Document Actions

Thomas Larsen

Erfitt verður að borga fyrir velferðina

Vegna versnandi efnahagsástands verður erfiðara að fjármagna velferðina í framtíðinni. Í Danmörku vita stjórnmálamenn hvað til þeirra friðar heyrir. Og þeir vita nokkurn veginn hvaða meðöl gagnast. En þeir þora ekki að fylgja læknisráðunum út í ystu æsar af ótta við að fæla frá kjósendur.

21/10 2009

Vegna versnandi efnahagsástands verður erfiðara að fjármagna velferðina í framtíðinni. Í Danmörku vita stjórnmálamenn hvað til þeirra friðar heyrir. Og þeir vita nokkurn veginn hvaða meðöl gagnast. En þeir þora ekki að fylgja læknisráðunum út í ystu æsar af ótta við að fæla frá kjósendur.

Fáir myndu víst flokka fjárlagaágrip sem mjög spennandi lesefni, nema ef vera skyldi hagfræðingar. En sé farið inn á heimasíðu danska fjármálaráðuneytisins - www.fm.dk - bíður manns sannkölluð hrollvekja.

Í fjárlagaágripinu frá 2. ágúst 2009 kemur fram að með fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2010 er gert ráð fyrir fjárlagahalla upp á rúmlega 91 milljarð danskra króna árið 2010 en áætlaður halli ársins 2009 er 26,5 milljarðar danskra króna.

Gert er ráð fyrir að skuldir ríkisins vaxi um 241¼ milljarð króna frá árinu 2008 upp í 437½ milljarð króna árið 2010. Heildarfjárlagahalli hins opinbera er metinn alls 33½ milljarður árið 2009 og 86¼ milljarður króna árið 2010. Það svarar til 2% vergrar þjóðarframleiðslu árið 2010. Þetta þýðir meðal annars að Danmörk er útilokuð frá evru-samstarfi.

Á þurrlegu stofnanamáli, sem er svo dæmigert fyrir fjármálaráðuneytið, er talað um „töluverð umskipti“ – svo að ekki sé nú talað af sér!

Tölurnar sýna svart á hvítu hve efnahagslegur samdráttur í heiminum hefur komið harkalega niður á dönsku efnahagslífi, en þær endurspegla einnig kostnaðinn við þenslustefnuna í efnahagsmálum sem ríkisstjórnin hefur fylgt til að reyna að örva hagkerfið og halda uppi atvinnu.

Fyrst og fremst sýna tölurnar að sjálfsögðu einnig söguleg umskipti frá efnahagslegri uppsveiflu um árabil sem gaf af sér mikinn hagnað, hraðlækkandi skuldir og minna atvinnuleysi en áður hafði þekkst.

Jafnvel þegar versta kreppan er gengin yfir danskt efnahagslíf eiga hagfræðingar almennt ekki von á tiltakanlega miklum hagvexti og það mun gera ríkisstjórninni erfiðara fyrir að fá fjárlögin til að stemma og tryggja fjármögnun velferðarinnar í framtíðinni.

Erfið efnahagsleg viðfangsefni

Þegar Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra hélt opnunarræðu sína við upphaf þings í byrjun október hóf hann því mál sitt með því að ræða um efnahagsmál.

Hann sagði ríkisstjórnina vinna markvisst að því að koma Danmörku í gegnum kreppuna með sem allra minnstum kostnaði fyrir almenning. Þess vegna hafi ríkisstjórnin – aðallega frá áramótum – búið til nokkur kreppu- og hjálparúrræði til að styrkja efnahagskerfið, tryggja fyrirtækjum fjármögnun og gjaldfrest og örva fjármálastarfsemi með því t.d. að flýta opinberum fjárfestingum og lækka skatta.

Í opnunarræðunni hélt forsætisráðherrann sig við uppörvandi teikn í alþjóðlegum efnahagsmálum, en hélt því þó fram að atvinnuleysi myndi halda áfram að aukast. Hann varaði jafnframt við hættunni á að atvinnuleysi verði viðvarandi hjá ungu fólki.

Til að koma í veg fyrir það hefur ríkisstjórnin frá því snemma í haust kynnt nokkur úrræði sem eru í bígerð. Hinn 4. september 2009 kynnti ríkisstjórnin áætlun um að koma í veg fyrir atvinnuleysi meðal ungs fólks og veita fólki milli 18 og 30 ára sérstaka aðstoð. Einum milljarði danskra króna á að veita í verkefnið og það á m.a. að tryggja 5000 ný starfsþjálfunarstörf árið 2010.

Í tengslum við opnunarræðuna fylgdu nýjar áætlanir sem eiga að koma 15-17 ára unglingum til góða. Ein aðaltillagan er að sveitarfélögin tryggi að unglingarnir standi við námsáætlun sína.

Sveitarfélögin styðji við unglinga sem eru í þann veginn að falla úr námi, m.a. með því útvega þeim leiðbeinanda (mentor). Falli unglingarnir samt sem áður brott úr námi á sveitarfélagið að beina þeim sem fyrst á nýja námsbraut, atvinnu eða eitthvað gagnlegt sem þeir geta tekið sér fyrir hendur.

Auk þess eigi allir unglingar að vera búnir að meta stöðu sína til frekari menntunar áður en þeir hefja nám í framhaldsskóla. Betur verði haldið utan um þá unglinga sem ekki hafa forsendur til menntunar. Og að lokum verði barnafjölskyldubótum vegna 15-17 ára unglinga breytt í unglingabætur og sveitarfélagið skuli stöðva greiðslur ef unglingurinn fylgir ekki menntunaráætluninni, eða ef foreldrarnir og unglingurinn vinna ekki saman að menntunaráætluninni.

Þessi þáttur er án efa hið umdeildasta í áætluninni.

Fáar raunhæfar lausnir

Fyrir utan framlagið gegn atvinnuleysi ungs fólks fór forsætisráðherrann í stórum dráttum yfir það sem danskt efnahagslíf á við að glíma.

Hann reyndi þó að búa Dani undir að þeir yrðu að taka sig á við að vinna fyrir velferð framtíðarinnar. Heimskreppan hafi komið af stað framvindu sem þýði að danska velferðarsamfélagið – og þau skandinavísku – þurfi að takast á við harðari samkeppni, einkum frá Asíu.

Til að svara henni ætli ríkisstjórnin að fylgja fjórum grunnsporum sem í stuttu máli snúist um að veðja á ábyrga efnahagsstefnu, fjárfesta í vísindum, styrkja nýsköpun og skara fram úr í nýju grænu hagkerfi.

Í ræðu sinni nefndi Lars Løkke Rasmussen að staða ríkisfjármála Danmerkur hefði verið góð þegar kreppan skall á, m.a. af því að greitt hefði verið af skuldum í góðærinu. Reikningurinn, sem þurfi að greiða þegar storminn lægir, megi því ekki verða skaðlega hár.

Vísindi séu forsendan fyrir nýjum hagvexti og forsætisráðherrann segir grunnskólann eiga að leggja grunninn að honum og frekari menntun í kjölfarið. Grunnskólinn verði nú tekinn til gagngerrar endurskoðunar.

Dönsk fyrirtæki eigi að stunda meiri nýsköpun og Lars Løkke Rasmussen lagði áherslu á að þá ætti hann ekki aðeins við rannsóknir og hátækni sem nýsköpun. Fyrirtækin eigi almennt að vera hugkvæmari og hugmyndaríkari í starfi við að móta nýjar framleiðsluaðferðir og framleiðsluvörur. Til að styðja við þróunina muni ríkisstjórnin kynna nýsköpunarleiðir ætlaðar fyrirtækjum.

Markmiðið er að Danmörk verði í fremstu röð nýs græns hagkerfis og hefur ríkisstjórnin kynnt aðferðafræði um bætt umhverfisvæns starfsumhverfi sem eigi að skapa betri ramma við þróun nýrrar tækni varðandi loftlagsmál.

Málþing ríkisstjórnarinnar um hagvöxt

Gagnrýnendur hafa ærna ástæðu til að segja að um sé að ræða mjög pólitískar ákvarðanir ofan frá. Til að auka innihaldið í áætluðum efnahagsaðgerðum hefur forsætisráðherrann stofnað til umræðuvettvangs um hagvöxt með þátttöku vísindamönnum og ýmsum framamönnum í Danmörku.

Þessi umræðuvettvangi er falið að greina og koma með tillögur um aðferðir til að auka hagvöxt sem Danmörk getur farið eftir þegar alþjóðlegt efnahagslíf kemst á skrið.

Bent er á fjögur svið til að ræða:

1. Dregið hefur úr samkeppnishæfni Danmerkur. Laun hafa hækkað meira en í viðmiðunarlöndum. Jafnframt hefur framleiðni aukist minna en í OECD-löndunum. Hver er skýringin – og hvernig getur Danmörk styrkt samkeppnishæfni sína?

2. Áframhaldandi ábyrg efnahagsstefna á að tryggja að síðari kynslóðir hafi efni á velferðinni þegar verða fleiri aldraðir og færra ungt vinnufært fólk. Hvaða þýðingu mun það hafa að mörg lönd verða samtímis að takast á við mikinn halla í ríkisfjármálum og auknar skuldir.

3. Of mörg ungmenni fá ekki þá menntun sem gerir þau samkeppnisfær. Takmarkið er velmenntaður starfskraftur og mikil atvinnuþátttaka. Hvernig er hægt að efla samfélag með þátttöku allra?

4. Hvernig tekst Danmörku að verða samfélag sem losar sig við jarðefnaeldsneyti eins og kol, olíu og gas? Og hvernig á að nýta möguleikana á að framlag til loftlagsmála, öflug umhverfisvernd og aukin samkeppnishæfni nái að leiða samfélagið í sömu átt.

Það er ljóst að forsætisráðherrann leggur áherslu á undirstöðuaðgerðir og enginn getur verið á móti þeirri skoðun hans að auka beri hagvöxt.

En óháðir hagfræðingar – þar á meðal efnahagsráðgjafar ríkisstjórnarinnar – gagnrýna forsætisráðherrann fyrir að hann skorti kjark til að tala um þær endurbætur sem án vafa myndu auðvelda fjármögnun velferðarinnar í framtíðinni.

Fjöldinn allur af greiningum hafa fyrir löngu fært sönnur á að færra ungt fólk verður á vinnumarkaðnum þegar stórir árgangar aldraðra fara á eftirlaun, jafnframt því sem það er vitað mál að aldraðir muni fá þörf fyrir aukna aðstoð, umönnun og meðferð.

Því mun myndast gap á milli tekna og útgjalda sem mun valda stöðugum halla á fjárlögum. Til að vinna gegn því verða stjórnmálamenn annað hvort að herða skattaskrúfuna eða skera niður velferðina. Nema þeir hafi vilja og dug til að gera umbætur á því kerfi sem kallast „sérstakur lífeyrir“ og heimilar fólki að hætta störfum við 60 ára aldur og breyta því þannig að Danir verði lengur á vinnumarkaðnum.

Málið er að þetta vita stjórnmálamenn fullvel. En á tímum efnahagslegrar óvissu og vaxandi atvinnuleysis er það pólitískt bæði erfitt og áhættusamt að koma fram með óvinsælar umbætur á umræddu eftirlaunakerfi og dagpeningum.

Af sömu ástæðum verða umbótaáætlanirnar ekki settar á dagskrá fyrr en eftir næstu kosningar sem fara fram ekki síðar en haustið 2011. Baráttan milli hægri og vinstri fylkingar er einfaldlega svo mikil að hvorugur aðilinn vill hætta á að fæla kjósendur frá sér með áætlunum sem verða hvort sem er skotnar í kaf.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Leit í Analys Norden