Document Actions

Aslak Bonde

Er barnalegt að vera opinn?

Þegar Jens Stoltenberg skuldbatt okkur öll til að mæta hryðjuverkum með því hafa samfélag okkar enn opnara og lýðræðislegra lagði hann í sömu setningu áherslu á að við mættum aldrei vera barnaleg. Frá því að hryðjuverkin voru framin hinn 22. júlí hefur komið í ljós hversu erfitt er að vega þessi heit hvert á móti öðru. Það hefur jafnframt komið á óvart hversu erfitt er að meta það hvort norskt samfélag er orðið sundraðra eða hvort einingin er orðin meiri eftir að hryðjuverkin voru framin og hvort lagður hefur verið grunnur að því að öfgaöfl fái byr undir báða vængi eða hvort dregið hafi úr áhrifum þeirra.

27/10 2011

Á fyrstu tveimur mánuðunum sem liðu frá fjöldamorðunum í Útey og sprengjutilræðinu í ríkisstjórnarhverfinu í Osló komu 700 ábendingar til Öryggislögreglunnar (PST) um aðra öfgamenn sem hugsanlega styddu hryðjuverkamanninn eða gætu jafnvel gert sambærilega hluti sjálfir.  Það er erfitt að meta hvort um er að ræða háa eða lága tölu.  Ekki einungis vegna þess að það koma alltaf fram staðlausar ábendingar eftir hryðjuverk og alvarlega glæpi heldur jafnframt vegna þess að það er erfitt að meta það hvað er öfgahyggja og hvort hún er hættuleg eður ei.

Byrjum á hinu síðara: Hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik, sem margir Norðmenn vilja helst ekki nefna á nafn, var einn margra sambærilegra á netinu.  Hann er mótfallinn innflytjendum, trúir á kenninguna um „Eurabia“ (hugtak sem ýmsir nota til lýsa því sem þeir kalla íslamvæðingu Evrópu) og hann vill hverfa aftur til tíma musterisriddaranna .  En það er samt ekki hægt að aðgreina skrif og tjáningu hryðjuverkamannsins á netinu og ýmissa annarra sem hafa fengið birtar greinar sínar og skoðanir á prenti í stóru blöðunum eins og til dæmis Aftenposten.  Það sem aðskildi hann var þörfin fyrir að nota ofbeldi og getan til að framkvæma ódæðið.  Það er nokkuð sem maður sér ekki opinberlega.

Öryggislögreglan (PST) stendur því frammi fyrir erfiðu verki þegar hún mun reyna í framtíðinni að aðgreina hættulegu öfgamennina frá þeim sem ekki eru hættulegir og þegar hún á að aðgreina pólitísk ummæli sem teljast viðunandi frá þeim sem teljast hugsanlega glæpsamlega öfgafullar skoðanir.  Eftir 22. júlí hefur PST fengið hærri fjárheimildir þannig að hægt er að efla viðbúnað og eftirlit með internetinu en það hefur ekki enn átt sér stað raunveruleg umræða um viðbúnað PST.

Pólitísk skrásetning?

Á síðasta áratug síðustu aldar var nefnilega hert á reglum um eftirlit lögreglu.  Nefnd undir stjórn hæstaréttardómarans Ketils Lund sýndi fram á að á tímum kalda stríðsins hafi verið haft eftirlit með ýmsum einungis vegna stjórnmálaskoðana þeirra.  Það var ólöglegt á meðan á kalda stríðinu stóð en það var ekki fyrr en skýrsla Lund-nefndarinnar kom út að pólitísku eftirliti var endanlega hætt.

Nú krefjast margir pólitísks eftirlits að nýju.  Þeir setja kröfuna ekki fram með þeim orðum en það er litið á það sem sjálfsagðan hlut að PST fylgist ekki einungis með því sem skrifað er á netinu heldur fylgist jafnframt með hver skrifi hvað og kanni hvort það sé einhver félagsskapur eða starfsemi sem stuðli að glæpsamlegu athæfi.  Það getur PST tæpast gert kerfisbundið og í langan tíma án þess að grípa til skrásetningar.  Heitið um aukið lýðræði er augljóslega í andstöðu við skylduna um að vera ekki barnalegur.

Mikil umræða hefur verið um það á síðustu mánuðum hvort hugmyndirnar um opnara samfélag og það að vera ekki barnalegur séu ósamrýmanlegar.  Varðandi þessar vangaveltur er líka nauðsynlegt að hverfa tíu ár aftur í tímann.  Þá lagði svokölluð málfrelsisnefnd fram greinargerð sína um að best sé að draga úr skaðsemi vafasamra og öfgafullra skoðana með því að draga þær fram í dagsljósið.  Af þessari ástæðu er slegin sérstök skjaldborg um málfrelsi þeirra sem skrifa eða ræða um pólitík og samfélagsmál.

Borið hefur á andmælum gegn þessari skoðun eftir 22. júlí.  Sífellt fleiri fræðimenn auk félagsins Miðstöð gegn kynþáttafordómum færa fyrir því rök að opinber umræða virki ekki eins og máfrelsisnefndin taldi.  Reynslan sýni að öfgaskoðanir og skoðanir sem ali á andúð í garð innflytjenda geti eflst á internetinu af því að þar eigi umræður sér stað þar sem fólk með svipaðar skoðanir safnast saman.  Á tímabili var það nánast dagskipun til allra frjálslyndra að þeir skyldu skrá sig á allra umræðuvefsíður hægriöfgamanna á netinu en það hefur ekki orðið til þess að umræðan hafi orðið opnari.  Tilraun frjálslyndra til að andmæla hægriöfgamönnum hefur miklu frekar leitt til þess að netsíður hafa verið lagðar niður eða menn hafa hætt að nota þær.

Lokaðra samfélag?

Það hefur gefið tilefni til hefðbundinnar en ekki síður mikilvægrar umræðu - sem snýst um pólitískan rétttrúnað og ritskoðun skoðana.  Ef einhver staðhæfing hefur fengið aukinn hljómgrunn eftir 22. júlí þá er það þessi: „Stoltenberg lofaði okkur enn opnara samfélagi en það er í raun orðið lokaðra“.

Hluti þessarar gagnrýni er tengd mati ríkisstjórnarinnar á því hvað hafi gerst, og hvað hafi ekki gerst hinn 22. júlí. Það hefur komið fram mikil gagnrýni á viðbúnað lögreglunnar og það leit lengi út fyrir að ríkisstjórnin ætlaði ekki að bregðast við þeirri gagnrýni fyrr en næsta sumar þegar reiknað er með að niðurstaða opinberrar rannsóknarnefndar liggi fyrir.  Með haustinu hafa komið fram nokkur sjónarmið stjórnmálamanna sem láta sig málaflokkinn varða um það hvað hafi ekki virkað og líklega er réttast að líta á þá gagnrýni sem komið hefur fram á stefnu ríkisstjórnarinnar um opið samfélag sem hluta af hinni eiginlegu flokkspólitísku rökræðu.

Því er öðruvísi farið í þjóðfélagsumræðunni en þar segjast margir tjá sig öðruvísi en þeir gerðu fyrir 22. júlí.  Unni Wikan mannfræðingur er ein þeirra sem segist veigra sér við því nú að taka þátt í umræðum um ýmsar hliðar múslímskrar menningar af því að hún óttast að vera gerð tortryggileg. Í raun eru allir sammála um að það ætti að vera nákvæmlega jafnauðvelt núna eins og fyrr í sumar að ræða vandamál sem snerta innflytjendur og samþættingu þeirra í norskt samfélag en í raun finnst mörgum að það geri svo miklar kröfur til þeirra um að líta á málið frá öllum hliðum að þeir velja frekar að draga sig út úr opinberri umræðu.  Það er þó ómögulegt að giska á hversu margir hafa þann háttinn á.

Hvort hópurinn er stór eða lítill er erfitt að meta en eitt er víst að leiðtogar Framfaraflokksins geta tekið undir að þetta hefur verið þróunin.  Í kosningabaráttunni fyrir sveitarstjórnarkosningarnar um miðjan september beindist kastljósið í miklum mæli að Framfaraflokknum og orðfari hans um málefni innflytjenda.  Siv Jensen leiðtogi flokksins varaði fyrir ári við íslamsvæðingu í Noregi sem færi dult.  Carl I. Hagen fyrrum formaður flokksins sagði fyrir nokkrum árum að „næstum allir hryðjuverkamenn [...] væru múslímar“.  Í kosningabaráttunni voru þau tvö aftur og aftur beðin um að biðjast afsökunar á ummælum sínum því að þar væri alhæft auk þess sem þau ælu á tortryggni.

Skoðanaeinokun vinstri róttæklinga?

Siv Jensen og Carl I. Hagen báðust ekki afsökunar og fylgi flokksins fór úr næstum 18 prósentum niður fyrir 12 prósent.  Erfitt er að segja til um hvort samhengi sé þarna á milli en leiðtogar Framfaraflokksins hafa þó dregið þá ályktun að fjölmiðlar landsins sem aðhyllist frjálslyndi hafi það á stefnuskrá sinni að gera út af við flokkinn og að það sé þrýstingur samfélagsumræðunni á pólitískan rétttrúnað.

Sú skoðun að opinberum umræðum sé stjórnað af frjálslyndum vinstri róttæklingum hefur verið mjög útbreidd meðal hægriöfgamanna á internetinu.  Anders Behring Breivik skrifaði til dæmis að hann teldi að hópur rannsóknarblaðamanna væri vel til fallinn sem skotmörk hryðjuverka.  Sú skoðun að til staðar sé skoðanaeinokun vinstri róttæklinga í blöðum og ljósvakamiðlum getur greinilega í sjálfu sér leitt til ofstækis.  Hún leiðir að minnsta kosti til þess að erfitt er að stuðla að uppbyggilegri samfélagslegsumræðu.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden