Viljayfirlýsing norrænu samstarfsráðherranna um framkvæmd Dagskrár 2030 á Norðurlöndum

05.09.17 | Yfirlýsing
Yfirlýsing frá fundi samstarfsráðherranna 5. september 2017.

Upplýsingar

Adopted
05.09.2017
Location
København

Við, ráðherrar norrænnar samvinnu frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum:

 

  1. Undirstrikum að sameiginlegt viðfangsefni alþjóðasamfélagsins felst í virkri og heilhuga framfylgd heimsmarkmiðanna. Naumur tími er til stefnu og þjóðir heims hafa skamman frest til að stíga afgerandi skref í átt að sjálfbærri framtíð og skapa góð lífsskilyrði fyrir núlifandi og komandi kynslóðir. Eigi það að takast verðum við að vinna saman.
  2. Undirstrikum að Norræna ráðherranefndin vinnur nú þegar ötullega að framfylgd heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030 og að stefna hennar, „Gott líf á sjálfbærum Norðurlöndum“, er í samræmi við umrædd markmið. 
  3. Ákveðum að ýta úr vör áætluninni „2030-kynslóðin“ með það fyrir augum að efla og hraða framfylgd heimsmarkmiðanna í norrænu samstarfi. Áætluninni er ætlað að greiða fyrir þekkingarmiðlun og samstarfi milli landanna um heimsmarkmiðin í heild sinni, einkum á sviðum þar sem þau standa frammi fyrir stórum og sameiginlegum áskorunum, og byggist áætlunin á umfangsmiklu starfi Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði sjálfbærrar þróunar.
  4. Staðfestum að við vinnum náið saman að því að samþætta sjálfbærni í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar sem samþykkt var í stefnunni „Gott líf á sjálfbærum Norðurlöndum“.
  5. Leggjum áherslu á að „Generation 2030“ skapi norrænan virðisauka og samlegð með öðrum aðgerðum og verkefnum Norrænu ráðherranefndarinnar, einkum verkefni forsætisráðherranna, „Nordic Solutions to Global Challenges“.
  6. Undirstrikum að börn og ungmenni eru boðberar breytinga og gegna úrslitahlutverki við framfylgd heimsmarkmiðanna, að unnið skuli af einurð að sjálfbærri framtíð barna og ungmenna nútímans og að þau verði kölluð til leiks enda eru þau afar mikilvægir þátttakendur í framfylgd heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun á Norðurlöndum.