Document Actions

Bíll í Noregi

Hér er hægt að lesa um ólíkar reglur um innflutning ökutækja til Noregs, notkun bíla sem eru skráðir erlendis og hvert á að snúa sér til að fá leyfi til að nota eigin bíl í Noregi.

Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org

Fyrir þá sem eru búsettir erlendis 

Einstaklingar með fasta búsetu erlendis mega nota ökutæki sem skráð eru erlendis. Þetta á einkum við um einstaklinga sem

 • tengjast eingöngu öðrum löndum en Noregi,
 • búa erlendis með maka eða barni undir 18 ára aldri að því tilskyldu að viðkomandi komi reglulega á heimili fjölskyldunnar (yfirleitt mánaðarlega að lágmarki),
 • hafa atvinnutengsl við Noreg (vinna, nám eða lífeyrir/almannatryggingar) og fara annað hvort daglega til vinnustaðarins eða dveljast erlendis í að minnsta kosti 185 daga á ári. Viðkomandi má ekki vera skráður í þjóðskrá í Noregi og maki eða börn undir 18 ára aldri mega heldur ekki vera búsett í Noregi,
 • vinna erlendis (fast starf eða nám erlendis) og eru ekki skráðir í þjóðskrá, eiga maka eða börn undir 18 ára aldri í Noregi.

Nánari upplýsingar um þær reglur sem gilda um bíla sem skráðir eru erlendis fyrir einstaklinga sem ekki búa í Noregi má nálgast á vef tollayfirvalda í Noregi. 

Fyrir þá sem eru búsettir tímabundið í Noregi

Tímabundið búsettir teljast þeir sem dvelja í Noregi skemur en eitt ár (reiknað frá þeim degi sem komið er til Noregs). Þeir sem teljast vera tímabundið búsettir í Noregi mega hafa með sér ökutæki sem skráð er erlendis og nota það án þess að sækja um leyfi frá tollayfirvöldum (Tollvesenet).

Mikilvægt er að viðkomandi geti skjalfest að að dvölin verði skemmri en eitt ár og að gögn sem sýna fram á það séu geymd í ökutækinu. Dæmi um gögn sem sýna fram á tímabundna búsetu í Noregi eru norskur ráðningarsamningur, gögn sem sýna fram á nám í Noregi, staðfesting á að veitt hafi verið tímabundið leyfi frá störfum erlendis eða gögn sem sýna að viðkomandi leigi út eigin íbúð erlendis. Tímabilin sem koma fram í gögnunum mega ekki vara lengur en eitt ár frá komunni til Noregs.

Ef dvölin í Noregi framlengist þannig að hún verði allt að tveimur árum (reiknað frá komu til Noregs) þarf að sækja um tímabundið akstursleyfi fyrir seinna árið og það verður að gera áður en eitt ár er liðið frá komunni til Noregs. Umsóknina á að senda til tollayfirvalda (Tollvesenet). Sjá upplýsingar á vef tollayfirvalda um hvernig best er að hafa samband.

Fyrir þá sem hafa fasta búsetu í Noregi

Meginreglan er sú að þeir sem hafa fasta búsetu í Noregi mega ekki aka í Noregi á ökutæki sem er skráð erlendis. Frá þessu er nokkrar undantekningar en yfirleitt er krafist aksturleyfis frá tollayfirvöldum. Nánari upplýsingar um undantekningarnar er að finna á vef tollayfirvalda í Noregi.

Þegar flutt er til Noregs með bíl sem skráður er erlendis er hægt að sækja um tímabundið leyfi til að aka bílnum í Noregi í allt að 14 daga. Viðkomandi verður að geta skjalfest að hann ætli að flytja. 

Innflutningur til Noregs á bíl eða öðru ökutæki sem skráð er erlendis

Meginreglan er sú að ökutækið sé skráð í því landi sem eigandinn býr í. Þegar flutt er til Noregs er ekki hægt að flytja með sér vélknúið ökutæki gjaldfrjálst sem hluta af búslóð. Í flestum tilfellum þarf að tollafgreiða ökutækið og fá norsk skráningarmerki. Nánari upplýsingar um tollafgreiðslu ökutækja og hversu mikið þarf að borga er að finna á  vef tollayfirvalda í Noregi.

Áður en ökutækið er flutt til landsins er mikilvægt að fá upplýsingar hjá umferðarstöðvum norskra vegamálayfirvalda (Statens vegvesens trafikkstasjoner) um þær tæknilegu kröfur sem gerðar eru til ökutækis sem ætlunin er að skrá í Noregi.

Einnig þarf að athuga hjá yfirvöldum í landinu sem flutt er frá eða bíllinn er keyptur í hvort einhverjar útflutningstakmarkanir eða álíka reglur eiga við.

Þegar komið er að norsku landamærunum er mikilvægt að fara í gegnum vaktað hlið og gera vart við sig á rauðu svæði. Þar er afhent tímabundið innflutningsvottorð frá tollayfirvöldum þar sem meðal annars kemur fram hvar eigi að tilkynna sig hjá tollafgreiðslustað á áfangastað. Þar er greiddur virðisaukaskattur og hugsanlega einnig gjald vegna losunar gróðurhúsalofttegunda.

Á tollafgreiðslustöðum þarf að framvísa eftirfarandi gögnum:

 • Tímabundið innflutningsvottorði
 • Reikningur eða kaupsamningur sem sýnir raunverulegt kaupverð og ef við á einnig reikningur vegna flutningskostnaðar og gögn um annan áfallinn kostnað í tengslum við að farið er yfir norsku landamærin (til dæmis tryggingar),
 • Upprunalegt, erlent skráningarskírteini og hugsanlega einnig gerðarviðurkenning (samsvarssertifikat, COC). Við innflutning á nýjum bílnum þar sem gerðarviðurkenningu er framvísað er yfirleitt hægt að fá að greiða skráningargjöldin (engangsafgift) og virðisaukaskattinn samtímis.

Þegar virðisaukaskatturinn hefur verið greiddur eru kvittanir og skráningarskírteini ökutækisins afhent. Þessi gögn þarf að hafa meðferðis þegar ökutækið er skráð hjá umferðarstöð vegamálayfirvalda.

Leyfilegt er að nota ökutæki með erlendum skráningarmerkjum í allt að 30 daga sem teljast frá deginum sem ökutækið er tollafgreitt inn í landið. Erlendu skráningarmerkin verða að vera gild og ökutækið verður að vera tryggt. Ef ökutækið er ekki með gild, erlend skráningarmerki er hægt að kaupa tímabundin skráningarmerki (dagsprøvekjennemerker) á einni af umferðarstöðvum norskra vegamálayfirvalda.

Við innflutning á notuðu ökutæki þurfa norsk vegamálayfirvöld að samþykkja hvert einstakt ökutæki. Það er gert á umferðarstöðvum.stofnunarinnar. Samþykkið verður að liggja fyrir áður en tollayfirvöld reikna út skráningar- og förgunargjald. Virðisaukaskattinn verður á hinn bóginn að greiða til tollayfirvalda áður en samþykki vegamálayfirvalda er fengið.

Skráningargjald og förgunargjald þarf að greiða áður en ökutækið er skráð í Noregi. Hægt er að fá útreikning á skráningargjaldi og förgunargjaldi á næstu skrifstofu tollayfirvalda. Tollayfirvöld votta jafnframt á skráningarskírteinið að gjöldin séu greidd.

Þá er hægt að skrá ökutækið á einni af umferðarstöðvum vegamálayfirvalda eða hjá bílasala sem hefur aðgang að Autoreg-kerfinu. Hægt er að panta tíma hjá flestum umferðarstöðvum til að skrá ökutækið.

Hafa þarf með boðun vegna útreiknings á gjöldum, skráningarskírteini, persónuskilríki og tryggingayfirlýsingu. Nánari upplýsingar um þau gögn sem þarf að hafa með er að finna á vef vegamálayfirvalda. Þegar bíllinn er skráður þarf að afhenda erlendu skráningarmerkin. Eftir að skráningu er lokið senda tollayfirvöld út reikning vegna árgjalda.

Hægt er að fá nánari upplýsingar um innflutning á bílum og öðrum ökutækjum hjá upplýsingadeild tollayfirvalda í síma 03012. Einnig eru ýmsar upplýsingar á vef tollayfirvalda og vef vegamálayfirvalda.

Tryggingar

Samkvæmt lögum verða allir eigendur ökutækja í Noregi að vera með ábyrgðartryggingu (ansvarsforsikring) sem bætir tjón sem ökutækið veldur á á fólki og hlutum. Eigandinn getur auk þess bætt við ýmsum valkvæðum tryggingum. Nánari upplýsingar um valkvæðar bílatryggingar má nálgast á vef norsku neytendastofunnar (Forbrukerrådet). 

Vetrardekk og sumardekk

Í Noregi eru bílstjórar sjálfir ábyrgir fyrir því að meta hvort veggripið sé nægilega gott. Í hálku næst betra veggrip með því að nota vetrardekk með eða án nagla eða keðja.

Ákveðnar reglur gilda um notkun nagladekkja. Notkun nagladekkja er bönnuð

 • frá og og með fyrsta mánudegi eftir annan í páskum
 • fram að 31. október.

I Norðurlands-, Troms- og Finnmerkur-fylkjum í Noregi gilda reglurnar frá og með 1. maí til og með 15. október.

Að vetrarlagi eru eftirfarandi kröfur gerðar til dekkja:

 • Mynsturdýptin á að vera að lágmarki 3 mm, óháð gerð dekkja (sumardekk með mynsturdýpt undir 3 mm. á ekki að nota í vetrarakstri).
 • Nagla má aðeins hafa í vetrardekkjum (undantekning fyrir vélhjól). Ef nagladekk eru notuð verða þau að vera á öllum hjólum ökutækisins.

Það er ekki skylda að nota vetrardekk á veturna. Tvær stærstu borgir Noregs, Ósló og Björgvin, hafa lagt sérstakt gjald á bíla sem eru með nagladekk á tímabilinu 1. nóvember til 1. maí. Nánari upplýsingar um gjöldin er að finna á vef vegamálayfirvalda. Engar takmarkanir eru á notkun vetrardekkja án nagla, en slík dekk eru ekki eins góð og sumardekk á blautu malbiki að sumarlagi.

Ef færðin gefur tilefni til má nota nagladekk og keðjur utan vetrartíma. Athugið að sumir vegir í Noregi eru lokaðir að vetrarlagi. Nánari upplýsingar um það má nálgast á vef vegamálayfirvalda.

Utan vetrartíma verður mynsturdýptin að vera að lágmarki 1,6 mm.

Almennar upplýsingar um akstursreglur í Noregi er að finna í bæklingi frá vegamálayfirvöldum 

Hámarkshraði

Hámarkshraði í þéttbýli í Noregi er að jafnaði 50 km/klst og í strjálbýli 80 km/klst. Þar sem sérstakar hraðatakmarkanir gilda er upplýst um það með umferðarskiltum.

Notkun bíla sem skráðir eru í Noregi í öðrum norrænum löndum

Ef bíll sem skráður er í Noregi er notaður í skamman tíma í öðru norrænu landi þarf ekki að skrá hann þar. Hversu lengi má nota bílinn í landinu án þess að skrá hann er mismunandi eftir löndum.

Nota má bíl sem skráður er í Noregi í allt að 12 mánuði í Svíþjóð, sex mánuði í Danmörku, Finnlandi, Íslandi og Færeyjum og þrjá mánuði á Grænlandi. Ef ökutækið er notað lengur en leyfilegan hámarkstíma í viðkomandi landi verður að skrá það þar. Í sumum tilfellum þarf að fá leyfi til að aka erlendu ökutæki og ráðlegt er að athuga það áður en farið er af stað. Stofnanirnar sem sjá um skráningu ökutækja eru Samgöngustofa á Íslandi, Transportstyrelsen í Svíþjóð, Tulli i Finnlandi og SKAT i Danmörku..

Tegndar upplýsingar: Ökuskírteini í Noregi

Viltu spyrja Halló Norðurlönd?

Spurningar um flutning, vinnu og nám á Norðurlöndunum má senda með því að fylla út rafrænt eyðublað. Spurningum er svarað af starfsfólki upplýsingaþjónustunnar Halló Norðurlönd.

Flutningar á Norðurlöndum

Flutningar til eða frá Danmörku

Flutningar til eða frá Finnlandi

Flutningar til eða frá Færeyjum

Flutningar til eða frá Íslandi

Flutningar til eða frá Noregi

Flutningar til eða frá Svíþjóð

Flutningar til eða frá Álandseyjum

Meira um Noreg

Flutningar til eða frá Íslandi

Búseta og dvöl á íslandi

Börn og fjölskylda á Íslandi

Vinna á Íslandi

Nám á Íslandi