Document Actions

Markku Heikkilä

Atvinnuleysi eykst, skuldir vaxa og skattar hækka

Þrátt fyrir að velferðarkerfinu í Finnlandi standi ekki ógn af efnahagskreppunni, hefur óöryggi gripið um sig, meðal ríkisstjórnarinnar, sveitarstjórnarmanna og einstaklinga, um að endar nái ekki saman. Og þrátt fyrir að umræður um peningamál í Finnlandi hafi verið býsna fjörugar upp á síðkastið þá hafa þær snúist um allt önnur mál. Uppákomur um fjármögnun kosningasjóða stjórnmálamanna hafa grafið alvarlega undan trausti Finna á stjórnmálaflokkum.

21/10 2009

Þrátt fyrir að velferðarkerfinu í Finnlandi standi ekki ógn af efnahagskreppunni, hefur óöryggi gripið um sig, meðal ríkisstjórnarinnar, sveitarstjórnarmanna og einstaklinga, um að endar nái ekki saman. Og þrátt fyrir  að umræður um peningamál í Finnlandi hafi verið býsna fjörugar upp á síðkastið þá hafa þær snúist um allt önnur mál. Uppákomur um fjármögnun kosningasjóða stjórnmálamanna hafa grafið alvarlega undan trausti Finna á stjórnmálaflokkum.

Jyrki Katainenen, fjármálaráðherra Finna, var eina viku í feðraorlofi í október þegar önnur dóttir hans fæddist. Barn sem fæðist í Finnlandi árið 2009 hefur strax vegferð sína á brautinni sem velferðarkerfið hefur rutt því, með  lögbundnum rétti á leikskólaplássi og fræðslu í grunnskóla, skóla sem samkvæmt öllum mælingum fær bestu einkunnir í  veröldinni, og umfangsmiklu opinberu heilbrigðiskerfi.

Allir eiga rétt á þessari þjónustu. Samt sem áður verður sú staðreynd sífellt greinilegri að börn búa við afskaplega  mismunandi kringumstæður. Í sumum fjölskyldum gengur atvinnuleysið í arf frá kynslóð til kynslóðar og þær hafa brýna þörf fyrir félagslega þjónustu af ýmsu tagi til þess að komast af. Efnahagskreppan hefur óhjákvæmilega valdið auknu atvinnuleysi og fjölgun í jaðarhópum samfélagsins sem á ýmsan hátt eykur á  kostnað samfélagsins.

Þegar dóttir ráðherrans vex út grasi mun hún búa í landi þar sem yfirgnæfandi fjöldi íbúanna tilheyrir hópi eldri borgara, landi þar sem fjármögnun félags- og heilbrigðiskerfis sökum aukinnar eftirspurnar veldur öllum fjármálaráðherrum verulegum áhyggjum,  einnig eftirmönnum Katainen.

Óvissan hafði yfirhöndina

Fyrir aðeins fáeinum árum var útlitið allt annað. Jafnt og þétt hafði dregið úr atvinnuleysi og allt útlit var fyrir skort á vinnuafli. Skattbyrðin hafði smám saman minnkað, ríkissjóður var rekinn með afgangi og allt virtist ganga fyrirtækjum í hag.

Þetta ástand heyrir sögunni til. Nú er talið að þjóðarframleiðslan dragist saman um sjö prósent. Atvinnuleysi mun að öllum líkindum fara yfir tíu prósenta markið. Ríkissjóður hefur neyðst til þess að fá ný lán til þess að fjármagna aðgerðir til þess að halda atvinnulífinu gangandi og lögbundin útgjöld aukast um leið og tekjurnar dragast saman.

Í alþjóðlegum samanburði vekja tölurnar um áhrif efnahagskreppunnar í Finnlandi engan sérstakan ótta og þjóðin líður hvorki fyrir bankakreppu né hrun á fasteignamarkaði. Samt sem áður hafa orðið áhrifamiklar kerfisbreytingar sem valda því að það hriktir í stoðum fjármögnunar velferðarkerfisins og lífsins almennt.

Það skiptir ekki öllu hvort maður vinnur í einkafyrirtæki eða hjá hinu opinbera. Allsstaðar þarf að hagræða, spara og skera niður og mörg störf sem fyrr voru talin örugg eru nú óörugg eða heyra nú þegar sögunni til.

Samkvæmt öllum útreikningum ættu Finnar að vera lengur á vinnumarkaði til þess að samfélagið geti staðið undir þeim kostnaði sem fylgir öldrun íbúanna. En það eru einmitt starfsmennirnir sem næstir eru ellilífeyrisaldri sem eru settir út í kuldann og eftir örskamman tíma á atvinnuleysisbótum er hægt að fleyta þeim yfir á ellilífeyri. Í þessu máli er óravegur á milli þjóðhagfræðikenninga og þeirra aðgerða sem gripið er til í samfélaginu.

Samkvæmt kenningunum ætti einnig að stytta námstíma svo unga fólkið fari fyrr út á vinnumarkaðinn. En í rauninni vex einmitt atvinnuleysi meðal unga fólksins. Takist ungu fólki að fá vinnu er ráðningarsamningurinn aðeins til skamms tíma og það sér ekki fram á öryggi til framtíðar. Þetta veldur unga fólkinu erfiðleikum við að koma undir sig fótunum, eignast fjölskyldu og fjárfesta í húsnæði.

Fjármögnun þjónustunnar er áhyggjuefni

Efnahagskreppan skall óvænt á og finnska þjóðin hefði einmitt átt að vera betur undir slíkt búin en aðrar þjóðir. En það hafði gleymst að þjóð sem byggir framfærslu sína á útflutningi getur ekki flutt út vörur án þess að einhver kaupi þær.  Hrun útflutningsiðnaðarins hefur valdið fækkun starfa og afleiðingarnar birtast líka á ýmsan annan hátt. Fyrirtækin greiða minna í skatt, það veldur ótal sveitarfélögunum erfiðleikum, en  það eru einmitt sveitarfélögin sem bera ábyrgð á menntun og félags- og heilbrigðisþjónustu. Það eru takmörk fyrir því hve mikið er hægt að spara án þess að það komi niður á þjónustunni.

Um árabil hefur verið tilhneiging til að bjóða þjónustuna út og einkavæða hana.

Fjöldi manns hefur áhyggur af hvernig velferðarsamfélaginu í Finnlandi muni reiða af í framtíðinni. Í góðu árferði er það nægileg áskorun að takast á við öldrun íbúanna hvað þá heldur undir kringumstæðum eins og um þessar mundir. Horfur eru á að menn neyðist til að skera niður kostnað og um leið hækka skatta.

Það sem af er þessari öld  hefur skattbyrði Finna lækkað hægt og sígandi. Nú er skatthlutfallið rúmlega 40 prósent.  Almennt er talið að skattarnir muni óhjákvæmilega hækka aftur.

Samt sem áður hafa aðrar uppákomur valdið því að þessi málefni hafa orðið útundan í umræðunum í samfélaginu undanfarna mánuði. Lýsandi dæmi um það átti sér stað í september. Stjórnarandstaðan hafði,  í þeim tilgangi að hrinda af stað umræðum, skorað á ríkisstjórnina með fyrirspurn um umönnun eldri borgara. Málefni sem jafnan vekur fjörugar umræður, sökum þess að fátítt er að fé sem veitt er til málaflokksins nægi til þess að mæta vaxandi eftirspurn og sú þjónusta sem hægt er að veita er ekki í neinu samræmi við það sem telst boðleg þjónusta.

Umræðurnar í þjóðþingi Finna um þetta mikilvæga málefni hafa samt sem áður ekki vakið neinn áhuga, ekki stjórnarandstöðunnar, ríkisstjórnarinnar eða íbúana. Annað sem fram fer á sviði stjórnmálanna og í þjóðþinginu um þessar mundir vekur mun meiri spennu.

Uppákoman vegna fjármögnunar kosningasjóða og timburstæðna

Allt síðastliðið ár hafa umræður Finna einna helst snúist um fjármögnun kosningasjóða.  Gildandi lög um það hvernig frambjóðendum ber að gera grein fyrir fjármögnun kosningasjóða eru óljós og fram hefur komið að margir stjórnmálamenn hafa ekki farið eftir þeim.

Fyrir síðustu þingkosningar spruttu upp ótal fyrirtæki og félög með óljósa stefnuskrá sem virtust deila út háum upphæðum, fyrst og fremst til frambjóðanda borgaraflokkanna, Miðjuflokksins og Einingarflokksins. Á listanum yfir þá sem fengu framlög í kosningasjóði eru nær allir ráðherrar ríkistjórnarinnar.

Það er sannarlega löglegt að taka á móti framlögum í kosningasjóð en stjórnmálamennirnir hafa látið undir höfuð leggjast eða komið sér undan því að gera grein fyrir framlögunum. Komið hefur í ljós að minni stjórnmálamanna um það hverjir leggja þeim til styrki er greinilega með eindæmum brigðult og það virðist fyrst rofa til þegar þeir horfast í augu við greinileg sönnunargögn.

Ótal feilspor í þessum ruglingslega en krappa dansi hefur fyrst og fremst komið óorði á flokk forsætisráðherrans, Miðflokkinn en einnig aðra.  Nú leggja menn nótt við dag til þess að bæta lögin um framlög í kosningasjóði en trúverðugleiki stjórnmálanna hefur þegar beðið hnekki.

Málið tók á sig nýja mynd í september þegar stöðu forsætisráðherrans Matti Vanhanens var ógnað. Stjórnarandstaðan krafðist afsagnar hans og í nokkra daga var slíkt jafnvel talið koma til greina. Spurningar um nýjar kosningar voru ræddar alvarlega  og fjölmiðlar spurðu margir hvenær líklegt væri að  forsætisráðherrann myndi segja af sér.

Útvarpsstöðin TV2 (Rundradions) hélt því fram að ákveðið byggingarfyrirtæki hafi fyrir þrettán árum gefið Vanhanen umtalsvert  magn af verðmætu timbri í því skyni að tryggja fyrirtækinu verkefni.  Vanhanen var á þeim tíma að byggja sér stórt einbýlishús og var einnig  í forsvari fyrir stofnun sem byggir húsnæði fyrir ungt fólk. Samkvæmt útvarpsstöðinni TV2  voru heimildir þeirra öruggar.

Málið snerist með öðrum orðum beinlínis um spillingu, sem hefði haft í för með sér að dagar Vanahans á stóli forsætisráðherra væru taldir. En hann tók hraustlega á móti og bauð fagtímariti á sviði bygginga að rannsaka hús sitt. Ekkert timbur sem líktist lýsingunni í þættinum fannst. Vandamálið hefur enn ekki verið leyst. Orð stóðu gegn orði, en ef til vill varð niðurstaðan til þess að staða Vanhanens styrktist frekar en hitt vegna þess að ekki hefur reynst unnt að finna nein gögn sem varpa ljósi á fullyrðingar útvarpsstöðvarinnar. Nokkrir stjórnmálamenn í Miðflokknum hafa krafist þess að stjórnandi útvarpsstöðvarinnar segi af sér.

Samtímis draga fjölmiðlar sífellt fleiri vafasamar sögur um fjármögnun kosningasjóðanna  síðustu árin       fram í dagsljósið. Lögreglan hefur hafið rannsóknir, vegna þess að margt þykir benda til þess að farið hafi verið á svig við lögin. En ennþá hefur ekkert komið fram hvorki sem gæti fellt Vanhanen  né aðra ráðherra í ríkisstjórninni.  En andrúmsloftið í stjórnmálum í Finnlandi hefur orðið óneitanlega orðið fyrir áhrifum og er lævi blandið.  Málið hefur ekki snúist framkomu eða gjörðir einstaka stjórnmálamanns frekar viðvarandi fyrirtækjamenningu sem nú  virðist hafa gengið sér til húðar með nokkrum hávaða.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden