Document Actions

Thomas Larsen

Danski þjóðarflokkurinn setur dagskipan

Endurreisnaráætlun sem ætlað er að styrkja danskt efnahagslíf á næstu árum inniheldur ýmis ákvæði sem að áliti gagnrýnenda beinast eindregið að innflytjendum. En gagnrýnin er veikburða því að Danski þjóðarflokkurinn hefur unnið baráttuna um stefnu í útlendinga- og samþættingarmálum.

03/06 2010

Þriðjudaginn 25. maí sagði danski forsætisráðherrann fjölmiðlum feginsamlega frá því að ríkisstjórnin og Danski þjóðarflokkurinn væru búnir að koma sér saman um sögulega endurreisnaráætlun.

Að sögn forsætisráðherra tryggir áætlunin að Danmörk geti staðist kröfur evrópskra samþykkta um að skuldir Evrópusambandsríkja megi ekki fara yfir 3% þjóðarframleiðslu.

Lars Løkke Rasmussen lagði einnig á það áherslu á fjölmiðlafundinum að ýmsar endurbætur sem koma til framkvæmda muni tryggja að halli á fjárlögum minnki fljótlega og einnig að fjármögnun velferðarsamfélagsins styrkist þegar til lengdar lætur.

Yfirlit frá Fjármálaráðuneytinu sýna að áætlunin muni bæta fjárhag hins opinbera um 24 milljarða danskra króna árið 2013 og 26 milljarða árið 2015 og framboð á störfum muni aukast um nálægt 11.000.

Niðurstaða Fjármálaráðuneytisins er þessi: „Þannig mun danskt efnahagslíf styrkjast eftir hina erfiðu kreppu sem hefur riðið yfir mestallan heiminn.“

Óviðeigandi lýðskrum

Meðal mikilvægra ákvarðana er frestun skattalækkana sem verið hafa í bígerð. Auk þess verður dagpeningatímabilið skorið niður um helming, úr 4 í 2 ár, og þak verður sett á frádrátt fyrir fagfélagsgjöldum – en það hefur orðið til þess að stéttarfélögin sjá rautt.

Í samkomulaginu var jafnframt ýmislegt annað boðað. Á barnabætur var sett 30 þúsund danskra króna þak – það mun spara einn milljarð danskra króna árið 2013. Þróunaraðstoð verður haldið óbreyttri frá árinu 2010, það sparar 1,4 milljarð danskra króna. Ný þjónustugjöld vegna útlendinga gefa 82 milljónir króna. Og að lokum verða sparaðar 15 milljónir króna vegna skertrar túlkaaðstoðar.

Það voru ekki hvað síst þessi síðasttöldu atriði sem ollu háværum mótmælum því að í augum gagnrýnenda væri um að ræða óviðeigandi lýðskrum þar sem ætlunin sé að spara sem mest á fólki með annað litaraft.

Gagnrýnendur töldu einmitt að þessi niðurskurður væri gjaldið sem þyrfti að greiða fyrir að Danski þjóðarflokkurinn fengist til að styðja ríkisstjórnina og tryggja þessari mikilvægu efnahagsáætlun meirihluta.

„Áhrif Danska þjóðarflokksins á sparnaðaráætlun ríkisstjórnarinnar [...] er áberandi mikil,“ stóð í forystugrein í Kristeligt Dagblad.

„Áhrifin koma fram allt frá smásparnaði, sem aðeins er hægt að líta á sem einelti gagnvart samfélagshópum sem standa höllum fæti, til skorts á pólitískum kjarki á sviðum það sem raunverulega væri hægt að spara.“

Blaðið gagnrýndi m.a. að ríkisstjórnin skyldi ekki skera harðar niður eftirlaun þeirra sem taka sérstakan lífeyri sem greiddur er fólki á aldrinum 60-67 ára sem lætur af störfum að eigin ósk, því að þar væri háar fjárhæðir að sækja. Í staðinn hafi náðst samkomulag um að spara túlkaaðstoð á sjúkrahúsum landsins. Í greininni stóð m.a.:

„Með því bætast aðeins vesalar 15 milljónir króna í ríkiskassann en niðurskurðurinn skaðar aftur á móti alla sem ekki eru dönskumælandi, og það meira að segja í viðkvæmum aðstæðum við spítalainnlögn. Þetta er ósæmileg ímyndarpólitík“.

Frysting þróunaraðstoðar var einnig gagnrýnd. „Fátæklingar í þriðja heiminum verða nú að gjalda fyrir ofneyslu okkar og forsætisráðherra vill ekki einu sinni lofa að aðstoðin verði hækkuð aftur upp í 0,8% af vergri þjóðarframleiðslu sem annars hefur verið lágmarksviðmið ríkisstjórnarinnar hingað til. Það er blátt áfram of lítið.“

Að síðustu var skerðing á barnabótum gagnrýnd. Leiðarahöfundur segir niðurskurðinn að miklu leyti bitna á innflytjendafjölskyldum og með skerðingunni sendi áætlunin fjölskyldufjandsamleg skilaboð.

Hörð gagnrýni

Lögð var áhersla á sömu atriði í dagblaðinu BT þar sem stjórnmálafréttaskýrandinn Helle Ib sagði Danska þjóðarflokkinn hafa komist upp með að þrýsta á ríkisstjórnina að koma á niðurskurði á ýmsum sviðum sem kæmu sér afar illa fyrir flóttamenn, innflytjendur og afkomendur þeirra.

„Þakið á barnabótum mun einkum koma niður á fjölskyldum með fleiri en tvö börn og samdráttur í túlkaþjónustunni mun koma verst niður á fólki sem ekki er mælandi á dönsku og stendur höllustum fæti. Síðarnefndi sparnaðurinn gefur aðeins 15 milljónir á ári í ríkissjóð. Og hvað hafði Danski þjóðarflokkurinn hugsað sér: Að börn flóttamanna eigi að túlka fyrir efnalitla foreldra sína þegar læknirinn kemur með greiningu á krabbameini, eða foreldrar eigi að segja sálfræðingnum frá pyntingum?“

Á Þjóðþinginu urðu viðbrögð Róttæka vinstriflokksins hvað sterkust.  Margrethe Vestager formaður flokksins sagði: „Umbætur á dagpeningum er eina jákvæða framfarasporið í annars kolsvartri sparnaðaráætlun sem á sér ekki framtíðarvon“.  

Ánægja í Danska þjóðarflokknum

Í Danska þjóðarflokknum var ánægjan aftur á móti mikil.
 „Við höfum náð markmiðum okkar,“ sagði Pia Kjærsgaard þegar hún átti að telja upp helstu atriði samkomulagsins í viðtölum.
„Við höfum sýnt og sannað að við erum einnig með þegar á reynir. Að við erum ekki bara með þegar góðum gjöfum er úthlutað heldur líka þegar aðgerðirnar valda svolitlum sársauka. Að við erum ábyrgðarfull,“ sagði formaður Danska þjóðarflokksins.

Peter Skaarup, sem er einn nánasti samstarfsmaður Piu Kjærsgaard, var einnig ánægður. Hann benti á að flokkurinn hefði tryggt um það bil 100 milljón króna sparnað á ári í málefnum útlendinga, og hann færði rök fyrir því með því að benda á að Danski þjóðarflokkurinn vilji einmitt deila kostnaðinum á alla borgara í dönsku samfélagi.

Hann sagði: „Ef innflytjendur frá öðrum heimshlutum og afkomendur þeirra ynnu jafnmikið Danir myndi efnahagsstaðan strax batna um 24 milljarða króna, stöðugleikavandinn leystist og vöxtur í dönsku efnahagslífi færi upp úr öllu valdi.“

Hann lofaði að Danski þjóðarflokkurinn mundi einnig framvegis halda áfram „stefnu í félagslegu jafnvægi, sem þrýsti á fleiri innflytjendur að finna sér vinnu, mennta sig eða jafnvel snúa heim, gengi það ekki að vera hér á landi.“

„Því skiljum við ekki allt þetta þvaður um að hætta við „eftirlaunakerfið“; við viljum frekar að innflytjendur starfi eða sleppi því að koma hingað ef þeir vilja ekki leggja fram sinn skerf til samfélagsins, frekar en að skera niður velferð Dana.“

Þannig er tónninn í umræðunni.

Málið er hins vegar að þessar umræður hafa ekki tekið mikið rúm miðað við öll pólitísku átökin um styttingu dagpeningatímabilsins frá fjórum í tvö ár.

Að vísu hafa gagnrýnendur rætt þetta – eins og lýst hefur verið hér að framan. En ráðandi flokkar í stjórnarandstöðunni, Sósíaldemókrataflokkurinn og Sósíalski þjóðarflokkurinn, hafa ekki hug á að kasta sér út í meiri háttar uppgjör við ríkisstjórnina og Danska þjóðarflokkinn um útlendinga- og samþættingarstefnu. Séð frá því sjónarhorni er endurreisnaráætlunin völd að þeim miklu stakkaskiptum sem dönsk pólitík hefur tekið.

Pólitíska litrófið hefur breyst

Ein ástæða þess að Anders Fogh Rasmussen komst til valda í ríkisstjórn árið 2001 var sú að allir borgaraflokkarnir voru á einu máli um að útlendingastefna yrði hert verulega.

Í kosningabaráttunni gat Fogh höfðað til fjölda Dana sem voru búnir að fá sig fullsadda af neikvæðum afleiðingum aðflutnings fólks til landsins, svo sem gettóum, þar sem innflytjendur eru ráðandi, og skólum þar sem mikið snýst um ungt fólk af erlendu bergi brotið.

Margir Danir voru líka óhressir yfir afbrotatíðni ungs fólks sem ekki hefur náð að aðlagast og þeir urðu sífellt óánægðari yfir því að allt of mikið væri af því að innflytjendur væru ekki í vinnu en lifðu í stað þess á bótum og væru þar með byrði á hinu opinbera.

Einkum gat Danski þjóðarflokkurinn reynt að ná til sósíaldemókratískra kjósenda vegna þess að Sósíaldemókrataflokkurinn var klofinn.

Hluti flokksins vildi gera upp við borgaraflokkana. Hinn hlutinn leit í aðalatriðum svo á að borgaraflokkarnir hefðu á réttu að standa í kröfum sínum um að hert yrði á reglum um útlendinga.
Flokkurinn var klofinn og án samhljóms við meirihluta Dana.

Síðan hefur Sósíaldemókrataflokkurinn skipt um stefnu og tekið sér stöðu mun nær ríkisstjórninni og Danska þjóðarflokknum í stefnu um málefni útlendinga. Síðustu ár hefur Sósíalski þjóðarflokkurinn tekið sömu breytingu.

Hin miklu átök varðandi þessa þróunin kom nýverið í ljós hjá leiðarahöfundi í dagblaðinu Politiken – sem er mjög gagnrýnið á ríkisstjórn borgaraflokkanna og Danska þjóðarflokknum – er hann hæddist að nýrri kynslóð stjórnmálamanna í Sósíalska þjóðarflokknum.

„Ungu aðgerðasinnarnir á vinstra vængnum virðast bæði vitfirrtir og niðurbrotnir í barnalegri hentistefnu sinni,“ skrifaði leiðarahöfundurinn Lars Trier Mogensen sem kallaði hina ungu sósíalista. „Kynslóð DÞ“. Þar var hann að beina spjótum sínum að ungu fólki sem óx ekki úr grasi fyrr en eftir að Danski þjóðarflokkurinn sló í gegn í kosningunum árið 2001.

Ritstjóri Politiken segir að ungir sósíalistar komi fram sem dekruð kynslóð sem ráði ekki við að lyfta sér upp yfir virðispólitísku dagskipanina sem hægrivængurinn setti á síðasta áratug 20. aldar. Og hann hneykslast á því að þeir, vegna skorts á félagslegri vandlætingu og alþjóðlegri yfirsýn, láti sér nægja að skilgreina sig miðað við aðalstrauminn á hægrivængnum – nefnilega þjóðernisíhaldið.

Það eftirtektarverða er að slík skrif hefðu verið óhugsandi fyrir fáum árum og sömuleiðis hefði líka verið óhugsandi að meiriháttar efnahagsáætlun innihéldi fjölda sparnaðaráforma sem beindust að innflytjendum.

Innan við áratug hefur pólitískt litróf tekið róttækri breytingu.

Stuðningsmenn áætlunarinnar munu segja að breytingin hafi verið réttmæt og nauðsynleg. Gagnrýnendum finnst að um sé að ræða vandræðalegt lýðskrum.

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Anonymous says:
05/07 2010 15:32

Tanska on esimerkki muille pohjoismaille. Holtiton maahanmuutto on kestämätöntä. Sosiaalishoppailijat ja elintasopakolaiset tulevat nyt Suomeen, jossa heille annetaan maailman parhaat tuet.

Anonymous says:
28/01 2011 20:33

<a href="http://www.google.dk">google.dk</a>

Commenting has been disabled.

Tengiliður

Michael Funch
Netfang:

Leit í Analys Norden