninginn. Það er að segja, engir peningar til stórverkefna heldur aðeins til hins nauðsynlegasta. Menn höfðu óskað eftir 130 milljónum.  Stjórnmálamenn hafa sagt að aðeins sé um fyrsta skref vegferðarinnar að ræða. En fyrst búið er að samþykkja Kyotosamninginn væri kannski hægt að fara aðeins hraðar.

Annars hefur landsstjórnin slegið stjórnsýslu umhverfismála saman við aðrar skyldar stofnanir í stærri samtök, Umhverfisráðið.  En ákvörðunin er svo ný að menn vita ekki enn hversu ákvörðunin mun gagnast umhverfis- og náttúruverndarsviðinu.  Það veltur líka mikið á fjárveitingum.

Þrýstingur á stjórnmálamenn

Ef að líkum lætur hefðu stjórnmálamenn og atvinnurekendur óskað annarrar lausnar varðandi Kyotomálin. Til dæmis bráðabirgðalausnar sem næði yfir nokkra áratugi.  En þrýstingurinn er talsverður þar sem vilji er fyrir því að taka þátt í alþjóðarannsóknum og að samstarf við Evrópusambandið verði aukið.  Jafnframt hafa Færeyjar óskað eftir sjálfstæðri aðild að Norðurlandaráði.  Landið vill geta staðið jafnfætis öðrum löndum. En það getur reynst erfitt ef andstaða er gegn grundvallarmáli eins og Kyotoákvæðunum. Auk þess er vitundin um umhverfis- og náttúrumál að aukast meðal færeysku þjóðarinnar. Komandi kynslóðir munu án efa gera miklar kröfur til stefnunnar í umhverfismálum. Til dæmis hefur nýlegt barnaheimili sett upp sólarrafhlöður en það dregur úr magni koltvísýrings sem sleppur út í andrúmsloftið um 12 tonn á ári og er einnig notað í uppeldisskyni. Margir húseigendur hætta að hita upp með olíu og fá sér í staðinn rafmagnshitadælur sem eru mjög þægilegar, bæði fyrir umhverfið og peningaveskið. Stöðugt fleiri heimili í Þórshöfn, höfuðstað Færeyja, fá fjarhitun. Og umhverfissinnar fá mikla athygli fjölmiðla.  Eins og sagt var frá í síðustu greininni í Analys Norden þá ætla Færeyjar sér að fá stærri hluta orku sinnar með því að vinna hana úr vindi, vatni og vetni.  Nokkur verkefni eru komin af stað, til dæmis varðandi ölduorkuvinnslu.  En það tekur tíma.  Það leysir ekki heldur á svipstundu gífurlega olíunotkun á hafi úti.

Bakgrunnur Færeyja í umhverfismálum

Færeyjar eiga sér ekki langa sögu í náttúru- og umhverfisvernd. Við fengum fyrstu sorpbrennslustöðina í byrjun níunda áratugar síðustu aldar. Það var sameiginleg ákvörðun sveitarfélaga. Fyrir þann tíma var allt losað í sjóinn. Öll sveitarfélögin voru með rampa svo að bílar gætu bakkað að brúninni og vippað ruslinu út í sjóinn.  Mörg falleg náttúrusvæði voru skítug og daunill. Höfuðstaðurinn Þórshöfn kom sér upp eigin orku- og sorpeyðingarstöð árið 1987 og hafa stöðvarnar verið betrumbættar verulega í áranna rás. Frá því að vera einfaldar eyðingarstöðvar alls sorps hafa nú báðar endurvinnslu og annars konar flokkun auk fullkominna sía sem draga úr koltvísýringsmengun.

Færeyingar telja sjálfir að þeir séu áratug á eftir þróuninni í nágrannalöndunum.  Stundum er það notað sem afsökun.  Varðandi umhverfismálin er það ekki lengur hægt ef maður vill vera þátttakandi.  Menn hafa rætt um það á síðustu mánuðum að kaupa koltvísýringskvóta frá öðrum löndum og fá úthlutað koltvísýringsuppbót í tengslum við þróunarlandaverkefni.  En það má ekki heldur vera afsökun í stað þess að framkvæma og hugsa á skapandi hátt.  Þess vegna getur það reynst nauðsynlegt að hrinda í framkvæmd áformum landsstjórnarinnar um rannsóknarver og samvinnu um rannsóknir við önnur lönd.  Færeyjar eiga ekki aðild að ESB.  Og þrátt fyrir að landið eigi samstarf við ESB á ýmsum sviðum þá hefur landið ekki frjálsan aðgang að sjóðum ESB og stofnunum.

Í kjölfar Kyoto

Eftir að búið er að samþykkja að skrifa undir Kyotosamninginn hafa stjórnmálamenn stjórnarmeirihlutans sagt að ákvörðunin muni kosta tugmilljónir króna.  Það hefur væntanlega í för með sér að stjórnvöld verða að skoða fjárlögin með nýjum gleraugum; forgangsraða öðruvísi fjárhagslega.  Einn kosturinn er að taka forvarnarhlutann alvarlegar. Öðru hverju lamar fiskiþurrð færeyskan efnahag.  Það gerðist síðast á tíunda áratug síðustu aldar þegar danska ríkisstjórnin kom til bjargar Færeyjum með ríkislánum upp á tugi milljarða íslenskra króna.  Viðhorf sérfræðinganna er að stjórnmálamenn og atvinnulífið bregðist ekki nógu alvarlega við þegar aðvaranir berast um hnignun fiskistofna. Að lokum kemur alltaf að skuldadögum þegar stundaðar eru hömlulausar fiskveiðar.

Hertar reglur varðandi fiskveiðar mundu að öllum líkindum gagnast fiskistofnunum og með því móti efnahagslegum stöðugleika.  Það er hins vegar annað mál hvernig því fé er varið sem eru til umráða á fjárlögum.  Til dæmis væri hægt að bíða með geysistór byggingaverkefni sem kosta marga milljarða.  Kannski væri hægt að bíða þar til olían finnst í kringum Færeyjar.  Hafist verður handa við næstu boranirnar bráðlega: Olíufélagið BP hefur nýlega ákveðið að hefja boranir eftir olíu um miðjan október. Það verða sjöttu tilraunaboranirnar á færeysku hafsvæði.

Þjóðarframleiðslan í Færeyjum er um það bil 127 milljarðar íslenskra króna.  Þjóðin er um það bil 48.000 manns. Í greininni er lýst stöðu mála 1. október 2007. Um miðjan mánuðinn sögðu færeyskir fjölmiðlar frá því að Connie Hedegaard, umhverfisráðherra Danmerkur, væri ósátt við samþykkt Lögþings Færeyja. Hún óskaði eftir nánari skýringum, að öðrum kosti sagðist hún ekki ætla að tilkynna Sameinuðu þjóðunum um ákvörðunina. Mikill ágreiningur er milli færeyskra stjórnmálaflokka um það hvernig og hvenær verði hægt að standa við samninginn um að draga úr losun. Ákvörðunin um að afnema fyrirvara Færeyinga við Kýótó-bókunina er þess vegna orðin tóm. Að minnsta kosti enn sem komið er.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden