Document Actions

Aslak Bonde

Aukin velferð og lægri skattar – er það raunhæft?

Kosningabaráttan sem fór fram í haust sýndi enn og aftur fram á þær innbyggðu andstæður sem eru í stjórnmálum. Flokkarnir keppast við að lofa sífellt aukinni og betri velferðarþjónustu en keppast við það á sama tíma að lofa sem mestri lækkun skatta, eða að minnsta kosti að hækka þá ekki. Olíuauðurinn gerir norskum stjórnmálamönnum það mögulegt upp að vissu marki að samræma mótsagnirnar en til langs tíma komast þeir ekki hjá því að velja á milli lægri skatta og aukinnar velferðar.

21/10 2009

Kosningabaráttan sem fór fram í haust sýndi enn og aftur fram á þær innbyggðu andstæður sem eru í stjórnmálum.  Flokkarnir keppast við að lofa sífellt aukinni og betri velferðarþjónustu en keppast við það á sama tíma að lofa sem mestri lækkun skatta, eða að minnsta kosti að hækka þá ekki.  Olíuauðurinn gerir norskum stjórnmálamönnum það mögulegt upp að vissu marki að samræma mótsagnirnar en til langs tíma komast þeir ekki hjá því að velja á milli lægri skatta og aukinnar velferðar.

Í byrjun þessa mánaðar lagði nýendurkjörin ríkisstjórn landsins fram frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2010 sem var ógnvekjandi lesning – ekki fyrir núverandi skattgreiðendur heldur fyrir þá sem þurfa að fjármagna velferðarríkið á seinni hluta þessarar aldar.  Árið 2060 mun fjárlagahallinn hljóða upp á 120 milljarða norskra króna.  Vilji menn ekki skera niður í ríkisútgjöldum verða verulegar skattahækkanir óumflýjanlegar – það er ýjað að hækkun virðisaukaskatts úr 25 prósentum í 42 prósent og að skattar á einstaklinga verði hækkaðir um tugi prósentna.

Áætlanir sem gerðar eru svo langt fram í tímann eru óumdeilanlega mikilli óvissu háðar.  Eitt er víst og það er að þær standast ekki fullkomlega.  Þar að auki byggja þeir sem gera áætlanirnar á fjárútlátum hins opinbera sem nú er í sögulegu hæstu hæðum vegna fjármála- og efnahagskreppunnar.  Gröfin litu mun betur út fyrir tveimur árum þegar olíuverðið var hærra og olíusjóðurinn stækkaði verulega.

En það eru fleiri forsendur reikningsdæmisins gallaðar.  Umfangi velferðarkerfisins er tekið sem gefnum hlut.  Það er ekki gert ráð fyrir neinum umbótum, hvorki hvað varðar umfang né gæði opinberrar velferðarþjónustu.  Reynsla undanfarinna 50 ára úr vestrænum stjórnmálum bendir eindregið til að forsendurnar haldi ekki.  Lengi þarf að leita til að finna kosningabaráttu í vestrænu lýðræðisríki eftir seinni heimstyrjöldina þar sem flokkar hafa ekki keppst um að lofa nýjum eða bættum gæðum á kostnað hins opinbera.

Verkamannaflokkurinn var tiltölulega hógvær í kosningabaráttu haustsins – hann lofaði „einungis“ nokkrum milljörðum norskra króna aukalega til að bæta og auka þjónustu og umönnun við aldraða – auk þess að auka aðeins fjárframlög til skólakerfisins.  Landsfundur flokksins hafði á vormánuðum aðhyllst nokkrar aðrar kostnaðarsamar umbætur en Jens Stoltenberg, flokksleiðtogi og forsætisráðherra, gætti þess í kosningabaráttunni að flokkurinn skuldbyndi sig ekki til að framkvæma allar þessar hugmyndir.

Hinir stjórnarflokkarnir tveir voru djarfari - hið sama á við um stjórnarandstöðuflokkana.  Jafnvel Hægriflokkurinn, sem gengst upp í því að vera sá flokkur sem hefur hvað ábyrgasta efnahagsstefnu, reyndi að lokka að sér kjósendur með loforðum um betri vegi, háhraðalest og lægri skatta.  Flokkurinn rökstuddi kosningaloforðin með því að nú um mundir væri hægt að veita svolítið meira fé til uppbyggingar samgöngukerfisins sem verður lokið þegar bylgja eldri borgara skellur á fyrir alvöru í lok næsta áratugar.

