Document Actions

Markku Heikkilä

Afdrifarík ákvörðun um stjórnarsetu

Næstu þingkosningar í Finnlandi sem fara eiga fram næsta vor verða afdrifaríkar fyrir Jafnaðarmannaflokkinn sem nú er í stjórnarandstöðu. Haldi flokkurinn áfram að tapa fylgi, á þessi fyrrum áhrifamikli stjórnmálaflokkur á hættu að verða utanveltu um langan tíma. Meginvandi flokksins (SDP) felst einkum í tvennu: almennum óvinsældum vinstrimanna og tilkomu nýrrar tegundar af lýðskrumi.

19/08 2010

Viðvarandi ástarþríhyrningur trónir á toppi finnskra stjórnmála. Enginn flokkur í Finnlandi nýtur afgerandi fylgis. Hinsvegar eru þar þrír flokkar, Miðflokkurinn, Einingarflokkurinn og Jafnaðarmannaflokkurinn sem njóta breytilegs fylgis á bilinu 20 og 25 prósent. Mjótt verður á mununum á milli fylgi flokkanna að loknum kosningum. Niðurstaðan getur oltið á brotabroti en fylgi stjórnmálaflokka í Finnlandi hefur yfirleitt ekki sveiflast nema um fáein prósentustig.

Samkvæmt viðtekinni pólitískri venju mun fulltrúi stærsta flokksins af þessum þremur hljóta forsætisráðherrastólinn og annan hvorn hinna sem samstarfsflokk í ríkisstjórn. Einn flokkurinn verður í stjórnarandstöðu. Þetta er ekki bundið í lög en svona hefur þetta verið eftir undanfarnar kosningar.

Sökum þess að flokkarnir gefa ekki upp nein áform um stjórnarmyndun fyrir kosningar, geta hvaða flokkar sem er, allt eftir  niðurstöðum kosninganna tekið upp stjórnarsamstarf.  Skilin á milli vinstri og hægri hafa ekki skipt teljandi máli, en samkvæmt ríkjandi valdajafnvægi í Finnlandi eru líkurnar á að samstaða verði um stjórnarmyndun með meirihluta vinstri manna hverfandi. Hafni jafnaðarmenn aftur í stjórnarandstöðu verður til nýtt fyrirbæri í Finnlandi:  langt tímabil borgaraflokka við stjórnvölinn.

Löng og áhrifarík saga

Jafnaðarmannaflokkurinn, (socialdemokratiska parti, SDP) á sér rúmlega 110 ára langa, virta hefð sem stjórnmálaafl í Finnlandi. Flokksþingið í Forsa, árið 1903 markaði þáttaskil í sögu finnskra stjórnmála. Á upphafsskeiði verkalýðshreyfingarinnar setti flokkurinn sér afar metnaðarfull markmið, meðal annars átta tíma vinnudag, fundafrelsi, almennan kosningarétt og opinbera heilbrigðis- og sjúkraþjónustu. Flestum þessum markmiðum hefur verið náð og teljast þau nú hornsteinar finnska velferðarsamfélagsins.

Þegar á leið klofnaði verkalýðshreyfingin og skiptist annars vegar í fylkingu byltingasinna og hinsvegar hófsamra.  Árið 1918 geisaði í  einu Norðurlandanna, Finnlandi, blóðugt og hatrammt stríð á milli rauðliða og hvítliða. Eftir að hvítliðar fóru með sigur af hólmi varð SDP eini löglega viðurkenndi stjórnmálaflokkurinn á vinstri vængnum á meðan að kommúnistar voru beittir þvingunum og hurfu af sjónarsviðinu. Verkalýðshreyfing jafnaðarmana hefur haft gríðarleg áhrif á samstöðu þjóðarinnar sem og á hvernig hún hóf sig úr rústunum og þróaðist í norrænt velferðarríki. Árið 1926, aðeins átta árum eftir borgarastríðið, var tímabært fyrir Finna að koma á fyrstu minnihlutastjórninni með forsætisráðherra úr röðum SDP.

Að lokinni styrjöldinni við Sovétríkin fór SDP enn á ný  fyrir hófsamari fylkingu verkalýðshreyfingarinnar og virkaði eins og höggdeyfir gagnvart kommúnistum sem voru orðnir sér meðvitaðir um styrk sinn (en liðu ennþá fyrir innbyrðis klofning) og lýðræðissamtökin.   Þetta átti jafnt við um pólitíkina á þjóðþinginu og innan stéttarfélaganna þar sem vinstri flokkarnir kepptust um að ná völdum.

Úr leiðtogahlutverki í stjórnarandstöðu

SDP hefur í áranna rás setið í mismunandi ríkistjórnum. Fjölmargir forsætisráðherrar og aðrir mikilsmetnir stjórnmálamenn hafa komið úr röðum flokksins. Flokkurinn hefur ráðið ríkjum í verkalýðshreyfingunni og hefur frá árinu1982, þegar Urho Kekkonen varð forseti, átt forseta úr sínum röðum (Mauno Koivisto, Martti Ahtisaari, Tarja Halonen). Stöðu flokksins er best lýst með þeirri staðreynd að hann var til skamms tíma kallaður þjóðarleiðtogaflokkurinn.

Frá kosningunum árið 2007 hefur SDP verið í stjórnarandstöðu. Frá sögulegu sjónarhorni er það skammur tími og samstarf borgaraflokkanna í ríkisstjórn og með SDP í stjórnarandstöðu hefur oftar átt sér stað í Finnlandi. Síbreytileg stjórnarmynstur flokkanna teljast dæmigerðar fyrir Finnland.

Þrátt fyrir þetta minnir andrúmsloftið í flokknum um þessar mundir um margt á ögurstund. Annað tímabil í stjórnarandstöðu væri afar óvenjulegt. Leita verður marga áratugi aftur í söguna til þess að finna sambærilegt tímabil.

Nú nýtur flokkurinn fylgis um 20 prósenta kjósenda og deilir stöðunni í öðru eða þriðja sæti með Miðflokknum (Einingarflokkurinn er æ oftar í broddi fylkingar). Þegar litið er til kosninga hefur flokkurinn eiginlega engu tapað enn, en óvissan meðal áhrifamikilla flokksmanna er mikil.

Samanlagður stuðningur við vinstri flokkana er í sögulegu lágmarki, um það bil 30 prósent. Hinn flokkurinn  á vinstri vængnum, Vinstrabandalagið hefur færst yfir á pólitískt jaðarsvæði. Þær breytingar sem nú eiga sér stað á finnsku samfélagi, í iðnaðarborgum, sem eru hefðbundið virki SDP, eru flokknum ekki hagfelldar.

Hefðbundinn sterkur iðnaður dregst saman og riðlar styrku faglegu skipulagi stéttarfélaganna. Fylgismennirnir eldast og erfitt er að halda tökum á ungu fólki. Jafnframt birtast lýðskrumararnir í flokki Sannra Finna á fámennum iðnsvæðunum og í ört vaxandi úthverfum borganna og bjóða upp á einfaldar lausnir á flóknum vandamálum

Í átt að stjórnmálastefnu sem byggir á myndum

Allt hefur þetta hefur reynst erfitt fyrir SDP. Ímynd almennings af flokknum hefur breyst, hann er talinn staðnaður og með ógreinilega stefnu.  Í seinni tíð hefur verið reynt að breyta þessari ímynd með kjöri á nýjum formönnum. Það er einkum mikilvægt vegna þess að munur á hugmyndafræði stærstu stjórnmálaflokkanna í Finnlandi verður sífellt ógreinilegri og þeir eru orðnir að breiðfylkingum sem allar leita á sömu mið.

Flokksformaður SDP: Paavo Lipponen forsætisráðherra, var óumdeildur kraftaverkamaður á sviði finnskra stjórnmála á tíunda áratug síðustu aldar. Eero Heinäluoma, með bakgrunn úr verkalýðshreyfingunni tók við formennsku í flokknum af Lipponenen. Vegna vonbrigða með lítinn stuðning kjósenda sagði hann af sér. Í hans stað var ung kona, Jutta Urpilainen, sem hafði reynslu af setu á þjóðþinginu en hafði ekki unnið nein önnur pólitísk afrek, fyrir valin til formennsku í flokknum árið 2008. Verkefni hennar fólst fyrst og fremst í því að endurnýja ímynd flokksins.

Urpilainen, einangraðist frá flokknum, allavega til þess að byrja með. Allt leit út fyrir að SDP færi villur vega án þess að hafa nokkrar skýrar hugmyndir. Formaður flokks Sannra Finna, Timo Soini, hefur nýtt sér kringumstæðurnar og tekist að gera sjálfan sig að talsmanni stjórnarandstöðunnar þrátt fyrir langtum minni stuðning frá kjósendum en SDP.

Urpilainen sker sig ekki lengur úr hópi annarra formanna finnskra stjórnmálaflokka. Þegar  Matti Vanhanen greindi frá því á vordögum að hann hygðist yfirgefa stól forsætisráðherra var um skeið allt útlit fyrir að Miðflokkurinn væri á barmi örvæntingar, klofinn og þjakaður af hneykslismálum. En á landsfundi flokksins í júní breyttust allar pólitískar áætlanir enn einu sinni. Miðflokkurinn safnaði liði og máði nöfn þeirra sem höfðu valdið gauragangi af kjörseðlunum og kaus, Mari Kiviniemi, nútímalega konu á fimmtugsaldri með óaðfinnanlegan feril sem forsætisráðherra og formann flokksins.

Nær allir formenn finnsku stjórnmálaflokkanna eru nú úr hópi glæsilegra og sjálfsöruggra karla og kvenna á fimmtugsaldri. SDP lagði sitt af mörkum til þess að festa þessa mynd í sessi með því að kjósa í sumar Mikael Jungner, fyrrverandi framkvæmdastjóra finnska útvarpsfélagsins Rundradion, einstakling sem á mjög auðvelt með að koma fram opinberlega og er afar ólíkur hinum hefðbundna verkmanni, sem formann flokksins.

Um þessar mundir má finna krækjur í fésbókina, twitter, youtube, wikipedia, flikr, linkedin auk demari-tv á heimasíðu flokksins. Að hve miklu leiti kjósendur samsama sig þessu er allt annað mál. Mörgum þykir einkennandi fyrir flokkinn að sífellt fleiri erfiðar pólitískar ákvarðanir innan flokksins séu teknar af Eero Heinäluoma, sem nú er formaður þingflokksins. Hann sé sá eini í stjórn flokksins sem hefur hvoru tveggja til að bera: bakgrunn úr verkalýðshreyfingunni og umfangsmikla reynslu af stjórnmálum.

SDP hefur nýlega hafið herferð þar sem Finnar eru beðnir um að koma með tillögu um nöfn á hæfu fólki sem frambjóðendum í kjöri um forseta árið 2012. Á þann hátt vill flokkurinn gefa til kynna að hann sé opinn og standi íbúunum nærri. En það er einnig hægt að túlka herferðina á þann hátt að SDP fari villur vega og skorti sterka félaga og skýrar hugmyndir um framtíðina.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden