Document Actions

Fagleg viðurkenning náms í Finnlandi

Upplýsingar um hvernig hægt er fá nám frá öðru landi viðurkennt þegar flutt er til Finnlands til að vinna. Einnig er sagt frá starfsgreinum sem má aðeins stunda í Finnlandi að fengnu samþykki viðkomandi yfirvalda og frá aðferðum til að fá nám frá Finnlandi viðurkennt í öðrum löndum.

Ungdommar
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org

Í Finnlandi þarf að fá nám, sem lokið hefur verið annarsstaðar, faglega viðurkennt til að mega sinna vissum starfsgreinum. Með faglegri viðurkenningu er átt við mat á þeirri hæfni sem erlent nám veitir til starfa innan svonefndra löggiltra starfsstétta.

Löggiltar starfsstéttir í Finnlandi

Með löggiltri starfsstétt er átt við að um starfsemina gildi lögbundnar hæfniskröfur, sem kveði á um tiltekið nám eða námsgráðu. Til löggiltra starfsstétta teljast stöður á vegum hins opinbera, svo og starfsgreinar sem sérstakt starfsleyfi þarf til að mega stunda. Ákvarðanir um leyfisveitingar vegna löggiltra starfa eru teknar af yfirvaldi innan viðkomandi geira.

Opetushallitus (Fræðsluráð) sker úr um hæfni til starfa á vegum ríkis eða sveitarfélaga. Aðrar ákvarðanir um starfsréttindi eru teknar af yfirvöldum innan viðkomandi geira, til dæmis hjá leyfis- og eftirlitsskrifstofu velferðar- og heilbrigðissviðs, Valvira, vegna starfa innan heilbrigðisgeirans.

Löggiltar starfsstéttir eru til dæmis:

 • björgunarsveitarmaður, bókavörður, fangavörður, félagsliði, félagsráðgjafi, forskólakennari, kennari, leikskólakennari, lögregluþjónn, námsráðgjafi, sérkennari, vaktmaður á neyðarmóttöku, ökukennari: ákvörðun um starfsleyfi tekur Opetushallitus
 • efnafræðingur á sjúkrahúsi, fótaaðgerðafræðingur, geðlæknir, hjúkrunarfræðingur, iðjuþjálfi, ljósmóðir, lyfjafræðingur, lyfsali, læknir, nuddari, næringarfræðingur, osteópati, réttingalæknir (naprapati), sálfræðingur, sjóntækjafræðingur, sjúkraþjálfari, starfsmaður á rannsóknarstofu, talmeinafræðingur, tannfræðingur, tannheilsufræðingur, tannlæknir, tannsmiður: ákvörðun um starfsleyfi tekur Valvira
 • djákni, prestur: ákvörðun um starfsleyfi tekur Kirkkohallitus (Kirkjuráð)
 • kranastjóri, kafari: ákvörðun um starfsleyfi tekur Uudenmaan työsuojelupiirin työsuojelutoimisto (skrifstofa öryggismála á vinnustöðum í Uusimaa-héraði)
 • sótari: ákvörðun um starfsleyfi tekur Opetushallitus
 • sprengjumaður [hleður dínamíti í kletta eða grjót sem á að sprengja]: ákvörðun um starfsleyfi tekur Länsi- ja Sisä-Suomen aluehallintovirasto (héraðsyfirvöld í Vestur- og Innra-Finnlandi)
 • einkaleyfalögfræðingur: ákvörðun um starfsleyfi tekur Patentti- ja rekisterihallitus (Einkaleyfa- og skrásetningarráð)
 • öryggisvörður: ákvörðun um starfsleyfi tekur finnska innanríkisráðuneytið

Fleiri starfsgreinar sem krefjast leyfisveitingar eru:

 • endurskoðandi hjá hinu opinbera: ákvörðun um starfsleyfi tekur JHTT-lautakunta (aðeins upplýsingar á finnsku)
 • endurskoðandi með samþykki Verslunarráðs: ákvörðun um starfsleyfi tekur Keskuskauppakamari (Verslunarráð)
 • lögmaður: ákvörðun um starfsleyfi tekur Asianajajaliitto (Lögmannafélag Finnlands)
 • starfsfólk á sviði siglinga og sjómennsku: ákvörðun um starfsleyfi tekur Trafi (Umferðaröryggisráð)
 • rafvirki: ákvörðun um starfsleyfi tekur Seti oy

Viðurkenning náms frá Finnlandi í öðrum löndum

Alþjóðlegt verklag við viðurkenningu náms er að sú stofnun sem tekur á móti námsmanni sér um að meta nám erlendis frá og þá hæfni sem það veitir. Yfirvöld í upprunalandi geta engin bein áhrif haft á ákvarðanatökur erlendra yfirvalda í þessum efnum. Þó að vissar almennar viðmiðunarreglur séu í tilskipunum Evrópusambandsins eða alþjóðasamningum, heldur hvert land fyrir sig ákvörðunarrétti um framkvæmd reglnanna og hvernig þeim skuli beitt í einstökum tilvikum.

Í Finnlandi er Opetushallitus (Fræðsluráð) tengiliður vegna viðurkenningar á námi samkvæmt reglugerðum Evrópubandalagsins. Hlutverk fræðsluráðs í því sambandi er að veita upplýsingar um námsgráður og hæfniskröfur, svo og um viðurkenningarferli náms í Finnlandi og öðrum aðildarríkjum.

Fræðsluráð veitir þeim ráðgjöf eftir þörfum sem hafa lokið námi í Finnlandi og vilja fá það viðurkennt í öðru aðildarlandi.

Við atvinnuleit í öðrum löndum borgar sig að spyrjast fyrir um það hjá viðkomandi yfirvöldum hvernig viðurkenningarferli náms er háttað þar og hvaða fylgiskjala er krafist.

Þegar sótt er um viðurkenningu á námi í öðru landi má nýta skjöl Evrópska starfsmenntavegabréfsins, sérstaklega þau viðhengi prófskírteina sem ætluð eru til alþjóðlegrar notkunar. Einnig má óska eftir vitnisburði um finnskt nám frá Fræðsluráði. Fræðsluráð veitir, gegn gjaldi, faglegan vitnisburð til alþjóðlegrar notkunar um nám frá Finnlandi. Slíkur vitnisburður er veittur um nám sem hefur verið lokið og sem fellur undir opinbert námsskipulag Finnlands.

Sjá einnig:

Viltu spyrja Halló Norðurlönd?

Spurningar um flutning, vinnu og nám á Norðurlöndunum má senda með því að fylla út rafrænt eyðublað. Spurningum er svarað af starfsfólki upplýsingaþjónustunnar Halló Norðurlönd.

Vinna á Norðurlöndum

Vinna í Danmörku

Vinna í Finnlandi

Vinna í Færeyjum

Vinna á Íslandi

Vinna í Noregi

Vinna í Svíþjóð

Vinna á Álandseyjum

Meira um Finnland

Flutningar til eða frá Finnlandi

Búseta og dvöl í Finnlandi

Börn og fjölskylda í Finnlandi

Vinna í Finnlandi

Nám í Finnlandi