Document Actions
Janúar, 2012

Svanurinn flýgur hátt

Svansmerkið er opinbert umhverfismerki Norðurlanda. Markmiðið er valfrjálst norrænt umhverfismerki, sem stuðlar að því að minnka það álag sem dagleg neysla veldur umhverfinu. Starfsmenn Svansmerkisins kanna umhverfisáhrif tiltekinnar vöru og þjónustu í gegnum allan feril hennar frá hráefni til úrgangs. Gerðar eru strangar loftslags- og umhverfiskröfur en einnig kröfur um notagildi og gæði. Svanurinn er velþekkt umhverfismerki á Norðurlöndum og vekur einnig athygli á alþjóðavettvangi.

Svanmärkning
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org

Svansmerkinu er ætlað að leiðbeina norrænum neytendum og innkaupafólki hjá fyrirtækjum þannig að þeim gefist raunverulegur kostur á að kaupa umhverfisvæna vöru og á þann hátt leggja sitt af mörkum við að bæta umhverfið. Jafnframt er markmiðið að hvetja framleiðendur til að framleiða umhverfisvænar vörur. Þegar hafa verið sett um 60 mismunandi skilyrði fyrir meira en 200 vöruhópa og fjöldi leyfishafa eykst stöðugt. Alls hafa verið gefin út rúmlega 2000 leyfi fyrir meira en 6000 vörur.

81% Norðurlandabúa telja nú vörur merktar Svaninum umhverfisvænan kost og 40% telja það gagnast loftslaginu að kaupa Svansmerktar vörur. Meira en níu af hverjum tíu þekkja merkið. 11% leita alltaf eða oft og 47% stundum eftir Svansmerkinu í verslunum þegar keyptar eru dagvörur. Ef Dani, Finni, Íslendingur, Norðmaður eða Svíi er beðinn að nefna umhverfismerki, nefna 69% Svaninn. Rannsóknin byggir á viðtölum við 4400 Norðurlandabúa en rannsóknin var framkvæmd af Respons Analyse Oslo fyrir fyrir norrænar umhverfismerkingar.

Framtíðarsýn um Svaninn 2015

Norrænu umhverfisráðherrarnir samþykktu í nóvember 2010 framtíðarsýn fyrir Svaninn árið 2015:
Framtíðarsýnin er að árið 2015 verði Svanurinn þekktur sem eitt skilvirkasta valfrjálsa neytendapólitíska verkfærið á umhverfissviði, þar sem hann býður upp á áreiðanlegt tæki fyrir neytendur sem vilja sýna umhverfisvitund. Staða Svansins er sterk vegna mikils trúverðugleika og markaðsáhrifa og hann virkar sem hvati fyrir önnur merki um að setja ströng skilyrði. Fyrir fyrirtæki er Svanurinn eftirsóknarverður og traustur máti til að nýta sér umhverfismál til að styrkja samkeppnishæfni sína og hann er sjálfsagður valkostur fyrir neytendur sem gera strangar kröfur til umhverfisþátta og gæða. Neytendum er ljóst að viðmið Svansins fela í sér strangar kröfur í loftslagsmálum. Reglum sem tengjast sjálfbærni verður smám saman bætt við umhverfisskilyrði Svansins.

Framtíðarsýn um Svaninn 2015 hefur verið fylgt eftir og er ætlunin að uppfylla hana með fjölmörgum aðgerðum sem skipulagðar hafa verið og verða framkvæmdar í samstarfi við Norrænu umhverfismerkinganefndina (NMN) og vinnuhóp umhverfisgeirans um sjálfbæra framleiðslu og neyslu (HKP). Skipaður var Svans-undirhópur, með fulltrúum norrænu ríkjanna, til að fylgja eftir framkvæmd framtíðarsýnarinnar.

Mikilvæg atriði sem höfð verða til hliðsjónar við verkefnið eru meðal annars loftslagsmál, samband Svansins við evrópska umhverfismerkið EU Ecolabel og græn opinber innkaup. Kröfum Svansins varðandi loftslagsmál, til að mynda, verður að koma betur til skila í framtíðinni. Það verður að vera neytendum ljóst að Svanurinn er öflugt loftslagsmerki sem þegar gerir mikilvægar loftslagskröfur. Einnig er mikilvægt fyrir norrænu ríkin að strangar umhverfiskröfur Svansins og gott skipulag geta stuðlað að jákvæðri þróun umverfismerkis ESB. Miðað verður að því að miðla stöðugt reynslu milli merkjanna tveggja og þá verða samþættingarmöguleikar og önnur upplýsingakerfi könnuð. Að auki verða framkvæmdir arðsemisútreikningar fyrir fyrirtæki og/eða vörutegundir sem nota Svaninn og um þessar mundir er verið að skilgreina þær kröfur sem Svansmerkið gerir til einstakra vöruhópa til að nýta þær við græn opinber innkaup.

Útflutningur norrænnar þekkingar

Norræna umhverfismerkið Svanurinn gæti jafnvel verið á suðurleið, alla leið til Suður-Ameríku. Norræna ráðherranefndin átti nýlega frumkvæði að samstarfi við umhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna UNEP, en þar geta Síle, Argentína, Brasilía, Paragvæ og Úrúgvæ tekið sín fyrstu skref í myndun nýs staðbundins umhverfismerkis í anda norrænu ríkjanna.

Svæðisbundnar umhverfismerkingar eru hagstæð leið til að mæta vel þekktri þörf til að gera framleiðslu- og neyslumynstur sjálfbærari. Þær spara ekki eingöngu tíma og fjármagn heldur efla þær svæðisbundna samþættingu og samstarf á sviði umhverfis-, iðnaðar- og neylsustefnu. Náin tengsl umhverfismerkinga og sjálfbærra opinberra innkaupa skapa þar að auki aukna eftirspurn eftir umhverfismerktum vörum.

Cristóbal de la Maza, deildarstjóri í umhverfisráðuneyti Síle, telur einnig norræna reynslu vera mjög mikilvæga í þróun sjálfbærra pólitískra ákvarðana og verkfæra á sviði framleiðslu og neyslu á svæðinu í syðri hluta Suður-Ameríku.

„Það er eðlilegt pólitískt séð að íhuga eftirfarandi spurningar: við leggjum um þessar mundir mikla vinnu í að auka sjálfbæra neyslu og framleiðslu í heimalöndum okkar. Með því að kynna okkur hvernig Norðurlöndin sem svæði hafa náð árangri í að þróa umhverfisvænar framleiðsluaðferðir fáum við hugmyndir og stuðning í framtíðar verkefni okkar”, sagði De la Maza á vinnustofu um svæðisbundið samstarf um umhverfismerkingar sem haldin var í Santiago de Chile dagana 17. – 18. nóvember 2011.

Þátttökulöndin komust að samkomulagi um að fylgja vinnustofunni eftir með umræðum í hverju landi fyrir sig þar sem allir hagsmunahópar taka þátt. Svæðisbundin eftirfylgni verður í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina og UNEP árið 2012. Markmið verkefnisins er að útbúa leiðarlýsingu fyrir gerð svæðisáætlunar um umhverfismerkingar á svæðinu syðst í Suður-Ameríku í samstarfi við Global Ecolabelling Network (GEN).

Skipulag Svansmerkisins

Norræna umhverfismerkinganefndin (NMN) samræmir vinnu með norræna umhverfismerkið, mótar sameiginlega stefnu um hvaða vöruflokka megi merkja með Svaninum og hvaða skilyrði varan þarf að uppfylla. Norrænir sérfræðingahópar gera tillögur að skilyrðum og umhverfismerkjaráðin í hverju landi fyrir sig fjalla um leyfisumsóknir og gefa út leyfi. Í Danmörku og á Íslandi bera umhverfisráðuneytin ábyrgð á umhverfismerkingum, en í hinum þremur norrænu ríkjunum fellur Svansmerkið undir neytendamál.

Öll umhverfismerkingarráðin í þjóðlöndunum sinna bæði Svaninum og umhverfismerki Evrópusambandsins (EU Ecolabel). Tekjur af umhverfismerkinu á Norðurlöndum eru rúmlega 90 milljónir danskra króna og um 120 manns starfa við þau. Rúmlega tveir þriðju hlutar teknanna eru vegna leyfis- og umsóknargjalda sem atvinnulífið greiðir. Rúmlega 95% teknanna eru til komnar vegna Svansmerkisins en afgangurinn frá norrænum framleiðendum sem nota EU-Ecolabel.

Umhverfismerkið Svanurinn var stofnað árið 1989 af neytendanefnd Norrænu ráðherranefnadrinnar, en frá árinu 2006 hefur umhverfisnefndin haft málið á sinni könnu. Finnar, Íslendingar, Norðmenn og Svíar hafa tekið þátt í samstarfinu um Svansmerkið frá byrjun, en Danir hófu notkun þess árið 1998. Framlag Norrænu ráðherranefndarinnar til NMN árið 2012 er um 4 milljónir danskra króna.

Á www.norden.org/hkp eru nánari upplýsingar um vinnuhóp um sjálfbæra neyslu og framleiðslu, þar á meðal um eftirfylgni við framtíðarsýn um Svaninn 2015.

Nánari upplýsingar um umhverfismerkið Svaninn á http://www.nordic-ecolabel.org/.

Nánari upplýsingar um vinnustofuna í Síle í nóvember 2011 á http://www.norden.org/sv/aktuellt/nyheter/export-av-nordiskt-kunnande-inom-miljoemaerkning

Hafið samband   

Jón Geir Pétursson, fulltrúa í HKP-hópnum og formaður Svans-hópsinsjon.g.petursson@umh.stjr.is, +3545458600

Camilla Sederholm, verkefnisstjóri HKP-hópsins

camilla.sederholm@miljo.fi, +358 400 930 886

Björn-Erik Lönn, verkefnisstjóri norræna umhverfismerkisins Svansins

bel@ecolabel.no, +47 95855871

Leita í fréttabréfinu Norrænt umhverfi