Engar skattalækkanir

Eins og í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum lagði Jens Stoltenberg áherslu á að samsteypustjórn hans lofaði ekki skattalækkunum.  Þegar þeir síðan lofuðu umbótum í þjónustu og umönnum aldraðra urðu þeir líka að segja þjóðinni að nauðsynlegt væri að borga skatt til að fjármagna umbæturnar.  Ríkisstjórnarflokkarnir þrír báðu þjóðina um að velja á milli „velferðarflokkanna þeirra“ annars vegar og ,,hægri skattalækkunarflokkanna“ hins vegar.

Kjósendur skiptust nokkurn veginn í tvo jafnstóra hópa.  Það voru í raun nokkur þúsund fleiri kjósendur sem kusu stjórnarandstöðuflokkana en kosningakerfið tryggði ríkisstjórnarflokkunum þremur nauðsynlegan meirihluta á Stórþinginu.  Þar með ætti Jens Stoltenberg með góðri samvisku að geta sagt að almenningur styðji röksemdafærslu rauð-grænu flokkanna um að nauðsynlegt sé að greiða talsvert mikið fé til ríkis og sveitastjórna til að tryggja gott samgöngukerfi auk góðrar umönnunar og menntunar.

Hann segir það líka en ekki á mjög sókndjarfan máta.  Frá fyrsta degi kosningabaráttunnar var því lýst yfir að skattar og gjöld yrðu ekki hækkuð ef ríkisstjórn Stoltenbergs yrði endurkjörin.  Í stefnuskrá nýju ríkisstjórnarinnar er því líka slegið föstu að hlutfall skatta og gjalda sem var fastsett árið 2004 yrði ekki aukið.  Ríkisstjórnin, sem öðru hverju lýsir sjálfri sér sem róttækustu ríkisstjórn Evrópu, hefur sem sagt ákveðið að hún muni ekki á næstu fjórum árum veita þjóðinni meiri velferð en skattar dagsins í dag gefa tilefni til – hún mun ekki heldur nota skatta sem tæki til að jafna út hagsveiflur – ríkisstjórnin kýs frekar að vaxtastigið hækki.

Hróplegar andstæður eru milli stefnuskrár ríkisstjórnarinnar og síðustu tillagna ríkisstjórnarinnar varðandi fjárlagagerðina.  Noregur ráðgerir nefnilega að nota svo mikið af olíusjóðnum á næstu árum að erfitt mun reynast að semja um frekari eyðslu úr honum.  Haldi menn sig við það markmið sem samþykkt hefur verið um að nota einungis 4 prósent fjármagnstekna olíusjóðsins framvegis, þá verður ekki hægt að taka neitt aukalega úr sjóðnum fyrr en árið 2018.  Og það sem verra er: Það verður ekki tiltakanlega mikið fé til aukalega eftir þann tíma heldur.  Með tungutaki ráðuneytisins er þetta orðað á þennan hátt:  „Svigrúmið til að veita olíutekjum smám saman í norskan efnahag er ... [nú] ... að baki.“

Naumt skammtað úr olíusjóði

Gamanið er úti.  Noregur verður eins og öll önnur lönd að sníða sér stakk eftir vexti.  Við munum alltaf geta notað meira fé en önnur lönd af því að við notum vextina af stórum og feitum sparnaðarreikningi en við verðum ekki vör við það í pólitískum hversdagsleika af því að þessar vaxtatekjur verða nánast um leið venjulegur hluti tekna okkar og ekki er hægt er að nota þær í neitt bruðl.  Það er eins og með einstaklinga:  Fáir þú lífeyrisgreiðslu sem tryggir þér tiltölulega lága upphæð mánaðarlega tekur þú hana mjög fljótt sem gefinn hlut og hún gefur ekki tilefni til að fara í dýrt ferðalag eitt árið.

Til að hafa allt á hreinu þá skal það tekið fram að raunveruleikinn er mikilvægari en tilfinningar.  Láti norskir stjórnmálamenn sér nægja að taka fjármagnstekjurnar út úr olíusjóðnum ár hvert þá munu þeir alltaf geta boðið aðeins meiri velferðarþjónustu fyrir hverja skattkrónu en önnur lönd eru fær um.  Kjarni þessarar greinar er hins vegar að gangvirki pólitíkurinnar og pólitískar úlfakreppur verða hinar sömu hér og í umheiminum.

Hið sérstaka í Noregi er að við sjáum ekki enn sem komið nein teikn um lausnir.  Við vitum ekki hvort ákvörðun forystu Verkamannaflokksins um að ómögulegt sé að auka skatta og hækka gjöld muni standa óhögguð um aldur og ævi.  Við vitum að minnsta kosti ekki hvort hann á í fórum sínum einhverja hernaðaráætlun fyrir kosningabaráttu þar sem opnað er fyrir hækkun skatta og gjalda.

Það eina sem við vitum er að Jens Stoltenberg á það sameiginlegt með hægriflokkunum að hann vill nútímavæða opinbera geirann.  Hann lætur fá tækifæri fram hjá sér fara til að minna á að afkastamikill og vel starfhæfur opinber rekstur er frumforsenda þess að fólk sætti sig við að greiða háan skatt.  Röksemdin er að opinberir skólar og sjúkrahús verði undir öllum kringumstæðum að vera svo vel reknir að þeir lendi ekki undir í samkeppninni við einkaskóla og einkasjúkrahús.  Velji efri millistéttin að sækja þjónustu hjá einkafyrirtækjum mun hún ekki um alla framtíð sætta sig við að fjármagna opinberu þjónustuna.

Nútímavæðing og aðgerðir til að auka afköst eru að sjálfsögðu líka aðferðir til að draga úr útgjöldum ríkis og sveitarfélaga – nokkuð sem tryggir meiri og betri þjónustu fyrir hverja krónu í framtíðinni og að hægt er að bíða enn um stund með að auka skatta og gjaldtöku.

Vinnan við að auka afköstin er hins vegar takmörkunum háð.  Það eru takmörk fyrir því hve mikið hægt er að spara varðandi þjónustu þar sem laun starfsmanna eru langstærsti útgjaldaliðurinn og ekkert bendir til að hægt verði að draga verulega úr fjölda starfsmanna.

Möguleikarnir á að fjármagna sívaxandi velferðarríki eru væntanlega meiri ef tekið er upp kerfi þar sem fólk borgar hluta reikningsins sjálft. Í Noregi er menntun í opinberum skólum því sem næst ókeypis – hið sama á við um allflesta umönnunar- og heilbrigðisþjónustu – ef frá eru taldir leikskólar, skóladagheimili og sjúkraheimilispláss.  Í framtíðinni er auðvelt að sjá fyrir sér að tekin verði skólagjöld í háskólum og fagskólum og að hvert okkar verði að greiða meira fyrir meðul og heilbrigðisþjónustu.

Sósíalíski vinstriflokkurinn veikist

Sú getur að minnsta kosti orðið niðurstaðan ef núverandi ríkisstjórn fellur.  Rauð-græna samsteypustjórnin var vissulega endurkjörin en einum ríkisstjórnaflokanna, Sósíalíska vinstriflokknum (SV), gekk svo illa að margir spyrja sig nú hvort flokkurinn sjái hag sínum best borgið með því að taka áfram þátt í ríkisstjórnarsamstarfinu næstu fjögur árin.  Eitt af því sem er einna erfiðast SV um þessar mundir er að flokkurinn er ekki sammála stefnu ríkisstjórnarinnar í umhverfis- og innflytjendamálum.  Á næstu árum gæti hins vegar fjármögnun opinberrar þjónustu orðið allra stærsta ágreiningsmál SV og Verkamannaflokksins.

SV vill ekki að fólk greiði hluta reikningsins sjálft því að það samræmist ekki félagslegum sjónarmiðum, flokkurinn hefur efasemdir um aðgerðir til að auka afköst sem gerðar eru í andstöðu við starfsmenn og flokkurinn vill frekar hækka skatta en skera niður í opinberum velferðargæðum.

Andstæðurnar milli getunnar til að greiða skatta og kröfunnar um mikla opinbera velferðarþjónustu getur orðið það sem sendir SV út úr ríkisstjórninni – þegar litið er til nokkurra ára.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden