Niðaróssyfirlýsingin

28.06.12 | Yfirlýsing
Ábyrgð frumvinnslugreina og matvælaiðnaðar í grænu hagkerfi

Við, norrænir ráðherrar sjávarútvegs, landbúnaðar, matvæla og skógræktar (MR-FJLS), sem fundum í Niðarósi 28. júní 2012, leggjum áherslu á mikilvægi frumvinnslu- og úrvinnslugreina í grænu hagkerfi.

Markmiðið er að auka sjálfbærni og samkeppnishæfni fyrrnefndra atvinnugreina við framleiðslu á matvælum, fóðri, efnum í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð, líforku og nýskapandi afurðum úr landbúnaði, höfum og vötnum. Þar er mikilvægasti skerfur sjávarútvegs, landbúnaðar, matvælaiðnaðar og skógræktar til hagvaxtar og velferðar.

Ráðherranefnd FJLS nefnir eftirfarandi aðgerðir til að efla græna verðmætasköpun:

  • Skilvirkari og sjálfbær nýting endurnýjanlegra náttúruauðlinda á landi, í vötnum og höfum sem tekur tillit til stöðu vistkerfanna, þar á meðal aukin áhersla á plöntukynbætur og eldi til aðlögunar að loftslagsbreytingum og eflingar vörugæða.
  • Betri nýting afgangshráefnis og úrgangs og minni sóun í verðmætakeðjum og meðal neytenda.
  • Hagvöxtur, arðbær fyrirtæki og ný atvinnustarfsemi sem byggir á þjónustu og afurðum frumvinnslugreina, þar á meðal kolefnabinding, endurvinnsla á næringarsöltum, velferð og endurheimtarþjónusta.
  • Aukin verðmætasköpun sem byggir á betri matgæðum, hollum matvælum og yfirburðum staðar eða svæðis en þar má nefna samstarfsverkefnið Ný norræn matargerð.
  • Matgæði, holl næringarefni og mataræði frá sjónarhóli næringarfræði, heilsu og verðmætasköpunar.
  • Beita sér fyrir því að bæta rammaskilyrði, þar á meðal opinberar reglur og aðgerðir til að auka líffræðilega framleiðslu á Norðurlöndum á sjálfbærum grundvelli. 
  • Rannsóknir, nýsköpun og menntun að frumkvæði Norrænu ráðherranefndarinnar, þar á meðal að setja á laggirnar eina eða fleiri tilraunastofur fyrir grænar lausnir í landbúnaði, sjávarútvegi, matvælaiðnaði og skógrækt.
  • Norræna ráðherranefndin efli samstarf við önnur skyld verkefni, meðal annars NordForsk, Norrænu nýsköpunarmiðstöðina og svæðisbundið samstarf á við Norrænu Atlantshafsnefndina (NORA).
  • Samstilling við aðgerðir ESB um lífhagkerfi.
  • Samstarf við grannsvæði í austri og vestri.

Bakgrunnur

Sjálfbær þróun, matvælaöryggi og samfélag sem styðst við náttúruafurðir og grænan hagvöxt eru ein brýnustu alþjóðlegu viðfangsefni norrænu landanna. Ráðherranefndin (FLJS) telur því að sjálfbær auðlindanýting í frumvinnslugreinum og matvælaiðnaði eigi að vera þáttur í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar um grænan hagvöxt.

Norrænu forsætisráðherrarnir kynntu skýrsluna „Norðurlönd - leiðandi í grænum hagvexti“ í nóvember 2011 og í júní 2012 lauk Ríó+20-ráðstefnu SÞ um sjálfbæra þróun. Á ráðstefnunni í Ríó var sjónum einkum beint að grænum hagvexti, sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, öruggu drykkjarvatni og hnattrænu matvælaöryggi í heimi sem tekur örum breytingum.

Þær atvinnugreinar sem eru á verksviði ráðherranefndarinnar gegna mikilvægu hlutverki í grænu hagkerfi sem framvegis mun njóta frekari forgangs í nefndinni. Ráðherranefndin mun í samstarfi við stofnanir sínar og samstarfsaðila; NordGen, Samnorrænar skógarannsóknir (SNS), vinnuhóp um fiskveiðar og Norræna landbúnaðar- og matvælarannsóknaráðið (NKJ) beita sér fyrir því að skapa hagkerfi á Norðurlöndum sem taki aukið tillit til vistkerfanna.

Jarðarbúum fjölgar og bætt lífskjör í mörgum löndum kalla á framleiðsluaukningu sem er í samræmi við forsendur náttúrunnar og sambærilega kosti. Til lengri tíma litið verður aukin framleiðsla að vera sjálfbær og innan við þolmörk umhverfisins.

Norðurlönd eru rík af náttúruauðlindum í hafi, vötnum og á landi sem geta tryggt hagvöxt til framtíðar. Sjálfbær og framsýn samfélagsþróun og grænt hagkerfi væru óhugsandi án framleiðslu á matvælum og öðrum náttúruafurðum úr sjó, vötnum, landbúnaði og óbyggðum.

Fagsvið ráðherranefndarinnar eru mjög samþætt innbyrðis en einnig samofin ýmsum verðmætakeðjum í samfélaginu. Viðfangsefni samtímans vegna loftslagsbreytinga, þörf á hertum aðgerðum til að bæta matvælaöryggi í heiminum og sjálfbærari nýtingu náttúruauðlinda ganga þvert á atvinnugreinar og því vill ráðherranefndin eiga virkt samstarf við önnur svið, einkum rannsóknir og nýsköpun, um að ná settu marki.

Stefnumótun um grænan hagvöxt verður að vera þverfagleg og sett í hnattrænt samhengi. Þar verður að taka allar verðmætakeðjur með, einnig vinnslu á náttúruafurðum.

Í stefnumótun um grænan hagvöxt ber að greiða fyrir nýsköpun í frumvinnslugreinum og iðnaði til að skapa megi sjálfbærar afurðir og holl og sjálfbær matvæli, draga úr sóun á mat og bæta auðlindanýtingu.

Á matvælasviði ber að leggja áherslu á matgæði, rétt mataræði og öruggan aðgang að matvælum fyrir jarðarbúa sem fjölgar stöðugt. Á sviði skógamála ber að leggja áherslu á sjálfbæra framleiðslu á vörum sem koma í stað síður loftslagsvænna lausna en á öllum samstarfssviðum FJLS-ráðherranefndarinnar ber að setja á oddinn orkuframleiðslu sem leiðir til minnkandi notkunar á jarðefnaorku.