Document Actions

Nám á háskólastigi í Finnlandi

Upplýsingar um bóknám og verknám á háskólastigi í Finnlandi og um Norræna samninginn um aðgang að æðri menntun.

Orđabók
Ljósmyndari
Ane Cecilie Blichfeldt

Í Finnlandi er hægt að stunda bæði bóknám og verknám á háskólastigi. Kennsla fer fram á finnsku, sænsku og ensku.

Sótt er um háskólanám á vefsvæðinu Opintopolku, en þar eru einnig upplýsingar um námsmöguleika á öðrum skólastigum. Nánari upplýsingar um umsóknarferli eru á vefsvæðinu Haku korkea-asteen koulutukseen Suomessa.

Verknám á háskólastigi

Í Finnlandi veita verkmenntaskólar á háskólastigi menntun í iðngreinum og oft einnig á öðrum sviðum. Framhaldsskóla- eða iðnskólapróf veitir réttindi til slíks náms. Sótt er um skólavist að vori eða hausti gegnum sameiginlegt umsóknakerfi (á finnsku eða sænsku) og yfirleitt fara fram inntökupróf. Sé sótt um skólavist að vori er um fjölbreyttara námsval að ræða. Flest verknám á háskólastigi er nemendum að kostnaðarlausu.

Í flestum finnskum verkmenntaskólum á háskólastigi er kennt á finnsku, þótt einnig séu skólar þar sem öll kennsla fer fram á sænsku. Einnig bjóða margir skólar námsleiðir á ensku. Upplýsingar um námsleiðir á ensku eru á vefsvæðunum Study in Finland og Opintopolku, auk upplýsinga á ensku á vefsvæðinu Studyinfo. Kröfur sem gerðar eru til nemenda um tungumálakunnáttu geta verið mismunandi milli skóla og því borgar sig að leita upplýsinga um þau mál hjá viðkomandi skóla.

Það tekur 3,5–4,5 ár að ljúka grunnnámi á háskólastigi við verkmenntaskóla, að meðtöldu starfsnámi í eina önn. Til að fá inngöngu í framhaldsnám á háskólastigi við verknámsskóla þarf nemandi að hafa lokið viðeigandi grunnnámi og auk þess starfað á sínu sviði í að minnsta kosti þrjú ár. Það tekur 1–1˝ ár að ljúka framhaldsnámi við verkmenntaskóla á háskólastigi, miðað við fullt nám.

Upplýsingar um tengiliði skólanna og fleira eru á vefsvæðinu Opintopolku.

Háskólanám

Yfirleitt er sótt um námsleiðir á finnsku og sænsku gegnum sameiginlegt umsóknakerfi alls Finnlands. Margar námsleiðir á meistarastigi, einkum enskumælandi leiðir, eru þó ekki inni í sameiginlega kerfinu heldur þarf að sækja um þær gegnum viðkomandi skóla. Einhverjar enskumælandi námsleiðir á meistarastigi er unnt að sækja um á vefsvæðinu University Admissions Finland.

Viðmiðunartími til að ljúka grunnnámi í háskóla er þrjú ár en framhaldsnámi (meistaranámi) tvö ár. Taka skal að hámarki sjö ár samanlagt að ljúka grunn- og meistaranámi. Venjan er að nemendur ljúki fyrst grunnnámi og öðlist þannig réttindi til að stunda meistaranám í sömu grein. Að meistaranámi loknu er hægt að sækja um frekara framhaldsnám.

Háskólar eru ýmist ein- eða tvítyngdir (á finnsku og/eða sænsku). Eins er töluvert um kennslu og rannsóknir á ensku. Upplýsingar um námsleiðir á ensku eru á vefsvæðunum Study in Finland og Opintopolku, auk upplýsinga á ensku á vefsvæðinu Studyinfo.

Háskólanám í Finnlandi er nemendum að kostnaðarlausu, en þeim er þó skylt að tilheyra nemendafélagi og greiða meðlimagjald til félagsins.

Upplýsingar um tengiliði háskólanna og fleira eru á vefsvæðinu Opintopolku.

Norræni samningurinn um aðgang að æðri menntun

Norræni samningurinn um aðgang að æðri menntun tryggir öllum Norðurlandabúum umsóknarrétt til náms við opinberar háskólastofnanir á Norðurlöndum á sömu eða sambærilegum forsendum og heimamönnum.

Samkvæmt honum er leyfilegt að viðurkenna nám, sem lokið hefur verið í öðru Norðurlandi, sem hluta af finnskri háskólagráðu. Mat á fyrra námi umsækjanda fer fram í viðkomandi deild þess skóla sem sótt er um í. Það borgar sig að kanna með fyrirvara hvaða fylgiskjala er krafist til að háskóli í Finnlandi geti viðurkennt menntun annarsstaðar frá.

Vantar þig nánari upplýsingar?

Spurningar um flutning, vinnu og nám á Norðurlöndunum má senda með því að fylla út rafrænt eyðublað. Spurningum er svarað af starfsfólki upplýsingaþjónustunnar Halló Norðurlönd.

Menntun á Norðurlöndum

Nám í Danmörku

Nám í Finnlandi

Nám í Færeyjum

Nám á Íslandi

Nám í Noregi

Nám í Svíþjóð

Nám á Álandseyjum

Meira um Finnland

Flutningar til eða frá Finnlandi

Búseta og dvöl í Finnlandi

Börn og fjölskylda í Finnlandi

Vinna í Finnlandi

Nám í Finnlandi