Document Actions

Thomas Larsen

Frá Kaupmannahöfn til Mexíkó

Mexíkó á að vera í forystu fyrir loftslagsráðstefnunni COP 16 og reyna að ná fram metnaðarfullu alþjóðlegu samkomulagi um loftslagsmál sem rann út í sandinn í Kaupmannahöfn. Gestgjafarnir biðu alvarlegan álitshnekki vegna skipulagslausra og ruglingslegra umræðna. Heldur hefur þó dregið úr gagnrýninni á samkomulagið.

04/02 2010

Danir neyðast til að horfast í augu við þá óþægilegu staðreynd að þrautundirbúinn leiðtogafundur um loftslagsmál í desember 2009 jók ekki beinlínis á hróður danskra stjórnarerindreka – og varð Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra síður en svo til framdráttar á alþjóðavísu.

Stjórnmálamenn, fulltrúar atvinnulífsins og fjölmiðlafólk alls staðar að úr heiminum héldu heim á leið frá snævi þaktri Kaupmannahöfn með orð á vörum eins og „óreiða“, „stórslys“ og „árangursleysi“ fullir vonbrigða eftir endalausar rökræður og jafnvel hreint og beint rifrildi í Bella Center ráðstefnuhöllinni.

Í mörgum alþjóðlegum fjölmiðlum var miskunnarlaust skotið á danska forsætisráðherrann og honum borið á brýn að hann hefði ekki verið fær um að skapa trúnaðartraust milli ýmissa þeirra aðila sem mestu máli skiptu.

Alger niðurlæging! Fyrir forsætisráðherrann að sjálfsögðu, en líka fyrir þjóð sem er ánægð með myndina af Danmörku sem grænu og umhverfisvænu landi eins og hún hefur venjulega birst af landinu í fjölmiðlum um heim allan. Þjóð sem hafði vonast til að nafnið Kaupmannahöfn myndi tengjast alþjóðlegu samkomulagi um loftslagsmál.

Dregur úr gagnrýni

Eftir að ró hefur færst á – og málsaðilar hafa fengið útrás fyrir gagnrýni sína – bendir þó ýmislegt til þess að litið verði á atburðina í Kaupmannahöfn í mildara ljósi.

Seinast hittist alþjóðasamfélagið á árlegri ráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) í Davos í Sviss.

Og þegar forvígismenn atvinnulífsins og áhrifamenn í röðum stjórnmálamanna gerðu upp stöðuna í janúarlok var ljóst að neikvæðar skoðanir á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn voru smátt og smátt að breytast í raunsærra mat.

Allir voru á einu máli um að langt væri frá því að náðst hefði metnaðarfullt og bindandi samkomulag um loftslagsmál. Margir áttu enn erfitt með að skilja að loftslagsráðstefnan og leiðtogafundurinn gætu lent í þvílíkum handaskolum.

En gagnrýnin á útkomunni – niðurstöðunni – var orðin mildari. Í stað þess að einblína á að allt hefði farið úrskeiðis viðurkenna menn að byrjað hafi verið á að leggja grunn að frekara samkomulagi.

Mikilvægar framfarir

Það tókst að fá miklu fleiri lönd til að skuldbinda sig til að stefna að því mikilvæga takmarki að hitastigið megi ekki hækka meira en um tvö stig – en samkvæmt rannsóknum vísindamanna ræður það úrslitum við að halda skaðlegum afleiðingum loftslagsbreytinga í skefjum.

Vel gekk að fá löndin til að gefa skýrslu um markmið sín um losun koltvísýrings. Gagnrýnendur munu að vísu segja að skýrslurnar sýni nú þegar að vonlaust sé að ná því takmarki að hitastig hækki ekki nema um tvö stig í mesta lagi.

Aftur á móti leggja raunsæismenn áherslu á að greinargerðirnar séu framför því að núverandi tölur leiði til beinni alþjóðlegra umræðna um hvað þurfi til að ná takmarkinu, jafnframt því að opnari umræða verði um það hvernig löndin eigi að skipta hallanum á milli sín.

Að auki miðaði mönnum nokkuð í áttina að sammælast um að styðja þróunarlöndin sem ekki vilja láta ströng markmið um minnkun koltvísýrings grafa undan möguleikum sínum til iðnaðaruppbyggingar og aukins hagvaxtar.

Stjórnmálamenn og fulltrúar atvinnulífsins benda auk þess á að fyrir loftslagsráðstefnuna COP 15 í Kaupmannahöfn hafi náðst einstæður samhugur um að vinna beri markvisst að því að hefta loftslagsbreytingar.

Að lokum benda menn á að til ráðstefnunnar tókst að safna fleiri þjóðarleiðtogum en dæmi eru um og það staðfestir að loftslagsbaráttan er komin efst á dagskrá stjórnmála og efnahagsmála.

Þjóðir heims hafa gefið loforð

Á þeim hluta þingsins í Davos sem var með fyrirsögninni „Frá Kaupmannahöfn til Mexíkó“ – sagði Yvo De Boer, samningamaður SÞ um loftslagsmál, að Kaupmannahöfn hefði að vísu ekki skilað því sem heimurinn hefði vonast eftir en nokkur árangur hefði þó náðst. De Boer segir:

- Ráðstefnan í Kaupmannahöfn skilaði afar mikilvægri pólitískri yfirlýsingu. 120 þjóðarleiðtogar komu til borgarinnar. Þeir lýstu því yfir að loftslagsmál skipti sköpum, og mikilvæg lönd – allt frá stóru iðnaðarlöndunum og nýjum vaxandi hagkerfum yfir í minni þróunarlönd – komu sér saman um pólitískan pakka. Lögfræðingar sætta sig þó varla fyllilega við árangurinn en stjórnmálamenn tóku ákveðna afstöðu. Það skiptir miklu máli.

Demókratinn Edward Markey, þingmaður á Bandaríkjaþingi, sem leikur aðalhlutverk í loftslags- og orkumálastefnu Bandaríkjanna, taldi árangurinn í Kaupmannahöfn einnig góða byrjun. Markey sagði:

- Bandaríkjamenn líta svo á að mikilvægt skref hafi verið stigið í Kaupmannahöfn. Við komumst ekki eins langt og við höfðum vonast til en allir þeir sem máli skipta gáfu loforð.

Jafnframt lýsti Edward Markey því yfir að Barack Obama forseti myndi vinna að því að Bandaríkin fengi lykilhlutverk í stefnumótunarvinnunni varðandi loftslagsmál.

Að hluta til eru forsetanum ljósir hinir gífurlegu efnahagslegu möguleikar við að þróa nýjar tæknigreinar.

Að hluta til er það öryggispólitískur hagur Bandaríkjanna að verða minna háður olíuinnflutningi. Edward Markey segir:

- Mikill hluti halla Bandaríkjanna er vegna innflutnings á olíu frá löndum sem Bandaríkin ættu ekki að láta af hendi peninga til.

Løkke áfram í gapastokknum

Allt getur þetta glatt nýja framkvæmdastjóra ESB í loftlagsmálum Connie Hedegaard og Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra og embættismenn hans í forsætisráðuneytinu sem setið hafa undir mikilli gagnrýni.

Engu að síður er ljóst að lítið fer fyrir alþjóðlegri hrifningu á forsætisráðherranum og ráðgjöfum hans. Connie Hedegaard nýtur áfram mikillar virðingar en Løkke og félagar fá minna hrós.

Gagnrýnin á Lars Løkke Rasmussen og ráðgjafa hans snýst um að þeir hafi fylgt of þröngri dagskrá með einhliða fókus á Bandaríkin, þeir hafi ekki skilið SÞ-kerfið og hafi ekki áttað sig á stöðu mikilvægra þátttakenda, þar á meðal nokkurra þróunarlanda og Kína með sína sterku valdastöðu. Forsætisráðherrann hafi almennt virkað eins og hann væri illa undirbúinn.

Á opinberum fundum í Davos kemur gagnrýnin ekki svona beint fram – hana var aftur á móti hægt að hlera á göngunum.

Til dæmis þegar Felipe Calderon forseti Mexíkó, sem er gestgjafi COP 16, lagði áherslu á nauðsyn þess að frekara ferli sé gagnsætt og að allir verði að hafa hlut að máli, er hægt að líta á það sem óbeina gagnrýni á það sem fór úrskeiðis hjá Løkke.

Já, forsetinn sagði það raunar beint út þegar hann sagði að það þyrfti að „læra af mistökunum“ í Kaupmannahöfn.

Og þegar bandarískir stjórnmálamenn töluðu fagnandi um að á ráðstefnunni í Mexíkó muni „einn af leiðtogum heimsins“ sitja í öndvegi, tekur maður eftir að enginn notar það hugtak um danska forsætisráðherrann.

Næstu skref

Hver eru svo næstu skref? Af hálfu Dana er verið að skila hlutverkinu áfram til Mexíkó sem á að reyna að ná fram metnaðarfyllra og bindandi loftslagssamkomulagi.

Rétt eins og í Kaupmannahöfn mun það reynast þrautin þyngri því að enn ber aðilum mikið á milli og ýmsir þeir sem mestu ráða hafa aðeins takmarkað svigrúm.

Til dæmis er takmarkað hve langt Barack Obama getur gengið. Kínverjar fylgjast grannt með hvað Bandaríkin gera og Kína og önnur ríki, þar sem nýlega er hafinn mikill efnahagsvöxtur, gruna Bandaríkin og Vesturlönd sterklega um að vilja láta þau borga obbann af reikningnum og óbeint halda gríðarlegum uppgangi þeirra í skefjum.

Mörg fátækustu þróunarríki heims óttast að loftslagssamkomulagið muni gera þeim erfiðara fyrir að koma sínum litlu viðkvæmu hagkerfum á skrið og þau líta almennt full tortryggni á Vesturlönd sem hafa bruðlað með auðlindirnar áratugum saman til að ná þeim velferðarstigi sem þróunarlöndin geta aðeins látið sig dreyma um.

Atvinnulífið veðjar stórt

Samt sem áður eru bendir margt til að ástæða sé til bjartsýni.

Loftslagsumræðan er ekki búin að syngja sitt síðasta. Þvert á móti kom skýrt í ljós í Davos að hafin er áköf alþjóðleg samkeppni um að komast í vinningsliðið þegar um ræðir að þróa nýjar sjálfbærar tæknigreinar og orkusparandi aðgerðir. Þar er nefnilega geysiöflugt viðskiptasvið og milljónir starfa á heimsvísu.

Eftir rökræðurnar í Alþjóðaefnahagsráðinu (World Economic Forum) sló Connie Hedegaard því föstu að bæði stjórnmálamenn og fulltrúar atvinnulífsins myndu framvegis leggja meiri áherslu á loftslagsumræðuna. ESB-fulltrúinn sagði:

- Nýmælið er að það er að renna upp fyrir löndum og landsvæðum að þetta mun skera úr um hverjir koma til með að standa sig best efnahagslega og pólitískt á 21. öld.

Hún bætti við:

Loftslagsumræðan fjallar ekki „eingöngu“ um að vernda loftslagið. Fjárfestingar í nýjum orkugjöfum snúast að miklu leyti einnig um að sleppa úr efnahagskreppunni og komast inn á markað sem verður geysimikilvægur.

Í því ferli mun ESB – og þar með Norðurlönd – verða mikilvægur þrýstihópur.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden