Document Actions

Eva Franchell

Sænska lestarkerfið í ógöngum

Svíþjóð er miðjuríki á Norðurlöndum. Sérhver Svíi sem ferðast til útlanda verður að fara í gegnum eða fram hjá norrænu grannríki. Sama gildir um alla vöruflutninga frá Svíþjóð til umheimsins. Útflutningsvörur Svía til Rússlands eru fluttar í gegnum Finnland, og húsgögn sem smíðuð eru í Smálöndum fara á markað í gegnum Danmörku.

24/08 2011

Afar brýnt er því fyrir Svía að flutningaleiðir um Norðurlönd séu greiðar. Það er forsendan fyrir þeirra útflutningsiðnaði. Svíþjóð er þar að auki aflangt land og hefð er fyrir því að flutningaleiðir liggi um það endilagt, alla leið niður á Skán. Segja má að Skánn sé miðstöð fyrir sænskan út- og innflutning, enda er svo komið að áttatíu þúsund íbúar við Eyrarsund vinna við vöruflutninga og þjónustu.

Samgöngubætur Svía miða nú að tvennu; annars vegar að því að greiða fyrir enn meiri flutningum á Eyrarsundssvæðinu, hins vegar að því að finna nýjar flutningaleiðir.

Flöskuhálsinn við Eyrarsund

Eyrarsundsbrúin var opnuð fyrir bíla- og lestarumferð á milli Kaupmannahafnar og Málmeyjar í júli árið 2000. Áratug síðar er brúin að verða flöskuháls fyrir stöðugt vaxandi umferð. Svíþjóðarmegin hefur nýtt jarðlestarkerfi verið tekið í notkun og á annatímum fer þaðan lest á tíu mínútna fresti yfir Eyrarsund.

Átta kílómetra löng göng undir Fehmarnsundið, sem tengja munu saman Þýskaland og Danmörku, verða tilbúin eftir sjö ár. Göngin verða fyrir bíla og lestir sem munu bruna norður að Eyrarsundsbrúnni og auka enn álagið á hana. Að auki liggur fyrir tillaga hjá borgaryfirvöldum í Kaupmannahöfn um að jarðlestarkerfi borgarinnar skuli ná alla leið til Málmeyjar. Eyrarsundsbrúin er þegar farin að svigna undan umferðarþunganum. Nefnd skipuð sænskum og dönskum sérfræðingum er nú að skoða kosti þess að koma á öðrum stað upp föstum samgöngum yfir Eyrarsund. Horft er til þess að reisa nýja brú milli Helsingjaeyrar og Helsingjaborgar til að taka álagið af Eyrarsundsbrúnni. Nefndin þarf að meta umhverfisáhrif slíkra framkvæmda, en álitamál er hvaða áhrif enn ein brú mun hafa á hina þröngu siglingaleið í gegnum Eyrarsundið. Enn fremur þarf að skoða hve marga þunga flutningabíla Eyrarsundssvæðið þolir. Umferðarálag á svæðinu, sem nær frá Hollandi, Norður-Þýskalandi að sunnanverðri Danmörku, er þegar verulegt með löngum bílaröðum og koltvísýringslosun sem því fylgir. Ef takast á að minnka koltvísýringslosun og hlífa anddrúmsloftinu er ljóst að byggja þarf upp lestarkerfið og draga úr bílaumferð.

Fólksflutningar yfir Eyrarsund aukast einnig jafnt og þétt. Um tuttugu þúsund manns fara yfir brúna til vinnu á degi hverjum. Í upphafi voru það helst Svíar sem sóttu vinnu til Danmerkur, en nú er svo komið að stöðugt fleiri Danir láta freistast af sterkri sænskri krónu. Á liðnum vetri andæfðu þessir lestarfarþegar þegar til stóð að hækka lestarfargjöldin um fjörutíu af hundraði. Sænska stjórnin gaf á endanum eftir og hætti við verðhækkunina. Sænsku og dönsku farandverkamennirnir reyndust hafa sterkan samstöðumátt og vera í norrænu grasrótarsamstarfi um lægri fargjöld með vistvænum faratækjum.

Olnbogabarnið Stokkhólmur

Flutningalestir, hraðlestir, héraðslestir og áætlunarlestir. Öll lestarumferð í gegnum Stokkhólm fer í dag á tveimur sporum framhjá miðaldarhúsunum í gamla bænum og á Ridddarahólminum. Verið er að leggja nýja lestarbraut í göngum undir Riddarafjörðinn. Hún verður tilbúin eftir sex ár og mun að nokkru létta umferðarþungann, en engu að síður verður áfram mikið álag á gömlu járnbrautina sem tekin var í notkun á árinu 1871.

Opinberlega heitir hún tengibrautin, en í daglegu tali er hún kölluð gamla mjaðmabeltið. Umferð einkabíla og flutningabíla fer um gamlar og niðurníddar brýr. Essingeleden í gegnum Stokkhólm er fjölfarnasta hraðbraut Svíþjóðar. Um hana aka á bilinu 160. 000 og 170. 000 ökutæki á hverjum sólarhring. Síðustu fjögur árin hefur Umferðareftirlitið veitt undanþágur fyrir þungaflutninga á brautinni. En ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að leggja nýja hraðbraut vestur fyrir borgina. Þeim áformum hefur verið mikið mótmælt og nú er verið að skoða hvort hraðbrautin nýja muni liggja of nærri Drottningahólmi þar sem sænska konungsfjölskyldan býr, en höllin er á heimsminjaskrá.

Fólksflutingar á Stokkhólmssvæðinu hafa líka valdið deilum. Hægriflokkarnir vilja setja bætt sporvagnakerfi í forgang, en stjórnarandstaðan vill heldur byggja upp jarðlestarkerfið.

Hvað sem verður ofan á þá er ljóst að ört vaxandi höfuðborgin verður aldrei nein miðstöð fyrir vöruflutninga. Færa verður þá umferð sem mest út fyrir borgarmörkin og um aðrar brautir gegnum landið.

Norður-Svíþjóð

Lengra í norðri, í miðju Norrlandi, er unnið að því hörðum höndum að koma upp nýjum valkosti í vöruflutningum, á milli Rússlands og Bretlands. Sú braut mun liggja frá rússnesku landamærunum yfir Finnland til Svíþjóðar og Noregs og þaðan með í skipum yfir hafið. Fyrir Svía er þessi leið talin jafn mikilvæg og sú sem liggur yfir Eyrarsund. Verkefnið er fjármagnað af Evrópusambandinu og gengur undir nafninu Norðaustur flutningaleiðin. Hún er markaðssett sem græna flutningahliðið í miðnorðri og á að vera úrbót fyrir helstu vankantana í samgöngukerfinu og tryggja eins skilvirka flutninga og kostur er. Að sjálfsögðu munu framkvæmdirnar einnig bæta stuðla að atvinnuuppbyggingu, til að mynda í Mið-Norrlandi.

Í nyrstu héruðum Svíþjóðar hafa flutningaleiðir alltaf legið frá austri til vesturs, alveg síðan svonefnd Málmbraut milli Luleå, Kíruna og Narvíkur var opnuð af Óskari II árið 1902.

Málmbrautin var lögð til að flytja járngrýti frá námunum í Kíruna og Malmberget til hafnar í Luleå og í Narvík í Noregi. Nú vilja Norðlendingar taka enn eitt skrefið og koma upp flutningaleið fyrir lestir og önnur farartæki alla leið frá Kína til Bandaríkjanna. Brýnast er fyrir Kínverja að ný flutningaleið opnist, leið fyrir vöruflutninga yfir Rússland til Haparanda og þaðan yfir í íslausa höfn í Narvík. Kínverjar þurfa að senda útflutningsvörur sínar til Vesturheims og sækja sér hráefni fyrir verksmiðjur í austri.

Um Svíþjóð, þvera og endilega, er því verið að leggja nýjar flutningaleiðir til norrænna grannríkja. Ekki einungis til að auka viðskipti á Norðurlöndum, heldur jafnframt til að bæta samgöngur við umheiminn.

Lestaröngþveiti

Síðustu árin hafa sænsku járnbrautirnar glímt við mörg vandamál. Viðhald hefur mátt sitja á hakanum frá því á sparnaðarárunum í upphafi tíunda áratugs síðustu aldar og nú er svo komið að lestirnar eru sjaldnast á áætlun – ef þær koma þá yfirleitt. Á liðnum vetri heyrði það til undantekninga ef lestin kom á réttum tíma og iðulega féllu ferðir niður. Flutningalestirnar stöðvuðust í Hallsberg, það varð hreinlega að loka stöðinni, því hvorki var til tækjabúnaður né mannafli til að ryðja burtu snjónum.

Nú þarf að gera upp brautarstöðina í Hallsberg. Útgjöld á liðnum vetri námu nokkrum milljörðum, en stjórnvöld leggja þó einungis fram 800 milljónir til viðhalds á stöðinni.

Stjórnarformaður sænsku járnbrautanna, gamli hægriforinginn Ulf Adelsohn, gagnrýndi stjórnina svo harkalega vegna þessa, að flokksfélagar hans létu hann fjúka. Stjórnarandstaðan telur að verja þurfi 25 milljörðum sænskra króna til að endurbæta sænsku járnbrautirnar.

Margir Svíar eru farnir að veigra sér við því að ferðast með lestum í gegnum Svíþjóð. Í sumar náði gagnrýnin á lestarþjónustuna nýjum hæðum þegar ellefu ára stúlku, Nemu, var vísað út úr lestinni í Kumla.
Hún var á ferðalagi með 22 ára eldri systur sinni sem var með farmiða þeirra beggja. Þegar lestarvörðurinn kom til að taka við miðunum var eldri systirin farin á salernið. Þegar það vafðist fyrir Nemu að útskýra það fyrir lestarverðinum var henni einfaldlega vísað út úr lestinni á mannlausri stöð í Kumla. Það tók systur hennar þrjá tíma að sannfæra lestarstarfsmennina um að lýsa eftir Nemu. En þá var hún horfin. Eftir umfangsmikla leit lögreglu alla nóttina fannst stúlkan heil á húfi heima hjá eldri konu sem hafði skotið yfir hana skjólshúsi. En langur tími mun líða þangað til sænska þjóðin fyrirgefur sænsku járnbrautunum fyrir að koma svona fram við Nemu.

Sænsku járnbrautirnar eiga mikið verk óunnið í fólksflutningum. Sænska þjóðin treystir einfaldlega ekki lengur á þjónustu þeirra. Mörg fyrirtæki eru líka hætt að senda vörur með lestum sem tafið geta fyrir afhendingu vörunnar. Lestin er vistvænsti samgöngukosturinn. En hvort sem lestarbrautin liggur yfir Eyrarsund, í gegnum flöskuháls Stokkhólmsborgar eða yfir Norrland er deilt um nýjar samgönguleiðir sem eiga að tryggja flutninga innanlands, um Norðurlönd og til umheimsins.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden