Document Actions

Aslak Bonde

Mun ákvörðun Íslands toga í Noreg?

Það eru alltaf einhver önnur lönd sem fá Norðmenn til að ræða aðild að Evrópusambandinu (ESB). Á sjöunda áratug síðustu aldar voru það Bretar, í byrjun tíunda áratugarins voru það Svíar. Ekki er hægt að útiloka að það verði Íslendingar sem komi af stað þriðju ESB-umræðunni í Noregi. En það er langur vegur milli þess að hefja umræðuna og til þess að Norðmenn samþykki ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fátt bendir til þess að Noregur muni fylgja Íslandi inn í ESB.

24/06 2009

Það eru alltaf einhver önnur lönd sem fá Norðmenn til að ræða aðild að Evrópusambandinu (ESB). Á sjöunda áratug síðustu aldar voru það Bretar, í byrjun tíunda áratugarins voru það Svíar. Ekki er hægt að útiloka að það verði Íslendingar sem komi af stað þriðju ESB-umræðunni í Noregi. En það er langur vegur milli þess að hefja umræðuna og til þess að Norðmenn samþykki ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fátt bendir til þess að Noregur muni fylgja Íslandi inn í ESB.

Þegar Gro Harlem Brundtland leiddi herferðina sem gekk út á að fá Noreg til að samþykkja ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 1994 var því haldið fram að hluti hernaðaráætlunar hennar væri að fá Svíþjóð til að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu tveimur vikum á undan Noregi. Þá myndu fjöldi efasemdamanna fallast á aðild af því að augu þeirra myndu opnast fyrir því að ella myndum við standa ein utan samfélags sem yrði sífellt evrópskara. Það sem í fjölmiðlum var kallað „Svíakjalsogið “ virkaði ekki. Norðmenn neituðu að láta hernaðarfræðilegar vangaveltur annarra landa hafa áhrif á eigin kosningar.

Í ljósi sögunnar er því hægt að útiloka að Ísland muni draga Noreg með sér inn í ESB, komi til þess að Ísland verði aðili að ESB. En ekki er ólíklegt að Ísland muni hafa þau áhrif að ESB-umræðan komist aftur á dagskrá í Noregi – annað hvort af því að Íslendingar nái svo góðum samningum við ESB um sjávarútvegsmál sem hafi þau áhrif að strandhéruð Noregs snúist úr andstæðingum í það að vera jákvæð í garð aðildar eða af því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hrynji til grunna.

Sjávarútvegsmál hafa mikla þýðingu

Strax eftir fyrstu stóru ESB-baráttuna í byrjun áttunda áratugarins slógu sérfræðingar því föstu að sjávarútvegsstefna ESB væri mikilvæg ástæða þess að aðild var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Markmið ríkisstjórnar Verkamannaflokksins fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 1994 var þess vegna að ná svo góðum sjávarútvegssamningum við ESB að fólk í strandhéruðum Noregs myndi greiða atkvæði með aðild. Að hluta til náðist markmiðið en þó ekki nóg til að fólk á vesturströnd Noregs léti sannfærast. Takist Íslandi að fá ESB til að breyta einhverjum af þeim grundvallarreglum sem snúa að umráðarétti yfir fiskiauðlindunum gæti komið til þess að umræðan blossaði upp að nýju innan sjávarútvegsins í Noregi. Skyndilega gæti sá hluti þjóðarinnar sem hafnaði aðild árin 1972 og 1994 orðið sá hópur sem væri hvað spenntastur fyrir því að í Noregi komist umræða um ESB-aðild aftur á dagskrá. En líkurnar á því að ESB breyti sjávarútvegsstefnu sinni í kjölfar þess að Ísland sæki um aðild eru afar litlar.

Líklegra er að ef til aðildar Íslands kemur þá geti hún grafið undan EES-samningnum. Það er kunnara en frá þurfi að segja að samband Noregs, Íslands og Liechtensteins við ESB eru afmörkuð af EES-samningnum, samningnum um evrópska efnahagssvæðið. Samningurinn tekur í raun ekki til sambands milli landa heldur milli landahópa – annars vegar ESB og hins vegar EFTA-landanna þriggja. Það hefur ávallt ríkt töluvert ójafnvægi í tengslum landahópanna, eða á milli súlnanna í samstarfinu eins og það er kallað á fagmálinu – staðreynd sem allir hafa sætt sig við vegna þess að aðrir kostir hafa verið enn verri. Komi til þess að Noregur og Liechtenstein verði ein eftir í EFTA-súlunni þá verður ójafnvægið enn meira af því að það er í stórum dráttum fjöldi landa en ekki fjöldi íbúa þeirra sem skiptir máli. Það er hægt að velta því fyrir sér hvort hægt yrði að viðhalda samkomulagi þar sem slíkt ójafnvægi ríkir eins og raunin yrði með EES-samkomulagið.

Á hinn bóginn má segja: Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Ef bæði Noregur og ESB vilja viðhalda EES-samingnum ef til þess kæmi að Ísland yrði orðinn hluti af hinni súlunni þá verður honum viðhaldið. Stjórnmál eru mikilvægari en lagaflækjur þegar að bandalögum ríkja kemur. Það sem ræður úrslitum er hvort Noregur og/eða ESB vilja benda á alla galla EES-samningsins – með það að markmiði að láta reyna á hina valkostina.

ESB kostar ekki miklu til við að halda EES-samningnum á lífi og það hefði líklega verið einfaldara ef Noregur hefði gerst fullgildur aðili að ESB. Það er mjög erfitt fyrir pólitískt yfirvald í Noregi að taka afstöðu til þess hvað sé best fyrir Noreg.

Stórþingið vill láta greina kosti og galla EES-samningsins

Rétt áður en Stórþingið fór í sumarleyfi samþykkti það einróma að greina skyldi kosti og galla EES-samningsins. Það þarf ekki að hafa neina dýpri merkingu en það gæti verið fyrsta vísbending um að það óhagganlega traust sem meirihlutinn hefur borið til EES sé byrjað að dvína. Þá kæmi upp ónotaleg staða – það hefur varla nokkur maður sjáviljugur og að eigin frumkvæði varið EES-samninginn í opinberri umræðu á þeim 15 árum sem hann hefur verið við lýði. Ekki síst vegna þess ójafnræðis sem í honum er, auk þess sem hann er of ólýðræðislegur. Því er ótvírætt slegið föstu í samningnum að það sé ESB sem á að þróa nýja lagasetningu og því er jafnframt slegið föstu að dómstólnum sem túlka skal samninginn fyrir Noreg beri að tryggja að ekki sé ósamræmi í þróun reglugerða – sem hefur í för með sér að EFTA-dómstóllinn „okkar“ verður að dæma í samræmi við það sem Evrópudómstóllinn hefur dæmt eða menn halda að hann mundi dæma.

Það er erfitt að vísa þeim ásökunum á bug að Noregur sé hjálenda eða að þar ríki „símbréfalýðræði“ eins og sagt var um okkur á þeim tíma þegar menn reyndu enn að nota símbréfatæki til að senda ákvarðanir frá höfuðstöðvum til allra útibúa. Í þau skipti sem kjósendur heyra um EES þá er það meira og minna í neikvæðum tón. Til dæmis var mikil og erfið umræða í Noregi um rafmagnsverð til orkufreks iðnaðar en í umræðunni var EES-samningnum kennt um að norskum stjórnmálamönnum tækist ekki að fá það fram sem þeir „raunverulega“ vildu sem er að veita iðnaðinum ódýra orku.

Þegar fylgismenn EES eru þvingaðir í vörn er gripið til gagnsemisraka. Þrátt fyrir að samningurinn sé ófullkominn út frá lýðræðislegum sjónarmiðum þá er mestur hluti reglugerða ESB skynsamlegur. Við myndum hafa samþykkt svipaðar reglur hvort eð er. Þar að auki fá sum mikilvægustu svið samfélagsins frið fyrir ESB – ekki síst landbúnaðarinn sem ekki er hluti EES-samningsins. Allra mikilvægast er þó að EES-samningurinn hefur tryggt aðgengi norsks atvinnulífs að mörkuðum ESB. Strangt til tekið hefðum við líka fengið býsna gott aðgengi að mörkuðunum með því að gera nokkra fríverslunarsamninga við ESB en EES-samningurinn er umfangsmeiri og enn trúverðugri fyrir aðila norsks efnahagslífs.

Rökin með og á móti EES hafa í stórum dráttum ekki breyst mikið á undanförnum 15 árum. Það sem kannski hefur breyst í vor er að meðal stuðningsmanna ESB-aðildar hefur þeim fjölgað sem hafa uppi gagnrýnisraddir á EES vegna þess að þeir vonast til að umræða um EES – og hugsanleg uppsögn samningsins – geti leitt til þess að norska þjóðin samþykki að lokum aðild að ESB. Valkostirnir í EES eru annað hvort full aðild eða að gera nokkra fríverslunarsamninga í líkingu við það sem Sviss og ESB hafa gert. Stuðningsmenn ESB-aðildar fullyrða að ESB muni ekki vilja veita okkur þá fríverslunarsamninga sem við myndum óska og þess vegna verði landið að ganga í sambandið. Andstæðingar aðildar segja að samkvæmt samkomulagi Alþjóða-viðskiptamálastofnunarinnar (WTO) skuldbindi ESB sig til að gera fríverslunarsamninga við Noreg sem ekki rýri gildi þeirra viðskiptatengsla sem fyrir hendi eru í dag. Það hafi í för með sér að við getum fengið viðskiptasamninga sem efnislega séu að minnsta kosti jafn hagkvæmir og EES-samningurinn en hafi ekki yfir að búa jafn ólýðræðislegum eiginleikum.

Kosningar til Stórþings í haust

Fylgismenn ESB-aðildar vonast til að eftir kosningarnar sem fram fara í haust verði mynduð ný ríkisstjórn sem hafi frjálsar hendur til þess að taka ESB-málið upp að nýju - og það er í raun helsta von þeirra. Kraftur röksemda verður lítill í samanburði við innanríkispólitíska baráttu um ríkisstjórnarvaldið. Staðan er mjög einföld: Verði mynduð samsteypuríkisstjórn í Noregi eftir kosningarnar mun ríkisstjórnin grundvallast á atriðum sem tryggja að ekkert mun gerast í ESB-málinu næstu fjögur árin. Miðjuflokkurinn mun binda hendur Verkamannaflokksins verði framhald á núverandi ríkisstjórnarsamstarfi. Kristilegi þjóðarflokkurinn mun binda hendur Vinstriflokksins og Hægriflokksins verði mynduð svokölluð borgaraleg samsteypustjórn. Framfaraflokkurinn sem að öllum líkindum verður næststærsti flokkur landsins eftir kosningar, ef hann verður ekki hreinlega stærstur, mun ekki hafa neina skoðum á ESB-aðild og mun ekki eiga frumkvæði að umræðum um hana.

Verði úrslit kosninganna Verkamannaflokknum verulega hagstæð og nái hann að mynda ríkisstjórn upp á eigin spýtur gæti það leitt til þess að það gerist eitthvað í ESB-málinu. Jens Stoltenberg forsætisráðherra og nánasti samstarfsmaður hans Jonas Gahr Støre eru eldheitir stuðningsmenn ESB-aðildar. Þrátt fyrir að þeir hafi verið hógværir á þessu kjörtímabili er ekki nokkur vafi um að þeir muni slá til um leið og þeir telja forsendur til þess að leiða Noreg inn í ESB. Það getur meira að segja komið upp rík þörf fyrir að ganga frá bæði umsókn, umræðu og þjóðaratkvæðagreiðslu snemma á komandi fjögurra ára kjörtímabili svo að Verkamannaflokkurinn geti verið tilbúinn til að taka upp stjórnarsamstarf með Sósíalíska vinstriflokknum og Miðjuflokknum að nýju eftir kosningarnar 2013 en síðastnefndu flokkarnir hafa báðir verið andsnúnir aðild.

Spurningin er svo bara hvort sá tími muni koma að Jens Stoltenberg og Jonas Gahr Støre telji að hægt verði að fá aðild samþykkta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Skoðanakannanir sem gerðar hafa verið á síðustu árum gefa ekkert tilefni til bjartsýni af þeirra hálfu. Í þeim hafa andstæðingar aðildar alltaf verið fleiri en stuðningsmenn. En skoðanir þjóðarinnar geta auðvitað snúist á stuttum tíma. Almennt telja menn að órói tengdur öryggismálum eða efnahag geti stuðlað að því að hugarfar Norðmanna breytist. Ef norska krónan verður fórnarlamb umfangsmikillar spákaupmennsku þá getur skapast þörf á því að tengjast evrunni. Ógni Rússland í norðri þá er hægt að sjá fyrir sér að meirihluti þjóðarinnar muni vilja tengjast ESB til viðbótar NATÓ-aðild.

Það gæti orðið en er ekki sérstaklega líklegt. Í sögulegu ljósi virðist sýn Norðmanna á ESB vera of íhaldssöm.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden