Document Actions

Markku Heikkilä

Járnbrautir í Finnlandi ganga úr sér

Ásigkomulag lestarteina í Finnland verður sífellt lakara og því verður að draga úr hraða lestanna. Mikil þörf er á fjárfestingum í samgöngum í landinu en að finna fjármagn hefur reynst þrautin þyngri. Ríkissjóður Finna er aðþrengdur og það hefur komið í veg fyrir að hægt sé að hefja ný verkefni á sviði samgangna þrátt fyrir að vegalengdir í Finnlandi séu miklar og þörf fyrir flutninga brýn. Þrátt fyrir þetta horfa menn til þess að byggja göng til Tallin og járnbraut að Íshafinu.

25/08 2011

Greinin er skrifuð í skröltandi járnbrautarvagni sem byggður var á níunda áratug síðustu aldar. Lestin er í Norður-Finnlandi en á vorin er þar oft nauðsynlegt að draga svo úr hraða lestanna sökum frostþenslu að þeim seinkar um allt að klukkustund. Í Finnlandi eru um það bil eitt þúsund kílómetrar af járnbrautateinum sem verða fyrir áhrifum af frostþenslu.

Járnbrautin frá Helsinki um Tampere og Seinäjoki til Oulu er talin vera megin járnbrautarleið í Finnlandi. Fyrir norðan Tampere eru teinarnir aðeins einfaldir sem veldur því að lestir úr gagnkvæmri átt verða að bíða eftir á eftir hvor annarri á brautarstöð.

Norður af Seinäjoki liggur meira en helmingur leiðarinnar og þar er þörf fyrir bráða úrbætur á járnbrautarteinunum. Vinna við viðgerðir er hafin en hraði framkvæmdanna fer eftir fjármagninu og engin trygging gefin hvorki fyrir umfangi eða áframhaldi þeirra. Í að minnsta kosti tíu ár til viðbótar verða lestirnar að hægja á sér á aðalleiðinni og af og til verða verða farþegarnir að skipta yfir í áætlunarbíla í stað lestanna. Á þessari meginleið eru ekki efni til þess að byggja annað lestarspor vegna viðgerðanna.

Vandamál lestarsamgangna færast í aukana

Undanfarin ár hafa járnbrautasamgöngur í Finnlandi liðið fyrir vandamál sem hlaðast upp. Ástandið versnar sífellt samtímis því sem lestir VR (finnsku ríkisjárnbrautanna) - þær einu á teinunum, í Finnlandi er engin samkeppni í lestarsamgöngum, - standa ótrúlega oft kyrrar. Þetta á einkum við um Pendolino-hraðlestirnar sem pantaðar voru frá Ítalíu, en erfitt hefur reynst að aðlaga þær finnskum vetrum.

Í Finnlandi eru það einungis lestirnar á höfuðborgarsvæðinu sem gagnast. En þar hafa vandræðin einnig aukist á síðastliðnum árum sérstaklega þegar vetur hafa verið snjóþungir. Ein af ástæðunum fyrir síendurteknum seinkunum er lestarstöðin í Helsinki. Aðaljárnbrautastöð landsins er blindgata sem heldur er ekki hægt að breikka. Til eru áætlanir um spor með slaufum undir Helsinki sem myndu draga úr vandanum, en kostnaður við þau yrðu margir milljarðar og engar ákvarðanir hafa enn verið teknar.

Eins og sakir standa eru aðeins uppi áform um að byggja ein ný lestarspor í Finnlandi: járnbraut til flugvallarins í Helsinki, en þangað hafa ekki verið lestarsamgöngur.

Auðvitað eru líka góðar fréttir af járnbrautunum. Fyrir skömmu var ný hraðlest, Allegro, milli Helsinki og Pétursborgar í í Rússlandi tekin í notkun. Hún fer á milli borganna á minna en fjórum tímum. Samtímis var ferðum á milli borganna fjölgað úr tveimur í fjórar á dag. Með þessu hafa samgöngur á milli Helsinki og Pétursborgar batnað verulega.

En það er einnig hægt að draga ályktanir um efnahag Rússa byggðar á umferðinni í Finnlandi. Þegar allt leikur í lyndi hjá grönnum okkar í austri eru vegirnir í Suður-Finnlandi þétt setnir af vöruflutningabílum og raðirnar við landamærastöðvarnar margir tugir kílómetra.

Framtíðarsýn er til en fjárfestingar skortir

Í Finnlandi er breiddin á milli lestarteinanna sú sama og í Rússlandi. Það þýðir að járnbrautasamgöngur til Rússlands eru afar mikilvægar fyrir Finna. Í vestur átt er aðeins ein lítið notuð leið á milli Torneå og Haparanda og það eru engar lestarsamgöngur til annarra Norðurlanda. Allar alþjóðlegar lestarsamgöngur í Finnlandi felst í leiðunum í austur átt - og umfang þeirra vex.

Í júní tók ný ríkisstjórn, sex stjórnmálaflokka (Einingaflokkurinn, Jafnaðarmenn, Vinstrabandalagið, Flokkur græningja, Sænski þjóðarflokkurinn og Flokkur kristilegra demókrata) við völdum í Finnlandi. Stjórnarsáttmálinn snýst fyrst og fremst um niðurskurð sökum þess að að gæta verður ítrasta aðhalds í efnahagsmálum þjóðarinnar. Efnahagskreppan sem herjar á Evrópu auðveldar það ekki,

sem einnig endurspeglast í lestarsamgöngunum. Gefin hafa verið loforð um að ljúka við þau verkefni sem þegar eru hafin, en eins og staðan er nú verða engar nýjar fjárfestingar í samgöngum í Finnlandi, hvorki járnbrautum né hraðbrautum. Fyrst á að gera nýja úttekt. Að svo stöddu er hvorki hægt að draga ályktanir um stefnu nýrrar ríkisstjórnar í samgöngumálum né heldur vænta ákvarðana á næstunni.

En þetta er dýrt. Viðhaldið á vögnunum og brautarteinunum er kostnaðarsamt í landi þar sem vegalengdirnar eru miklar og byggðin dreifð. Meginreglan um jafna stöðu landshluta er í heiðri höfð og aðalsamgönguæðarnar úti í byggðarlögunum eru í sæmilegu standi. Verra getur ástandið á minni vegum verið.

Ekki skortir þú framtíðarsýn. Í norðri gerast raddirnar um þörfina á lestarsamgöngum að Íshafinu sífellt háværari, annað hvort til Skíðabotns, Kirkjuness eða Murmansk. Það sem einkum mælir með nýjum járnbrautum í norðri er námuvinnsla og þróun alþjóðamála, eða opnun nýrra norðlægra skipaleiða þegar ísinn á Norðurskautssvæðinu bráðnar. En þetta heyrir flest framtíðinni til. Nýju námurnar sem á að opna auka óhjákvæmilega á þrýstinginn um ákvarðanatöku um nýjar járnbrautaleiðir í norðri. Íshafið er ennþá í órafjarlægð.

Í Suður-Finnlandi velta menn fyrir sér byggingu járnbrautaganga undir Finnsku víkina frá Helsinki til Tallin sem myndu opna nýja leið til Mið-Evrópu. En enn sem komið er er ekki verið að leggja neitt við botn Finnsku víkurinnar nema rússnesk - þýsku gasleiðsluna.

Miðstöð áætlanferða í Svíþjóð

Samkvæmt skipulagi landshlutanna skiptist það í Miðnorðurspilduna, Barentsspilduna, Austurbotnsspilduna og Íshafsspilduna. Auðvelt er að teikna nýja, og mikilvæga alþjóðlega samgöngu æð. Að gera hana að veruleika er allt önnur Ella.

Nýlega var vissulega tekin ákvörðun um áþreifanlegt skref í samgöngum norðursins. Ákveðið hefur verið að landamærabæirnir Tornå og Haparanda byggi sameiginlega umferðamiðstöð. Umferðamiðstöðin í Torneå flytur yfir landamærin til Svíþjóðar. Næsti draumur snýst um að taka aftur upp lestarsamgöngur fyrir farþega.

Sú staðreynd að landið er eiginlega eyja þar sem strandir leggur á veturna, hefur afgerandi áhrif á stefnu finnskra stjórnvalda í samgöngumálum. Nyrst við Austurbotn eru mikilvæg útflutningsfyrirtæki (i Kemi og Torneå) og þar verður að halda samgönguleiðum opnum. Ísbrjótarnir ganga smám saman úr sér og fyrr en varir verður að endurnýja flotann. Með öðrum orðum enn eitt svið þar sem þörf er fyrir miklar fjárfestingar á tímum þrenginga.

Stjórnmálamenn í Finnlandi eru oft sakaðir um að þora ekki að taka djarfar ákvarðanir. Samgöngukerfinu verður haldið við og gert verður við það eftir þörfum. Margar athugasemdir hafa verið gerðar um að aðgerðir í samgöngumálum og loftslagsmálum verði að haldast í hendur en í langan tíma hefur engin langtíma stefna verið mótuð í samgöngumálum. Engar ákvarðanir hafa verið teknar til þess að gera megin járnbrautina hraðskreiðari, eða auka afkastagetuna, vandamál þeirra sem ferðast daglega með lestunum til og frá vinnu á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki verið leyst, ekki hefurunnið við teina í öðrum borgum en Helsinki, og ekki járnbrautarleiðunum hefur ekki verið beint í áttina að Íshafinu. Hvorki vegtollum né hleðslustöðvum fyrir rafbíla hefur verið komið á laggirnar. Stefna stjórnmálamanna hefur um árabil verið í sömu sporum og ekkert útlit er fyrir breytingar þrátt fyrir nýjan stjórnarsáttmála.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden