Document Actions

Aslak Bonde

Jafnaðarmenn vilja stjórna

Í 30 ár hefur því verið spáð með jöfnu millibili að blómaskeiði Verkamannaflokksins sé lokið en aldrei hefur spádómurinn ræst. Þrátt fyrir að nú í sumar hafi litið út fyrir að Hægriflokkurinn tæki stöðu Verkamannaflokksins sem stærsti flokkur landsins samkvæmt skoðanakönnunum þá telur varla nokkur maður að um sé að ræða varanlegt ástand. Verkamannaflokkurinn er ennþá eini flokkurinn sem er treyst til að stýra landinu einn.

19/08 2010

Jens Stoltenberg forsætisráðherra lauk sumarfríi sínu nokkrum dögum fyrr í ár en venjulega. Síðasta fríhelgin var notuð til að hemja pólitískan stórbruna í Vestur-Noregi. Í byrjun frísins litu vandræðin út fyrir að vera staðbundin og ekki sérlega alvarleg. Þegar júlí var liðinn og komið var fram í ágúst logaði svo kröftuglega að herstjórnarfræðingar Verkamannaflokksins óttuðust að skaðinn sem af hlytist kynni að verða varanlegur - þ.e.a.s. stórtap í sveitarstjórnarkosningunum næsta haust.

Það var ákvörðun um að leyfa lagningu nýrrar háspennulínu í fjarðarlandslagi Harðangursfjarðar fyrir austan Bergen sem kveikti bálið. Mánuðum saman hefur verið óeining innan samsteypustjórnarinnar um háspennulínuna. Það hafa verið uppi efasemdir um þörfina og í Sósíalíska vinstriflokknum (SV) óskuðu menn þess heitast að strengurinn yrði lagður neðansjávar til að spilla ekki fagurri náttúrunni. Menn í Verkamannaflokknum og Miðjuflokknum hlustuðu hins vegar á sérfræðinga sem töldu að það yrði of dýrt og ekki nógu öruggt að leggja línuna neðansjávar.

Samþykkt ríkisstjórnarinnar fyrir háspennulínunni var strax túlkuð meðal almennings sem samþykki fyrir ógurlegu risamastri. Því yrði ekki með orðum lýst hversu ljótt landslagið yrði með stórum möstrum og sverum vírum fjarða á milli. Ferðamenn myndu að minnsta kosti láta sig hverfa. Ríkisstjórnin náði alls ekki að koma röksemdum sínum á framfæri um að slík lína myndi hafa í för með sér öruggari og betri orkuflutning til Bergen og að án nýju rafmagnslínunnar sé hætta á að einn stærsti bær Noregs geti orðið rafmagnslaus og það lengi í senn.

Fylgishrun í skoðanakönnunum

Hluti umræðunnar um rafmagnslínurnar var tengdur öðrum málum sem ýmsum þótti benda til hins sama: Rauðgræna ríkisstjórnin kæri sig kollótta um fólk á landsbyggðinni. Hún stjórnar landinu frá Ósló og fylgir ráðum sérfræðinga ríkisins sem jafnframt sitja í höfuðborginni.

Þrýstingurinn á ríkisstjórnina var svo mikill að Jens Stoltenberg ákvað að venda kvæði sínu í kross. Eftir að því hafði verið haldið fram allt sumarið að allir aðrir kostir hefðu verið útilokaðir var ákveðið að skoða skyldi málið enn einu sinni ofan í kjölinn. Að þessu sinni skyldu svokallaðir óháðir sérfræðingar leggja mat á hvort hægt sé að fela háspennulínuna í Harðangursrfirði. Líklega blossa deilurnar upp að nýju með tilheyrandi óróa þegar sérfræðingarnir skila af sér skýrslu sinni.

Ástæða upphlaupsins í kringum rafmagnslínuna var léleg niðurstaða ríkisstjórnarflokkanna í skoðanakönnunum. Verkamannaflokkurinn er nokkuð undir 30 prósentum í könnunum en Miðjuflokkurinn og SV ná aðeins fjórum, fimm og sex prósentum. Samanlagt er fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja lélegra en nokkru sinni fyrr.

Ástæðurnar eru margar en það hjálpaði ekki upp á vinsældirnar að ríkisstjórnarflokkarnir viðra óeiningu sína í meira mæli en áður opinberlega. Kristin Halvorsen leiðtogi SV viðurkenndi í vetur að það væri ekkert sérstakt „fútt“ í ríkisstjórnarsamstarfinu um þessar mundir. Í sumar sagði hún fjölmiðlum frá því að það hefði verið Miðjuflokkurinn sem hefði troðið heimskulegri ákvörðuninni um rafmagnslínuna í Harðangursfirði í gegn. Flokksmenn Miðjuflokksins hafa svarað í sömu mynt.

Hæðóttur vegur

Ætla mætti að Jens Stoltenberg forsætisráðherra yrði leiður á óróanum í ríkisstjórninni og rifrildi minni flokkanna. En það er ekki svo. Mjög fáir í Verkamannaflokknum mæla með því að reka flokkana tvo úr ríkisstjórninni og skoðanakannanirnar skjóta ekki mörgum skelk í bringu. Þeir eru svo vanir því að fylgið fari upp og niður. Þeir hafa jafnframt vanist því að það gangi betur á kjördag en alla aðra daga. Þeir hafa langa reynslu af tilveru þar sem vegurinn liggur ýmist upp á fjöll eða ofan í dali.

Þegar í lok áttunda áratugarins byrjuðu fréttaskýrendur að tala um svanasöng Verkamannaflokksins og jafnaðarmennskunnar. Flokkurinn og verkalýðshreyfingin voru orðin íhaldssöm. Þau vörðu hvert samkomulag og allar reglur sem verkalýðshreyfingin hafði áunnið með baráttu sinni - hversu vel sem þau virkuðu. Þegar fyrsta hægribylgjan kom á níunda áratugnum var það skýrt með því að verkalýðsstéttin yrði sífellt fámennari og að fólk færði sig yfir í nýjar atvinnugreinar þar sem viðhorfið byggðist mun meira á einstaklingshyggju. Rökrétt afleiðing hlaut að verða að Verkamannaflokknum og Alþýðusambandinu (LO) yrði fleygt á ruslahaug sögunnar - töldu fréttaskýrendur.

Svo rangt geta menn haft fyrir sér. Verkamannaflokkurinn og verkalýðshreyfingin endurnýjuðu sig - nýtt langvarandi tímabil hófst undir stjórn Gro Harlem Brundtland. Þá varð ný niðursveifla með leiðtogabaráttu, dómsdagsspám og fylgishruni í kosningunum árið 2001. Því næst komst á sögulegt samstarf og ríkisstjórnarvöld og sigur að nýju árið 2009. Vilji Jens Stoltenberg halda völdum til næstu stórþingskosninga gæti hann fengið álíka jákvæð eftirmæli meðal flokksmanna Verkalýðsflokksins og Gro Harlem Brundtland og Einar Gerhardsen náðu, en hinn síðarnefndi var leiðtogi á eftirstríðsárunum.

Mikilvægast að halda um stjórnartauma

Jens Stoltenberg og nánustu ráðgjafar hans eru orðnir sérfræðingar í að stýra því sem er orðið aðaleinkenni norsku sósíaldemókratíunnar: hæfni í að halda sér við stjórnvölinn. Kosningarannsóknum á stórþingskosningunum í fyrra er ekki lokið ennþá en það er ástæða til þess að ætla að það hafi verið hinn tryggi Jens Stoltenberg sem hafi slegið í gegn meðal kjósenda. Hann hefur stýrt landinu vel og tryggt stöðugleika í gegnum brotsjó fjármálakreppunnar og hann gætti þess að takmarka pólitískan metnað sinn. Hann lofaði ekki meiru en hann gat efnt.

Leiðtogi Verkamannaflokksins treystir betur á smáar málamiðlanir en háleitar hugmyndir. „Stoltur en ekki ánægður“, er eitt vinsælusta slagorð hans og flokksins um þessar mundir. Í því felst að maður eigi að ekki síður að huga að því að stýra en að standa að umbótum. Það sem er ósagt látið, en þó er forsenda, er að maður skuli ætíð sækjast eftir ríkisstjórnartaumunum.

Þegar lögð er svona rík áhersla á stjórnunarvilja hefur pólitíkinni í raun verið velt úr sessi. Þeir sem fylgst hafa náið með Verkammanflokknum undanfarin áratug sjá að pólitísku sjónarmiðin hafa tekið miklum breytingum. Við árþúsundamótin var flokksforystan opin fyrir að einkavæða opinber verkefni og fyrirtæki og hún stóð fyrir hagræðingu í stjórnsýslunni og að gera hana markvissari. Áhrif Nýja verkamannaflokksins í Bretlandi undir stjórn Tony Blairs voru mikil. Tengslin við verkalýðshreyfinguna veiktust mikið.

Frá hægri, til vinstri, til hægri?

Rauðgræna ríkisstjórnarsamstarfinu fylgdu mörg sígild vinstrisjónarmið inn í flokkinn aftur. Samstarfið við Alþýðusambandið styrktist, réttindi vinnuþega styrktust, jöfnunarstefnan var skerpt og velferðarfyrirkomulagið var friðað. Á tímabili var rætt um Jensana tvo - þann sem leiddi hina hreinræktuðu ríkisstjórn Verkamannaflokksins árið 2001 og þann sem leiddi rauðgrænu ríkisstjórnina árið 2005.

Eftir að Verkamannaflokkurinn styrkti stöðu sína gagnvart Miðjuflokknum og SV í kosningunum í fyrra eru teikn á lofti um að gamli Jens sé taka yfirhöndina að nýju. Það leikur nokkur vafi á því hvort hann sé persónulega ennþá mjög hófsamur - svo ekki sé sagt hægrisinnaður - sósíaldemókrati. En það leikur ekki nokkur vafi á því að hann tilbúinn til að setja eigin pólitískan feril í biðstöðu reynist það nauðsynlegt til að tryggja ríkisstjórnarvöldin eða að halda þeim.

Meðan grundvallarsjónarmið forystu Verkalýðsflokksins byggjast á slíkri hentistefnu er ástæða að ætla að yfirburðastaða þeirra í norskum stjórnmálum muni vara lengi. Það er ef ekki koma ofsafengin og viðvarandi viðbrögð sem beinast gegn þeirri gerð stjórnmálamanna sem eru uppteknari af stjórnun og upplýsingamiðlun en af því að varða nýja og rétta stefnu í síbreytilegum heimi.

Það er ekki auðvelt að spá fyrir um það hvernig heimurinn muni þróast en um þessar mundir eru teikn á lofti um að nútíma upplýsingamiðlun og stjórnunarpólitík muni mæta meiri andstöðu meðal almennings í framtíðinni. Fjölmiðlastormurinn gegn Bjarne Håkon Hanssen nú í sumar er áhugaverður í þessu samhengi.

Fjölmiðlastormurinn gegn Bjarne Håkon Hanssen

Bjarne Håkon Hanssen var þar til í kosningunum í fyrra einn allravinsælusti stjórnmálamaður Noregs og annar nánasti trúnaðarmaður Jens Stoltenbergs. (Jonas Gahr Støre utanríkisráðherra er talinn vera nánasti trúnaðarmaður forsætisráðherrans.) Það vakti mikla athygli þegar hann tilkynnti eftir kosningar að hann ætlaði að snúa sér að vinnu í samskiptageiranum. Sérstaklega þar sem hann sagði opinberlega að hann vildi skapa verðmæti - ekki bara útdeila þeim. Flestir eru sammála því að fyrirtæki í samskiptageiranum skapi verðmæti fyrir eigendur sína og starfsfólk en það eru almennar efasemdir um að það skapist verðmæti fyrir samfélagið í heild sinni.

Það orðspor hefur ætíð farið af Bjarne Håkon Hanssen að hann hafi mikla hæfileika í að miðla boðskap og að á öllum stjórnmálaferli sínum hafi hann fengið meira og minna jákvæða fjölmiðlaumfjöllun. Margir fjölmiðlamenn höfðu sjálfsagt þörf fyrir að fylgja málinu vel eftir þegar það kom í ljós í sumar að eitt fyrsta starf hans sem pólitískur skoðanamyndandi fólst í að reyna að fá breytt tillögu frá ríkisstjórninni sem takmarkar möguleika á að hagnast á einkaleikskólum. Því var haldið fram að tillagan hefði verið mótuð á meðan Bjarne Håkon Hanssen var enn í ríkisstjórninni. Hann reyndi sem sagt að vinna gegn tillögu sem hann átti þátt í að móta.

Tekist er á um hverjar séu staðreyndir málsins. Þegar litið er á pólitísku myndina í heild þá er það mikilvæga í málinu að það lítur út fyrir að fjölmiðlafárið hafi veikt Jens Stoltenberg og aðra stjórnmálamenn Verkamannaflokksins. Pólitísk nálgun Bjarne Håkon Hanssen er nefnilega í stórum dráttum hin sama og Jens Stoltenbergs. Hver er eiginlega skoðun forsætisráðherrans þegar einn af hans nánustu lítur út fyrir að selja pólitíska hæfileika sína og skoðanir á markaði?

Ef jafnaðarmennskan er eingöngu sett í samhengi við óbilandi valdafíkn án þess að nokkur viti til hvers eigi að nota völdin, þá er illa komið fyrir henni.          

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden