Document Actions

Eva Franchell

Sænska lögreglan á nálum

Þeir sem vilja fylgjast með umræðu um hryðjuverk og pólitíska öfgamenn í Svíþjóð verða að vita hvað felst í orðinu hringtorgshundur. Það virðist kannski ábyrgðarlaust vegna alvöru málsins, en staðreyndin er sú að síðustu aðgerðir öryggislögreglunnar verða einmitt raktar til slíks fyrirbæris.

27/10 2011

Torghundurinn er dæmi um götulist sem varð áberandi í Svíþjóð á árinu 2006. Þá tóku ónafngreindir einstaklingar sig til og stilltu upp heimatilbúnum hundum á stórum umferðartorgum. Margir þessara hunda voru hreinustu listaverk, aðrir heimilislegri og búnir til úr alls slags litríku efni.

Múhameðsmynd og listgjörningur

Á nokkrum árum urðu torghundarnir að sakleysislegri en heillandi grasrótarhreyfingu.

Í ágúst 2007 birti blaðið Nerikes Allehanda í Örebrú mynd af Múhameð spámanni sem torghundi. Listamaðurinn, Lars Vilks, hafði teiknað myndina sem skreytti blaðagrein um tjáningarfrelsið. Nokkur listasöfn höfðu áður neitað að taka Múhameðsteikningu Vilks til sýninga vegna þess að stjórnendur þeirra óttuðust hefndaraðgerðir.

Og eftir að myndin birtist í Nerikes Allehanda er líf Lars Vilks í stöðugri hættu.

Hann hefur sjálfur talað digurbarkalega um líflátshótanir sem honum hafa borist og stillt sér upp fyrir blaðaljósmyndara með exi í hönd.

- Ég mun grípa til hennar ef ég þarf að berjast fyrir lífi mínu, sagði hann við blaðamenn síðdegispressunnar sem hann boðaði á sinn fund.
Lars Vilks er greinilega hæstánægður með þá athygli sem hann fær og hann bloggar reglulega um bæði listir og líflátshótanir. Síðsumars skrifaði hann á bloggsíðuna sína að hann ætlaði jafnvel að láta sjá sig á myndlistar-tvíæringnum við Rauðstein í Gautaborg þann 10. september.

En hann lét ekki verða af því.

Aðfaranótt 11. september handtók sérsveit sænsku lögreglunnar hins vegar fjóra unga menn sem töldu víst að Lars Vilks væri væntanlegur til Gautaborgar.

Saksóknari og öryggislögregla þóttust viss um að þeir hefðu komið böndum á fjóra hryðjuverkamenn. Og enn sitja þrír þeirra í varðhaldi grunaðir um tilraun til manndráps.
Hvergi er lengur minnst á grun um hryðjuverk og það eina sem bendir til tilraunar til manndráps er vasahnífur sem einn mannanna virðist hafa keypt áður en tvíæringurinn hófst.

Sprengjutilræði í jólaösinni

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem lögreglan hefur neyðst til að draga til baka ákæru um tilraun til hryðjuverka og snúa henni upp í ákæru fyrir minni sakir. Þrisvar sinn á skömmum tíma hafa menn verið handteknir grunaðir um að leggja á ráðin um hryðjuverk, og það einmitt í Gautaborg. Í öllum tilvikum hefur þessi grunur reynst tilhæfulaus. Ef til vill er Gautaborgarlögreglan svona skyldurækin.

Og kannski hefur hún tilhneigingu til að gera úlfalda úr mýflugu þegar sá grunaði er múslimi..

Í raun hefur bara einu sinni verið framið augljóst hryðjuverk af hálfu múslima í Svíþjóð og það var í miðri jólaösinni á Drottningagötunni í hjarta Stokkhólms.

Þar sprungu tvær sprengjur með nokkurra mínútna millibil þann 16. desember í fyrra. Í síðari sprengingunni týndi tilræðismaðurinn Maimour Abdulwahab lífi. Hann hafði rétt vikið sér inn á mannlausa þvergötu við Drottningagötuna þegar hluti af sprengiefni sem hann bar innanklæða sprakk og því sakaði engan annan.

Taimour Abdulwahab var fæddur í Bagdað, en flutti sem barn til Tranås í Smálöndum og átti þar ósköp venjulega æsku. Að lokinni skólagöngu í Svíþjóð flutti til Luton í Bretlandi til að læra hnykklækningar, en helgaði sig stöðugt meira trúmálum og varð bókstafstrúaður múslimi.

Rétt áður en hann sprengdi sig í loft upp hafði hann sent inn skilaboð til öryggislögreglunnar og TT-fréttastofunnar: „Nú munu börnin ykkar, dætur og systur, deyja rétt eins og okkar bræður, systur og börn”.
Í tilkynningunni gaf hann líka upp ástæðu fyrir sprengjutilræðinu: veru sænskra hersveita í Afganistan, kúgun múslima í Svíþjóð – og torghundinn hans Lars Vilks.

Og nú í septemberlok birtist Lars Vilks svo óvænt á bókamessunni í Gautaborg og að þessu sinni var hann í skotheldu vesti.

- Sláið hér. Sláið fast á brjóstið á mér, sagði hann við blaðamennina.

Stríð Svía gegn hryðjuverkum fékk þannig óvæntan liðstyrk í formi lifandi listagjörnings.

Sitja ekki allir við sama borð?

Á sama tíma, en á allt öðrum stað í Svíþjóð, situr Peter Mangs í varðhaldi, grunaður um að hafa framið þrjú morð og reynt að myrða enn fleiri í Málmey. Fórnarlömbin voru nær öll innflytjendur sem höfðu ekkert til saka unnið, en skotið var þar sem þeir biðu eftir strætó, sátu í bílum sínum eða brugðu sér í bæinn til að skemmta sér.
Peter Mangs fæddist í Växjö, einfari sem hafði á netinu komist í kynni við hægriöfgamenn út um allan heim.

Hann vakti upp mikla skelfingu meðal íbúa í Málmey áður en hann var handtekinn í nóvember. Löng hefð er fyrir því að innflytjendur setjist að í Málmey og þar eru margir íbúar af erlendum uppruna. Þegar skotárásirnar hófust var því stór hluti borgarbúa – eiginlega allt dökkhært fólk - hvatt til þess að halda sig heima við. Þegar skotárásirnar hófust var því stór hluti borgarbúa – eiginlega allt dökkhært fólk - hvatt til þess að halda sig heima við.
Samkvæmt sænskum lögum er það hryðjuverk að „vekja mikinn ótta hjá þjóðinni eða þjóðfélagshóp”.

En glæpir Peter Mangs, sem nú situr í varðhaldi og bíður þess að réttað verði yfir honum á næsta ári, eru ekki skilgreindir sem hryðjuverk. Það eru því margir sem spyrja sig að því hvort sænska lögreglan geri greinarmun á þeim hótunum sem beinast að innfæddum Svíum og þeim sem beinast að innflytjendum, en auðvitað vísar hún slíkum ásökunum vísað á bug.

Sænska öryggislögreglan er með þrjá öfgahópa undir eftirliti, liðsmenn hreyfingar sem kennir sig við hvítt vald, aðhyllist nasisma og ofsækir fólk af gyðingaættum, nokkra sjálfstæða hópa yst á vinstrivængnum og hópa íslamskra öfgamanna. Svo virðist sem Peter Mangs hafi verið hallur undir þá fyrstnefndu og Abdulwahab tengist öfgamönnum úr röðum múslima.

Óljós ógn

Skotárásirnar á Útey voru áfall fyrir Svía. Norðmenn eru þeirra næstu grannar og margir sænskir jafnaðarmenn hafa dvalið í sumarbúðum í Útey. Það hefði allt eins verið hægt að fremja þessi ódæðisverk í sænsku sumarlandi. Í riti því sem Anders Behring Breivik birti á netinu beinir hann hatri sínu að bæði löndum sínum og Svíum.

En hvaða öfgahópi tilheyrir Anders Behring Breivik samkvæmt flokkunarkerfi sænsku öryggislögreglunnar? Á heimasíðu hennar er ekki að finna upplýsingar um einn tilgreindan hóp sem beinir hatri sínu að múslimum.

Og sannleikurinn er sá að Taimour Abdulwahab, Peter Mangs og Anders Behring Breivik fóru allra sinna ferða á Netinu. Þar verða öfgahópar og sjónarmið þeirra að óljósri ógn, torvelt er að elta uppi liðsmenn þeirra og skilgreina í ljósi flokkunarkerfis sænsku öryggislögreglunnar.

Með góðum vilja mætti því staðhæfa að það sem helst einkenni ákvarðanir lögreglunnar sé óöryggi.

Eitt vitum við þó; að það er í jaðarhópum samfélagsins sem öfgasjónarmiðin skjóta rótum og hryðjuverkamenn verða til. Á dögunum var í útvarpsþættinum Konflikt fjallað um atvinnuleysi ungs fólks og það sagt skapa “frjóan jarðveg fyrir byltingu, stríð og sundurlyndi í samfélaginu”.
Hvergi á Norðurlöndum er atvinnuleysi meira meðal ungs fólks en í Svíþjóð og ef litið er til annarra Evrópuríkja mælist það óvíða meira. Í úthverfum stórborganna býr nú fleira fólk í hverri íbúð en fyrr og fleiri lifa undir fátæktarmörkum. Kannski þyrfti einmitt að hefjast handa í þessum hverfum í baráttunni gegn öfgasjónarmiðum.
Þeim sem er boðið að vera með í samfélaginu hafa enga ástæðu til að hatast við annað fólk.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden