Document Actions

Øssur Winthereig

Vestur-Norðurlönd stuðli að samvinnu vestur um haf

Færeyingar hafa einlægan vilja til að efna til samvinnu á nýjum sviðum vestur um haf – við kanadísk héruð sem liggja að Norður-Atlantshafi. Norræn samvinna sem teygir sig þvert yfir Norður-Atlantshaf til Kanada er ekki sjálfsagður hlutur. Það gerist ekki af sjálfu sér að Norðurlönd tengist strjálbýlum héruðum í Kanada.En frá pólitísku sjónarmiði er samvinna möguleg og getur komið jaðarsvæðunum að gagni og stuðlað að þróun þeirra – með tilliti til bæði atvinnulífs og menningar.

26/08 2009

Færeyingar hafa einlægan vilja til að efna til samvinnu á nýjum sviðum vestur um haf – við kanadísk héruð sem liggja að Norður-Atlantshafi.

Norræn samvinna sem teygir sig þvert yfir Norður-Atlantshaf til Kanada er ekki sjálfsagður hlutur. Það gerist ekki af sjálfu sér að Norðurlönd tengist strjálbýlum héruðum í Kanada.

En frá pólitísku sjónarmiði er samvinna möguleg og getur komið jaðarsvæðunum að gagni og stuðlað að þróun þeirra – með tilliti til bæði atvinnulífs og menningar.

Séð frá færeyskum sjónarhóli virðist norræn samvinna hafa teygt sig í austurátt til Eystrasaltslanda mörg undanfarin ár. Ísland hefur verið eina landið sem hefur átt þess kost að tala máli Vestur-Norðurlanda. Hvorki Færeyjar né Grænland hafa haft stöðu sem sjálfstæðir aðilar að Norrænu ráðherranefndinni.

Ráðherra skjátlaðist

Núverandi ráðherra Norðurlandamála – íhaldsmaðurinn Jørgen Niclasen – var einn þeirra sem gagnrýndi tilhneigingu norræns samstarfs til að snúa í austurátt. Hann var meðal þeirra sem fannst Færeyjar vera haldið utan við norræna samvinnu. Nú hefur hann skipt um skoðun:

Áður leit ég svo á að norræn samvinna leitaði of mikið í austurátt en þar hafði ég á röngu að standa. Eystrasaltslöndin er allt að því orðin norræn. Nú ríður á að Norðurlönd þrói norrænt samstarf áfram við verkefni sem eru brýn fyrir alla heimsbyggðina. Við eigum sem norræn eining að eiga samstarf út fyrir Norðurlönd. Þar á meðal samstarf við héruð í Kanada sem liggja að Atlantshafi, segir Jørgen Niclasen núna.

Það gefur einnig möguleika á að Vestur-Norðurlönd verði viðurkennd sem jafnrétthár samstarfsaðili.

Smáþjóðir geta lagt nokkuð af mörkum

Repúblikaninn Høgni Hoydal var ráðherra Norðurlandamála á undan Jørgen Niclasen.

Høgni Hoydal lítur svo á að fái Færeyjar tækifæri til að verða aðili að norrænu og alþjóðlegu samstarfi, öðlist þær meira sjálfstæði og það sýni einnig að smáþjóðir hafi líka eitthvað að leggja af mörkum til alþjóðasamfélagsins.

Þess vegna notar hann hvert tækifæri sem gefst til að benda á hve samvinna í allar áttir sé mikilvæg en það eigi að vera á jafnréttisgrundvelli en ekki sem viðhengi við önnur Norðurlönd.

- Norðurlönd eiga að vera öll Norðurlönd – einnig Færeyjar, Ísland og Grænland. Þá getum við sem eining unnið í samstarfi við nágrannasvæði, svo sem skosku eyjarnar og héruðin í Kanada sem liggja að Atlantshafi. En til þess verða Norðurlönd að þróast sem eitthvað meira en samheiti við Skandinavíu, segir Høgni Hoydal.

- Grannsvæði Norðurlanda eru ekkert síður í Kanada en Eystrasaltslöndunum og Hvíta-Rússlandi. Við eigum margra sameiginlegra hagsmuna að gæta með fólki í Norðaustur-Kanada. Fyrst og fremst sjávarumhverfismála, loftslagsbreytinga og lýðfræðilegra vandamála sem steðja að jaðarsvæðum okkar, bætir Hoydal við.

Jafnrétthá hlutverk

Jørgen Niclasen ýjar einnig að því að Norðurlönd hafi ekki alltaf verið öll Norðurlöndin. En hann óskar þess jafnheitt að Færeyjar, Ísland og Grænland eigi eftir að gegna hlutverki í norrænni samvinnu á jafnréttisgrundvelli:

- Við höfum áður heyrt um norrænu mafíuna í sambandi við SÞ, að hægt væri að ganga út frá því sem gefnu að Norðurlönd greiddu alltaf eins atkvæði. Það er ágætis afstaða sem mér finnst að við ættum að nota í miklu víðara samhengi. Að sameiginleg Norðurlönd fari út í heim með sameiginlega afstöðu í alþjóðlegri samvinnu.

Það er ljóst að norræn samvinna í vesturveg á að vera formleg pólitísk samvinna en samvinna um ýmis verkefni er einnig nauðsynleg.

