Document Actions

Markku Heikkilä

Loftslagsmálin viku fyrir skákinni um forsætisráðherraembættið

Fyrir loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn voru umræðurnar um loftagsbreytingarnar í Finnlandi líflegri en nokkru sinni. Að henni lokinni er eins og allt loft sé úr umræðunum. Enginn hefur haft áhuga á að taka þær upp aftur.

04/02 2010

Árangurinn af loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn hefur svo sannarlega verið til umfjöllunar á síðum fjölmiðlanna, bæði í formi skopmynda og aðsendra greina: árangurinn varð nefnilega snarlega augljós, og ekki aðeins vegna þess að í fyrsta skipti í mörg ár, strax að lokinni ráðstefnunni, brast á vetrarveður í öllu Finnalandi meira að segja í Suður-Finnlandi.

Eftir marga slydduvetur, skall skyndilega á hefðbundið finnskt vetrarverður með frosti, snjó og ís. Börnin þustu út í brekkurnar, skíðamenn í skíðabrautirnar.  Eiginlega var skortur á skíðavörum í búðunum og hillurnar með vatteruðum vetrarbuxum göptu tómar við viðskiptavinum.  Í Suður-Finnlandi, þar sem meiri hluti þjóðarinnar býr, höfðu menn vanist þeirri tilhugsun að veturnir hefðu endanlega breyst. Þegar í lok janúar fór fólk að kvarta yfir því að enginn endi yrði á kuldanum og snjókomunni.

Síðan ráðstefnunni í Kaupmannahöfn lauk, hafa kringumaðstæður í Finnlandi í janúar, vægast sagt verið óvenjulegar útfrá umræðum um hlýnun jarðar. Þar að auki hefur umræðunni bókstaflega verið ýtt til hliðar. Frá Kaupmannahöfn komu þreyttir fulltrúar heim til þess að halda jól. Rétt fyrir jólin var varpað sprengju í innanríkismálum Finna, þegar Matti Vanhanen tilkynnti að hann myndi láta af embætti sínu á sumri komanda. Eftir það hafa eiginlega engar aðrar fréttir komist að.

Skýrar leiðbeiningar, aukin meðvitund

Fulltrúar finnskra fjölmiðla voru margir í Kaupmannahöfn og  almenningur virtist hafa mikinn áhuga á því sem fram fór á loftslagsráðstefnunni. Þess vegna urðu margir vonsviknir þegar árangurinn kom í ljós.

Í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar fylgdust Finnar með þróun mála af hliðarlínunni.  Danir voru gestgjafar fundarins, Svíar gegndu formennsku í ESB og Norðmenn voru afar virkir. Öðru gegndi um opinbert hlutverk Finna: Landið var eitt Norðurlandanna, margra landa í ESB og  án nokkurrar sérstöðu sem gæti hafa komið landinu á framfæri eða veitt aukin tækifæri til áhrifa.

Þau Tarja Halonen, forseti og Matti Vanhanen, forsætisráðherra sátu eiginlega furðu lostin í fundarsalnum síðasta föstudaginn þegar taka átti ákvörðun en á næstu hæð sátu fulltrúar landa í lykilstöðu sem börðust ákaft og örvæntingafullt við að komast að einhverskonar samkomulagi. Paula Lehtomäki, umhverfisráðherra Finnlands hafði, sem einn af ráðherrum ESB beðið árangurslaust alla vikuna, reiðubúin til þess að semja, án þess að það bærist eiginlega neitt til þess að semja um.

Þegar langt var liðið á síðustu nóttina slitu finnsku stjórnmálamennirnir sig frá niðurstöðunum og hurfu af vettvangi. Kaupmannahafnarfundinum var lokið. Sökum þess að enginn þeirra hafði neinu sérstöku hlutverki að gegna á fundinum eða þegar lokaniðurstöðurnar voru teknar og því var heldur ekki hægt að kenna þeim um neitt.

Þar að auki höfðu Finnar þegar lagt fram stefnu sína í loftslagsmálum og Kaupmannahafnarfundinn veitti ekki tilefni til þess að hvika frá henni. Á haustdögum hafði finnska þjóðþingið rætt stefnu ríkisstjórnarinnar, en samkvæmt henni settu Finnar sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 80 % fram til ársins 2050. Aðgerðum heima fyrir verður haldið áfram í samræmi við þau grundvallaratriði sem samkomulag hafði náðst um. Skilningur almennings á áhrifum loftslagsbreytinga hefur aukist og það endurspeglast í aðgerðum sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga.

Finnar hafa skuldbundið sig til að ná markmiðum ESB um að draga úr losun um 20 prósent fram til ársins 2020. Að loknum Kaupmannahafnarfundinum hafa ekki skapast neinar umræður um hvor ESB ætti að setja sér skarpari markmið og draga 30 prósent úr losuninni.

Það getur reynst tímafrekt að komast til botns í málinu og leita nýrra leiða. Í janúar mat Lehtomäki, umhverfisráðherra stöðuna þannig að ekki muni nást neitt bindandi samkomulag um loftslagsmálin á ráðstefnunni í Mexíkó. Að hennar mati átti að gera samkomulag í Kaupmannahöfn og fyrst ekki var hægt að komast að samkomulagi þar muni það heldur ekki gerast annarsstaðar.

Umræður um kjarnorku, sem að hluta tengjast umræðunni um loftslagsmál, halda áfram sem fyrr í Finnlandi. Ríkisstjórninni hafa borist þrjár umsóknir um leyfi til þess að reisa ný kjarnorkuver og líklegt er talið að niðurstöðu sé að vænta á vordögum. Tæpast verður veitt leyfi fyrir öllum þremur en að öllum líkindum verður veitt leyfi fyrir einu veri. Talið að nýjasti aðilinn að málinu, fyrirtækið Fennovoima, standi sterkastur á velli. Fennovoima hefur óskað eftir að reisa kjarnorkuver við  norðanverða strönd Helsingjabotns, annað hvort norðan eða sunnan við Uleå.

Paavo Väyrynen stefnir á stól forsætisráðherra

Umræður um kjarnorkuna verða sífellt líflegri en þær snúast  frekar um stefnuna í iðnaði, orku- og sveitarstjórnarmálum en loftslagsmál. En  þó má segja að allar umræður í  Finnlandi hafi aðeins snúist um eitt mál síðan um jól. Allar stjórnmálaumræður hafa orðið að víkja fyrir spurningunni um það hver tekur við sem formaður Miðjuflokksins.

Miðflokkurinn í Finnlandi nýtur ákveðinnar sérstöðu, á rætur að rekja til gamallar landbúnaðarhreyfingar sem ekki nýtur mikils fylgis í stóru borgunum í Suður-Finnlandi en hefur þvert á allar  spár haldið völdum sem stærsti flokkur landsins í síðustu tveimur kosningum. Flokkurinn telur yfir 200.000 félaga, fleiri en allir aðrir flokkar í Finnlandi til samans. Talsmenn flokksins halda því fram að landsfundur þeirra sé sá næst fjölmennasti í heimi, fylgi fast á eftir fundi kommúnistaflokksins í Kína.

Næsti landsfundur  verður haldinn í júní. Á fundi rétt fyrir jól lýsti Matti Vanhanen forsætisráðherra því yfir að hann myndi hætta sem formaður flokksins og ef kringumstæður krefðust þess einnig yfirgefa  forsætisráðherrastólinn.

Líklegt var talið að  keppinautur Vanhanens myndi koma fram á landsfundinum.  Þrátt fyrir að Vanhanen hafi verið hrósað fyrir  störf sín sem forsætisráðherra þá hefur opinber ímynd hans ítrekað beðið hnekki og það er talið áhættusamt í aðdraganda kosninga.  Samt kom sprengjufrétt forsætisráðherrans öllum að óvörum. Ástæðan sem Vanhanen gefur fyrir ákvörðun sinni eru óþægindi sem hann hefur í fótunum og hann þarf að gangast undir aðgerð til að fá bót á.

Undir lok janúar kom í ljós að lögreglan og ríkissaksóknari, rannsaka hlutdeild Vanhanens í máli sem varðar framlög í kosningasjóð. Upplýsingarnar vöktu spurningu margra um hver hin eiginlega ástæða sé fyrir því að hann lætur af störfum.

Hver hún svo sem er neyddust flokksmenn í Miðflokknum skyndilega til þess að hefja umræður innan flokksins um hver á að taka við formennsku í flokkum og einnig stóli forsætisráðherra fram til kosninganna vorið 2011. Ríkisstjórn borgaraflokkanna mun halda velli og því er ekki um neinar aðrar breytingar að ræða.

Í upphafi beindist athyglin að Paula Lehtomäki, umhverfisráðherra, sem strax að  loknum Kaupmannahafnarfundinum fékk annað viðfangsefni. Hún er ekki orðin fertug, varaformaður flokksins, öflug til verka, tungumálamanneskja og reyndur stjórnmálamaður af nýju kynslóðinni. Allar vísbendingar voru henni hliðhollar. Hún var greinlega uppáhalds frambjóðandinn.

Lehtomäki hugsaði sig um fram á miðjan janúar og tilkynnti þá að hún ætlaði ekki bjóða sig fram.  Ástæðuna sagði hún vera fjölskylduna, hún á tvo syni undir skólaaldri. Það kom engum á óvart að umræður um barneignir og pólitík fylgdu í kjölfarið. Margir ungir stjórnmálamenn, t.d. formaður Einingaflokksins , Jyrki Katainen sem var í feðraorlofi um áramótin, eiga smábörn, en engir þeirra hafa af látið það bitna á pólitískum framahorfum. „Katainen á eiginkonu, en ekki ég,“ var athugasemd Lehtomäki.

Þá afþökkuðu fleiri hugsanlegir frambjóðendur einnig boðið, en einn tók því. Umdeildur  ævintýramaður í finnskum stjórnmálum, hinn 63 ára Paavo Väyrynen, utanríkis- og þróunarráðherra tilkynnti skömmu fyrir aldarafmæli föður síns að hann nyti bæði vilja og styrks, og fjölskyldumálin væru honum heldur ekki neinn fjötur um fót.   

Málið snýst með öðrum orðum um mann sem þegar á sjöunda áratugnum var formaður og utanríkisráðherra, hefur víðtæka reynslu af stjórnmálum allt frá tímum Kekkonens og Sovétstjórnarinnar, mann sem boðið hefur sig fram til embættis forseta, sem „flúði land“ til Evrópuþingsins á níunda áratugnum og hefur verið andstæðingur aðild Finna að ESB og myntbandalaginu og er að sjálfsögðu einnig á móti aðild að Atlantshafsbandalaginu.

Verði Väyrynen forsætisráðherra verður það  bæði sýnilegt og áþreifanlegt í finnskum innanríkis- og utanríkismálum. Fulltrúar flokksins skiptast í tvær fylkingar, hliðholla fylgismenn Väyrynens og ákafa andstæðinga hans. Nafn Väyrynen hefur verið þekkt á vettvangi finnskra stjórnmála í áratugi en enginn átti von á endurkomu hans á þennan hátt.

Annar frambjóðandi kom fram á sjónarsviðið í lok janúar en það er Mari Kiviniemi, ráðherra stjórnsýslu- og  sveitarstjórnarmála. Hin fertuga Kiviniemi  er fulltrúi hins fágaða og nútímalega vængs Miðflokksins en ferill hennar sem stjórnmálamanns hefur verið sléttur og felldur.

Landsfundur Miðflokksins verður ekki haldinn fyrr en í júní, en víst er, að hann hefur auk fréttanna af einkalífi Vanhanens einkennt hið pólitíska vor í Finnlandi. Engin mál hafa vakið jafn miklar umræður, ekki erfið staða efnahagslífsins, atvinnuleysið, né heldur ekki loftslagsmálin eða annað málefni.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden