Document Actions

Markku Heikkilä

Finnar stefna að því að minnka losun um 80 prósent

Finnar hafa, í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar í Kaupmannahöfn, sett sér umtalsvert háleitari markmið um losun en þeir hafa gert fram til þessa. Markmið ríkisstjórnarinnar er að leggja fram tillögur í október að því hvernig hægt verði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 80 prósent fram til ársins 2050. Fram til þessa hefur stefna Finna fyrst og fremst beinst að því að aðlaga sína stefnu að ákvörðunum Evrópusambandsins.

24/09 2009

Finnar hafa ekki látið neitt sérstaklega til sín taka á sviði alþjóðlegra loftslagsmála. Í aðdraganda ráðstefnunnar í Kaupmannahöfn hafa Finnar undirbúið sig eins og aðrar þjóðir innan ESB sem eru virkar á sviði loftslagsmála, en án frumkvæðis eða eiginlegs hlutverks. Kringumstæður hafa verið ólíkar því sem gerist í Danmörku þar sem ráðstefnan verður haldin eða í Svíþjóð, en Svíar gegna formennsku ESB um þessar mundir eða í Noregi en Norðmenn hafa verið afar virkir á sviði alþjóðlegra loftslagsmála.

Því er þó ekki þannig farið að Finnar hafi setið aðgerðarlausir. Þegar hefur verið mótuð stefna um mikilvægasta framtak þjóðarinnar í loftslagsmálum en ríkisstjórnin hyggst ekki leggja hana fyrir þjóðþingið fyrr en í október. Og það mun trúlega setja svip sinn á allar umræður um loftslagsmál fram að ráðstefnunni í Kaupmannahöfn.

Markmiðið er að vera í fararbroddi

Á skrifstofu ráðherra hefur verið unnið ötullega að mótun stefnu í loftslags- og orkumálum, allan þann tíma sem núverandi stjórnvöld hafa haldið um stjórnartaumana. Markmiðið er að koma Finnum í brodd fylkingar hvað varðar loftslagsmál. Stefnt er að því að Finnar verði meðal þeirra þjóða sem losa hvað minnst af gróðurhúsalofttegundum árið 2050, samkvæmt áætlun á að minnka losunina um 80 prósent miðað við árið 1990.

Takmarkið um að minnka losunina um 80 prósent er í samræmi við það sem framkvæmdastjórn ESB hefur sett í aðdraganda ráðstefnunnar í Kaupmannahöfn. Matið á magninu sem iðnvædd ríki verða að ná til þess að draga úr hlýnun andrúmsloftsins byggir á vísindalegum grunni.

Samkvæmt Kyotobókuninni og skiptingu byrðarinnar á þjóðir innan ESB, fól stefna Finna í loftslagsmálum í sér að miðað við losun 1990 yrði minnkun um núll prósent og Finnar hafa meira að segja ekki staðið við þetta markmið. Nýtt takmark hefur umtalsverðar breytingar á stöðu Finna í för með sér.

Fram til þessa hafa Finnar eiginlega ekki stefnt að öðru en að ná markmiðum ESB. Nú er hinsvegar lagt til að stefnan verði mótuð áður en bindandi ákvarðanir hafa verið teknar innan ESB og það með stuðningi þjóðþingsins. Nú ber nýrra við.

Efni skýrslunnar hefur ekki verið gert opinbert ennþá en talið er líklegt að markmiðið sé að kynna fjórar ólíkar leiðir, atburðarásir, sem eru Finnum færar til þess að komast í hóp þjóða með litla losun. Leiðirnar byggja á mismunandi ályktunum sem varða til dæmis hlutverk kjarnorku, nýtingu skóga, og samfélagsgerð, en allir valkostirnir leiða til þess takmarks sem stefnt er að.

Alþjóðlegur sáttmáli um loftslag skiptir miklu

Takmark Finna byggir algerlega á þeirri þróun sem verður á alþjóðlegri stefnu í loftslagsmálum. Efnahagur landsins fer eftir þróun á alþjóðlegum mörkuðum. Þess vegna hefur iðnaðargeirinn í Finnlandi látið í ljósi skýra ósk um að þörf sé á heildarstefnu, alþjóðlegum sáttmála um loftslagsmál fyrir alla aðila. Sambærilegar leikreglur eiga að gilda fyrir öll fyrirtæki.

Stefna Finna í loftslagsmálum undanfarið hefur einkennst af því að aðlaga stefnu landsins að stefnu ESB í loftslags- og orkumálum frá árinu 2008. Í samningaferlinu hafa sjónir Finna einkum beinst að efasemdum iðnaðargeirans um koltvísýringsleka, eða með öðrum orðum ójafnvægi í samkeppni við lönd sem hafa rýmri stefnu í loftslagsmálum. Staða timburiðnaðarins hefur einkum vakið óróa í brjóstum Finna.

Á sama tíma vann ríkisstjórnin að því hörðum höndum að torf, sem er algengt eldsneyti til fjarhitunar í Finnlandi, væri viðurkennt sem endurnýjanlegur orkugjafi. Það var algerlega tilgangslaust vegna þess að milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, IPCC hafði þegar skilgreint torf sem jarðefnaeldsneyti.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins setti Finnum takmark um að 38 prósent orkunnar yrði að koma frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Fyrir tveimur árum síðan var talið að erfitt yrði að ná þessu takmarki en þó ekki ómögulegt. Síðan þá hafa kringumstæðurnar orðið talsvert flóknari.

Afdrif timburiðnaðar og kjarnorku

Mesta endurnýjanlega orku hafa Finnar fengið með því að brenna sorp og aukaafurðir úr timburiðnaði til framleiðslu raforku. Afleiðingar efnahagskreppunnar og sviptingar í timburiðnaði hafa valdið því að hver massa- og pappírsverksmiðjan á fætur annarri hefur neyðst til þess að leggja niður starfsemi sína. Þannig hafa þúsundir starfa tapast en þar að auki verður erfiðara að ná takmarkinu um notkun endurnýjanlegra orkugjafa, sökum þess að erfitt reynist að loka bilinu sem myndaðist við lokanir pappírsverksmiðjanna á annan hátt.

Hins vegar verður að endurmeta allar áætlanir um aukna orkuþörf Finna. Greinilega hefur dregið úr eftirspurn eftir raforku þrátt fyrir að allar spár bentu til þess að eftirspurnin myndi vaxa um ókomna áratugi. Skýringin er sú að dregið hefur hressilega úr allri framleiðslu í kjölfar efnahagskreppunnar.

Stefna Finna í loftslagsmálum tengist óhjákvæmilega umræðum um kjarnorkuver. Um þessar mundir eru þrjár umsóknir um byggingu kjarnorkuvera til umfjöllunar hjá ríkisstjórninni, samtímis og bygging kjarnaorkuversins í Olkiluoto er mörgum árum á eftir áætlun og kostnaðurinn hefur farið langt fram úr því sem nokkur mannlegur máttur hefði getað ímyndað sér.

Skiptar skoðanir innan ríkisstjórnarinnar eru sér í lagi á því hvort heimila eigi fjárveitingar til einnar umsóknar eða allra þriggja. Þjóðþingið tekur ekki ákvörðun um þetta fyrr en á næsta ári. Sennilegt þykir að sumar umsóknirnar njóti nokkurs stuðnings. Líklegt er talið að eitt kjarnorkuver verði byggt við norðanverðan Helsingjabotn í nágrenni við sænsku ströndina.

Þeir sem tala fyrir kjarnorku ræða um kjarnorkuver sem orkulind sem veldur engri losun. Ennþá hefur frekar lítið farið fyrir umfjöllun um loftslagsmál í umræðunni um kjarnorkuverin þrátt fyrir að sú umfjöllun sé óhjákvæmileg. Mestu máli hefur skipt að Finnar verði geti sjálfir séð sér fyrir raforku og ljóst sé hve mikil þörfin fyrir raforku verði í Finnlandi í framtíðinni.

Vindorka, lífræn orka og lífrænt eldsneyti

Notkun endurnýjanlegra orkugjafa eykst hratt í Finnlandi. Vindorka er mun verr nýtt í Finnlandi en annars staðar á Norðurlöndunum. En þökk sé nýtilkomnum stuðningi í takti við gjaldskrána fyrir álag auk markvissari stefnu stjórnvalda fer hlutfall hennar ört vaxandi. Fyrst og fremst er gert ráð fyrir nýtingu vindorku við strendur landsins.

Væntingar standa til þess að notkun viðar til orkuframleiðslu muni verða ný tekjulind víða um hinar dreifðari byggðir þar sem störfin við timburiðnaðinn skipta sköpum en þar hafa lokanir á fyrirtækjum í greininni undanfarið leitt til aukins atvinnuleysis. Talið er nokkuð öruggt að framleiðsla lífræns eldsneytis í Finnlandi muni vaxa.

Upp á síðkastið hafa ýmsar ákvarðarnir einmitt borið merki um áhrif frá loftslagsmálum, þetta á meðal annars við um skattlagningu á bíla, skipulagsmál og stuðning til endurnýjunar á húsnæði. Ef á heildina er litið hefur stefnan í loftslagsmálum nálgast hversdagslegar gjörðir fólks talsvert. Oftar en ekki er það vegna þess að það þarf að finna leiðir til þess að ná markmiðum sem ESB hefur sett um að minnka útblástur í geirum sem eru utan við verslun með kvóta um 16 prósent fram til 2020.

Þrátt fyrir það er ekki til neitt skipulagt net til dreifingar á öðrum eldsneytiskostum, hvergi hefur vegatollum verið komið á né heldur hafa verið teknar ákvarðanir um nýjar sporvagnaleiðir. Umræður um þessa þætti eiga sér vissulega stað en áhrifa loftslagsmála gætir ekki við allar ákvarðanir enn.

Vonir iðnaðarins standa til að tæknin í umhverfis- og orkugeiranum taki kipp þegar útflutningur hefðbundinnar framleiðslu dregst saman. Gott dæmi um það er eina bílaverksmiðjan í Finnlandi í Nystad. Reksturinn er talinn öruggur þökk sé pöntunum á glænýrri útgáfu af rafbílum. Mikillar samkeppni gætir hinsvegar innan umhverfistækninnar á heimsvísu og fram til þessa hafa Finnar ekki komið að neinum nýjum undralausnum.

Í Finnlandi hafa menn ekki fylgst jafn grannt með undirbúningi loftslagsráðstefnunnar í Kaupmannahöfn og í Svíþjóð, Noregi og Danmörku. Leiðandi stjórnmálamenn hafa svo sannarlega lagt áherslu á mikilvægi loftslagsmála og tekið þátt í alþjóðlegu, evrópsku og norrænu samstarfi. Loftslagsmálin eru á dagskrá á nánast öllum fundum á æðri sviðum. Þrátt fyrir það hafa samningaviðræðurnar um loftslagssáttmála SÞ einhvernvegin virst hverfandi. Finnar gegna heldur engu sérstöku hlutverki í Kaupmannahöfn.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden