Document Actions

Thomas Larsen

Norræn sókn í loftslagsmálum

Vegna stöðu sinnar gegna Danmörk og Svíþjóð hvort um sig mikilvægu hlutverki í þeirri viðleitni að fá þjóðir heims til að komast að metnaðarfullu samkomulagi á leiðtogafundinum í Kaupmannahöfn. Það var ekki með ráðum gert, en fyrir sögulega tilviljun eru Danmörk og Svíþjóð í sérstöku aðalhlutverki við að fá þjóðir heims til að gera með sér allsherjarsamkomulag um loftslagsmál á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í desember.

23/09 2009

Vegna stöðu sinnar gegna Danmörk og Svíþjóð hvort um sig mikilvægu hlutverki í þeirri viðleitni að fá þjóðir heims til að komast að metnaðarfullu samkomulagi á leiðtogafundinum í Kaupmannahöfn.

Það var að sjálfsögðu ekki fyrirfram með ráðum gert, en fyrir sögulega tilviljun eru Danmörk og Svíþjóð í sérstöku aðalhlutverki við að fá þjóðir heims til að gera með sér allsherjarsamkomulag um loftslagsmál á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í desember.

Danmörk verður „gestgjafi“ og sér um alla aðstöðu fyrir fundinn sem fulltrúar víðs vegar að úr heiminum sækja, en Svíþjóð sem formennskuland Evrópusambandsins á að stjórna stefnu ESB og leggja sitt af mörkum til að ná árangri.

Um er að ræða afar ólík hlutverk en bæði geysimikilvæg.

Til að geta kortlagt stöðuna í alþjóðlegum samningaviðræðum hafa danskir lykilráðherrar – fyrst og fremst Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra, Connie Hedegaard loftslagsráðherra og Per Stig Møller utanríkisráðherra – eytt ómældum tíma í ferðir. Ráðherrarnir og embættismenn þeirra verða að spanna hvern krók og kima heimsins til að fylgjast með hverri hreyfingu í loftslagsumræðunni:

Danir fylgjast af áhuga með stjórnmálaumræðum í Bandaríkjunum og hafa beint samband við aðalráðgjafa í Hvíta húsinu þar sem Barack Obama forseti hefur lengi verið í kapphlaupi við tímann að fá nógu sterkt umboð til að eiga aðild að alþjóðlegu samkomulagi um loftslagsmál.

Danir hafa einnig átt viðræður við helstu núverandi forystumenn og einkum þó forvígismenn nýrra efnhagsstórvelda framtíðarinnar eins og t.d. Indlands og Kína sem nú sækja mjög fram. Og síðast en ekki síst verða dönsku ráðherrarnir og embættismenn þeirra að fylgjast náið með viðhorfinu á fátækustu svæðum heims þar sem stjórnmálaleiðtogar neita að afsala sér möguleikum á að skapa vöxt í löndum sínum, aðeins vegna þess að auðug lönd hafa áratugum saman notað auðlindir jarðarinnar hömlulaust og mengað.

Í starfi sínu við að ryðja samkomulagi braut hafa Danir engin viðurlög til að hóta með, enga lögfræði að styðjast við og enga raunverulega stöðu sem aðalsamningsaðili. Þeir geta því blátt áfram ekki gripið til annarra ráða en að lesa af forgangsmálum landanna eins nákvæmlega og hægt er og draga upp vegakort samkvæmt því sem sneiðir hjá verstu pólitísku sprengjusvæðunum og leiðir til haldgóðrar málamiðlunar.

Verkefninu er helst hægt að líkja við það að eiga að raða risastóru púsluspili og fá alla bitana á síðustu stundu – kannski.

Náið dansk-sænskt samspil

Hlutverk Svíþjóðar í ferlinu er öðru vísi en jafnframt afar mikilvægt.

Sem formennskuland ESB eiga Svíar að halda utan um klúbb ESB-landa sem öll saman eru geysimikilvægur aðili í viðræðunum um að minnka koltvísýringslosun og hefta loftslagsbreytingar af mannavöldum.

Aðalmetnaðarmálið er eins og þekkt er að hitastig á jörðunni hækki ekki meira en um tvær gráður en rannsakendur telja það skipta sköpum til að takist að koma í veg fyrir óviðráðanlegar afleiðingar loftslagsbreytinganna. Evrópusambandslöndin hafa skuldbundið sig til að minnka koltvísýringslosun um 20% til ársins 2020 - og um 30% ef tekst að fá aðrar þjóðir heims til að komast að samkomulagi á leiðtogafundinum í Kaupmannahöfn.

Danmörk og Svíþjóð hafa lengi haft með sér náið og öflugt samstarf til að samræma framlag sitt til leiðtogafundarins í Kaupmannahöfn. Ríkisstjórnirnar hafa verið samtaka, embættismannakerfin í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi hafa tekið upp náið samband og almennt er talið að þetta dansk-sænska samspil hafi tekist vel.

Bæði löndin hafa líka þá skoðun sameiginlega að alþjóðlegt loftslagssamkomulag sé grundvallaratriði, og hafa jafnframt bæði metið það svo að samkomulag þoli enga bið.

Reinfeldt olli titringi

Deilurnar sem hafa orðið til á leiðinni hafa ekki fjallað um efni og innihald heldur hafa þær fremur snúist um hvernig hægt sé að koma því á framfæri við umheiminn hve brýnt er að samkomulag náist um loftslagsmál.

Þegar Fredrik Reinfeldt forsætisráðherra Svíþjóðar lýsti yfir í ágústlok að hann drægi í efa að loftslagssamkomulagið yrði nógu metnaðarfullt til að ná markmiðinu um að hitastig á jörðunni hækki ekki nema um tvær gráður í mesta lagi, vakti það ekki hrifningu í Kaupmannahöfn. Svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Í viðtali við Berlingske Tidende lýsti sænski forsætisráðherrann þeirri skoðun sinni að bæði sænska formennskan í ESB og dönsku gestgjafar leiðtogafundarins yrðu að búa sig undir að samkomulag yrði aðeins eitt skref fram á við.

„Ég held að við komumst að samkomulagi, en eins og stendur dreg ég í efa að það dugi til að ná markmiðinu um tveggja gráða hækkun á hitastigi. Heimurinn býst við að komast að samkomulagi en miðað við andann sem ríkti 2006 þá hefur loftslagsumræðan misst mikinn kraft. Of margir hafa það viðhorf að aðrir eigi að draga vagninn,“ sagði Fredrik Reinfeldt.

Ummæli sænska forsætisráðherrans ollu harðri gagnrýni meðal danskra stjórnmálamanna. Einn þekktasti græni stjórnmálamaður Danmerkur og talsmaður Sósíalska þjóðarflokksins, Steen Gade, sem er formaður umhverfismálanefndar Þjóðþingsins og forseti Globe Europe – samtök áhugamanna í röðum þingmanna í Evrópu um umhverfismál – var ómyrkur í máli í gagnrýni sinni á formennsku Svía í ESB.

- Við höfum engan forystusauð á sviði loftslagsmála lengur í Evrópu. Í stað þess að Svíþjóð hefði átt að draga vagninn og beita þrýstingi, er allt að hrynja af því að landið vill ekki hafa forystu í málinu, sagði Steen Gade og benti á að samkvæmt sögunni ætti Evrópa að hafa forgöngu um alþjóðlega stefnu í loftslagsmálum.

- Við hefðum aldrei fengið Kyoto-bókunina án sterkrar aðkomu ESB að málinu. Í því ljósi er einkar dapurlegt að sjá að Svíar skuli ekki vilja hafa forystu í málinu.

John Nordbo, sem stýrir loftslagsáætlun Heimsnáttúrusjóðsins (Verdensnaturfonden), beindi spjótum sínum að forystu Svía og hann dró enga dul á að hann grunaði Reinfeldt um að reyna að tala væntingarnar í sambandi við loftslagsmálin niður og hann vísaði því á bug að fundurinn kynni að misheppnast algerlega.

Martin Lidegaard, formaður grænu hugveitunnar Concito, lét einnig í ljós nokkur vonbrigði:

- Allt þangað til í desember 2008 stóð ESB fyrir því að þjóðir heims gerðu með sér alþjóðlegt, metnaðarfullt samkomulag um loftslagsmál. En þegar Pólverjar og önnur lönd, sem eru íhaldssöm varðandi loftslagsmál, fengu vilja sínum framgengt missti ESB algerlega móðinn. Svíþjóð sem hefur nú formennsku í ESB hefur ekki bætt stöðuna.

Fara þeir til Kaupmannahafnar?

Málið er þó að á leiðinni hafa einnig helstu dönsku stjórnmálamennirnir – þar með talin Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra og Connie Hedegaard loftslagsráðherra – viðrað óöryggi sitt og látið í ljós að það geti orðið æði erfitt að komast að samkomulagi.

Gegnum allt ferlið hefur það verið eitt mesta áhyggjuefni þeirra hvort Barack Obama muni standa við stór loforð sín þegar hann sem nýbakaður forseti gerði lýðum ljóst að hann ætlaði að vinna af krafti að alþjóðlegu samkomulagi um loftslagsmál.

Síðan hefur hann orðið fyrir þrýstingi úr ýmsum áttum og einkum hafa snörp átök um tillögu hans að umbótum í heilbrigðismálum ýtt loftslagsmálum neðar á dagskrá bandarískra stjórnmála.

Í spennandi lokaþætti um loftslagssamkomulagið munu Lars Løkke Rasmussen og Connie Hedegaard líkast til ekki fá ákveðin svör frá Bandaríkjunum fyrr en seint og um síðir, þ.e.a.s. ef Barack Obama fær yfirleitt nóg ráðrúm til að ræða loftslagssamkomulagið og ná nægum stuðningi til að geta fallist á það.

Síðast en ekki síst verður þó einfalt mál að finna út úr því hvort málið muni fá góðan eða slæman endi í Kaupmannahöfn, segja bæði danskir ráðherrar og embættismenn stutt og laggott.

Ákveði Barack Obama og aðrir þjóðarleiðtogar á annað borð að koma til fundarins í Danmörku, þá mun samkomulag nást. Enginn þungavigtarmaður úr hópi þjóðarleiðtoga kemur til Kaupmannahafnar til að spilla fyrir árangri. Láti þjóðarleiðtogarnir hins vegar ekki sjá sig fer allt út um þúfur.

Það mun að sjálfsögðu valda gífurlegum vonbrigðum, ekki hvað síst dönsku gestgjöfunum og sænsku formennskunni sem allt til síðustu stundar lifa í voninni um að bitarnir í púsluspilinu rati á sinn stað og tryggi sögulega viðurkenningu í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden