Document Actions

Aslak Bonde

Frá hægralýðskrumi til þjóðernislýðskrums

Skoðanakannanir benda til hægribylgju í Noregi, en það er hinn tiltölulega hófsami Hægriflokkur sem hefur styrkt sig. Róttæki hægriflokkurinn Framfaraflokkurinn berst við að halda fylgi sínu meðal allra þeirra sem kusu hann í fyrra en aldrei hafa fleiri stutt hann en þá. Það er hugsanlega vegna þess að Verkamannnaflokknum hefur tekist að koma strangari stefnu í málefnum flóttamanna í gegnum rauð-grænu ríkisstjórnina og af því að sífellt fleiri á vinstrivæng stjórnmálanna mæla fyrir minna umburðalyndri stefnu í málefnum innflytjenda.

03/06 2010

Í síðustu viku maímánaðar var deilt um búrkur á Stórþinginu. Fulltrúar Framfaraflokksins stóðu einir að tillögu um að leyfa ekki á almannafæri búrkur eða aðrar flíkur sem hylja andlit. Þingmenn allra annarra flokka héldu því fram að það bryti í bága við mannréttindi ef tekin yrði upp stefna í fatamálum og ef fataplögg yrðu látin ráða því hvaða réttinda fólk nyti.

Fyrir nokkrum mánuðum leit ekki út fyrir að umræðurnar færu á þennan veg. Stjórnmálamenn í bæði rauð-grænu ríkisstjórninni og í Hægriflokknum mæltu með búrkubanni. Ekki af því að margir noti búrku í Noregi heldur af því að menn vildu sýna fram á mikla andstöðu við kúgun kvenna.

Rökin eru þekkt frá mörgum evrópskum löndum: Banni menn klæði sem hylja allan líkamann er múslímskum körlum gert mun erfiðara fyrir að þvinga konur til að klæðast þeim og menn sýna fram á að þeir eru ekki hlynntir afstæðishyggju í menningarmálum. Vestrænt jafnrétti eigi að gilda í vestrænu samfélagi.

Í fyrrahaust og í vetur kom upp sú nýlunda að þingmenn hinna hefðbundnu vinstriflokka töluðu fyrir banni við notkun búrka. Það var almennt túlkað sem um stefnubreytingu væri að ræða meðal þeirra í umræðunni um málefni útlendinga. Í skopmyndateikningaumræðunni höfðu þeir verið sakaðir um að vera of eftirgefanlegir gagnvart múslímskum bókstafstrúarmönnum.

Umræður og málfrelsi

Norsk stjórnvöld ákváðu eins og þekkt er að veðja á breiðar og innihaldsríkar samræður við fulltrúa ýmissa samfélaga múhameðstrúarmanna. Það var túlkað á þann hátt að áhrifastjórnmálamenn væru að biðjast afsökunar fyrir hönd ristjóranna sem höfðu valið að birta hinar umdeilda skopteikningar.

Rauð-græna ríkisstjórnin átti sífellt erfiðara með að höndla fullyrðingar þess efnis að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir væru uppteknari af samræðum við múhameðstrúarmenn en af málfrelsinu. Þeir fengu þörf fyrir að sýna fram á að varðstaðan um vestræn gildi (um jafnrétti svo dæmi væri tekið) væri mikilvægara en samræður og umburðarlynd stefna.

Það hafði jafnframt áhrif á vinstrivæng stjórnmálanna að róttækir vinstrimenn í Danmörku ruku upp í skoðanakönnunum þegar leiðtogi Sósíalíska þjóðarflokksins (SF) skerpti tóninn gagnvart innflytjendum.

Þannig leit þetta út í vetur. Nú eftir umræðurnar á Stórþinginu um klæðnað sem hylur allan líkamann er ekki auðvelt að halda því fram að það sé nein ákveðin tilhneiging um stefnumótun í nokkra veru varðandi innflytjendamál eða aðlögun útlendinga að norsku samfélagi.

Kröftug hægribylgja

Það getur enn gerst að tónninn og pólitíkin gagnvart innflytjendum herðist en það er jafnframt mögulegt að allir flokkar nema Framfaraflokkurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að best sé að leggja áherslu á allt það sem heppnast hefur vel í aðlögun útlendinga að norsku samfélagi fram til dagsins í dag og að þeir muni láta symbólismann liggja á milli hluta.

Það væri þá af því að þeim fyndist nauðsynlegt að virka strangari og minna umburðarlyndir en þeir í raun eru.

Án þess að því skuli haldið fram að þeir sem stýra herstjórnarlist flokkanna láti stjórnast algerlega af skoðanakönnunum er þó augljóst að þeir líta til þeirra. Og allar skoðanakannanir síðasta hálfa árið hafa gefið ótvírætt til kynna að það sé gengi hins hófsama Hægriflokks sem stuðli að því sem virðist vera nokkuð mikil hægribylgja í Noregi.

Hægriflokkurinn hefur eftir nokkrar vangaveltur ákveðið að markaðsetja sig sem nútímalegan frjálslyndan flokk sem leggur áherslu á réttindi einstaklingsins. Það þýðir meðal annars að ríkið á ekki að skipta sér of mikið af lífi einstaklinga – óháð húðlit viðkomandi.

Þjóðernislýðskrum

Framfaraflokkurinn hefur ekki tapað miklu fylgi í skoðanakönnunum undanfarið. Fylgið hefur verið stöðugt yfir 20%. Samt þykir flokknum og forystumönnum hans ekki ganga nógu vel.

Kosningaúrslitin í fyrrahaust voru einstaklega hagstæð flokknum (22,9%) og það er orðin hefð fyrir því að fylgi við Framfaraflokkinn sé meira á milli kosninga en á kjördag. Þannig hefur það ekki verið í vetur og vor.

Yfirborðsleg ályktun er að ekki sé nein bylgja þjóðernis- eða hægrilýðskrums í Noregi. Það er álíka mikil harka og umburðarlyndi varðandi málefni innflytjenda og aðlögun þeirra að norsku samfélagi eins og verið hefur undanfarin ár og það lítur út fyrir að kjósendur séu ánægðir með það.

Önnur og líklegri ályktun er að stjórnmálalíf í Noregi yfirleitt hafi hægt og rólega færst í átt að því sem kalla mætti þjóðernislýðskrum.

Þetta orð kallar fram svo mörg neikvæð hugrenningatengsl að það er nauðsynlegt að skilgreina það strax.

Með orðinu þjóðernislýðskrum er átt við að stjórnmálamenn taki tillit til – og aðlagi sig að nokkru leyti – skoðun fólks um að það séu gerðar of litlar og hógværar kröfur til nýbúa og að við sleppum svo mörgum inn í landið að erfitt muni reynast að ná góðri samþættingu.

Þegar að innflytjendapólitíkinni kemur þá sagðist rauð-græna ríkisstjórnin árið 2005 ætla að stuðla að mannlegri innflytjendapólitík – sérstaklega ætlaði nýja ríkisstjórnin að standa vörð um ólögráða hælisleitendur.

Eftir því sem árin hafa liðið hefur verið hert á reglunum – fyrst árið 2008 og svo aftur eftir kosningarnar í fyrrahaust. Þá ákvað Verkamannaflokkurinn að nota sterkari stöðu sína í rauð-grænu ríkisstjórninni til að herða stefnuna í innflytjendamálum. SV (Sósíalíski vinstriflokkurinn) mótmælti hástöfum en samþykkti að skerpt yrði á stefnunni.

Fylgir ekki ráðum SÞ

Raunverulegar afleiðingar eru þær að norsk útlendingayfirvöld fylgja í æ minna mæli ráðleggingum flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna og að hælisleitendur á unglingsaldri fá einungis að vera í landinu þar til þeir ná 18 ára aldri.

Gjöf yfirvalda til þeirra er að þeir eru sendir til baka til heimalandsins um leið og þeir verða fullorðnir eins og lögin skilgreina það.

Forsendurnar eru auðvitað að ógn steðji ekki að heilsu hælisleitenda eða lífi og að þeir eigi ekki á hættu að vera ofsóttir verði þeir sendir til baka. En matið á því hvaða hættu þeir standi frammi fyrir hefur jafnframt verið skerpt á undanförnum árum.

Hjá útlendingayfirvöldum var lengi ósamkomulag milli stjórnsýslueiningarinnar og áfrýjunardeildarinnar um það hvort vísa ætti hælisleitendum aftur til Grikklands. Útlendinganefndin sem meðhöndlar mál sem áfrýjað hefur verið frá Útlendingastofnun taldi lengi að hælisleitendur fengju ekki forsvaranlega meðhöndlun hælisumsókna sinna í Grikklandi. Án nokkurs sýnilegs þrýstings frá stjórnmálamönnum skipti Útlendinganefndin hins vegar um skoðun og nú eru hælisleitendur sendir til baka til Grikklands.

Stoltenberg sýnir styrk sinn

Aðalatriðið er að norsk yfirvöld hafa að undanförnu hert svo á reglunum að send hafa skýr skilaboð um það til umheimsins að ekki sé auðveldara að fá hæli í Noregi en öðrum Evrópulöndum.

Þar með hefur Jens Stoltenberg tekist í viðleitni sinni að stöðva hina gífurlegu aukningu sem var á straumi hælisleitenda í fyrra og hittifyrra. Hann hefur sent út skýr skilaboð um að hér gildi strangar reglur – bæði til mögulegra innflytjenda í útlöndum og til eigin kjósenda.

Það hefur einnig verið skerpt á orðræðunni í innflytjendaumræðunni á undanförnum árum. Kröfurnar um að allir innflytjendur eigi að læra norsku hafa verið hertar og notað er stöðugt meira fé til að fá innflytjendabörn í leikskóla svo að þau læri norsku áður en þau byrja í skóla.

Framfaraflokkurinn sker sig úr meðal flokkanna þar sem þeir vilja beita meiri refsiaðgerðum gagnvart þeim sem ekki læra norsku, en að öðru leyti eru bæði markmið Framfaraflokksins og orðræða nokkuð lík og hjá öðrum flokkum.

Það á jafnframt við um deiluna um nýjan múhameðstrúarskóla í Osló. Verkamannaflokkurinn og SV í höfuðborginn styðja kröfu Framfaraflokksins um að ekki verði leyfður múhameðstrúarskóli – þrátt fyrir að margir kristnir einkaskólar séu í Osló.

Kristin Halvorsen leiðtogi SV er þekkingarmálaráðherra og hún hefur hafnað óskum flokks síns í eigin kjördæmi – hún telur að maður verði að leyfa múhameðstrúarskóla svo lengi sem kristnir skólar eru leyfðir.

Bæði í SV og í Verkamannaflokknum lítur út fyrir að óeiningin sé þannig vaxin að flokksmenn, sem búa á svæðum þar sem mál tengd samþættingu útlendinga í samfélagið eru mjög erfið, eru ekki eins frjálslyndir eins og þeir sem eru í meiri fjarlægð.

Það getur bent til þess að þjóðernislýðskrumsstefna hafi líka áhrif á hefðbundna vinstriflokka að minnsta kosti þá flokksfulltrúa sem þurfa að afla atkvæða á svæðum þar sem stór hluti borgara á ættir að rekja til útlanda.  

Höfundurinn ber sjálfur ábyrgð á innihaldi greinarinnar

Tengiliður

Michael Funch
Netfang:

Leit í Analys Norden