NORA í forystuhlutverki

NORA, nefnd undir Norrænu ráðherranefndinni sem nær til Grænlands, Íslands, Færeyja og strandhéraða Noregs, mun eðlilega gegna forystuhlutverki í samvinnu við framkvæmd verkefna.

Undanfarin ár hefur NORA unnið að nánara samstarfi milli NORA-landanna og grannanna í vestri. Það hefur m.a. farið fram í sameiginlegum ráðstefnum og öðrum samskiptum.

NORA stefnir að því að nágrannarnir í vestri – Kanada, Skotland og skosku eyjarnar – verði virkari þátttakendur í samstarfsverkefnum í framtíðinni.

Frá sjónarhóli Vestur-Norðurlanda er kjörið að eiga nánara samstarf með grönnunum í vestri þar sem þau lönd og svæði þurfa að takast á við sömu brýnu verkefnin og hafa sömu möguleika og NORA-löndin. Það á til dæmis við fólksflutning frá strjálbýlum strandsvæðum, þörf fyrir nýjar lausnir á sviði umhverfis-, orku- og ferðamála, rannsóknir og nýtingu á auðlindum hafsins og fiskeldi ásamt hugsanlegri vinnslu hráefna, svo sem olíu og málma.

- Samtök eins og NORA eru vel til þess fallin að tengja fólk saman. Við – af hálfu landstjórnarinnar

– höfum það hlutverk að koma á samvinnu milli pólitískra kerfa. Færeyska landstjórnin er með í bígerð að styrkja samstarf vestur um haf og við lítum á NORA sem góðan samstarfsaðila í þeirri vinnu, segir Jørgen Niclasen.

- Auk svæðisbundins samstarfs gegnum NORA eigum við einnig aðild að svæðisbundnum samstarfsvettvangi gegnum NPP (svæðaþróunaráætlun ESB, ritstj.) sem m.a. leggur áherslu á nýsköpun og samkeppnishæfni á jaðarsvæðum. Í gegnum NPP taka Færeyjar þátt í samvinnuverkefnum, bæði með Kanada og Skotlandi, bætir hann við.

Fleiri samvinnuverkefni

Áhersla NORA á nágranna Norðurlanda í vestri hefur undanfarin ár skilað sér í fjölgandi samvinnuverkefnum.

Einn liður í viðleitninni að styrkja þessa nágrannasamvinnu enn frekar var heimsókn úttektarnefndar frá NORA í október 2008 til Ottawa, höfuðborgar Kanada, og höfuðstaða tveggja héraða landsins við Atlantshaf, Halifax í Nova Scotia og St. John's í Nýfundnalandi-Labrador.

Heimsóknirnar til þessara tveggja héraða við Atlantshaf staðfestu ekki hvað síst að þar væri líka vilji til að efla samstarf sem miðaði að því að takast á við vandamál og knýjandi verkefni sem NORA-svæðið og héruðin í austanverðu Kanada eiga sameiginleg.

Samhliða því að þjóðríkið þurrkast út og verður hluti af stærri einingu, verður ljós þörfin fyrir að fólk á ákveðnum svæðum samsami sig sem heild.

Í heimsókn NORA í Kanada hitti nefndin Paul Gibbard, forstjóra Aboriginal - and Circumpolar Affairs (Málefna frumbyggja og norðurskautssvæðisins). Hann lagði einkum áherslu á þörfina fyrir að skapa samstöðu íbúa á þessu landsvæði, það gæti orðið til að greiða fyrir auknu samstarfi á Norður-Atlantshafssvæðinu og norðurskautssvæðinu.

Það sem áður var litið á sem þjóðarvandamál, sem þjóðum bæri að leysa, verður æ meir svæðisbundin vandamál sem krefjast samvinnu innan landsvæðisins. Hafið og ísinn skilja okkur ekki að heldur binda okkur saman, sagði Paul Gibbard.

Hann lagði einnig áherslu á að til þess að leysa sameiginleg brýn verkefni yrði að tryggja betri samvinnu á öllum sviðum – með sameiginlegum verkefnum, skipst verði á námsmönnum og rannsóknarmönnum o.s.frv.

Á byrjunarstigi

- Ég sé tækifæri í vel útfærðu samstarfi við héruðin í Kanada sem liggja að Atlantshafi, m. a. á sviði rannsókna. Við þurfum að leysa mörg sameiginleg vandamál varðandi sjávarumhverfismál og vaxandi umferð á Norður-Atlantshafi. Siglingaöryggi verður æ mikilvægara samfara því að umferð um norðvestur-sjóleiðina norður fyrir Kanada virðist fara að verða raunhæf, segir Høgni Hoydal.

Bæði hinn fyrrverandi og núverandi færeysku landstjórnarmennirnir viðurkenna að frá sjónarhóli Færeyinga sé ekki nóg að eingöngu ríkisstjórnir vinni saman.

Jørgen Niclasen er bjartsýnn en viðurkennir að samvinna vestur á bóginn sé ekki helsta forgangsverkefnið:

- Samvinna okkar og Kanada er á pólitískum grunni og miðast einkum við auðlindir hafsins – fiskveiðar og sjávarspendýr. Það er grundvöllur fyrir annað samstarf, en við erum á byrjunarstigi, segir hann að lokum.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden