Document Actions

Thomas Larsen

Eitrað skattamál með áhrifamiklum afleiðingum.

Sósíaldemókrataflokkurinn með Helle Thorning-Schmidt í broddi fylkingar átti fastlega von á því fyrir sumarleyfi að komast að völdum í ríkisstjórn. Síðan hefur eitrað skattamál laskað mjög traust á flokksformanninum og gefið ríkisstjórninni undir forystu Lars Løkke Rasmussen færi á að halda völdum.

19/08 2010

„Ég get sigrað Anders Fogh Rasmussen“.

Helle Thorning-Schmidt var kokhraust og vongóð þegar hún lét þessi orð sér um munn fara við flokksfélaga sína vorið 2005 og hún lét í veðri vaka að með hana í fylkingarbrjósti yrði leikur einn fyrir Sósíaldemókrataflokkinn að ryðja brautina að endurkomu flokksins til valda í ríkisstjórn.

Flokksfélagarnir kusu að trúa orðum hennar. Og þar með áttu sér stað ein furðulegustu og óvæntustu leiðtogaskipti í langri sögu Sósíaldemókrataflokksins.

Helle Thorning-Schmidt var ung að árum og svo til óþekkt í dönskum stjórnmálum þegar hún lýsti yfir framboði sínu.

Hún hafði setið á Evrópuþinginu án þess að hafa látið mikið að sér kveða og þegar hún sóttist eftir formennsku í flokki sínum var hún nýkosin á þing og hafði ekki einu sinni haldið jómfrúrræðu sína þar.

Þekking hennar á dönskum innanríkisstjórnmálum var í heildina takmörkuð og hún þekkti ekki starfshætti þingsins svo heitið gæti.

Flokkur í kreppu

Thorning náði samt sem áður kosningu um formannsembættið og var það vegna þess að flokksfélagana þyrsti í að fá nýja persónu til leiks.

Með Anders Fogh Rasmussen í fylkingarbrjósti höfðu borgaraflokkarnir í Danmörku – sem samanstóðu af Vinstriflokknum, Íhaldssama þjóðarflokknum og Danska þjóðarflokknum – unnið sögulegan kosningasigur árið 2001. Í þeim kosningum missti Sósíaldemókrataflokkurinn stöðu sína sem stærsti flokkur landsins.

Poul Nyrup Rasmussen, formaður sósíaldemókrata og forsætisráðherra, var búinn að vera og tapaði ekki aðeins ríkisstjórnarvöldum. Fljótlega varð hann einnig að yfirgefa formannsembættið í Sósíaldemókrataflokknum og gamall bandamaður hans Mogens Lykketoft tók við.

Í kosningunum 2005 galt Mogens Lykketoft gífurlegt afhroð og hann tók þann kost þegar á kosninganóttina – með áhrifamikilli ræðu – að lýsa því yfir að hann stigi til baka vegna ósigursins og að flokkurinn yrði að fá nýjan formann.

Á þeim tíma var flokkurinn sundraður í tvær fylkingar sem klufu þingflokkinn og flokksstjórnina.

Annar hópurinn átti rót sína að rekja til Svends Auken, fyrrverandi formanns sem Poul Nyrup Rasmussen velti úr sessi í vægðarlausu uppgjöri árið 1992. Frá þessum fylkingararmi bauð reyndur þingmaður, Frank Jensen, sig fram. Frá hinum fylkingararminum endaði með því að Helle Thorning-Schmidt bauð sig fram eftir að vanari og líklegri frambjóðendur ákváðu að draga sig í hlé.

Undir venjulegum kringumstæðum hefði Helle Thorning-Schmidt ekki átt neinn möguleika en í flokknum ríkti svo greinileg örvænting og svo útbreidd þreyta vegna innri valdabaráttu, og þar af leiðandi þrá eftir að fá nýjan flekklausan formann, að Thorning hlaut kosningu.

„Ég get sigrað Anders Fogh Rasmussen,“ sagði hún og áheyrendur klöppuðu sem óðir væru því að þeir áttu þá ósk heitasta að stöðva hinn reynda Fogh.

Enduruppbygging

Eins og kunnugt er tókst það ekki.

Fogh vann enn afgerandi kosningasigur árið 2007 en Thorning hlaut enn verri útreið en Mogens Lykketoft í kosningunum 2005.

Thorning varð lítið sem ekkert ágengt við að hækka gengi Sósíaldemókrataflokksins í skoðanakönnunum en það var áfram á svipuðu róli og léleg kosningaúrslitin á árunum 2005 og 2007.
Í rauninni fékk Thorning tækifærið þegar Fogh ákvað snemma vors 2009 að segja skilið við dönsk stjórnmál og fara til Brussel þar sem hann tók við embætti aðalritara NATO.

Eftirmaður hans sem forsætisráðherra, Lars Løkke Rasmussen, fékk mörg geysierfið pólitísk og efnahagsleg mál við að stríða allt frá fyrsta degi í embætti.
Fogh yfirgaf embættið einmitt þegar þurfti að fara að fást við bullandi alþjóðlega efnahagskreppu.

Kreppan markaði stefnubreytingu því að fljótt kom í ljós að losaraleg stjórn Foghs á opinberum útgjöldum gat ekki haldið áfram og að það var orðin þörf á algerri stefnubreytingu í efnahagsmálum.

Á sama tíma fékk Løkke aðeins lítinn fyrirvara til að undirbúa leiðtogafundinn um loftslagsmál í desember 2009 sem misheppnaðist gjörsamlega. Miðað við hinn slétta og fellda Fogh virkaði Løkke fljótlega úfinn og óöruggur forsætisráðherra.

Thorning á uppleið

Fyrir Thorning boðaði þetta upphaf vaxandi gengis í skoðanakönnunum.

Þrátt fyrir marga afturkippi og mistök hafði hún jafnframt náð mikilvægum árangri í ýmsu allt frá því að hún tók við formennsku aftur árið 2005.

Henni hafði tekist að koma á innri valddreifingu sem batt enda á gamlar ýfingar milli fylkinga í flokknum og þar stóð hún sig vel. Hún kom á nánu samstarfi við Sósíalska þjóðarflokkinn sem naut mikillar velgengni. Þannig var í fyrsta skipti í sjónmáli raunhæf mynd af annarri ríkisstjórn. Og henni tókst að snúa pólitískri stefnu flokksins á mikilvægum sviðum.

Í samstarfi við Sósíalska þjóðarflokkinn færðist Sósíaldemókrataflokkurinn til hægri í verðmætapólitík – lesist: stefnu í málefnum útlendinga og réttarfari. En um leið sveigði hún stefnu flokksins í efnahagsmálum lengra til vinstri. Þannig hefur hún ásamt stjórn Sósíalska þjóðarflokksins lagt stöðuga áherslu á að fjárfest verði í meira mæli í velferð.

Á móti ríkisstjórn, sem var undir þrýstingi í varnarstöðu við að ná stjórn á kreppunni og var hrjáð af ótal málum, fóru tölurnar í skoðanakönnunum fyrir alvöru að rjúka upp vorið 2010 þegar Sósíaldemókrataflokknum og Sósíalska þjóðarflokknum kynntu stórfenglega efnahagsáætlun, „sanngjarna lausn“, undir grípandi slagorði: „Hafirðu 12 mínútur þá höfum við lausn“.

Hugmyndin í áætluninni var sú að mörg efnahagsvandamál Danmerkur mætti leysa ef hver og einn Dani ynni aðeins 12 mínum lengur á degi hverjum eða klukkutíma lengur á viku.

Þegar þingmenn fóru í sumarfrí í júní sýndu allar skoðanakannanir ótvírætt að Thorning yrði fyrsta konan í forsætisráðherraembætti í Danmörku.

Aftur á niðurleið

Í dag – í upphafi á nýju þingtímabili – er allt breytt.

Áætlunin um 12 mínúturnar er pólitískt runnin út í sandinn.
Allir hagfræðingar eru sammála um að stefna beri að því að Danir vinni meira til að tryggja vinnuframboðið þegar stórir árgangar aldraðra fara á eftirlaun og færri starfandi hendur taka við til að sjá fyrir velmegun og velferð.

Sá mikli annmarki er á áætluninni hjá Sósíalistaflokknum og Sósíalska þjóðarflokknum að þeir láta undir höfuð leggjast að benda á hvernig þeir hugsi sér að fá Dani til að vinna meira, og bandamenn þeirra – formenn stéttarfélaganna – eru farnir að draga í land.

Því næst bendir allt til að ískyggileg innri deila rísi um stefnu í innflytjendamálum, einkum í Sósíalska þjóðarflokknum. Flokksforystan hefur valið flokknum stað nær hinni ströngu stefnu sem borgaraflokkarnir hafa fylgt frá kerfisbreytingunni 2001 en í þingflokki SÞ og baklandinu verða æ fleiri flokksmenn SÞ tortryggnari gagnvart þeirri stífu stefnu.

Ekkert jafnast þó á við afleiðingarnar af geysimikilli fjölmiðlaumfjöllun um skattamál í kringum Helle Thorning-Schmidt og breskan eiginmann hennar Stephen Kinnock.

Mánuðum og árum saman hefur Thorning barist gegn „andfélagslegum og ófjármögnuðum skattaívilnunum handa hinum ríku“. Hún hefur ráðist ákveðið gegn ríkisstjórninni vegna skattastefnu hennar og hún hefur talað fyrir því að tekinn verði upp sérstakur „auðkýfingaskattur“.

Það kemur því illa í bakið á henni að hún þarf nú að horfast í augu við mál þar sem um er að ræða hvort eiginmaður hennar Stephen Kinnock eigi að borga skatt í Danmörku eða Sviss.

Fyrst í stað vísaði Thorning því ákveðið á bug að eiginmaður hennar ætti að borga skatt í Danmörku af launum sem hann þiggur sem forstjóri í hinum heimsþekkta hugmyndabanka, Alþjóðaefnahagsráðinu (World Economic Forum).

Síðan sneri hún við blaðinu og hjónin sendu dönskum skattyfirvöldum skattaframtal.

Eftir þetta hefur trúverðugleiki Thorning minnkað enn frekar vegna þess að hún hefur gefið misvísandi upplýsingar um hversu oft maður hennar dvelur í Danmörku.

Í tengslum við skattamálið upplýsti Thorning að Stephen Kinnock dveldist eingöngu heima um helgar og í leyfum. Í erindi til dómsmálaráðuneytisins þar sem hún óskaði eftir að eiginmaðurinn yrði skráður meðeigandi að húsi fjölskyldunnar var skýringin hins vegar sú að eiginmaðurinn dveldist mun oftar í Danmörku.

Enginn veit hvernig lögfræðingar danskra skattyfirvalda munu greiða úr málinu – en eftir þeirri niðurstöðu bíða nú stjórnmálamenn.

En víst er að hið yfirgripsmikla skattamál hefur grafið undan trausti á Thorning og málið hefur einnig spillt fyrir möguleikum hennar á að nota skattastefnuna sem vopn gegn rískisstjórninni.

Í besta falli verður Thorning að finna sér nýja pólitíska baráttuaðferð sem byggð er á einhverju öðru. Í versta falli hrynur gengi hennar svo að sögunni lýkur með því að henni tekst ekki að sigra Lars Løkke Rasmussen.

Ekki aðeins Helle Thorning-Schmidt heldur gjörvallur Sósíaldemókrataflokkurinn vega salt á fjallsegg.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden